Leikjarýni

Birt þann 17. nóvember, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Spider-Man: Miles Morales – Sama formúla sett í betri búning

Spider-Man: Miles Morales – Sama formúla sett í betri búning Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Byggir á sömu formúlu og fyrri Spider-Man leikur. Skemmtilegur í spilun en fáir spennandi nýjunga.

4

Góður


PlayStation 5 leikjatölvan er nýkomin á markað og er Spider-Man: Miles Morales einn af stóru útgáfuleikjum tölvunnar, en leikurinn er einnig fáanlegur á PS4.

Í leiknum kynnumst við Miles Morales sem, líkt og Peter Parker, var bitinn af erfðabreyttri könguló og öðlast svipaða ofurkrafta og Spider-Man. Þessi gagnrýni miðast við PS5 útgáfu leiksins.

Miles leysir Peter af

Í Marvel-leiknum Spider-Man: Miles Morales fylgjum við hetjunni Miles Morales sem hefur öðlast sambærilega krafta og Peter Parker sem er upprunalegi Spider-Man.

Í Marvel-leiknum Spider-Man: Miles Morales fylgjum við hetjunni Miles Morales sem hefur öðlast sambærilega krafta og Peter Parker sem er upprunalegi Spider-Man. Peter hefur þjálfað Miles sem skortir þó enn þá miklu reynslu sem Peter hefur sem ofurhetjan Spider-Man. Þegar Peter ákveður að yfirgefa borgina til að sinna sinni heittelskuðu kærustu tekur Miles sjálfkrafa við hlutverki Spider-Mans. Roxxon Energy Corporation og hátækni glæpagengi sem kallar sig Underground hafa skapað mikinn ófrið og ótta í borginni og er það í höndum Spider-Mans að rannsaka hvað liggur þar að baki og koma á friði.

Spider-Man í nýjum búningi

Sagan er nokkuð góð og nær að halda spilaranum áhugasömum. Myndbrotin (cut-scenes) í leiknum eru mjög flott og talsetningin á pari við Hollywood kvikmynd. Nadji Jeter rænir senunni sem rödd Miles Morales enda algjör reynslubolti í því hlutverki. Nadji leikur Miles Morales í Spider-Man sjónvarpsþáttunum og hefur auk þess lánað Miles rödd sína í eldri leikjum; Marvel Ultimate Alliance 3: The Black Order, Spider-Man: The City That Never Sleeps og síðast en ekki síst Spider-Man.

Manhattan í kvöldsólinni

Í borginni er að finna skemmtilega mikið af smáatriðum, lifandi umhverfi, breytilegt veður með gullfallegri kvöldsól og næstu kynslóðar leikjatölvugrafík.

Það fyrsta sem tekur á móti spilaranum er Manhattan-eyja í New York. Í borginni er að finna skemmtilega mikið af smáatriðum, lifandi umhverfi, breytilegt veður með gullfallegri kvöldsól og næstu kynslóðar leikjatölvugrafík. Manhattan er skipt niður í nokkur minni svæði sem hafa sín einkenni, þar á meðal er að finna Financial District, Midtown, Central Park, Upper East Side og Harlem. Manhattan er þéttbyggð og fjölmenn borg þar sem auðvelt er fyrir Spider-Man að finna byggingar til að klifra á eða sveifla sér á milli.

Útsýnið frá Manhattan

Í Manhattan fær spilarinn að velja á milli þess að fylgja aðalsöguþræði leiksins óhindrað eða taka að sér fjölbreytt aukaverkefni eins og að stöðva glæpi, æfa bardagafimi sína eða koma sér eins hratt á milli staða og kostur er. Einnig er að finna ýmsa safngripi (collectibles) um alla borg og geta sum þeirra eflt krafta Spider-Mans. Inn á milli verkefna getur verið skemmtilegt að skoða sig um í borginni, sveifla sér á milli bygginga á ógnarhraðar og leika listir sínar í loftinu eða jafnvel taka nokkrar sjálfur en myndavélakerfi leiksins býður upp á marga möguleika eins og sjálfur, filtera (líkt og þekkjast á samfélagsmiðlum) og val á milli sjónarhorna svo eitthvað sé nefnt.

Ein sjálfa fyrir samfélagsmiðlana!

Vel heppnað bardagakerfi

Auðvelt er að mynda gott flæði í bardögunum þar sem Spider-Man blandar saman bardagastíl sínum með vef-tilþrifum og ofurkröftum en Miles Morales er gæddur þeim ofurkröftum að geta gefið frá sér öflugan straum sem getur skaðað óvini.

Bardagakerfið í leiknum er mjög gott og sambærilegt því sem er að finna í Spider-Man leiknum frá árinu 2018. Auðvelt er að mynda gott flæði í bardögunum þar sem Spider-Man blandar saman bardagastíl sínum með vef-tilþrifum og ofurkröftum en Miles Morales er gæddur þeim ofurkröftum að geta gefið frá sér öflugan straum sem getur skaðað óvini. Spider-Man getur notað hluti úr umhverfinu, eins og ruslatunnur og slökkvitæki, til að kasta í óvini og myndast mjög góð dýnamík í bardögunum þar sem þeir eru ákaflega lifandi og fjölbreyttir.

Þegar Miles klárar verkefni öðlast hann reynslustig sem styrkir hann. Með sama hætti öðlast hann reynslupunkta (skill points) sem notaðir eru til að læra nýja hæfileika eða efla eldri hæfileika í gegnum hæfileikatré leiksins.

Flottur en ekki ferskur

Spider-Man: Miles Morales er þrususkemmtilegur leikur og fylgir mjög svipaðri formúlu og fyrri Spider-Man leikur.

Spider-Man: Miles Morales er þrususkemmtilegur leikur og fylgir mjög svipaðri formúlu og fyrri Spider-Man leikur. Ending leiksins er nokkuð góð en það tekur eitthvað í kringum átta klukkutíma að klára aðalsöguþráð leiksins en auk þess býður Manhattan upp á fjölmörg hliðarverkefni og tvöfaldast líftími leiksins við það að leysa þau öll. Bardagakerfið er mjög gott og fátt skemmtilegra en að sveifla sér frjálslega á milli staða í borginni. Miles og Parker eiga margt sameiginlegt en eru sömuleiðis ansi ólíkir og má segja að Miles glæði Spider-Man nýju lífi með framkomu sinni og loftfimi í leiknum.

Sama formúla – nýr búningur

Leikurinn er góður en á móti er fátt ferskt að finna í leiknum.

Leikurinn er vel slípaður og gaman að sjá hvernig leikurinn kemur út á PS5 leikjatölvunni og eflaust margir nýir PS5 eigendur sem eiga eftir að kaupa þennan með nýju tölvunni. Leikurinn er góður en á móti er fátt ferskt að finna í leiknum. Jú, hleðslutíminn er mjög svo stuttur (aðeins tvær sekúndur líkt og kom fram í PS5 umfjöllun okkar), útlitið tilheyrir næstu kynslóð leikjatölva og Miles er skemmtileg útgáfa af Spider-Man en leikurinn býður upp á heldur fáa nýjungar og áhugaverða möguleika varðandi spilun. Ef þú hafðir gaman af Spider-Man frá 2018 og vilt meira af því sama þá hittir Spider-Man: Miles Morales beint í mark. Það má því segja að leikurinn byggi á sömu formúlu en er í betri búning – líkt og Morales!

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑