Leikjarýni

Birt þann 27. júní, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Witcher 3

Leikjarýni: Witcher 3 Nörd Norðursins

Samantekt: Þrátt fyrir smávægilega tæknilega vankanta þá er þetta meistaraverk og ætti að verða jafn langlífur og Skyrim.

4.5


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Steinar Logi Sigurðsson skrifar:

Sá sem fann upp orðatiltækið „betra seint en aldrei“ hafði líklega ekki leikjagagnrýni nú til dags í huga. En það góða er að nú er undirritaður búinn að spila Witcher 3 (PS4) algerlega í gegn ásamt talsverðu af aukadóti og ég get staðfest það að leikreynslan er ekki fullkomin nema að hafa spilað Geralt með „soul patch“ og „grunge“ hárgreiðslu. CD Projekt RED hafa verið með hreint frábæran stuðning við leikinn frá útgáfu og þessar hársnyrtingar ásamt öðru efni er að koma út í  hverri viku. Dembum okkur í gagnrýnina út frá stöðunni í dag en hún verður í styttra lagi þar greinin Fyrstu hughrif: The Witcher 3 var nokkuð nærri lagi hvað varðar lokagagnrýni.

Í fyrsta lagi þá ber að hrósa sögunni því að hún er góð frá upphafi til enda og fyrsti hlutinn er einn sá besti sem maður hefur upplifað í tölvuleik (Blóðugi Baróninn). Á mörgum stöðum hefði verið hægt að stytta sér leið, afgreiða eitthvað á fljótsoðinn hátt eins og maður er reyndar vanur í mörgum tölvuleikjum en það var hreinlega ekki gert. Sagan var sterk og athyglisverð allan tímann.

Raddsetning er til fyrirmyndar og Geralt sjálfur, talsettur af Doug Cockle, er fínn með sína hrjúfu rödd og þurra húmor en raddleikararnir fyrir Yennefer, glæsilega seiðkvendið (Denise Gough) og Baróninn (James Clyde) fannst mér bera af. Tónlistin er einnig mjög góð og passar einstaklega vel við þennan heim. Eitt lag er mjög eftirminnilegt sem er flutt af söngkonu í leiknum sjálfum og minnir mann á Leliana’s song í fyrsta Dragon Age Origins.

Witcher3_01

Þrátt fyrir að CD Projekt RED hafi verið duglegir að laga leikinn með uppfærslum þá er sumt sem hefði mátt betur fara, það sama og ég fór yfir í hughrifagreininni um Witcher 3. Það að halda utan um alla hluti sem maður sankar að sér er einfaldlega of kaotískt og vonandi verður það lagað í framtíðinni. Það er stórfurðulegt að geta ekki raðað eða leitað eftir ákveðnum hlutum. Einnig er hleðslutíminn ansi langur og leikurinn hikstar stundum á PS4. Það að stýra Geralt og sérstaklega hestinum hans er ansi pirrandi stundum og maður festist t.d. ósjaldan í einhverjum smágreinum. En þetta eru smáar fórnir fyrir frábæran leik.

Witcher3_04

Það er litlu að bæta við fyrri umsögn mína um bardagakerfið, það þjónar sínu hlutverki ágætlega og það er skemmtilegt að þurfa að kanna veikleika skrímslanna fyrir stóra bardaga (höfðar til Dark Souls aðdáandans í mér). Það hefði kannski verið betra að hafa verkefnin alltaf áskorun, sama hvaða styrkleikastig maður er kominn á en leikurinn lætur þig samt vita hvað er of auðvelt og hvað of erfitt. Þetta er kannski fórnin við að klára flest aukaverkefni en þau eru bara svo skemmtileg sem er enn ein fjöðurinn í hnappagat CD Projekt RED. Þetta er einn meginmunurinn fyrir mitt leyti á Dragon Age: Inquisition og Witcher 3 – aukaverkefnin verða hrikalega leiðingjörn í DA:I en það er greinilegt að það er mun meiri vinna á bak við þau í Witcher 3. DA:I er frábær leikur en Witcher 3 er frábær OG maður á eftir að spila hann aftur í framtíðinni.

Witcher3_02

Leikjaheimurinn er risastór og á bara eftir að stækka eftir því sem líður á því að CD Projekt RED er alltaf að bæta við hann efni (ókeypis eins og er enn stærri viðbætur í framtíðinni gætu kostað eitthvað). Allt umhverfið er glæsilegt hvort sem það er sjórinn og öldurnar, stór snævi þakin fjöll eða borgirnar. Andlitin eru mjög vel gerð og það er hægt að greina tilfinningar söguhetjanna bara út frá andlitssvipum og oft á mjög fágaðan hátt, líkt og LA Noire gerði um árið. Stundum er samt skrýtið að sjá nákvæmlega sömu andlit á mismunandi persónum (glöggir eru t.d. búnir að finna nokkra tvífara Michael Cera í leiknum).

Þrátt fyrir smávægilega tæknilega vankanta þá er þetta meistaraverk og ætti að verða jafn langlífur og Skyrim sérstaklega ef „modding“ samfélag PC kemst á skrið.

 

GALLAR KOSTIR
 

> Ekki alveg tæknilega fullkominn, langir hleðslutímar, leikurinn getur hægt á sér og einstaka böggar. Ekkert samt sem er óeðlilegt miðað við stærð leiksins.

> Hefði mátt vera notandavænni (inventory) og stýringin aðeins betri (hesturinn og það að synda).

 

 

 

 

> Besti hlutverkaleikur á markaðinum í dag og um ókomnar stundir (alla vega þar til 10. nóvember).

> Lítur glæsilega út og öll hljóðvinnsla er frábær, greinilega mikið lagt í hann.

> Fjölbreytilegur, það er hægt að vinna í mismunandi hlutum (spil, fjársjóðsleit, skrímslaveiðar, aðalsöguþráðurinn, aukaverkefni eða bara skoða sig um).

> Góð ending og endurspilun.

 

 

Einkunn: 4,5 af 5

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑