Leikjarýni

Birt þann 7. ágúst, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Samúræinn sem fer ótroðnar slóðir

Samúræinn sem fer ótroðnar slóðir Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Með betri leikjum ársins. Mjög vel útfærður þar sem samúræinn Jin verst árásum Mongóla á hinni gullfallegu Tsushima-eyju.

4.5

Frábær!


Þriðju persónu hasar- og ævintýraleikurinn Ghost of Tsushima frá leikjafyrirtækinu Sucker Punch Productions kom í verslanir 17. júlí síðastliðinn og er eingöngu fáanlegur (exclusive) á PlayStation 4. Útgáfudegi leiksins var frestað um nokkrar vikur sökum COVID-19 en fyrir heimsfaraldurinn var staðfestur útgáfudagur 26. júní (sjá nánar á PlayStation.Blog). Sucker Punch Productions er bandarískt leikjafyrirtæki og er þekkt fyrir Infamous-leikina ásamt fyrstu leikjunum með lævísa þvottabirninum Sly Cooper.

Í Ghost of Tsushima stjórnar spilarinn samúræjanum Jin Sakai. á 13. öld. Á japönsku eyjunni Tsushima ríkir ófriður þar sem Mongólar hafa ráðist til atlögu og fara með berserksgang um landið, ræna og drepa og brenna bæi. Áætlun þeirra er að nota eyjarnar sem stökkpall til innrásar á Japan sjálft. Jin notar hæfileika sína sem samúræ til að finna óvini sína, berjast við þá og um leið frelsa heimafólk undan prísund Mongóla.

Grípandi söguþráður

Söguþráður leiksins er ekkert sérlega flókinn og í sinni allra einföldustu mynd fjallar sagan um stríð og þau átök sem því fylgir. Mörg atriði snúast þar af leiðandi að því að verjast árásum andstæðinga eða ráðast sjálfur til atlögu til að valda andstæðingnum skaða. Ian Ryan, aðalhöfundur sögunnar, náði að tvinna sögulegar staðreyndir vel saman við góða sögu og afþreyingu. Ian hefur skrifað fleiri sögur fyrir tölvuleiki og má þar nefna nokkra Star Wars leiki og Thief frá árinu 2014 (sjá nánar á IMDb). Hann nær að gera söguna persónulega sem gerir aðalsöguþráð leiksins grípandi og tilfinningaþrunginn á köflum.

Tónlistin og talsetningin í leiknum er til fyrirmyndar og voru atvinnuleikarar með reynslu fengnir til að talsetja öll helstu hlutverkin. Ilan Eshkeri og Shigeru Umebayashi semja tónlistina í leiknum en Ilan samdi meðal annars tónlistina í The Sims 4 og kvikmyndinni Kick-Ass og Shigeru hefur samið tónlist fyrir The Grandmaster og Curse of the Golden Flower og fleiri kvikmyndir. Hægt er að hlusta á lögin í leiknum hér á Spotify.

Samúræinn sem fer ótroðnar slóðir

Jin þarf að læra nýjar aðferðir gegn Mongólum þar sem hann einn getur ekki sigrað her þeirra.

Í leiknum kynnist spilarinn vegi samúræja, klæðaburði þeirra og bardagastíl. Ein af þeim reglum sem nefndar eru snemma í leiknum er sú að samúræi horfir í augu óvinar síns og berst en læðist ekki aftan að honum og kemur honum að óvörum. Jin þarf að læra nýjar aðferðir gegn Mongólum þar sem hann einn getur ekki sigrað her þeirra. Hann fer að læðast um í háu grasi, hoppa á milli bygginga og fela sig til að forðast Mongóla eða til að koma þeim að óvörum. Með þessari aðferð fær spilarinn að velja hvernig hann tekst á við þau verkefni sem Jin þarf að takast á við í leiknum; með því að taka upp katana-sverðið, tákn samúræjans og stolt hans, eða læðast á milli staða og fremja launmorð með tantō rýtingi. Inn á milli koma verkefni þar sem nauðsynlegt er að berjast eða læðast um, en mörg verkefni leyfa spilaranum að velja milli aðferða.

Eflist og lærir nýjar aðferðir

Jin vinnur sér inn reynslupunkta þegar hann klárar verkefni eða sigrar óvini. Í leiknum er að finna lista yfir fjölmarga hæfileika sem Jin getur bætt við sig; stundum lærir hann nýjar bardagaaðferðir en einnig getur hann eflt sig í þeim aðferðum sem hann kann nú þegar. Jin getur einnig lært á ný vopn, eins og púður- og reyksprengjur, og látið betrumbæta sverð sín, boga og herklæði.

Bardagakerfið í leiknum er frekar auðvelt, líkt og fram kom þegar við fórum yfir fyrstu hughrif Ghost of Tsushima. Það er gott flæði í bardögunum og stundum að mörgu að huga. Með tímanum lærir Jin nýjar bardagaaðferðir sem eru missterkar gegn óvinum og þá er gott að þekkja hvaða aðferðir henta best hverju sinni. Það er auðvelt og fljótlegt að skipta um bardagastíl og vopn sem eykur flæði leiksins enn frekar.

Litadýrð í Tsushima

Á eyjunni er að finna fjölmörg svæði þar sem útsýnið er svo fallegt að ekki er annað hægt en að staldra við og njóta stundarinnar – jafnvel taka upp flautuna og spila eitt lag.

Strax í byrjun fær spilarinn aðgang að nokkuð stóru svæði á Tsushima-eyju sem hann getur skoðað að vild. Fegurð eyjunnar leynir sér ekki þar sem boðið er upp á mikla litadýrð, fjölbreytt svæði og breytilegt veðurfar. Á eyjunni er að finna fjölmörg svæði þar sem útsýnið er svo fallegt að ekki er annað hægt en að staldra við og njóta stundarinnar – jafnvel taka upp flautuna og spila eitt lag. Jin spilar á flautu og getur hann lært ný lög sem hafa þann eiginleika að geta breytt veðrinu eftir hentusemi.

Leiðarkerfi leiksins er frumlegt og er tengt við vindáttina á Tsushima-eyju. Vindurinn blæs í átt að næsta áfangastað og er skemmtileg tilbreyting frá t.d. smákorti (e. mini-map). Með þessari aðferð hafa leikjahönnuðir hjá Sucker Punch náð að gera leikinn að einskonar gagnvirku notendaviðmóti sem er skemmtileg nýjung. Ef vindurinn blæs ekki nógu hvasst er hægt að strjúka fingri upp snertiflötina á PS4 fjarstýringunni og þá hvessir um stund og vindáttin verður greinilegri. Til að gera vindáttina enn skýrari eru laufblöð sífellt að falla niður af trjám og fjúka laufblöðin með ríkjandi vindátt. Laufblöðin eru bæði falleg og þjóna ákveðnum tilgangi – en þvílíkt magn af laufblöðum hef ég aldrei á ævinni séð! Til að ferðast um eyjuna getur þú verið fótgangandi eða riðið um á hesti sem fylgir þér hvert fótmál.

Endingargóður leikur

Landsvæðið í leiknum er stórt og aukaverkefnin fjölmörg.

Landsvæðið í leiknum er stórt og aukaverkefnin fjölmörg. Leikurinn býður upp á góðan endingartíma þar sem það tekur í kringum 20 klukkutíma að klára aðalsöguþráð leiksins og aukaverkefnin bjóða svo upp á aðra 20 klukkutíma í spilun – en erfitt er að segja nákvæmlega til um tímann þar sem hann ræðst af því hvaða leiðir spilarinn ákveður að fara í leiknum. Mismunandi erfiðleikastig eru í boði sem hvetur þá sem höfðu gaman að leiknum til að spila hann aftur á erfiðara erfiðleikastigi. Einnig er að finna svokallað Kurosawa Mode, þar sem leikurinn fær skemmtilega svart-hvíta Kurosawa síu sem minnir á gömlu góðu samúræ-kvikmyndirnar eftir japanska leikstjórann Akira Kurosawa.

Aukaverkefnin eru misstór, í boði er að taka aukaverkefni sem tvinnast við söguna en einnig er hægt að finna bæi sem Mongólar hafa hertekið og hjálpað til við að frelsa íbúana. Ýmsa safnhluti er hægt að finna á víð og dreif um eyjuna sem geta gefið Jin hæfileika, t.d. flautan sem getur breytt veðrinu og svo er hægt að safna blómum til að bæta nýjum litum við klæðnað Jins. Sömuleiðis má finna gripi á völdum stöðum í leiknum og hægt að safna þeim til að fá nánari upplýsingar um siði og venjur Mongóla.

Gallarnir minniháttar

Leikurinn er mjög góður og þeir gallar sem hafa fundist skilgreinast allir sem minniháttar. Eftir að hafa spilað leikinn í kringum 20-30 klukkutíma hef ég aðeins orðið var við tæknileg vandamál í leiknum (e. glitches) einu sinni eða tvisvar. Í eitt skipti færðist aukapersóna (NPC) skyndilega til og í annað skipti festist önnur aukapersóna á hlaupum. Þessi atriði voru smávægileg og höfðu engin áhrif á spilun leiksins. Annað atriði sem vert er að nefna er að munnhreyfingar persóna í leiknum passa eingöngu við enska talsetningu, en hægt er að velja á milli þess að hafa enska eða japanska talsetningu (með enskum texta) í leiknum.

Einn af leikjum ársins

Leikurinn er mjög vel slípaður og býður upp á vel skrifaða sögu, skemmtilega spilun, flottan leikjaheim, fjölbreytt verkefni og bardaga,

Ghost of Tsushima er án efa einn af betri leikjum ársins 2020. Leikurinn er mjög vel slípaður og býður upp á vel skrifaða sögu, skemmtilega spilun, flottan leikjaheim, fjölbreytt verkefni og bardaga, marga hæfileika og aukahluti og endingin á leiknum er mjög góð. Hægt er að skoða sýnishorn úr leiknum í myndbandinu hér fyrir neðan sem við birtum eftir að hafa spilað leikinn í nokkra klukkutíma.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑