Greinar

Birt þann 30. júní, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

Sjö ómissandi Switch leikir

Allt frá því að Nintendo Switch leikjatölvan kom fyrst á markað árið 2017 hafa fjölmargir skemmtilegir leikir bæst við Nintendo leikjasafnið. Nintendo Switch er ómissandi leikjatölva fyrir unnendur Nintendo tölvuleikja og er tölvan tilvalin sem leikjatölva fyrir fjölskylduna þar sem leikjaúrvalið er fjölbreytt og hægt að velja á milli þess að spila leikina heima í sjónvarpinu eða spila þá í handheldu útgáfu tölvunnar á flakkinu. Nú þegar liðin eru fimm ár frá útgáfu tölvunnar getur verið erfitt að skilja rjómann frá mjólkinni þegar kemur að leikjavali – hvaða leikir þykja ómissandi í leikjasafnið? Hér hefur verið tekinn saman listi yfir sjö Nintendo Switch gullmola sem enginn Switch eigandi ætti að láta framhjá sér fara!

7. Super Smash Bros. Ultimate

Í bardagaleiknum Super Smash Bros. Ultimate geta 2-4 spilarar spilað samtímis og barist gegn hvor öðrum með sínum uppáhalds Nintendo karakter.

Í bardagaleiknum Super Smash Bros. Ultimate geta 1-8 spilarar spilað samtímis og barist gegn hvor öðrum með sínum uppáhalds Nintendo karakter. Á bardagalistanum er meðal annars að finna Mario, Luigi, Peach, Bowser, Yoshi, Donkey Kong, Link, Zelda, Ken (úr Street Fighter) Kirby, Samus, Pikachu, gömlu góðu Ice Climbers ásamt fjölda annarra þekktra karaktera. Bardagarnir eru hraðir og lifandi og er Super Smash Bros. Ultimate tilvalinn leikur fyrir vinahópinn eða partýið.

Ef áhugi er fyrir því að bæta fleiri partýleikjum við leikjasafnið bendum við á leikina WarioWare: Get It Together! og Mario Party Superstars.

6. Animal Crossing: New Horizons

Það er alltaf gott að eiga að lágmarki einn leik sem hægt er að grípa í til að slaka á og býður upp á áhyggjulausa og rólega spilun. Þar hittir Animal Crossing: New Horizon beint í mark.

Það er alltaf gott að eiga að lágmarki einn leik sem hægt er að grípa í til að slaka á og býður upp á áhyggjulausa og rólega spilun. Þar hittir Animal Crossing: New Horizon beint í mark. Í byrjun leiks flytur þú á fallega eyju þar sem þú þarft meðal annars að byggja þér hús, safna hlutum, skoða þig um og kynnast öðrum íbúum eyjunnar. Þó svo að markmiðið í leiknum sé að stækka húsið og borga upp skuldir þá býður leikurinn upp á opna og afslappaða spilun þar sem þú, spilarinn, færð að stjórna ferðinni. Ekkert stress, bara rólegheit og ofur krúttlegir karakterar.

Ef þig langar svo í annan afslappaðan leik á leikjalistann þinn þá er þess virði að kíkja á New Pokémon Snap, í honum ferðast þú um fjölbreytt svæði með myndavélina að vopni og finnur Pokémona til að ljósmynda.

5. Super Mario Makers 2

Í Super Mario Maker 2 færðu að búa til þín eigin Super Mario Bros. borð frá grunni!

Í Super Mario Maker 2 færðu að búa til þín eigin Super Mario Bros. borð frá grunni! Þú ræður hvernig leikjaborðin líta út, hvaða hindranir eru til staðar, hvar óvinirnir eiga að vera, hvar peningarnir og aukalífin eru staðsett. Leikurinn býður upp á skapandi nálgun og er sérlega skemmtilegur fyrir þá sem hafa áhuga á borðhönnun (level design) í tölvuleikjum. Þegar borðið er tilbúið er svo hægt að spila það og deila því með öðrum.

4. Kirby and the Forgotten Land

Hinn ofur krúttlegi Kirby er mættur til leiks í Kirby and the Forgotten Land, sem er jafnframt fyrsti Kirby leikurinn sem gerist í þrívíðu umhverfi.

Hinn ofur krúttlegi Kirby er mættur til leiks í Kirby and the Forgotten Land, sem er jafnframt fyrsti Kirby leikurinn sem gerist í þrívíðu umhverfi. Þetta er platformer-leikur af gamla skólanum þar sem Kirby þarf að hoppa yfir hindranir, berjast við óvini og sigra endakalla. Kirby er þó gæddur þeim ofurkrafti að geta sogið hluti og öðlast ofurkrafta þeirra sem hann gleypir. Til dæmis ef hann gleypir eld getur hann spúað eldi og ef hann gleypir bíl getur hann keyrt um líkt og bíll. Leikurinn býður upp á co-op spilun en virkar best í einspilun. Frábær fjölskylduleikur, sérstaklega þar sem leikurinn býður upp á stillingar sem gera leikinn mjög auðveldan í spilun.

Ef þú ert að fíla krúttlega útlit leiksins og klassíska platform-spilun þá er þess virði að kíkja líka á leikinn Yoshi’s Crafted World.

3. Mario Kart 8: Deluxe

Þetta er frábær leikur fyrir fjölskylduna, vinahóp og leikjapartý.

Smá svindl, þessi flokkast kannski frekar sem Wii U leikur en Switch leikur en kappakstursleikurinn Mario Kart 8 stendur enn fyrir sínu. Leikurinn kom upphaflega út árið 2014 á Wii U en hefur nú verið uppfærður fyrir Switch og hefur ýmsu aukaefni verið bætt við leikinn. Í Mario Kart 8 geta 2-4 spilarar keppt sín á milli í kappakstri í sömu tölvunni, enn fleiri geta spilað ef leikurinn er spilaður í netspilun. Þetta er frábær leikur fyrir fjölskylduna, vinahóp og leikjapartý. Í leiknum er ekki aðeins nóg að vera góður ökumaður heldur þarf heppnin líka að vera með þér þar sem allskonar aukahlutir geta haft áhrif á leikinn, til dæmis keyrir ökutækið hraðar þegar rauði sveppurinn er notaður og stjarnan gerir ökutækið ónæmt fyrir skotum frá óvinum. Mario Kart 8: Deluxe pakkinn inniheldur Mario Kart 8 ásamt ýmsum viðbótum og mælum við því þess vegna með þeim leikjapakka frekar en Mario Kart 8, en hann dugar þó vissulega.

2. Super Mario Odyssey

Mario-leikirnir standa ávallt fyrir sínu og má fullyrða að einn af betri Mario leikjum síðustu ára sé Super Mario Odyssey frá árinu 2017.

Mario-leikirnir standa ávallt fyrir sínu og má fullyrða að einn af betri Mario leikjum síðustu ára sé Super Mario Odyssey frá árinu 2017. Í þessum fjölbreytta og skemmtilega platform-leik flakkar Mario á milli ólíkra heima líkt og Nintendo-spilarar ættu að þekkja vel. Sú nýjung sem leikurinn hefur fram að færa er að Mario getur nú breytt sér í ólíka hluti (ekki ósvipað og Kirby) með því að kasta derhúfunni sinni á hlutina. Þannig getur Mario breytt sér í risaeðlu, frosk, Goomba, stóra byssukúlu, tré, bíl og margt margt fleira. Þess má geta að þá fékk leikurinn fullt hús stiga hjá okkur nördunum.

Ef þú þráir enn meira af Mario skaltu skoða Super Mario 3D World + Bowser’s Fury frá árinu 2021 en leikurinn er endurbætt útgáfa af Super Mario 3D World sem kom upphaflega út á Wii U árið 2013 ásamt aukaefni.

1. The Legend of Zelda: Breath of the Wild

Á heildina litið er þessi leikur algjör gullmoli sem býður upp á tugi klukkutíma af frábærri spilun, flottum endaköllum, fjölbreyttum þrautum og leikjaheimi sem þú munt seint gleyma.

Ævintýraleikurinn The Legend of Zelda: Breath of the Wild býður upp á stórkostlega skemmtilega og fjölbreytta ævintýraupplifun. Leikurinn inniheldur stóran opinn heim þar sem fjölmörg ævintýri og verkefni bíða Links, aðalhetju sögunnar. Útlit leiksins er sérlega litrík og grípandi og er eitt af sérkennum leiksins. Á heildina litið er þessi leikur algjör gullmoli sem býður upp á tugi klukkutíma af frábærri spilun, flottum endaköllum, fjölbreyttum þrautum, stórkostlegri tónlist og leikjaheimi sem þú munt seint gleyma.

Forsíðumynd (myndblanda): Kirby, Mario Odyssey, Animal Crossing
Myndir fegnar af Nintendo Store

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑