Leikjarýni

Birt þann 22. nóvember, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Sackboy: A Big Adventure – Einfaldlega stórskemmtilegur

Sackboy: A Big Adventure – Einfaldlega stórskemmtilegur Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Í Sackboy er lögð áherslu á einfalda og góða skemmtun. Óvæntur gullmoli.

4.5

Frábær!


Sackboy: A Big Adventure er platformer-leikur í þrívídd sem kom út 12. nóvember síðastliðinn á PlayStation 4 og 19. nóvember á PlayStation 5.

Leikurinn byggir á LittleBigPlanet leikjaseríunni en stendur þó utan hennar sem sjálfstæður leikur og flokkast sem svokallað spin-off. Í leiknum fylgir spilarinn Sackboy í gegnum fjölbreytt ævintýri með það að markmiði að bjarga vinum sínum og Craftworld-heiminum frá hinum illræmda Vex.

Einfaldlega stórskemmtilegur

Mikið gleðiefni er að sjá jafn vandaðan platformer og Sackboy koma á markað samhliða PlayStation 5 leikjatölvunni. Sackboy er í stuttu máli sagt einfaldlega stórskemmtilegur. Spilunin er einföld og mátulega krefjandi en þó þannig að flestir aldurshópar eiga að ráða við hann. Í Sackboy er skemmtanagildið sett í fremsta sæti og verður að segjast að útkoman er æðisleg. Leikurinn er líflegur, litríkur og stútfullur af gleðisprengjum. Spilunin minnir óneitanlega á nýlegu Mario-leikina. Sackboy: A Big Adventure er ekki eins og Mario en upplifunin er ansi svipuð og skemmtilegt að sjá vandaðan platformer-leik enda á fleiri stöðum en bara hjá Nintendo sem geymir marga slíka gullmola.

Craftworld-heimurinn skiptist í nokkur svæði sem hafa sín sérkenni sem brýtur spilunina og útlit leiksins upp með skemmtilegum hætti. Ný svæði bjóða upp á nýja möguleika, nýja búninga, nýjar þrautir og nýja óvini. Í hverjum heimi eru svo fjölmörg borð og í hverju borði er hægt að safna ýmsum hlutum. Þar finnum við smáu kúlurnar sem eru notaðar eru til að safna stigum og því fleiri stigum sem spilarinn safnar því fleiri búninga fær hann að borði loknu. Svo höfum við bjöllurnar, gjaldmiðil leiksins, sem notaðar eru til að kaupa nýja búninga. Að lokum eru það stóru kúlurnar sem nauðsynlegt er að safna til að ferðast til nýrra heima innan Craftworld.

Í mörgum platformer-leikjum sem bjóða upp á tveggja, þriggja eða fjögurra manna spilun virðist fjölspilunin vera þvinguð þar sem leikurinn virkar í raun lang best í einspilun og aðrir spilarar þvælast meira fyrir en gera gagn. Sackboy er einmitt ekki þannig.

Einn til fjórir spilarar geta spilað leikinn samtímis. Fyrir þessa gagnrýni var einspilun og tveggja manna spilun prófuð sérstaklega. Einspilunin er mjög skemmtileg en tveggja manna spilunin enn skemmtilegri. Í mörgum platformer-leikjum sem bjóða upp á tveggja, þriggja eða fjögurra manna spilun virðist fjölspilunin vera þvinguð þar sem leikurinn virkar í raun lang best í einspilun og aðrir spilarar þvælast meira fyrir en gera gagn. Sackboy er einmitt ekki þannig. Í mörgum borðum er hægt að fara fleiri en eina leið og geta spilarar þá skipt svæðum á milli sín og safnað þannig fleiri stigum og náð í fleiri safnhluti. Í hverjum heimi er auk þess að finna sérstakt tveggja manna borð sem ekki er hægt að klára nema með öðrum spilara.

Litríkir karakterar og þunnur söguþráður

Finna má fjölbreytta flóru af karakterum og óvinum í leiknum. Sackboy er sekkjastrákur sem spilarinn stjórnar sem hægt er að skreyta með því að klæða í allskonar búninga, til dæmis víkingabúning, Elvis-búning og hafmeyjubúning. Vinir þínir og óvinir eru skemmtilega fjölbreyttir og vel skapaðir. Í hverjum heimi eru endakallar sem eru sumir hverjir ansi skrautlegir og yfirleitt heldur auðveldir fyrir reynda spilara, en mátulega erfiðir fyrir þá reynsluminni.

Söguþráður leiksins er þynnri en hárið á Agent 47 og fjallar um baráttu milli góða og ills í sinni einföldustu mynd.

Fleira má finna í Sackboy sem líkt er með Mario-leikjunum. Söguþráður leiksins er þynnri en hárið á Agent 47 og fjallar um baráttu milli góða og ills í sinni einföldustu mynd. Þó svo að nýjar persónur séu kynntar til sögunnar hafa þær lítil sem engin áhrif á söguþráðinn. Yfirleitt er litið á þunnan söguþráð sem galla en í þessu tilfelli, líkt og svo oft í Mario-leikjum, er þunnur söguþráður einmitt það sem passar vel við leikinn. Leikurinn snýst um einfalda og góða skemmtun og lítið svigrúm fyrir djúpa eða flókna sögu.

Fjölbreytt og vönduð borð

Borðin í leiknum eru stórkostlega skemmtileg og mikil vinna hefur augljóslega verið lögð í þau.

Borðin í leiknum eru stórkostlega skemmtileg og mikil vinna hefur augljóslega verið lögð í þau. Tónlistin spilar stóran þátt og tvinnast í sumum tilfellum með beinum hætti við borðin þar sem jörðin bókstaflega dansar í takt við tónlistina. Af og til heyrast þekktir stórsmellir og má þar meðal annars nefna Toxic með Britney Spears og Let’s Dance með David Bowie og setja þessir smellir mikinn svip á leikinn.

Erfiðleikastig borðanna fer hægt og rólega vaxandi því lengra sem líður á leikinn en verða þó aldrei yfirgengilega erfið. Passað er upp á að halda flæðinu góðu og skemmtuninni í fyrsta sæti. Refsingin fyrir að deyja í leiknum er mjög væg og kemur spilaranum aldrei úr jafnvægi. Borðin eru yfirleitt nokkuð stutt en geta tekið lengri tíma þegar leitað er eftir öllum þeim hlutum og búningum sem þar er að finna. Stundum þarf að leita sérstaklega að földum fjarsjóðum eða leysa einfaldar þrautir. Til að hjálpa Sackboy í gegnum valin verkefni fær hann af og til aðgang að tækjum eins og svifskóm til að svífa á milli svæða, gripkló til að sveifla sér á milli hluta og klístur sem gerir það að verkum að hægt er að ganga á veggjum.

Líkt og í Astro’s Playroom er DualSense fjarstýringin notuð nokkuð mikið í leiknum og gefur leiknum ferskan blæ og bætir upplifunina. Einstaka tilfelli komu upp þar sem fjarstýringin hagaði sér furðuleg, tvisvar titraði fjarstýringin stöðugt þar til borðið var klárað og í nokkrum öðrum tilfellum heyrðist ekkert hljóð í fjarstýringunni líkt og vanalega. Tvær mismunandi fjarstýringar voru prófaðar og var útkoman sú sama. Þessir þættir hafa ekki áhrif á spilun leiksins og óvíst hvort að þeir tengjast leiknum sjálfum eða DualSense fjarstýringunni.

Óvæntur gullmoli

Sackboy: A Big Adventure kom skemmtilega á óvart. Ég bjóst við nokkuð hefðbundnum platformer-leik en fann í staðinn óvæntan gullmola. Klárlega einn af betri platformer-leikjum sem ég hef spilað undanfarin ár. Það tók mig í kringum sjö klukkutíma að klára leikinn en eftir það er hægt að spila borðin aftur og finna þá söfnunarhluti sem fóru framhjá manni við fyrstu spilun.

Sackboy: A Big Adventure kom skemmtilega á óvart. Ég bjóst við nokkuð hefðbundnum platformer-leik en fann í staðinn óvæntan gullmola.

Leikurinn kemur á góðum tíma, stutt er í jólafrí og margir heimavinnandi vegna heimsfaraldurs. Óhætt er að mæla með Sackboy til að strá slatta af gleðiglimmeri yfir lífið og er tilvalinn fjölskylduleikur. Eins og staðan er í dag er eingöngu hægt að spila fjölspilunarhluta leiksins lókal en uppfærsla er væntanleg fyrir lok árs þar sem spilarar geta einnig spilað saman í gegnum netið og á milli leikjatölva, það er að segja PS4 og PS5 spilarar eiga að geta spilað leikinn saman.

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑