Birt þann 19. júní, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins
0E3 2015: Allt það helsta frá E3 tölvuleikjasýningunni
E3 tölvuleikjasýningunni lauk í dag og höfum við á Nörd Norðursins staðið vaktina og fylgst með því helsta sem hefur verið að gerast. Stóru leikjafyrirtækin heldur kynningarfundi fyrir E3 þar sem þau kynntu hvað er framundan í leikjaheiminum. Bethesda, Sony og Microsoft voru með ansi öflugar kynningar með nokkrar stórar fréttir. Mesta púðrið hjá Bethesda fór í að kynna Fallout 4 sem er væntanlegur 10. nóvember á þessu ári. Þeir kynntu einnig sérstaka safnaraútgáfu með Pip-Boy í raunverulegri stærð sem virkar með svipuðum hætti og í leiknum með aðstoð snjallsíma. Gripurinn var fljótur að seljast upp í forpöntun og er uppseldur eins og staðan er í dag. Fyrirtækið kynnti einnig nýjan Doom leik sem lítur skuggalega vel út.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi Bethesda
Þær gleðifréttir bárust frá kynningarfundi Sony að farið væri að vinna í Final Fantasy 7 endurgerð, en upprunalega útgáfa leiksins er einnig væntanleg á PS4 í vetur. Enginn útgáfudagur er kominn á endurgerðina en hún mun koma fyrst út á PS4 (og svo væntanlega fleiri gerðir tölva). Leikirnir The Last Guardian og Shenmue III eru einnig á vinnslustigi og væntanlegir á PS4. Guerrilla Games (Killzone leikirnir) kynntu nýjan leik á Sony kynningunni sem ber heitið Horizon: Zero Dawn. Í leiknum mætir tækniöld fornöld á ansi áhugaverðan hátt. Einnig var stuttlega talað um Project Morpheus, VR-gleraugun fyrir PS4, og eru tveir VR leikir frá íslenskum fyrirtækjum væntanlegir á PS4; EVE: Valkyrie frá CCP og Godling frá Sólfar Studios.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi Sony
Microsoft sýndi demó úr hvernig Minecraft virkar með HoloLens græjunni sem fyrirtækið er að þróa. HoloLens er einskonar samblanda af Google Glass og hefðbundnum VR-gleraugum, en með þeim geturu séð raunheima og sýndarheima mætast. Demóið var mjög flott og verður áhugavert að fylgjast með hvernig VR tæknin mun þróast á komandi árum. Microsoft tilkynnti svo að Xbox One eigi eftir að styðja gamla Xbox 360 leiki, mörgum til mikillar gleði. Á kynningunni voru leikirnir Halo 5, Recore, Dishonored 2 og Forza 6 kynntir til sögunnar með sýnishornum.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi Microsoft
Tölvuleikjarisinn EA kynnti nokkra áhugaverða leiki sem eru væntanlegir frá fyrirtækinu. Sigurlína Ingvarsdóttir, framleiðandi hjá DICE, mætti á sviðið og kynnti Star Wars Battlefront sem lítur rosalega vel út. Sýnd voru sýnishorn úr nokkrum öðrum leikjum, má þar nefna Mirror’s Edge, Unravel, Mass Effect: Andromeda og Need for Speed.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi EA
Ubisoft byrjaði á því að kynna nýjan South Park leik; South Park: The Fractured but Whole. Fyrri leikurinn, The Stick of Truth, náði miklum vinsældum en í þessum nýjasta leik fara Cartman og félagar í ofurhetjubúningana. Fyrirtækið kynnti einnig nýjan leik sem heitir For Honor en þar geta spilarar slegist saman gegn öðrum spilurum sem samúræjar, víkingar eða riddarar. Ný sýnishorn voru sýnd úr Ghost Recon Wildlands, Assassin’s Creed Syndicate, The Division, Rainbow Six Siege og fleiri leikjum.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi Ubisoft
Kynningarfundir Square Enix og Nintendo ráku lestina með lítið af stórum fréttum. Endurgerð Final Fantasy 7 hafði áður verið tilkynnt á kynningarfundi Sony og sýndi Square Enix sömu kítlu og Sony. Áhugaverðustu titlarnir hjá Square Enix voru Just Cause 3, Kingdom Hearts 3, Tomb Raider, Deus Ex og Hitman – að undanskildum FF7.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi Square Enix
Það var furðu hljótt á Nintendo kynningarfundinum og fáar stórar fréttir. Fyrirtækið kynnti meðal annars Star Fox Zero á Wii U leikjatölvuna, ofurkrúttlega leikinn Yoshi’s Woolly World og Super Mario Maker sem gerir spilurum mögulegt að búa til Mario Bros. Það mátti skynja á umræðunni í íslenska hópnum Nintendo á Íslandi á Facebook að íslenskir Nintendo spilarar hafi ekki verið neitt mjög sáttir með kynninguna í ár.
Tengt efni: Allt það helst frá E3 kynningarfundi Nintendo
Á heildina litið fengum við nóg af áhugaverðum fréttum og augljóslega margt spennandi að farað gerast í leikjaheiminum á komandi mánuðum. Gaman vara að sjá Íslendinga áberandi á kynningarfundunum, Sigurlínu hjá DICE og leikina frá CCP og Sólfar Studios. VR var nokkuð áberandi á hátíðinni og nokkuð öruggt að leikjaheimurinn eigi eftir að þróast og þroskast í náinni framtíð með möguleikum VR gleraugna.
E3 2016 verður haldið eftir 361 daga, nánar tiltekið 14.-16. júní á næsta ári.
Yfir og út.
Höfundur er
Bjarki Þór Jónsson