Gagnrýni

Birt þann 15. apríl, 2020 | Höfundur: Steinar Logi

Nioh 2 er tæknilega fullkomnari en fyrirrennari sinn

Nioh 2 er tæknilega fullkomnari en fyrirrennari sinn Steinar Logi

Samantekt: Sería sem sækir áhrif sín til Souls en hefur haft áhrif á Sekiro og líklega Ghost of Tsushima

4

Mjög góður


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Undirritaður hefur sjaldan séð framhaldsleik sem fylgir eins mikið formúlu fyrri leiks þrátt fyrir að það hafi verið ansi margir sambærilegir leikir síðustu ár og áratugi. Eftir að hafa lesið aftur gagnrýni mína frá 2017 fyrir upprunalega leikinn Nioh þá finnst mér flest þar passa við þennan líka. Þú sérð meira að segja sömu gömlu svæðin úr fyrri leiknum í nokkrum hliðarverkefnum. Það þýðir ekki að leikurinn sé slæmur bara en ef þú hafðir ekki gaman af fyrri þá gildir það sama hér. Fyrir okkur hina þá er þetta ágætis leikur sem endist vel.

Þar sem Nioh 2 er í raun betrumbætt útgáfa af Nioh þá ætla ég ekki að fara út í bardagakerfið eða uppbyggingu sögunnar því að hún er í grundvallaratriðum eins. Það er sumt nýtt og það helsta er að verndarandarnir (guardian spirits) geta núna haft aukaárásir sem þú getur safnað og styrkt í gegnum leikinn. Þetta kallast „soul cores“ og eru hlutir sem koma frá óvinum endrum og eins. Hver óvinur í leiknum hefur „soul core“ og við fáum í raun aðalárásina þeirra. Þetta bætir við strategíu við leikinn t.d. ef þú notar sálarkjarnann frá ákveðnum fljúgandi óvini þá ertu með aukaaðferð til að sleppa frá óvinum með því að fljúga upp í loftið. Stóru bardagarnir (bosses) eru líka með þetta og margt frá þeim er mjög öflugt. Allt þetta auðvitað takmarkað og þú ert með svokallað takmarkað „Anima charge“ sem þú notar fyrir áðurnefnt ásamt mótárás sem kallast „burst counter“ og er eins og í Souls-leikjunum mótbragð sem þarf að tímasetja vel. Í fyrri leiknum þá voru verndarandarnir verulega öflugir í þann stutta tíma sem maður gat notað fulla orku þeirra en mikið hefur verið dregið úr þeim, núna notaði ég þetta aðallega til að bjarga mér úr slæmum aðstæðum.

Það er greinilegt að við hönnun Nioh 2 þá hefur verið dregið úr alls konar óþarfa pirringi eins og hið alræmda vatnasvæði (þar sem maður var að detta ofan í vatnið aftur og aftur) með Umi-Bozu bardaganum. Það eru enn hættur en ekki eins svínslegar. Maður átti það líka til að villast í gamla leiknum en hérna eru svæðin betur hönnuð að því leyti. Hann hikstar líka ekkert eins og fyrri leikurinn og er mjög hraður á allan hátt. Tæknilega og hönnunarlega séð er Nioh 2 semsagt mun betri en Nioh. Gallinn er að „loot“ kerfið er nánast alveg eins og mjög fljótlega þarf maður að vesenast í að selja, brjóta niður eða gefa hundruðir hluta.


Hver óvinur í leiknum hefur „soul core“ og við fáum í raun aðalárásina þeirra

Erfiðleikastigið er álíka en það er aðallega í byrjun og fyrir óvana spilara þá geta sumir bardagarnir verið mjög erfiðir en maður hefur meiri möguleika á alls konar tilraunastarfsemi og hægt er að fá aðstoð annarra spilara eða tölvustýrðra spilara (sem er nýjung í þessum leik). Að þessu leyti er hann auðveldari og eftir að hafa klárað hann þá verður hann nánast eins og Diablo þar sem þú tætir þig í gegnum óvini.


Það er greinilegt að við hönnun Nioh 2 þá hefur verið dregið úr alls konar óþarfa pirringi

Atburðir Nioh 2 gerast fyrir Nioh og núna ertu ekki ákveðin persóna (eins og bláeygði samúræjinn William úr fyrri leiknum), heldur hver sem þú vilt og þú berð einfaldlega nafnið „Protagonist“ eða aðalpersóna. Þú talar aldrei sem mér hefur alltaf fundist vandræðalegt í leikjum, sérstaklega þegar allir eru að dásama þig en í staðinn færðu mjög öflugt tól til að búa til hanna hvernig útlit (og hvaða kynþátt og kyn) sem þú vilt.

Upprunalegi Nioh hafði langt líf umfram það að klára hann í fyrsta sinn og það sama er hér. Það er „metaleikur“ eftir aðalleikinn og hægt er að hafa gaman af því að gera hina fullkomnu Ninju, eða öflugan stríðsmann sem sérhæfir sig í tveimur öxum (hatchets) osfrv. Margir vilja meina að eftir að hafa klárað hann einu sinni þá byrji leikurinn fyrir alvöru. Það er ekki bara eitt NG+ heldur nokkur og alltaf færðu betri og betri græjur og óvinir verða erfiðari. Team Ninja eru þegar með þrjár stórar niðurhalsviðbætur á kantinum.


Margir vilja meina að eftir að hafa klárað hann einu sinni þá fyrst byrjar leikurinn fyrir alvöru

Það er ekki mikið meira hægt að segja um Nioh 2; ef þú hafðir gaman af fyrri og klæjar í fingurna eftir álíka bardagakerfi þá svíkur hann ekki. Hann er líka tæknilega betri en sá fyrri en er í grundvallaratriðum sami leikur. Mæli sérstaklega með honum ef þú vilt endingargóðan leik.


Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑