Greinar

Birt þann 8. ágúst, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

10 vel heppnaðir hinsegin tölvuleikir

Að tilefni hinsegin daga tókum við saman lista yfir tíu vel heppnaða leiki sem innihalda hinsegin karaktera eða hinsegin valmöguleika.

Hinsegin karakterar hafa alls ekki verið áberandi í tölvuleikjum í gegnum tíðina. Á níunda og tíunda áratugnum var varla að finna hinsegin fólk í tölvuleikjum en eftir aldamótin fóru hlutirnar að breytast til hins betra. Síðastliðin tíu ár hafa fjöldi leikja verið gefnir út þar sem hinsegin karakterar eru meira sýnilegir. Leikir á borð við The Sims og The Last of Us hafa gefið góð fordæmi og hafa leikir farið að bjóða spilurum upp á fjölbreyttari karaktera í auknum mæli. Að tilefni hinsegin daga tókum við saman lista yfir tíu vel heppnaða leiki sem innihalda hinsegin karaktera eða hinsegin valmöguleika.

1. Celeste

Í þessum heldur erfiða platformer-leik frá árinu 2018 er markmið þitt að hjálpa Madeline að klífa upp Celeste fjallið og komast upp á topp þess. Á leið sinni þarf hún að líta inn á við og neyðist til að berjast við tilfinningar sínar og innri djöfla. Kenningar voru uppi meðal spilara um að Madeline væri trans kona og staðfesti höfundur leiksins það árið 2020 ásamt því að koma sjálfur út úr skápnum sem trans.

2. Dragon Age: Inquisition

Dragon Age: Inquisition kom út árið 2014 og var einn af fyrstu stórleikjunum til að normalísera mismunandi kynhneigðir.

Risavaxinn hlutverkaleikur sem býður upp á tugi klukkutíma af spilun í ævintýraheimi sem inniheldur dreka, furðuverur og ófreskjur. Dragon Age: Inquisition kom út árið 2014 og var einn af fyrstu stórleikjunum til að normalísera mismunandi kynhneigðir. Í leiknum er að finna fjölbreytta karaktera sem eru meðal annars samkynhneigðir og pankynhneigðir. Persónan Krem er sérlega eftirminnilegur en hann er fyrsti trans karakterinn í stóru hlutiverki í Dragon Age tölvuleik.

3. Dream Daddy: A Dad Dating Simulator

Án efa flottasti leikjatitillinn sem þú átt eftir að finna á þessum lista. Í leiknum ferðu með hlutverk pabba og þitt markmið er að hitta og deita aðra heita pabba í hverfinu. Dream Daddy er einfaldur og kómískur stefnumótahermir þar sem þínar ákvarðanir hafa áhrif á það hvernig sagan og sambönd þróast. Leikurinn er einfaldur í spilun og fullur af misgóðum pabbabröndurum. Leikurinn er frá árinu 2017 og varð um tíma vinsælasti leikurinn á Steam leikjaþjónustunni. Ertu reddí? Hæ reddí, ég er pabbi!

4. Gone Home

Söguríkur leikur frá árinu 2013 þar sem spilarinn stjórnar Katie sem er nýkomin heim eftir langt ferðalag. Það kemur henni á óvart að enginn er heima til að taka á móti henni og í kjölfarið skoðar hún sig um húsið og finnur vísbendingar og sögubrot sem fylla í eyðurnar. Gone Home er ekki fyrsti gönguhermirinn (walking simulator) en er einn af þeim fyrstu til að ná vinsældum og má segja að hann hafi lagt línurnar fyrir aðra gönguherma. Leikurinn er er frekar stuttur í spilun, rólegur og inniheldur áhrifaríka og áhugaverða sögu sem tengist hinsegin persónu.

5. The Last of Us Part II

The Last of Us Part II er margverðlaunaður stórleikur þar sem fjölbreyttar persónur koma við sögu og er ein af aðal söguhetjum leiksins lesbía auk þess sem nokkrar hinsegin persónur koma við sögu.

Drungalegur og dimmur leikur sem gerist í framtíðinni þar sem veira hefur smitað stóran hluta mannkyns sem hafa breyst í einhverskonar sveppa-zombía. The Last of Us Part II er margverðlaunaður stórleikur þar sem fjölbreyttar persónur koma við sögu og er ein af aðal söguhetjum leiksins lesbía auk þess sem nokkrar hinsegin persónur koma við sögu. Leikurinn er troðfullur af hasar, skotbardögum, flottum persónum, sögu, hryllingi, ást og allt þar á milli. The Last of Us Part II er seinni hluti sögunnar og því ráðlagt að spila The Last of Us frá árinu 2013 áður en seinni hlutinn frá árinu 2020 er spilaður.

Þess má geta að þá fjölluðum við hjá Nörd Norðursins um leikinn í Leikjavarpinu og vorum auk þess með sérstakan spilliþátt þar sem leikurinn er krufinn mergjar og allt látið flakka.

6. Life is Strange

Maxine Caulfield, eða Max eins og hún er yfirleitt kölluð af vinum sínum, er tvíkynhneigð og jafnframt aðalpersónan í ævintýraleiknum Life is Strange. Max er ljósmyndanemi sem uppgötvar að hún hefur krafta til þess að spóla aftur í tíma og þannig breyta því sem gerist. Life is Strange er kaflaskiptur leikur og kom fyrsti hluti leiksins út árið 2015. Life is Strange 2 kom út árið 2018 og inniheldur einnig fjölbreyttar persónur, þar á meðal hinsegin persónur.

7. Night in the Woods

Óhefðbundinn ævintýraleikur frá árinu 2017 þar sem þú spilar sem pankynhneigð ung kona, eða læða, að nafni Mae Borowski.

Óhefðbundinn ævintýraleikur frá árinu 2017 þar sem þú spilar sem pankynhneigð ung kona/læða að nafni Mae Borowski. Hún er hætt í skóla og er að reyna að finna sig í lífinu ásamt því að berjast við ýmsar erfiðar tilfinningar, þunglyndi, kvíða og fleira. Samtölin í leiknum eru virkilega vel skrifuð og innihalda nóg af kaldhæðni og húmor. Persónurnar eru eftirminnilegar og tónlistin frábær. Rólegur, skemmtilegur og tilfinningaríkur leikur sem óhætt er að mæla með.

8. Stardew Valley

Stardew Valley á sér langa og merkilega sögu. Leikurinn kom út árið 2016 og hefur almennt hlotið mjög góðar viðtökur og þótti mörgum merkilegt að leikurinn var að mestu leyti gerður af einum manni, Eric Barone sem er einnig þekktur sem ConcernedApe. Í leiknum býrð þú til þinn eigin karakter og átt að sinna bóndabæ og rækta svæðið þar í kring, þú þarft að hreinsa til, sá fræjum, sjá um uppskeruna og fleira. Í leiknum er hægt að velja á milli þess að vera karl eða kona og getur spilarinn stofnað til ástarsambands með öðrum karakterum í leiknum og er það spilarans að ákveða hvort reynt er við karaktera af hinu kyninu eða sama kyni.

9. Tell Me Why

Fyrsti leikurinn frá stóru leikjastúdíói þar sem trans maður er spilanleg aðalpersóna. Í þessum ævintýraleik fylgjum við tvíburum sem nota ofurnáttúrulega krafta til þess að púsla saman sögubrotum úr þeirra flóknu fortíð. Leikurinn er frá árinu 2020 og er kaflaskiptur líkt og Life is Strange og er hægt að spila fyrsta kaflann ókeypis á Steam. Leikurinn hefur hlotið fjölda verðlauna meðal annars vann leikurinn verðlaun á Gayming Awards fyrir besta LGBTQ karakterinn og trúverðugustu framsetninguna.

10. The Sims 4

Í The Sims 4 getur hinsegin fólk byrjað saman, gift sig, búið saman, eignast börn og stofnað fjölskyldu.

Í Sims-leikjunum má segja að gamli góði dúkkulísuleikurinn, eða Barbí-leikurinn, öðlist nýtt líf. Í leikjunum er hægt að búa til sína eigin Sims-a og stjórna þeim, velja hvað þeir kaupa, hverja Sims-inn hittir og hvernig þeir kjósa að verja frítíma sínum. Þú getur búið til heimili fyrir Sims-ana þína og hjálpað þeim að finna ástina, draumastarfið og hamingjuna. Allt frá því að fyrsti Sims-leikurinn kom út árið 2000 hafa Sims-leikirnir boðið upp á fjölbreytileika og valmöguleika fyrir hinsegin fólk. Í The Sims 4 getur hinsegin fólk byrjað saman, gift sig, búið saman, eignast börn og stofnað fjölskyldu. Í nýlegri uppfærslu sem kom út fyrr á þessu ári er boðið upp á stillingar þar sem spilarinn getur valið kynhneigð, hvort Sims-inn geti orðið óléttur eða gert aðra ólétta, hvort Sims-inn noti klósettið sitjandi, hvaða fornöfn Sims-inn kýs að nota og fleira líkt og sést í myndbandinu hér fyrir neðan.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑