Leikjarýni

Birt þann 16. nóvember, 2020 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Er hægt að flýja örlögin?

Er hægt að flýja örlögin? Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Valhalla er engin bylting en færir skemmtilegt sögusvið og tímabil fram á við og býður upp tugi klukkustunda í spilun.

3.75

Blóðugt fjör


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Assassin’s Creed: Valhalla sé tólfti leikurinn í Assassin’s Creed leikjaseríunni en franski útgefandinn Ubisoft kynnti fyrsta leikinn til sögunnar árið 2007.

Á þessu tímabili hafa ótal hliðarleikir einnig verið gefnir út og fengið misgóðar viðtökur. Með útgáfu Assassin’s Creed: Origins árið 2017, sem gerður var af Ubisoft Montreal, fékk serían gott spark í rassinn og andlitslyftingu. Leikjaheimarnir urðu stærri og opnari og saga og spilun fjölbreyttari. Það helsta sem vantaði að mati margra aðdáenda leikjanna var aukin áhersla á að geta laumast um, fylgt eftir skotmarkinu þínu og láta til skara skríða þegar hentaði. Semsagt að vera launmorðingi Assassin reglunnar.

Er formúlan að þreytast eitthvað?

Hluta vandans má rekja til að bæði Origins og Odyssey (sem eru hannaðir af Ubisoft Montreal og síðan Ubi Quebec  gerðust báðir löngu fyrir atburði fyrsta Assassin’s Creed (AC) leiksins sem gerðist á 12. öld þ.e.a.s. á tímum krossferða. Fyrir vikið var hægt að deila um hvort leikirnir voru í raun vera sannir AC leikir eða bara opnir ævintýraleikir með RPG ívafi. Með tilkomu AC: Valhalla er ljóst að Ubisoft hefur ætlað að tækla eitthvað af þessari gagnrýni og á sama tíma þræða saman ótal söguþræði allra leikjanna í eins heildarmynd áður en haldið er áfram með seríuna.

Byrjun leiksins í Noregi er gullfaleg að sjá.

AC: Valhalla er sá leikur sem gerist næst upprunalega Assassin’s Creed. Árið er 873 í Noregi, á þeim tíma sem Haraldur hárfagri (raddaður af Aroni Mola) er að sameina landið undir einn konung með mjúkri hendi eða sverðsoddi. Leikmenn fara í fótspor stríðsmannsins (Magnus Bruun), eða konunnar Eivör (Cecilie Stenspil), sem eftir hræðilegan dauða foreldra sinna er tekinn í fóstur af konungnum Styrbirni og fjölskyldu hans. Hún eða hann (mun framvegis notast við kvenkyn þar sem ég spilaði leikinn sem Eivör), verður fóstursystkini Sigurðar (leikinn mjög vel af Guðmundi Inga Þorvaldssyni) sonar Styrbjarnar. Eftir að hafa loksins náð hefnd fyrir dauða foreldra sinna og drepið Kjötveig hinn grimma í orrustu, fær Eivör sýn frá guðinum Óðni þar sem handarmissir, svik og úlfar koma við sögu.

Það sem kom mér einna skemmtilegast á óvart var hve vel Ubisoft hefur gengið að ráða Skandinavíska og Íslenska leikara til að tala fyrir margar aðal- og aukapersónur leiksins. Það var flott tilfinning að labba um höfnina í Stavangri og heyra fólk tala íslensku (reyndar frumnorrænu) og skilja hvað var verið að segja. Sumt kom vel út á meðan annað virkaði eins og að Dani væri að tala eða enskumælandi manneskja væri að reyna að tala íslensku. Allt gaf þetta þó leiknum fínan sjarma að mínu mati, hvað þá þegar ég var farinn að kannast við suma leikarana.

Samband Sigurðar og Eivörar er ein af kjörnum sögu Valhalla.

Fyrir útgáfu leiksins voru litlar upplýsingar veittar um raddleikarana nema sum aðalhlutverkin. Ef IMDb-síða leiksins er skoðuð í dag má sjá nöfn eins og; Jóhann G. Jóhannsson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Ari Óskarsson, Arnmundur Ernst Backman Björnsson, Melkorka Óskarsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Ragga Ragnars, Salóme Gunnarsdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir á meðal annara.

Íslenskir leikarar koma talsvert við sögu

Sigurður hefur síðustu ár verið í víkingi erlendis og kemur heim í byrjun sögunnar. Hann og Eivör eiga mjög erfitt að sætta sig við að Styrbjörn konungur beygi sig fyrir Haraldri og eftirláti honum konungsríki sitt. Stuttu síðar ákveða þau að halda til Englands og sjá hvað synir Ragnars loðbrókar hafa gert við landið eftir dauða föður þeirra. England er klofið í ótal konungsríki og eru möguleikar þar miklir við að hefja nýtt líf og skapa sitt eigið nafn. Menning landsins er blönduð ótal hópum sem hafa reynt að sigra landið eða bara sest að. Má þar nefna Saxverja, Rómverja eða Piktana í norðrinu.

Ivarr Boneless er einn af sonum Ragnars Loðbróks og kexruglaður.

Eivör, Sigurður og fylgjendur þeirra koma að landi í Mercia, gömlu konungsríki í Austur-Englandi. Þar byggja þau upp þorpið Ravensthorpe, eða Hrafnaþorp á íslensku í höfuð á Hrafna-klaninu sem þau tilheyra. Til að byggja um byggðina er nauðsynlegt að finna bandamenn í konungsríkjunum í kring, brjóta önnur á bak og koma til valda hliðhollum konungi og auðvitað fara í víking og herja á bæi og klaustur landsins í leit að vistum og ríkidæmi.

Uppbygging þorpsins er ekki sem slík flókin í framkvæmd, það dugar að safna nógu mikið af vistum og vissum hlutum sem finnast bara í klaustrum. Með hverri nýrri byggingu hækkar þorpið upp um stig, sem leiðir til nýrra verslana eða þjónustu fyrir þig eða bónusa fyrir persónu þína sem koma að góðum notum í bardögum. Það er meira að segja hægt að reisa byggingu með því að höggvast á með orðum í „flyting“ keppni þar sem þú reynir að móðga andstæðinginn á sannfærandi hátt. Örlög er teningaleikur sem ég gat ekkert í en virkar fyrir að vera vel heppnaður. Það eru síðan auðvitað drykkjukeppnir í leiknum, annað væri líklega ólöglegt í víkingaleik.

Ravensthrope dafnar þegar líður á, plús það er hægt að klappa dýrum.

Í sögu leiksins er meðal annars fjallað um konungsríkin Northumbria, East Anglia, Wessex, Sussex ásamt ótal gömlum sýslum í Englandi með kunnugleg nöfn. Borgir eins og Jórvík, Lundum (London), Lincoln, Northwich, Canterbury og fleiri staðir koma fyrir í leiknum. Kunnuglegir staðir eins og Stonehenge og aðrir dularfullir og goðsagnakenndir staðir koma einnig við sögu. Fleiri staðir eru heimsóttir sem ég ætla ekki að segja nánar frá þar sem ég vil ekki spilla leiknum fyrir fólki heldur leyfa því að uppgötva staðina sjálf.

Ráða örlaganornirnar virkilega öllu?

Sú sýn Eivörar að hún eigi eftir að svíkja bróður sinn Sigurð liggur þungt á henni og ætlar hún að gera allt til að stöðva þau örlög, sama hvað örlaganornirnar segja henni. Það kemur fljótt í ljós að The Order of the Ancients reglan (forveri Templaranna) er með puttana í flestu sem tengist konungsríkjum Englands og hafa sín eigin plön fyrir svæðið. 

Ekki öll svæði eru tilbúin að gefa sig án bardaga.

Til að ná sumum svæðum á vald þitt er hægt að leysa verkefni fyrir ákveðið valdamikið fólk sem getur leitt til bandalags. Stundum er einnig nauðsynlegt að ná vissri borg eða kastala á þitt vald. Hérna kemur aftur til sögu „Conquest Mode“ úr AC: Odyssey, nú í útvíkkaðri mynd. Í stað einfaldar orrustu á vígvelli þá leiða leikmenn heri og þurfa að brjótast í gegnum varnir og berjast við óvini. Oft enda þessir kaflar með því að þú þarft að drepa vissa persónu í lokin.

Þegar þú ferð í víking í leiknum getur þú byggt upp þína eigin áhöfn að hluta til eða ráðið til þín Jómsvíkinga sem geta verið búnir til af öðrum PlayStation, Xbox eða PC spilurum og gengið til liðs við þig. Notandinn sem bjó víkingana til fær smá pening innan leiksins í staðinn fyrir þjónustu þeirra, það sama gildir fyrir þig og þinn Jómsvíking.

Þetta væri ekki Víkingaleikur án þess að geta farið ruplandi og rænandi í Víking.

Til allrar lukku er ekki sama peningaplokkið í ár eins og hefur einkennt suma Ubisoft leiki. Það sem er hægt að kaupa er mest til að breyta útliti persóna, brynja, vopna eða umhverfisins. Þó er hægt að kaupa pakka sem innihalda hluti sem þú notar til að uppfæra þig og auðvitað peninga til að eyða. „The Thousand Eyes Shop“ búðin snýr aftur og er hægt að fá dagleg verkefni sem gefa þér ópalsteina til að kaupa hluti, útlitsbreytingar og fleira.

Söguhlutum AC: Valhalla er skipt niður eftir þeim svæðum sem þú ferðast á og á þeim eru fjöldi smærri verkefna sem þú tekst á við ásamt ótal hliðarverkefnum. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er að þú staldrar oftast ekki við á neinu svæði nema í nokkra klukkutíma en gallinn er að þú ert ekki að kynnast persónum svæðanna eins vel fyrir vikið og það er minna um eftirminnilegri persónur en oft áður. Að mínu mati er aðeins of mikið af þessu í leiknum og gæti auðveldlega verið hægt að setja sum þessara svæða sem aukaverkefni utan sögunnar sem myndi ekkert líða fyrir það. Það koma kaflar í sögunni þar sem þú þarft að takar vissar ákvarðanir sem hafa áhrif síðar í leiknum eða samstundis og er gaman að sjá hvernig hlutirnir geta farið.

Það skortir ekki verkefnin í leiknum

Það hefur tekið spilara 50-70 tíma að klára sögu leiksins og það er ef þeir eru ekki að skoða hvern einasta krók og kima landsins eða takast á við þau ótal verkefni og leyndarmál sem leikurinn hefur upp að bjóða. Þetta var líka viss vandi í AC: Odyssey, hann átti reyndar góða byrjun og endi en var með of langan og daufan miðjukafla.

Til að takast á við viss verkefni í leiknum er nauðsynlegt að hafa náð vissu stigi í hæfileikatré leiksins. Því er stillt upp að hluta til til að hafa áhrif á hvernig þú spilar leikinn og upplifir söguna. Hægt er að skoða erfiðustu svæði leiksins, sem eru í kringum lvl. 240 þó þú sjálfur sért aðeins á lvl. 10. Það verður bara mjög stutt ferðalag. Þú getur þó alveg barist við óvini sem eru á hærra þrepi en þú en þá þarft bara talsverðan hæfileika til að lifa af eða hjálp með að lækka niður erfiðleikastillingu leiksins.

Sterkasti óvinurinn sem ég sá var lvl. 340 og var sú persóna hluti af dætrum Lerion hliðarverkefninu. Ólíkt AC: Odyssey þá ertu ekki að finna vopn og brynjur víða og neyðist þar af leiðandi að nota hluti sem henta ekki endilega þínum leikstíl eða þér finnst bara hreinlega ljótir. Núna er meira lagt upp úr uppfærslu vopna og brynja svo þú getir haldið í það útlit sem þú er sáttur með. Það er hægt að nota tvö vopn í einu (jafnvel tvo skildi ef þú ert nógu klikk fyrir það). 

Á stríðborðinu velur þú hvert þú ferð næst til byggja upp bandalagið þitt.

Það er aukin áhersla lögð á að laumast um í leiknum sem er þó gert í grátlega fá skipti og ekkert í líkingu sem sést í fyrsta AC leiknum. Nóg er þó af blóði í leiknum og fljúga líkamspartar gjarnan um í bardögum með tilheyrandi blóðsulli. Einnig eru nokkur atriði leiksins hrottafengin og mæli ekki með því að gúggla blóðörninn.

Goðsögur mæta þjóðsögum

Það er minna af goðsagnaverum í Valhalla en AC: Odyssey, þó er að finna eitthvað af þeim í þeim ævintýrum sem Eivör fer í þegar hún rekst á norrænu guðina. Hægt er að veiða dularfull dýr fyrir ýmis verðlaun, búa til steinvörður, leysa þrautir, leysa Animus villur í umhverfinu, finna týndar blaðsíður (eitt af því sem ég sakna ekki úr eldri AC leikjum) eða fara til sjáandans Völku til að kafa dýpra í heima norrænu goðanna. Það er síðan hægt að veiða fiska og önnur dýr, safna fornum rómverskum minjum og fleira til að stytta sér stundir.

Það er síðan spurning hvað DLC-pakkar leiksins eiga eftir að bjóða upp á. Sá fyrri á að gerast á Írlandi sem býður upp á ótal möguleika. Sá seinni mun gerast í París í Frakklandi og manni grunar að hann verði einfaldari í spilun og eiga eftir að minna á eldri leikina.

Það eru tengingar við Norrænar Goðsögur og ýmis ævintýri að upplifa.

Það er ekki að finna margt sem tengist nútímasögu AC seríunnar í þessum leik, frekar en í fyrri leikjum. Það er þó reynt að klára þá þræði sem kynntir voru til sögunnar með Layla Hassan í AC: Origins og tengja við eldri leiki. Það tekst að mestu, þó er leitt að sjá hve lítið sú persóna er notuð og fær ekki alveg þann endi sem manni fannst hún eiga skilið.

Svona ef ykkur fannst AC leikjaheimarnir eitthvað litlir þá ætti þessi þétta útgáfa af Englandi og Noregi ekki að valda vonbrigðum. Kort AC: Valhalla er 94 ferkílómetrar og 120km2 með sjónum í kring, til samanburðar er AC: Origins 84km2 en AC: Odyssey er þó enn stærst með 130km2 af landi og 256km2 þegar allt eyjahaf leiksins er talið með. Það hefði verið gaman að fá aðeins meiri siglingarhluta en bara sigla eftir ám Englands, til dæmis hefði verið gaman að sigla úti á Norðurhafi og koma við í Skotlandi eða á Orkneyjum. Það voru lengi orðrómar um að Ísland myndi eitthvað koma við sögu og hefði manni fundist það vera tær snilld. Sérstaklega þar sem á þessum tíma, í lok 8. aldar, var samasem enginn búinn að setjast að á Íslandi.

Hérna er hægt að sjá samanburð af stærð síðustu AC leikja.

Það er þægilegt að geta valið vissa hluti án þess að flækjast í valmyndum.

AC: Valhalla keyrir á Anvil Next 2.0 leikjavél Ubisoft sem og síðustu tveir leikir seríunnar. Ég spilaði leikinn á Xbox One X og PS4 Pro og leit hann á köflum stórfenglega vel úr og hvað þá á 4K sjónvarpi með HDR. Ég á enn eftir að spila uppfærðu útgáfu leiksins og verðum við með umfjöllun á PS5 útgáfu leiksins eftir að PS5 tölvan kemur á markað hérlendisþann 19. nóvember næstkomandi. Þeir sem kaupa leikinn á PS4 fá eimmit fría uppfærslu á PS5. Það ætti síðan að koma út Discovery Tour fyrir leikinn eins og áður og er það flott leið til að kynnast þessu sögutímabili betur og fræðast meira um fólkið og menningu þess.

Leikurinn fær hrós fyrir fjölbreytni í aðgengismöguleikum. Hægt er að aðlaga leikinn að bæði sjónskertum og/eða litblindum. Hægt er að velja mismunandi erfiðleikastig t.d. auðveldan bardaga en erfiðari þrautir. 

Að spila á PlayStation 4 eða PlayStation 5?

Það sem angraði mig helst við leikinn var að hann virðist vera með meira af göllum en í síðustu tveimur AC titlum, jafnvel miðað við leik með opnum heimi. Ég lenti í því að leikurinn hrundi hjá mér, persónur festust, ég þurfti að endurræsa sum verkefni þar sem ég gat ekki talað við vissar persónur eða þær voru ekki að gera það sem þurfti til að halda áfram með verkefnið. Það læddist af manni viss grunur um að pressan við að vera með leikinn klárann í kringum útgáfu nýju leikjatölvanna frá Sony og Microsoft hafi haft töluvert að segja ásamt auðvitað öllum þeim áhrifum sem Covid-19 hefur haft á heimsbyggðina og hve margir neyðast til að vinna heima. Ég vona þó að þetta verði lagað á næstu vikum og aðrir þættir eins og hleðlutímar og rammarhraðinn (fps) ættu að batna strax við PS5 útgáfu leiksins.

Hrafninn Syninn hjálpar þér að kanna heiminn og finna óvini.

Það verður seint hægt að segja að síðustu Assassin’s Creed leikir hafi ekki verið peninganna virði þegar litið er til endingartíma leikjanna. Helsti vandi AC: Valhalla er að sagan dregst of mikið á langinn og hefði léttilega verið hægt að stytta hann. Ekki er mikið um nýjungar í leiknum og aukaverkefni leiksins eru fá og einhæf. Tæknileg vandamál leiksins og hvernig hann keyrir á PS4 og Xbox One gerir það að verkum að erfitt er að mæla með honum. Það er talsvert auðveldara að mæla með PC, PS5 eða Xbox Series X útgáfu leiksins þar sem mörg vandamál leiksins eru minniháttar eða horfin.

Ég er síðan ennþá að bíða eftir leik sem gerist í Japan  og þa væri flott tækifæri að gera leik sem gerist eftir atburði AC 1 eða 2. Bara að benda ykkur á það Ubisoft.

Það er mín von að næsti leikur í seríunni sem verður búin til, mun vonandi halda áfram með þá byltingu á seríunni sem byrjaði með AC: Origins, ásamt að bæta við fleiri af hlutunum sem gera leikina af því sem aðdáendurnir sakna mest. Tilvalið væri að Ubisoft haldi sig við tvö til þrjú ár á milli leikja.

Ef þið eruð enn ekki viss um hvort að Assassin’s Creed: Valhalla sé fyrir ykkur þá mælum við að kíkja á fyrsta klukkutímann hjá okkur hérna á Nörd Norðursins, við lofum að myndbandið er án spilla.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑