Leikjarýni

Birt þann 28. júní, 2020 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Hvert leiðir hatrið?

Hvert leiðir hatrið? Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: TloU2 er saga um hve fólk gengur langt fyrir hefndina og reynir að sýna hve ófullkomið fólk er.

4.25

Blóðug hefnd


Þetta er spurning sem ég hef verið að pæla dálítið í eftir að hafa spilað The Last of Us Part II og klárað sögu hans.

Það eru sjö ár síðan að The Last of Us kom fyrst út fyrir PlayStation 3 og kynnti okkur fyrir Joel og Ellie og baráttu þeirra í eyðilögðum heimi þar sem að sveppakenndur sjúkdómur Cordyceps Fungus breytir öllum sem sýkjast af honum í stökkbreytt skrímsli.

Samband Joels og Ellies í gegnum fyrri leikinn er hjarta hans og nær að tengja þig við aðalpersónur leiksins og erfiða baráttu þeirra í gegnum Bandaríkin, sem er í rústum og fólk hefur þurft að gera hryllilega hluti til að lifa af og oft var oft erfitt að sjá hvor hópurinn var meira skrímsli, þeir sýktu eða mannfólkið sem lifði af?

Til að setja upp sögu TloU2 eins og ég mun kalla hann framvegis, þá er nauðsynlegt að spilla fyrri leiknum aðeins. Ellie er sérstök fyrir þær sakir að hún virðist vera ónæm fyrir sýkingu sveppasjúkdómsins þrátt fyrir að hafa verið bitinn nokkrum mánuðum áður. Vanalega tekur það um dag fyrir flesta að stökkbreytast eftir smit.

Það er smá möguleiki á í þessari grein sé spilla úr fyrsta leiknum, svo ef þið hafið ekki enn klárað hann (drífið í því) og komið aftur og lesið restina af greininni.

Samband Joel og Ellie er stór hluti beggja The Last of Us leikjanna.

Í lok leiksins stendur Joel fyrir hryllilegum valkosti, að láta Ellie deyja til að mögulega finna lækningu fyrir sjúkdóminum sem hefur ollið allri þessari eyðileggingu í heiminum. Eða bjarga henni og svipta heiminn af lækningu og auðvitað drepa ótal fólks sem átti það ekki skilið og segja Ellie síðan ekki satt um ástæðurnar?

Það var vel hægt að setja sig í fórspor Joels og bjarga Ellie eins og hann gerði í fyrri leiknum. Saga TloU2 tekur sér stað um fimm árum eftir atburði fyrsta leiksins eða um árið 2038 þ.e.a.s. Um 35 árum eftir að fyrstu sýkingarnar byrjuðu í heiminum.

Tónlistin í leiknum og þegar Ellie spilar á gítarinn skapa falleg augnablik inn á milli.

Ellie, Joel og bróðir hans Tommy, búa öll í Jackson þorpinu sem er búið að dafna og vaxa mikið á þessum árum. Fólkið þar hefur náð að skapa sér líf þrátt fyrir allan þennan hrylling í kringum það. Ellie er nú orðin fullorðin og er hluti af samfélaginu að mestu og tekur þátt í að verja Jackson fyrir öllum hættum. Röð áfalla í byrjun leiksins verður til þess að Ellie fer í blóðuga hefndarför til Seattle borgar.

Það er á köflum erfitt að spila leikinn og veldur hann manni stundum óhug, hræðslu og erfiðleikum við að spila hann, sem er líklega ætlun Naugthy Dog. Í byrjun er maður allur á því að fara til Seattle og leita hefnda á hvaða vegu sem er en þegar líður á söguna og þú ert komin til Seattle borgar, sem er í rúst eftir borgarastyrjöld á milli WLF hersins og Scar (seraphites) trúarhópsins, þá byrja línurnar að verða óskýrari. Ég vill ekki spilla sögu leiksins fyrir neinum og er hún eitthvað sem er nauðsynlegt að upplifa sjálf/ur til að maður geta myndað sínar eigin skoðanir.

Að laumast um er gagnlegra en áður og hundar færa nýjar hættur.

Við fáum baksögu ýmissa atburða og persóna sem fylla upp í vissar eyður sem maður hafði og sýna manni ýmsar hliðar þessa heims og fólksins sem lifir í honum; sumir sem vilja bara komast í gegnum daginn með fjölskyldu sinni og aðrir sem líta á það sem hlutverk sitt að herja á aðra og valda sem mestri eymd og sársauka. Síðan eru það hinir sýktu sem fara um heim leiksins og drepa eða sýkja alla sem þeir komast í snertingu við. Ég myndi fara svo langt að kalla náttúruna eina af höfuðpersónum leiksins.

Eftir alla þá eyðileggingu sem maðurinn olli við endalokin og eftir á, þá hefur náttúran vaxið óhindrað og vafið sig utan um byggingar, gras er komið í stað malbiks, skógar í stað garða o.fl. Þetta er kannski ekki alveg raunverulegt en þetta lítur vel út á skjánum. Það er auðvelt að ímynda sér að eftir nokkra áratugi eða hundruði ára eða svo þá gæti þessi heimur ósjálfrátt hægt og rólega byrjað meira að líkjast því sem maður sá í Horizon Zero Dawn leiknum frá Guerilla Games.

Seattle borg er í rústum og náttúran vinnur hart að endurheimta hana.

Talsetning leiksins er einn af sterkustu hlutum hans. Troy Baker og Ashley Johnson snúa aftur sem Joel og Ellie og standa þau bæði sig mjög vel, sérstaklega Ashley sem Ellie sem heldur leiknum og sögunni uppi að stórum hluta. Hennar leikur er frábær og án hennar væri Ellie ekki jafn forvitnileg og flókin persóna. Shannon Woodward úr Westworld leikur Dina, vinkonu og síðar kærustu Ellie, og hún kemur með hlýju og hjarta í annars mjög dökka og blóðuga sögu. Ashley Burch úr Horizon Zero Dawn, Life is Stange og Borderlands er mjög góð sem Mel og síðan dúkkar upp leikarinn Jeffrey Wright sem WLF leiðtoginn Isaac. Erfiðasta hlutverkið á þó raddleikkonan þekkta, Laura Bailey sem Abby. Hennar persóna og ferðalag er vægast sagt erfiðleikum háð og óþægileg upplifun fyrir marga og eitthvað sem virðist hafa farið illa í lítinn hóp netverja.

Seraphites eru forvitnileg fylking í Seattle borg.

Að segja að TloU2 sé fallegur leikur að sjá þrátt fyrir alla eyðilegginguna er hreinlega ekki nógu sterkt tekið til orða. Að sjá leikinn í 4K sjónvarpi með HDR litastuðningi er á köflum meiriháttar upplifun og hvað er hægt að kreista úr bæði PlayStation 4 og PS4 Pro er magnað. Hönnun og hreyfingar persóna leiksins eru einnig nákvæmari en áður og andlitshreyfingar þeirra og svipir hjálpa mikið að draga þig inn í söguna og heiminn. Vinnan sem hefur verið lögð í leikinn og heiminn er eitthvað sem þú sérð í nær öllum hlutum TloU2. Frá því hvernig reipi hagar sér þegar þú notar það, hvernig gler brotnar, rigningin í Seattle og hvernig hún fellur á umhverfið til persóna og bygginga er með því flottara sem til er í dag.

Tónlist leiksins er á frumsamin af Gustavo Santaolalla og skapar hún að miklu leyti andrúmsloftið í leiknum og veldur oft gríðarlegri spennu á vissum köflum leiksins.

Leikurinn keyrir í 1080p upplausn á PS4 og 1440p á PS4 Pro og gerir það einstaklega vel. Ég varð var við litla sem engar villur á mínum 22 tímum sem það tók mig að klára leikinn. Það helsta sem ég tók eftir á vissum köflum var „checker-board“ mynstur sem hefur eitthvað að segja um hvernig leikurinn skalar upp grafíkina. Þetta verður vonandi ekki í væntanlegri PS5 útgáfu leiksins, ásamt kannski að hafa möguleika að keyra leikinn í hærri rammahraða.

Einn af betri bardagahlutum leiksins neðanjarðar.

Það er meira lagt upp úr uppfærslu-hluta leiksins núna og er flott að sjá Ellie taka í sundur vopn við bekki til að uppfæra þau. Allt hjálpar þetta til að gera heiminn sem þú spilar í raunverulegri og trúverðugri að mestu leyti (fyrir utan skrímslin). Hæfileikatré leiksins býður uppá góða fjölbreytni og leikstíla sem henta flestum og er leikurinn ekki mikið að krefjast þess að þú spilir hann á vissa vegu. Þar er óvænt að heyra óvini leiksins kalla nöfn vina sinna sem Ellie er búin að ganga frá og kalla á liðsauka. Scar óvinirnir nota blísturskerfi sem er einhvernveginn óhugnanlegra og hjálpar mikið að spila með heyrnartól í mörgum hasarhlutum leiksins.

Veðrið er mikill hluti af leiknum og er ótrúlegt að sjá hvað hefur verið lagt í það.

Borð leiksins eru tvöfalt til þrefalt stærri enn áður og eru fjölbreyttari í því hvernig þú getur tæklað þau. Það er líka meira um að þú þurfir að hugsa um hættur sem koma úr háum byggingum ásamt því að gæta þess hvað leynist í háa grasinu. Þetta er einmitt eitt af því sem útvíkkar spilun leiksins og bíður uppá meira frelsi í því hvernig þú getur nálgast bardaga leiksins. Ellie kann loksins að synda og kemur það að góðum notum í vissum hlutum leiksins.

Einn af flottari hliðum leiksins er miðbær Seattle sem er hálf opið svæði sem Ellie getur kannað með Dina. Það er fín fjölbreytni og brýtur upp drunga leiksins en verst að þetta er bara í byrjuninni og síðar ekkert meir. Mest stressandi hlutar leiksins fyrir mig voru líklega þegar maður var að reyna komast niður á jarðhæð af risa eyðilögðu háhýsi, sem virtist varla geta staðið lengi uppi og var auk þess fullt af skrímslum

Naughty Dog eiga mikið hrós skilið fyrir þá aðgengi möguleika sem leikurinn er með. Allt frá stillingum fyrir litblinda yfir í þá sem eru sjóndaprir eða heyra illa til þeirra þá sem eiga erfitt með vissa hluti t.d. þegar þarf að ýta á takka á fjarstýringunni mjög hratt. Auðvelt er að sérsníða leikinn fyrir þig bæði upp á aðgengi- og erfiðleikastillingu. Þetta er eitthvað sem alltof margir leikjaframleiðendur gera ekki nógu vel.

Þetta er eitthvað sem má vera í fleiri leikjum.

Meiri áhersla er lögð á átök á milli manneskja en í fyrri leiknum með misgóðum árangri. Spilar það inn í þau þemu sem leikurinn reynir að hitta á, þó ekki alltaf vel. Hatur, hringrás ofbeldis, grimmd, sorg, reiði, fyrirgefning og endurlausn. Þetta er allt hlutir sem koma við í sögu leiksins og eru ekki alltaf nógu vel skrifaðir að mínu mati. Stundum gera persónur leiksins hluti sem lætur þig hreinlega kalla á skjáinn. Þetta er annað hvort svo heimskulegt og gegn þeirra karakter eða ósamræmi við þeirra valkosti og þú átt erfitt með sjá þau fara niður svona dökkan dal. Upprunalegi TloU tók um 15 tíma að klára og náði að vera fínt jafnvægi á milli sögu og spilunar. Til samanburðar þá er TloU2 um 25 tímar og á köflum fannst manni hann mega vera styttri eða betur slípaðri. Það jaðraði við nokkurs konar Lord of the Rings: Return of the King augnablik í lokin þar sem sagan virtist enda nokkrum sinnum.

Saga leiksins staldrar við lengra en hún ætti að mínu mati. Í staðinn heldur sagan áfram og virðist vilja taka hlutina enn lengra og maður starir bara á skjáinn og vill ekki alltaf sjá hvað er að fara að gerast. Þetta er erfiðara þegar þú ert að spila leikinn í stað þess að horfa á eitthvað gerast á skjánum. Þessi breyting að vera sjá eitthvað gerast, í staðinn að spila það, breytir hvernig maður upplifir þetta. Mér leið illa á köflum og hreinlega klæjaði í skinnið og var ekki viss á köflum hvort ég gæti eða vildi halda áfram. En þannig er oft lífið sjálft og maður þarf að fara alla leið til að sjá hvernig hlutirnir enda.

Saga leiksins fer á dimmar slóðir og maður er ekki alltaf sáttur við það.

Ég get ekki sagt að ég sé sáttur við allt sem gerðist í TloU2 en ég get dáðst af því sem hann reynir að gera, heiminn sem hann skapar og upplifunina. Stóru „set pieces“ leiksins eru ótrúleg og fá hjartað til að slá hraðar. Mér brá oft og ég vissi ekki hvert hlutirnir væru að fara.

Leikurinn virðist stundum vilja dvelja of mikið í þeim dimma og blóðuga stað sem hann er á og það er minna um bjartari og uppálífgandi hluti en áður og þegar það er í boði virðist eins og persónurnar hreinlega vilji þá ekki. Þetta er reyndar gallinn oft við hatrið og það sem gerir það erfitt að sleppa því, því lengur sem þú heldur í það, byrjar það að eitra þig og þína persónu og áhættan er að þú getur glatað þér og öllu sem þér þykir vænt um ef þú ferð of langt.

Það er minna um skrímslin núna, en nýjar gerðir hrella mann, og Clickers eru enn hryllingur.

Það var erfitt að horfa á suma hlutina sem Ellie gerir í leiknum og manni fannst samt of langt gengið og verið að spila hreinlega uppá „sjokkið“ í stað þess að vera hluti af hennar persónulegu ferðalagi. Kannski átti þetta að vera viss andstæða við aðrar persónur í leiknum, en þetta hittir bara ekki í mark og maður varð pínu pirraður út í Ellie og höfunda leiksins þess í stað.

Ég vona að þeir sem hafa lesið eitthvað það sem lak á internetið um leikinn fyrir útgáfuna láti það ekki hafa áhrif á spilun leiksins og ekki heldur þær krókaleiðir sem sagan fer. Án þess munið þið missa af miklu og að sjá PlayStation 4 tölvuna enda líftíma sinn á stórum leik. Það er mikilvægt að mynda sér sína eigin skoðun í stað þess að láta aðra gera það.

Það er spurning hvort að það verður gefið út niðurhalsefni fyrir leikinn eða ekki. Það var gott að þeir slepptu óþarfri fjölspilun í þetta sinn, ég er vel til í DLC sem gerist eftir sögu leiksins og klárar vissa óuppgerða sögukafla TloU2 að mínu mati. Annars er bara að vonast eftir The Last of Us Part 3 eftir nokkur ár á PlayStation 5 og aðeins betra handriti í þetta sinn.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑