Gagnrýni

Birt þann 29. mars, 2024 | Höfundur: Steinar Logi

0

Final Fantasy VII Rebirth – „Ævintýrið heldur áfram“

Final Fantasy VII Rebirth – „Ævintýrið heldur áfram“ Steinar Logi

Samantekt: Einn af þessum framhaldsleikjum þar sem allt er stærra, betra og meira af

4.5

Sagan heldur áfram


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Eftir nær fjögurra ára bið þá er FFVII Rebirth loks lentur. Saga uppáhalds emo gaursins okkar Cloud með stóra sverðið heldur áfram og núna tekur við hinn stóri heimur utan Midgar. 

Leikjaheimurinn í Rebirth hoppar því um stærðargráðu eins og við var búist, enda fer hópurinn á marga nýja staði og hittir fullt af nýjum karakterum. Það er magnað að hugsa til þess að þetta er bara annar hluti af þríleik en vonandi verður ekki eins langt á milli leikjanna næst.

Ég og vinir mínir á chocobos #onlywaytotravel

Strax frá byrjun er greinilegt að það er mikið lagt í þennan leik og FFVII lið Square Enix hefur ekki verið að slaka á síðustu ár. Forsaga Sephiroth og Cloud þegar þeir báðir voru að vinna fyrir Shinra samsteypuna sem SOLDIER ofurhermenn, er mun ítarlegri og með meiri spilun heldur en í upprunalega leiknum og þetta er eitthvað sem maður tekur eftir allt í gegnum leikinn. Á einstaka stöðum er þetta aðeins of mikið uppfyllingarefni en yfirleitt er þetta af því góða og gerir söguna áhrifameiri. Sagan eingöngu tekur þig yfir 50 tíma og mikið af því eru myndskeið.

Bæir eru líflegir með mikið af fólki og maður heyrir raddir og hljóð allt í kringum sig. Þrátt fyrir að heimurinn sé í hættu þá er hægt að njóta lífsins á mörgum stöðum eins og strandarbænum með frumlega nafnið Costa Del Sol. Það hefur verið mikið lagt í að gera heiminn lifandi umfram gamla leikinn, og allt iðar af lífi og hlutum til að gera hvort sem þú ert í bæ eða utan.

Leikjaheimurinn er mjög lifandi hvort sem þú ert í bæ eða á ferðinni

Chadley, rannsóknarvélmennið knáa, heldur áfram að hrúga á þig alls konar verkefnum fyrir VR tækið sitt og þar á meðal því að vinna sér inn aðstoð guðlegra vera sem þú getur einstaka sinnum kallað á í bardaga (Shiva, Ifrit og félagar) en hann lætur þig líka skoða heiminn, grafa upp alls konar fornleifar með chocobo, virkja turna til að sjá nágrennið betur og þar fram eftir götunum.

Fljótlega í leiknum geturðu farið að dunda þér við þessa hluti eða fylgt aðalsögunni. Leikurinn vill að þú gerir eitthvað aukadót því að, eins og undirritaður komst að, ef þú ferð strax í stóru bardagana án þess að styrkja karakterana aðeins og kynnast bardagakerfinu þá getur það verið ansi strembið. Þessir smáleikir eru líka allt í gegnum söguna og stundum þarf að klára þá til að koma sögunni áfram. Það eru tveir smáleikir sem eiga skilið smá “shoutout” en það er spilið í leiknum sem heitir Queen’s Blood (nokkurs konar Gwent en Final Fantasy serían var með marga svona spilaleiki í gamla daga) og það að spila á píanó sem getur verið erfitt en er ansi vel gerður smáleikur með mikið af nótnaupplýsingum o.fl.

Tók þátt í höfrungakeppni #lifeisanadventure #onechallengeaday

Spilarar ættu að meta að það er margt gert til að láta leikjaupplifunina ekki vera endurtekningu eða “grind”. Það er hægt að ferðast samstundis á staði sem þú hefur áður heimsótt og smátt og smátt koma betri ferðamöguleikar. Ólíkt gömlu leikjunum þá er auðveldlega hægt að forðast tilviljunarkennda bardaga bara með því að ríða um á chocobo eða hreinlega taka smá sveig. Undirritaður hugsar enn með hryllingi um hvernig leikurinn var í gamla daga og maður þurfti að berjast nokkrum sinnum algerlega handahófskennt ef maður vildi fara frá A til B.

Bardagakerfið hefur verið endurbætt

Bardagakerfið hefur verið endurbætt, núna er auðveldara fyrir alla að berjast í loftinu og það er meira um samvinnu liðsfélagana. Kerfið miðast líka að því að maður noti alla karaktera til að berjast og sagan lætur þig kynnast bardagastíl hvers og eins. Einn af fáu göllum leiksins eru samt bardagar þar sem þú  þarft að berjast með einum karakter t.d. Cloud. Í þeim bardögum þarf að gera eitthvað ákveðið trikk til að vinna og er gerólíkt venjulegum liðsbardögum þar sem leikurinn er jú hannaður til að berjast með liði.

„Hér er ég á tónleikum #cactuarfilter“

Tónlistin er í miklu fyrirrúmi enda klassísk í hugum margra. Square Enix hafa breytt og bætt við af einstakri snilld og maður heyrir oft sígildu stefin í nýjum búning en einnig er þarna ný tónlist. Á sumum stöðum þá er tónlistin mjög há miðað við önnur hljóð en ekki nóg til þess að ég hafi lækkað í henni, en það er alltaf möguleiki.

Semsagt leikurinn er allur til fyrirmyndar og maður er þakklátur í dag fyrir að upplifa svona vel pússaða stóra leiki sem er ekki alltaf raunin. Ef þú kaupir bara einn leik á ári þá væri þetta þannig leikur því að hann tekur það langan tíma, sérstaklega ef þú vilt reyna klára hann 100% og svo er bara gaman að vera í þessum heimi með allri sinni litadýrð og hlutum til að gera.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑