Greinar

Birt þann 30. janúar, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fimm bestu tölvuleikir ársins 2020

Sveinn Aðalsteinn, Steinar Logi, Daníel Rósinkrans og Bjarki Þór hjá Nörd Norðursins fóru yfir tölvuleikjaárið 2020 í nítjánda þætti Leikjavarpsins. Ekki voru allir sammála um hvaða tölvuleikur ætti skilið titilinn besti tölvuleikur ársins 2020 en tveir leikir stóðu áberandi upp úr að okkar mati og enduðu þeir tveir leikir í tveim efstu sætum dómnefndar.

5. HADES

Þetta er indíleikurinn sem kom, sá og sigraði árið 2020. Hann hefur verið tilnefndur til fjölda verðlauna á árinu og ekki að ástæðulausu. Leikurinn er hraður rogue-like hasar- og hlutverkaleikur þar sem þú þarft að berjast við djöfla og púka. Í leiknum deyr karakterinn reglulega og öðlast nýja krafta og hæfileika sem gerir hann enn sterkari. Leikurinn tvinnar saman gríska goðafræði og góða spilun afburðar vel og nær að mynda virkilega gott flæði.

Viltu vita meira um leikinn?
Ekki örvænta! Við fjölluðum um leikinn í sautjánda þætti Leikjavarpsins.

4. ASSASSIN’S CREED: VALHALLA

Assassin’s Creed leikjaserían heldur áfram að mala gull. Assassin’s Creed: Valhalla, sem er sá tólfti í seríunni, hitti beint í mark hjá okkur nördunum. Leikurinn er vel gerður, býður upp á góða endingu og fjölmörg verkefni. Til gamans má geta þá eru nokkrir íslenskir raddleikarar sem ljá víkingum raddir sínar í leiknum, þar á meðal Aron Már Ólafsson, sem margir þekkja sem samfélagsmiðlastjörnuna Aron Mola, auk þess sem Guðmundur Ingi Þorvaldsson fer með hlutverk í leiknum.

Viltu vita meira um leikinn?
Ekki örvænta! Lestu gagnrýnina okkar, hlustaðu á Leikjavarpið (þátt sautján) eða horfðu á Svein spila fyrsta klukkutímann í leiknum.

3. FINAL FANTASY VII: REMAKE

Final Fantasy serían er önnur stór sería sem lifir enn góðu lífi. Final Fantasy VII hefur lengi þótt vera einn sá besti í seríunni og hafa aðdáendur lengi óskað eftir uppfærðri endurgerð á tölvuleiknum en upprunalegi leikurinn er frá árinu 1997. Endurgerðin fór vel í flesta en einhverjir hafa gagnrýnt leikinn fyrir að fylgja ekki alltaf nákvæmlega sömu formúlu og upprunalegi leikurinn. Endurgerðin er aftur á móti mjög vel heppnuð að okkar mati.

Viltu vita meira um leikinn?
Ekki örvænta! Við fjölluðum um leikinn í Leikjavarpinu, fyrstu hughrif í þætti sex og ítarlegri gagnrýni í þætti átta.

2. THE LAST OF US PART II

The Last of Us Part II er klárlega einn af betri leikjum ársins, hann inniheldur svakalegan söguþráð, flotta grafík, fyrirmyndar hljóðvinnslu og fínpússaða spilum frá fyrri leiknum auk ýmissa nýjunga. Að mati margra en þetta leikur ársins en hann endaði í öðru sæti á listanum okkar þar sem skiptar skoðanir eru um valda kafla í leiknum. Þess má geta að leikurinn náði nýverið að toppa Witcher 3 sem sá tölvuleikur sem hefur hlotið flest verðlaum.

Viltu vita meira um leikinn?
Ekki örvænta! Lestu gagnrýnina okkar eða hlustaðu á umfjöllun okkar á leiknum (án spilla) í Leikjavarpinu eða okkar sérstaka Last of Us Part II spilliþátt þar sem við látum allt vaða!

1. GHOST OF TSUSHIMA

Samúræinn sem fer ótroðnar slóðir er leikur ársins að mati Nörd Norðursins! Í Ghost of Tsushima stjórnar spilarinn samúræjanum Jin Sakai. á 13. öld. Á japönsku eyjunni Tsushima ríkir ófriður þar sem Mongólar hafa ráðist til atlögu og fara með berserksgang um landið, ræna og drepa og brenna bæi. Áætlun þeirra er að nota eyjarnar sem stökkpall til innrásar á Japan sjálft. Jin notar hæfileika sína sem samúræ til að finna óvini sína, berjast við þá og um leið frelsa heimafólk undan prísund Mongóla. Leikurinn er mjög vel slípaður og býður upp á vel skrifaða sögu, skemmtilega spilun, flottan leikjaheim, fjölbreytt verkefni og bardaga, marga hæfileika og aukahluti og endingin á leiknum er mjög góð.

Viltu vita meira um leikinn?
Ekki örvænta! Lestu gagnrýnina okkar, horfðu á Bjarka spila brot úr leiknum eða hlustaðu á umfjöllun okkar á leiknum í Leikjavarpinu (þrettándi þáttur).

Aðrir leikir sem komust ekki á listann en vert er að nefna: Animal Crossing: New Horizons, Astro’s Playroom, Demon’s Souls á PS5, Fall Guys: Ultimate Knockout, Immortals: Fenyx Rising, Microsoft Flight Simulator, Nioh 2, Sackboy: A Big Adventure, Spider-Man: Miles Morales og Wasteland 3.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑