Leikjarýni

Birt þann 16. október, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Hliðarspor til Bagdad borgar

Hliðarspor til Bagdad borgar Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: AC: Mirage er fínasti leikur, en hefði mögulega átt að halda sig að vera DLC pakki.

3.5

Stutt skemmtun


Það er ótrúlegt að hugsa til þess að það séu liðin 15 ár síðan að fyrsti Assassin’s Creed leikurinn kom út frá Ubisoft. AC: Mirage er þrettándi leikurinn í seríunni og sá fyrsti í þrjú ár eða síðan að AC: Valhalla kom út.

Þessi nýjasti leikur byrjaði einmitt líf sitt sem aukaefni fyrir þann leik. Áður höfðu komin út aukapakkarnir; Wrath of the Druids, The Siege of Paris og síðan Dawn of Ragnarök. Þessar viðbætur við AC: Valhalla stækkuðu söguheiminn ásamt að kafa dýpra í baksögu margra aðalpersóna leiksins Eivör, Sigurð fóstbróður hennar og Basim Ibn Is’haq sem hann kynntist á ferðum sínum. Sá síðarnefndi er eimmit aðalstjarna Mirage sem segir baksögu hans í Bagdad borg árið 861 eða rétt um 10 árum fyrir atburði AC: Valhalla.

Ég vil ekki fara djúpt í sögu Basim í þeim leik eða hvernig hann spilar inn í stærri heim leikjanna. En það er ekki vitlaust að hafa spilað leikinn áður en sökkt er sér í spilun Mirage.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar hoppað er inn í leikinn er að hann er talsvert smærri en síðustu þrír leikir á undan. Það er lögð áhersla á þéttari sögu og mikið af RPG hlutum síðustu leikja hefur verið tekið í burtu.

Það er ljóst að Ubisoft er að horfa til fyrstu leikjanna í seríunni upp á spilun í þessum leik. Meiri áhersla er lögð á ný að laumast um heiminn í leit að vísbendingum og finna bestu leiðina til að ganga frá skotmarkinu þínu. Basim er ný genginn til liðs við „The Hidden Ones“ og er ekki jafn öflugur stríðsmaður og fyrri aðalpersónur eldri leikja.

Það þýðir lítið að reita fjóra til fimm óvini til reiði og ætlast til að lifa það af. Síðar í leiknum hafa leikmenn aðgang að betri tólum og vopnum sem auka lífslíkurnar, en það er en best að nýta sér umhverfi leiksins og ganga frá óvinunum hljóðlega og án neinnar athygli.

Það sem hefur oft verið vandi AC leikjanna í gegnum árin, er að þeir hafa oft ekki geta verið 100% vissir um hvort þeir vilji vera laumapúka-leikir í anda Hitman leikjanna eða meiri hasarleikir eins og Uncharted og slíkir leikir. Þessi leikur er visst hliðarspor og ákveðin tilraun hjá Ubisoft að sjá hvort að fólk vilji fá spilun eldri leikjanna eins og í Assassin’s Creed II eða það sem er í boði í nýrri leikjunum. Næsti leikur sem á að koma út í lok næsta árs og gerist í Japan á að vera síðasti leikurinn með RPG hluti eins og síðustu þrír leikir. Eftir það er aðeins vitað að AC: Infinity mun verða grunnur sem framtíðarleikir byggja á og hvernig það allt mun virka vitum við ekki eins og er.

Eftir að hafa tekið vel yfir 100+ tíma síðustu árin að klára leik í AC seríunni þá var pínu sérstakt að vera búin með söguna á innan við 20 tímum. Það er auðvitað aukaefni í leiknum til að kanna en það bætir þó samt aðeins við svipaðri lengd og að klára sögu leiksins, Þetta er auðvitað merki að AC: Mirage byrjaði líf sitt sem DLC pakki fyrir AC: Valhalla. Það hefði verið gaman að sjá aðeins stærri leik og fá að sjá meira af Miðausturlöndunum á þessum tíma. Það var gríðarlega margt spennandi í gangi í vísindum og listum og þessi hluti heimsins hefur verið ein af vöggum siðmenningarinnar. Ég þarf ekki 100+ tíma leik, en það hefði verið gaman að sjá meira gert með þetta sögusvið.

Sagan er sæmileg og batnar talsvert þegar lengra er liðið á söguna og við fáum að kynnast Basim meira og þeim persónum sem hann umgengst í Bagdad borg. Það er því miður þó lítið um eftirminnilegar persónur að mínu mati fyrir utan eina eða tvær eins og Roshan (rödduð af Shohreh Aghdashloo úr The Expanse þáttunum) og Nethal sem ólst upp með Basim á strætunum.

Hlutir eins og reyksprengjur, eitraðir hnífar, gildrur og að rífa niður veggspjöld með mynd af Basim er allt hlutir sem skipta miklu máli í spilun leiksins Ég skil reyndar engan vegin af hverju maður fær ekki möguleika á að nota boga í vissum hlutum leiksins, það myndi hjálpa svo mikið finnst mér.

Basim getur safnað sérstökum peningum sem leyfir honum að múta vissum hópum til að hjálpa sér í bardaga, laumast um og dreifa athygli  lögreglunnar á honum. Þetta er eitthvað sem þeir sem hafa spilað eldri leiki ættu að kannast við. Þetta passar vel við leikinn og spilun hans, þó hefði verið gaman að sjá þetta tekið lengra og meira lagt upp úr því að laumast um og leita leiða að leysa verkefnin á hina ýmsu vegu, eins og t.d að óvinirnir myndu lenda í slysi sem þú stilltir samanber Hitman leikirnir.

Verkefni eins og Tales of Bagdad, Lost books, History of Bagdad og falin shard brot er fín leið til að safna upp peningum og kanna heiminn, en þetta verður allt mjög keimlíkt mjög fljótt. Það er ekkert XP (reynslustig) til að vinna sér til til að verða betri í leiknum, í stað þess er nauðsynlegt að spila í gegnum sögu leiksins til að opna fyrir nýja hæfileika sem Basim getur nýtt sér. Það er síðan hægt að velja arabísku sem tungumál í leiknum til að auka upplifunina og draga þig nánar inn í hinn forna heim Bagdad borgar. Ég mæli sérstaklega með að skoða hringlaga hluta miðborgarinnar sem er gullfallegur að sjá.

Utan við borgina er voðalega lítið nema eyðimörkin og örfáir staðir að skoða, sem er pínu svekkjandi, það hefði verið gaman að fá að kanna heiminn nánar og sjá eitthvað af fornum stöðum eins og rústir Ur eða Uruk á meðal margra annarra staða.

Þegar er upp er staðið er AC: Mirage fínasta skemmtun sem blandar saman eldri og nýrri spilun leikjanna sem komu út á undan, mér fannst pínu kjánalegt að maður getur ekki klifrað meira en hefur verið hægt í eldri leikjum, það var alltaf asnalegt að geta ekki klifrað upp augljósa staði í gömlu leikjunum og hefði það mátt halda sér í þessum leik. Gervigreind óvina var frekar heimsk og virkaði eins og hún væri byggð fyrir meiri hasar en laumuspil eins og hefur verið síðustu árin.

Það var ekki mikið um tæknilega galla þegar ég spilaði í gegnum leikinn á Xbox Series X vélinni minni og var ekki leiðinlegt að leikurinn tók ekki nema rétt yfir 30GB. Á tímum 100GB+ leikja þá er það skemmtilegt að sjá, það hefur reyndar mikið að segja að leikurinn er með smærri heim og sögu.

Franska fyrirtækið Ubisoft hefur gengið í gegnum margt síðustu árin og leikir þeirra hafa þótt oft frekar þessi „Ubisoft“ formúla sem hefur einkennt Far Cry, Assassin’s Creed o.fl. Þetta hefur orðið frekar þreytt og þörf á uppstokkun.Að mínu mati gerðist það með AC leikina þegar AC: Origins kom út, flæði leikjanna og heimur varð talsvert betri, AC: Odyssey var vel heppnaður, en því miður misstu þeir sig algerlega í of miklu að gera með AC: Valhalla sem var góður leikur, með of miklu að gera í heiminum eins og hluti að finna og slíkt, og síðan of mikið af RPG hlutum og peninga plokki stundum. 

Þetta er fínn hliðar leikur og eitthvað til að dútla sér í á meðan við bíðum eftir AC: Red eins og hann kallast í dag. Það er plús að AC: Mirage er á  lægra verði og kostar um 45 pund og $50 erlendis sem er rétt yfir 7 þúsund krónur.

Eintak var í boði útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑