Greinar

Birt þann 9. nóvember, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

PlayStation 5 umfjöllun

Þá er komið að því! PlayStation 5 leikjatölvan frá Sony er væntanleg til landsins fimmtudaginn 19. nóvember!

Tölvan tilheyrir níundu kynslóð leikjatölva og er arftaki PlayStation 4 leikjatölvunnar sem hefur notið mikilla vinsælda og er í fjórða sæti yfir mest seldu leikjatölvur allra tíma (Statista). Erlendis hafa Sony og Microsoft barist hart um hylli viðskiptavina þar sem Xbox Series X og Series S, níunda kynslóð leikjatölva frá Microsoft, kemur í verslanir þann 10. nóvember næstkomandi sem þýðir að báðar leikjatölvurnar koma út á mjög svipuðum tíma, eða korter í jól.

Tölvan tilheyrir níundu kynslóð leikjatölva og er arftaki PlayStation 4 leikjatölvunnar sem hefur notið mikilla vinsælda og er í fjórða sæti yfir mest seldu leikjatölvur allra tíma.

Mikil óvissa hefur ríkt um stöðu Xbox á Íslandi í lengri tíma þar sem ekkert fyrirtæki er með umboð fyrir tölvurnar hér á landi. Á sama tíma hefur Sena, umboðsaðili PlayStation á Íslandi, sinnt sínum markaði vel. Sömuleiðis sjáum við almennt í íslenskum verslunum fjölbreytt úrval af PlayStation vörum á meðan að í Xbox-deildinni er afskaplega takmarkað framboð.

Útgáfudagur nýju Xbox leikjatölvunnar er sem áður sagði 10. nóvember á heimsvísu – ekkert hefur þó bólað á tölvunum hér á landi og engar íslenskar verslanir hafa boðið upp á forsölu. Þær verslanir sem við nördarnir heyrðum í segja að Xbox Series X/S eigi að öllum líkindum ekki eftir að vera fáanlegar í íslenskum verslunum fyrr en einhvern tímann eftir áramót, nákvæmari tímasetningu geta þeir ekki gefið. Útgáfudagur PlayStation 5 á Íslandi er sá sami og annars staðar, eða 19. nóvember, fyrir utan í Bandaríkjunum, Bretlandi og nokkrum öðrum völdum stöðum þar sem útgáfudagur er viku fyrr. Gamestöðin, Elko, Tölvutek, Vodafone og fleiri verslanir buðu upp á sérstaka forsölu þar sem öll eintök seldust upp á örfáum klukkutímum.

Það má því segja að Ísland sé PlayStation-land. Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Sony, kom okkur Íslendingum á bragðið með fyrstu PlayStation tölvunni. Skortur á Xbox vörum og þjónustu í bland við öflugt úrval af PlayStation varningi hefur orðið til þess að flestir íslenskir leikjatölvueigendur hafa haldið sig við PlayStation á meðan lítið fer fyrir Xbox tölvunum. Xbox Series X/S eru nefnilega virkilega spennandi leikjatölvur og synd að þær fái ekki meiri athygli hér á landi en raun ber vitni.

Tvær útgáfur af PlayStation 5 eru í boði: PS5 og PS5 Digital Edition

En aftur að PlayStation 5! Tvær útgáfur eru í boði af PS5 – annars vegar útgáfa með Ultra HD Blu-Ray diskadrifi fyrir tölvuleiki og mynddiska og hins vegar útgáfa sem er án diskadrifsins og kallast sú útgáfa Digital Edition. Eini munurinn á þessum tveimur útgáfum er þetta diskadrif þar sem vélbúnaðurinn (krafturinn undir húddinu) er nákvæmlega sá sami. Xbox Series X og S innihalda aftur á móti mismunandi vélbúnað þar sem Series S er nokkuð kraftminni en Series X.

Hér skal tekið fram að þessi umfjöllun miðar við PS5 fyrir opinbera útgáfu og geta sum atriði breyst á útgáfudegi án fyrirvara. Sömuleiðis eru nokkrir möguleikar á PS5 sem verða ekki fullvirkir fyrr en á útgáfudegi og verður þess vegna lítið eða ekkert fjallað um þá.


KASSINN OPNAÐUR

Þvílík spenna að fá kassann í hendurnar!

Undanfarna mánuði höfum við leikjanördarnir hjá Nörd Norðursins rætt fram og til baka um þetta furðulega hvíta geimskip í Leikjavarpinu og nú er kassinn hér – beint fyrir framan mig! Þrátt fyrir að vera kominn á fertugsaldurinn kitlar fátt mig jafn mikið og ný leikjatölva. Tölva sem mun hafa bein og óbein áhrif á hvernig tölvuleikir framtíðarinnar eiga eftir að virka og líta út.

PS5 kassinn er stór! Hann er vígalegur, stílhreinn og nokkuð þungur.

Fyrsta hugsunin sem hoppaði í hausinn á mér þegar ég sá kassann var bara – Váááá! PS5 kassinn er stór! Hann er vígalegur, stílhreinn og nokkuð þungur. Við birtum myndband (sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan) af því þegar ég opnaði kassann og skoðaði innihaldið. Ráðlagt er að fara eftir leiðbeiningum sem fylgja kassanum. Það er að segja – setja kassann upp á borð og leggja hann svo niður svo PS5 tölvan hrynji ekki óvart í gegnum botn kassans. Passið ykkur einnig þegar þið lyftið tölvunni upp að hún er nokkuð þung og mun þyngri öðru megin sem getur valdið ákveðnu ójafnvægi ef tölvunni er lyft óvarlega upp.

Eftirfarandi hluti er að finna í kassanum: PlayStation 5 leikjatölvu, DualSense fjarstýringu, PS5 tölvustand, þrjár snúrur (rafmagnssnúru, USB-C hleðslusnúru og HDMI 2.1 snúru (sem styður 4K upplausn í 120Hz)) sem allar eru 150 sm. að lengd og að lokum bæklingar sem innihalda upplýsingar um PS5 og leiðbeiningar fyrir notendur. Og já, enn og aftur, tölvan er hjúúúúts!

Innihald PS5 kassans (á myndina vantar bæklingana)


ÚTLIT OG ÁFERÐ

Skiptar skoðanir eru um hönnun PS5 tölvunnar og hafa margir gagnrýnt útlitið og litavalið.

Að mínu mati sleppur þetta útlit fyrir horn, þó ég sé vissulega hrifnari af útliti PlayStation 4 tölvunnar sem er klassískara og minimalískt. Útlitið á PS5 venst aftur á móti furðufljótt og í dag er ég nokkuð sáttur með útlitið. Stærð tölvunnar tengist meðal annars betri kælingu sem á að skila sér í hljóðlátari tölvu. Tölvan getur staðið lóðrétt eða legið lárétt og er það val notenda að ákveða hvorn kostinn þeir kjósa en í báðum tilfellum er nauðsynlegt að nota PS5 standinn sem fylgir með tölvunni.

Þar sem tölvan er fyrirferðamikil getur verið að einhverjir nýir PS5 eigendur þurfi mögulega að endurskipuleggja sjónvarpssvæðið sitt svo tölvan komist fyrir. Stærð tölvunnar með diskadrifinu er í kringum 39 sm x 10,4 sm x 26 sm og vegur hún um 4,5 kg. Digital Edition er aðeins léttari og aðeins minni en hún er um það bil 39 sm x 9,2 sm x 26 sm og í kringum 3,9 kg. Í mínu tilfelli er ég með meira en nóg skápapláss og ákvað að hafa tölvuna upprétta þar sem mér þykir hún persónulega líta betur út þannig en þetta er smekksatriði og sömuleiðis spurning um pláss hjá hverjum og einum.

Litavalið var djarft hjá Sony en þessi hvíti litur virkar mjög vel og kemur skemmtilega á óvart.

Þegar hvíti liturinn á tölvunni og DualSense fjarstýringunni er skoðaður betur kemur í ljós að liturinn er ekki skjannahvítur heldur virðist hann innihalda gráan eða bláan undirtón sem mýkir litinn. Litavalið var djarft hjá Sony en þessi hvíti litur virkar mjög vel og kemur skemmtilega á óvart. Áferðin virkar þolsterk og trúlega lítil hætta á að tölvan eða fjarstýringin verði áberandi óhrein eða kámug, líkt og sumir óttast þegar kemur að hvítum tæknibúnaði.

Fjarstýringin er stílhrein og útlínurnar mjúkar. Þegar nýja DualSense er borin saman við DualShock 4 fjarstýringuna (PlayStation 4) þá er DualSense áberandi vandaðri fjarstýring, hún er tilkomumeiri og massívari en DualShock 4. Meira premíum ef svo má að orði komast. LED-ljósið í DualSense er lítið og nett og alls ekki of áberandi, langt frá því að vera æpandi líkt og í DualShock 4. Á fjarstýringunni er nú kominn nýr þagnartakki, eða mute-takki, þar sem hægt er að slökkva á hljóðnemanum með einföldum hætti. Í fjarstýringunni er einnig innbyggður hljóðnemi, tengi fyrir heyrnartól og USB-C hleðslutengi.


AÐ TENGJA TÖLVUNA

Einfalt er að tengja tölvuna við sjónvarp.

Rafmagnssnúran er notuð til að – já, þú giskaðir rétt – tengja rafmagn í tölvuna. Búið er að hlaða DualSense fjarstýringuna svo hægt er að byrja að nota hana og tölvuna um leið og búið er að tengja allt. HDMI-snúran sem fylgir með er heldur stutt og rétt svo dugði í mínu tilfelli. Þegar búið er að tengja tölvuna við sjónvarp og rafmagn er þrýst á PS-takkann á fjarstýringunni og voilà! Viðkunnanlegt píp heyrist í tölvunni sem í kjölfarið kveikir á sér og leiðir notandann áfram í gegnum nokkrar stillingar eins og birtustig, skjástærð og fleiri atriði.


NOTENDAVIÐMÓT OG LEIKJASPILUN

Það má segja að búið sé að henda öllum óþarfa möguleikum út og gera notendaviðmótið skilvirkara og stílhreinna.

Það tekur um 20 sekúndur fyrir tölvuna að ræsast, eða um 9 sekúndur úr biðstöðu (standby). Notendaviðmótið í PS5 er stílhreint og auðvelt er að flakka á milli svæða. Tveir aðalflipar birtast efst; Games og Media. Þessir tveir flipar aðgreina tölvuleiki frá öðru efni. Þegar flipi er valinn birtast valmöguleikar í láréttri röð fyrir neðan; leikir, leikjasafn, PlayStation Store, PS+ og fleira. Í þetta sinn er PlayStation Store hluti af sjálfu stýrikerfi PS5 tölvunnar en ekki aðskilið app líkt og í PS4. Með þessu virkar verslunin áberandi hraðvirkari og biðtími styttist mikið. Ekki er komin endanleg útgáfa af PlayStation Store og þess vegna verður ekki fjallað nánar um þá upplifun í þessari umfjöllun.

Notendaviðmótið í PS5

Áberandi færri þrep eru á milli svæða og stillinga ef notendaviðmót PS5 er borið saman við notendaviðmót PS4. Miklu styttri tími fer í að finna gögn.

Undir hverjum flipa birtast svo ítarlegri upplýsingar um þann leik sem er valinn hverju sinni. Tölvan er áberandi hraðari og hleður inn gögnum margfalt hraðar en PS4. Upplýsingar um tölvuleiki og efni birtist jafnóðum í flestum tilfellum en ef einhver bið er eftir gögnum er hún mjög stutt og reiknast yfirleitt í sekúndubrotum. Áberandi færri þrep eru á milli svæða og stillinga ef notendaviðmót PS5 er borið saman við notendaviðmót PS4. Miklu styttri tími fer í að finna gögn. Stillingar (settings) eru aðgengilegar efst uppi í hægra horninu, ásamt upplýsingum um prófílinn þinn. Margar stillingar eru svipaðar og í PS4 en þar er einnig að finna nýjar stillingar sem tengjast meðal annars nýrri tækni, eins og til dæmis stillingar fyrir DualSense fjarstýringuna.

Stillingar til að forðast spilla í leikjum.

Á meðan leikur er í spilun dugar að ýta á PS-takkann á fjarstýringunni til að kalla fram upplýsingar og yfirlit yfir flest allt sem viðkemur leiknum

Auðvelt er að fylgjast með framgangi þeirra leikja sem er verið að spila. Á meðan leikur er í spilun dugar að ýta á PS-takkann á fjarstýringunni til að kalla fram upplýsingar og yfirlit yfir flest allt sem viðkemur leiknum eins og til dæmis sjá hve stóran hlut þú hefur klárað af ákveðnum borðum, hve mikið er eftir af ákveðnum verkefnum, opinberar fréttir sem tengjast leiknum og nýleg skjáskot sem þú hefur tekið. Með því að smella á PS-takkann á meðan leik stendur fær spilarinn einnig beinan aðgang að valmynd þar sem hægt er að stökkva beint yfir í heimasvæðið (home), flakka á milli leikja (switcher), lesa athugasemdir (notifications), skoða vinasvæði (Game Base), stilla tónlist, hljóðstillingar, slökkva á tölvunni svo það helsta sé nefnt. Notendur geta stillt þessa valmynd og valið hvaða möguleikar eru þar aðgengilegir.

Stilltu hvernig þú vilt byrja leikina í PS5.

Mikið gleðiefni er að sjá að nú geta PlayStation-eigendur loksins séð hversu miklum tíma þeir hafa varið í ákveðna leiki en slíkt yfirlit skorti alveg í PS4, nema ef leikirnir sjálfir sýni það. Til að sjá yfirlit yfir heildarspilunartíma í ákveðnum leikjum velur notandinn að skoða sinn prófíl, velur þar leiki og þá birtist yfirlit yfir spilunartíma. Þar er hægt að sjá hve löng seinasta lota var í mínútum talið og heildarspilunartími sem talinn er í klukkutímum. Ánægjulegt er að sjá að notendur geta einnig séð hvað þeir hafa spilað PS4 leikina sína í marga klukkutíma svo að þetta er ekki eingöngu bundið PS5 leikjum. Í þessu yfirliti sé ég til dæmis að ég er búinn að spila Astro’s Playroom í fjóra klukkutíma og búinn með um 40% af leiknum og Spider-Man: Miles Morales hef ég spilað í átta klukkutíma og búinn með um 64% af leiknum.

Mikið gleðiefni er að sjá að nú geta PlayStation-eigendur loksins séð hversu miklum tíma þeir hafa varið í ákveðna leiki en slíkt yfirlit skorti alveg í PS4, nema ef leikirnir sjálfir sýni það.

PS5 leikirnir tveir og notendaviðmótið var prófað í 65” Sony Bravia LED sjónvarpi og komu leikirnir virkilega vel út. Myndin er mjög skýr og grafíkin virkilega flott, greinilegt stökk frá PS4. Við eigum þó klárlega eftir að sjá miklu flottari leiki síðar meir þar sem leikjaúrvalið í upphafi líftíma leikjatölva er yfirleitt mjög takmarkað og kraftur tölvunnar eflaust ekki fullnýttur. Flestir leikir virðast ætla að keyra á 60fps, eða 60 römmum á sekúndu, en tölvan styður þó allt að 120fps og eru einhverjir leikir sem ætla að nýta sér þann möguleika, eins og til dæmis Dirt 5 og Devil May Cry V: Special Edition. Að spila leikina í 120fps getur þó haft áhrif á upplausnina sem getur til dæmis farið úr 4K og niður í 1080p. Spider-Man: Miles Morales og Astro’s Playroom litu ljómandi vel út í 4K og 60fps og fylla mann tilhlökkunar að sjá hvernig leikir komandi ára eiga eftir að líta út. Sem dæmi lítur Manhattan í Spider-Man: Miles Morales stórkostlega út, borgin, umhverfið, öll þessi skemmtilegu smáatriði sem er að finna á þessu risavaxna svæði, endurspeglun í gluggum og veðrið eru allt atriði sem hafa mikil áhrif á heildarútlit leiksins.

Með auðveldum hætti er hægt að streyma (stream) leikjum beint úr úr PS5. Sömuleiðis er mjög fljótlegt að vista skjáskot og myndbönd. Hægt er að velja á milli þess að hefja nýja myndbandslotu og þar með byrja á nýrri upptöku, eða vista leikjaspilun aftur í tímann. Með PlayStation Now býður Sony upp á tölvuleikjaþjónustu (ekki innifalið með PS+ áskrift). PlayStation Now hjá Sony er svipuð pæling og Game Pass hjá Microsoft. Áskrifendur PlayStation Now fá aðgang að um 800 leikjatitlum sem er hægt er að streyma á leikjatölvunni, PC eða síma. Hægt verður að setja upp (install) PS4 titla á PS5 í gegnum PlayStation Now.


HRAÐVIRK OG HLJÓÐLÁT

Var ég búinn að nefna hve hraðvirk tölvan er? Hún er gífurlega hraðvirk!

Tveir PS5 tölvuleikir voru prófaðir á tölvunni – áðurnefndir Astro’s Playroom og Spider-Man: Miles Morales. Þegar Astro’s Playroom er valinn líða um 4-5 sekúndur þar til aðalvalmynd leiksins (main menu) birtist og þegar halda á áfram með leik (continue) tekur ekki nema um 2-4 sekúndur að hlaða inn leiknum. Hægt er að flakka á milli svæða í leiknum og þegar nýtt svæði er valið í öðru borði tekur það sömuleiðis aðeins 2-4 sekúndur að hlaðast inn.

Spider-Man: Miles Morales er mun stærri leikur en Astro’s Playroom. Þegar við skoðum hvernig PS5 tölvan höndlar þann leik þá er biðtíminn 8-10 sekúndur frá því að leikurinn er valinn í notendaviðmóti PS5 og þar til aðalvalmynd leiksins birtist á skjánum. Þegar valið er að halda áfram með fyrri leik líða aðeins tvær sekúndur frá því að þú smellir á Continue takkann í leiknum og þar til leikurinn er búinn að hlaða borðinu og leikurinn hafinn! Tvær sekúndur! Í leiknum er hægt að nota neðanjarðarlestarkerfið til að ferðast hratt á milli staða í borginni. Borgin í leiknum er nokkuð stór og þegar Miles er staðsettur í syðsta hluta borgarinnar og ferðast með hraðlestinni yfir í hinn enda hennar, eða nyrsta hlutann, tekur aðeins um tvær sekúndur að hlaða upp nýja svæðinu. Í raun er hleðslutíminn sá sami sama hvert er ferðast. Engir hleðsluskjáir (loading screens) eru í leiknum – sem er alveg ótrúlega mögnuð upplifun sem ég er meira en tilbúinn að venjast! Nú geta leikjahönnuðir sleppt því að hanna óþarfa svæði, sem eru gjarnan notuð í þeim eina tilgangi að hlaða upp öðru stærra svæði handan þess. Þetta er hreint út sagt magnað stökk frá PS4 og þessi mikli hraði eitt af því sem gerir PS5 að svo spennandi kosti. Sá tími þar sem leikjatölvunotendur ráfuðu á milli samfélagsmiðla meðan beðið var eftir að tölvuleikur kláraði að hlaðast virðist liðinn. Ég náði ekki einu sinni að taka símann úr vasanum þar sem biðin var svo stutt.

Til mikillar lukku er PS5 afskaplega hljóðlát, í raun svo hljóðlát að varla heyrist í henni.

Í gegnum árin hafa PS4 notendur kvartað yfir miklum hávaða í tölvunni þegar hún fer að hitna og þarf að nota kraft til að kæla sig niður. Hálfgerðir þotuhreyflar segja sumir. Ég man til dæmis eftir því að hafa spilað The Last of Us Part II þar sem tölvan fór á fullt og ég þurfti beinlínis að hækka í sjónvarpinu til að heyra samtalið í leiknum. Þetta rífur mann alveg úr leikjaheiminum og eyðileggur stemninguna. Til mikillar lukku er PS5 afskaplega hljóðlát, í raun svo hljóðlát að varla heyrist í henni. Ég heyri hærri umhverfishljóð í kringum mig. Ekkert breyttist eftir að hafa spilað Spider-Man: Miles Morales í nokkra klukkutíma, tölvan var áfram mjög hljóðlát og þæg og engin merki um hávaða.


DUALSENSE FJARSTÝRINGIN

DualSense er þyngri en DualShock 4 en þó alls ekki þung, heldur nær hún að dansa á þeirri fínu línu þegar kemur að þyngd og að liggja vel í hendi.

Þægilegt er að ýta á takkana og nota gikkina (R1/L1 og R2/L2) og finnst vel að DualSense sé á heildina litið vel heppnaðri fjarstýring en DualShock 4. Takkarnir eru á sama stað og á DualShock 4 en ákveðið stökk hefur verið tekið í þróun hjá Sony með nýju fjarstýringunni. R1 og L1 takkarnir eru töluvert stærri á DualSense en DualShock 4.

Þegar kemur að spilun og nýjungum nær DualSense að koma skemmtilega á óvart. Þar eru tvær nýjungar frá fyrri fjarstýringu sem ber sérstaklega að nefna – aðlögunartækni og betri hristitækni (haptic).

Þegar kemur að spilun og nýjungum nær DualSense að koma skemmtilega á óvart. Þar eru tvær nýjungar frá fyrri fjarstýringu sem ber sérstaklega að nefna – aðlögunartækni og betri hristitækni (haptic). L2 og R2 takkarnir notast við svokallað aðlögunartækni (adaptive triggers) sem virkar þannig að leikjahönnuðir geta stillt hve stífir gikkirnir eru svo það þarf mis mikinn kraft til ýta á þá. Með þessari viðbót er hægt að lífga aðeins upp á leikjaupplifunina líkt og í Astro’s Playroom.

Hristitæknin í DualSense er margfalt betri en í DualShock 4. DualSense fjarstýringin getur til dæmis gefið frá sér titring sem finnst aðeins öðru megin í fjarstýringunni. Sömuleiðis getur krafturinn á titringnum verið mismikill og stillingarnar mun fleiri en á eldri fjarstýringunni. Til dæmis gefur það leiknum skemmtilega tilfinningu að vægur titringur finnst þegar aðalpersónan gengur um, fjarstýringin titrar hægra megin þegar hægri fóturinn stígur niður og vinstra megin þegar vinstri fóturinn stígur niður. Hristingurinn getur verið breytilegur eftir því hvort verið sé að ganga á snjó, klaka eða grasi. Þessar nýjungar breyta ekki leiknum en virka sem skemmtileg viðbót og gerir spilunina eftirminnilegri. Fjarstýringin hefur einnig snertiflöt líkt og PS4 fjarstýringin og er með hreyfi- og hallaskynjara.

Hleðslan í DualShock virðist duga álíka lengi og í DualShock 4, sem er hvorki gott né slæmt. Ég tek það fram að ég hef ekki tekið nákvæmlega tímann á hve lengi hleðslan dugar, heldur er þetta mat byggt á tilfinningu. Það tekur stuttan tíma að hlaða fjarstýringuna með USB-C snúrunni sem fylgir með tölvunni en fjarstýringin inniheldur innbyggða endurhlaðanlega rafhlöðu.

Astro’s Playroom og Spider-Man: Miles Morales voru spilaðir á tölvunni og er mikill munur þar á þegar kemur að notkun DualSense. Í Astro var fjarstýringin notuð á mjög fjölbreyttan og áhugaverðan hátt á meðan fjarstýringin fær heldur lítið að njóta sín í Spider-Man: Miles Morales. Spurning er hvort að leikjahönnuðir eigi eftir að nota þessa möguleika í framtíðinni.


TÆKNILEG ATRIÐI

Skoðum betur hvað leynist undir húddinu…

CPU x86-64-AMD Ryzen™ “Zen 2”

8 Cores / 16 Threads

Variable frequency, up to 3.5 GHz

GPU AMD Radeon™ RDNA 2-based graphics engine

Ray Tracing Acceleration

Variable frequency, up to 2.23 GHz (10.3 TFLOPS)

System Memory GDDR6 16GB

448GB/s Bandwidth

SSD 825GB

5.5GB/s Read Bandwidth (Raw)

PS5 Game Disc Ultra HD Blu-ray™, up to 100GB/disc
Video Out Support of 4K 120Hz TVs, 8K TVs, VRR (specified by HDMI ver.2.1)
Audio “Tempest” 3D AudioTech

Fram kemur að tölvan innihaldi 825GB SSD disk en af því fær notandinn aðeins að ráðstafa í kringum 667GB þar sem yfir 150GB er sjálfkrafa ráðstafað í aðra þætti sem tengjast tölvunni og notendaviðmótinu.

Fram kemur að tölvan innihaldi 825GB SSD disk en af því fær notandinn aðeins að ráðstafa í kringum 667GB þar sem yfir 150GB er sjálfkrafa ráðstafað í aðra þætti sem tengjast tölvunni og notendaviðmótinu. Hægt er að kaupa viðurkennda SSD-diska til að stækka plássið en enginn slíkur diskur er í boði á útgáfudegi svo ekki er í boði að stækka plássið alveg strax. Ekki er hægt að setja upp (install) PS5 leiki nema á SSD diskum sem Sony gefur sinn stimpil á.

PS5 skortir stuðning við 1440p skjái sem getur verið ókostur fyrir þá sem kjósa heldur að tengja tölvuna við öflugan tölvuskjá í stað 4K sjónvarpsskjá. Tæknilega séð styður PS5 einnig við 8K upplausn en ekkert efni er enn aðgengilegt PS5 þeim myndgæðum og 8K sjónvörp frekar ný á markaðnum.

Tölvan styður við Remote play sem gerir PS5 notendum kleift að spila leiki á annarri PS4 eða PS5 tölvu og streyma gögnum beint yfir í PS5 tölvuna sem er í notkun. Einnig er hægt að streyma leikjum beint úr PS5 yfir í PC eða síma í gegnum PlayStation appið.


HLJÓÐ

… áhugavert verður að prófa þráðlausu Pulse 3D heyrnartólin sem er viðurkennd heyrnatól frá Sony og eru sérstaklega ætluð PlayStation 5.

Sony auglýsti sérstaklega þróun á hljóðtækni í PS5 leikjatölvunni þar sem stuðst er við svokallað 3D Audio þar sem Sony notar sína eigin hljóðtækni sem heitir Tempest 3D AudioTech. Út frá eigin reynslu er hljóðið alls ekki byltingarkennt þegar notast er við hefðbundna sjónvarpshátalara, við eigum þó enn eftir að prófa hljóðið í heimabíókerfi. Annað er upp á teningnum þegar heyrnartól eru notuð en þá eru hljómgæðin mun betri (fer þó auðvitað algjörlega eftir heyrnatólunum) og heyrist nokkuð vel úr hvaða átt hljóðin koma svo auðveldara er að átta sig á hvar óvinir sem eru úr augsýn eru staðsettir. Heyrnartól virka vel með þessari tækni en áhugavert verður að prófa þráðlausu Pulse 3D heyrnartólin sem er viðurkennd heyrnatól frá Sony og eru sérstaklega ætluð PlayStation 5.

Aukahlutir í boði fyrir PS5.

AUKAHLUTIR OG LEIKJAÚRVAL

Aukahlutirnir sem í boði verða eru DualSense fjarstýring, DualSense hleðslustöð, fjarstýring fyrir Netflix og fleira, HD myndavél og millistykki fyrir PS VR …

Sony hefur tilkynnt nokkra aukahluti sem verða fáanlegir fyrir PlayStation 5 tölvuna strax á útgáfudegi. Samkvæmt okkar heimildum koma PS5 leikir og aukahlutir til Íslands 12. nóvember, eða viku fyrr en tölvan sjálf. Aukahlutirnir sem í boði verða eru DualSense fjarstýring, DualSense hleðslustöð, fjarstýring fyrir Netflix og fleira, HD myndavél og millistykki fyrir PS VR (nánar um það eftir smá stund).

Spider-Man: Miles Morales verður fáanlegur á PS5.

Fjölmargir leikir eru væntanlegir eða nú þegar komnir út eingöngu fyrir PS5, þar á meðal Astro’s Playroom, Spider-Man: Miles Morales, Horizon Forbidden West, nýr God of War leikur, Gran Turismo 7, Ratchet and Clank: Rift Apart, Demon’s Souls, Returnal, Sackboy: A Big Adventure. Fjölmargir aðrir leikir bætast við listann þegar við skoðum leiki sem verða einnig fáanlegir á öðrum leikjatölvum og má þar meðal annars nefna Dirt 5, Watch Dogs: Legion, Assassin’s Creed Valhalla, Cyberpunk 2077 og fleiri og fleiri. Hægt er að skoða sýnishorn úr nokkrum leikjum í færslunni okkar Sýnishorn úr væntanlegum PlayStation 5 leikjum.

Útgáfuleikir PS5 eru töluvert meira spennandi en þeir sem voru gefnir út samhliða PS4 árið 2013. Leikirnir Knack og Killzone Shadow Fall þóttu ágætir en Spider-Man: Miles Morales (gagnrýni væntanleg!) og Demon’s Souls eru alvöru stórleikir sem ættu að standast væntingar flestra.

Vandað PS4 leikjasafn fylgir ókeypis með PS5 fyrir PS+ áskrifendur.

Sony býður PS5 PS+ áskrifendum sínum upp á vígalegt leikjasafn þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða rjómann af því sem PS4 hefur boðið upp á undanfarin ár.

Ekki má gleyma því að PS5 spilar langflesta PS4 leiki svo þeir spilarar sem eiga gott PS4 leikjasafn geta haldið áfram að spila þá leiki á PS5 (í flestum tilfellum). Sony býður PS5 PS+ áskrifendum sínum upp á vígalegt leikjasafn þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða rjómann af því sem PS4 hefur boðið upp á undanfarin ár. Leikjasafnið inniheldur eftirfarandi leiki: Batman: Arkham Knight, Battlefield 1, Bloodborne, Call of Duty: Black Ops III – Zombie’s Chronicles Edition, Crash Bandicoot N. Sane Trilogy, Days Gone, Detroit: Become Human, Fallout 4, Final Fantasy XV Royal Edition, God of War, Infamous Second Son, Monster Hunter World, Mortal Kombat X, Persona 5, Ratchet and Clank, Resident Evil 7: Biohazard, The Last Guardian, The Last of Us Remastered, Uncharted 4: A Thief’s End og Until Dawn. Auk þess er Bugsnax ókeypis fyrir PS+ áskrifendur til janúar 2021. Hér erum við að tala um samanlagt hundruði klukkutíma í spilun á hágæða leikjum.

PS4 leikir eiga eftir að nýta kraft PS5 tölvunnar með mismunandi hætti. Einhver leikjafyrirtæki bjóða upp á sérstaka uppfærslu á sínum leikjum til að aðlaga leikina sína að möguleikum PS5 á meðan í öðrum tilfellum eru leikirnir lítið sem ekkert uppfærðir en hleðslutíminn virðist þó styttast töluvert í mörgum þeirra.

Aftur á móti býður Sony upp á millistykkið PS VR eigendum að kostnaðarlausu, en til þess þarf að sækja sérstaklega um það …

Það eru ákveðin vonbrigði að Sony styðji ekki sjálfkrafa við PS VR, en til þess að tengja PS VR er nauðsynlegt að nota PS4 myndavélina (ekki PS5) og til þess að geta notað hana þarf að nota sérstakt millistykki sem fylgir ekki með. Aftur á móti býður Sony upp á millistykkið PS VR eigendum að kostnaðarlausu, en til þess þarf að sækja sérstaklega um það hér. Þar sem millistykkin verða ekki send út fyrr en um miðjan nóvember höfum við ekki prófað PS VR í PS5 en vonum að kraftur PS5 skili sér í auknum myndgæðum og betri VR upplifun.


SAMANTEKT

PlayStation 5 tilheyrir augljóslega nýrri kynslóð leikjatölva. Hún er hröð, stílhrein, hljóðlát og vönduð. Margar ánægjulegar viðbætur er að finna með tölvunni eins og DualSense fjarstýringin, skarpari mynd, flottari grafík og aukin hljómgæði.

PlayStation 5 tilheyrir augljóslega nýrri kynslóð leikjatölva. Hún er hröð, stílhrein, hljóðlát og vönduð. Margar ánægjulegar viðbætur er að finna með tölvunni eins og DualSense fjarstýringin, skarpari mynd, flottari grafík og aukin hljómgæði. Líkt og fram hefur komið er tölvan uppseld hér og landi og víðar. Næsta sending af PlayStation 5 er ekki væntanleg fyrr en eftir áramót. Þar sem flestir PS5 leikir verða einnig fáanlegir á PS4 á komandi mánuðum (með einstaka undantekningum) liggur í raun ekkert á að kaupa tölvuna. Á komandi mánuðum og árum mun leikjasafn PS5 eflast og á endanum tekur PS5 við af PS4. Þeir sem kjósa að kaupa sér eintak strax hafa aðgang að þessum fáu PS5 leikjum sem í boði eru og því vígalega leikjasafni sem hefur fylgt PS4. Ólíklegt þykir að tölvan eigi eftir að lækka í verði, sérstaklega þar sem framboð er meira en eftirspurn. Svo ef þig virkilega langar í tölvuna mælum við með að panta eintak um leið og tölvan er í boði hér á landi. Fyrir aðra sem eru ekki að flýta sér liggur ekkert á, en tölvan verður eflaust orðinn mjög spennandi kostur í kringum jólin 2021.

Sony hefur sýnt og sannað með PlayStation leikjatölvunum að þeir bjóða upp á vandaða leiki og fjölbreytt leikjaúrval. Við vonum að fyrirtækið eigi eftir að halda áfram að halda PS-spilurum ánægðum með nýjum og vönduðum leikjum. Skrítið er að hugsa til þess að nú sé kominn tími til að kveðja PS4 sem hefur þjónað manni vel undanfarin sjö ár. Tölvan mun vissulega lifa nokkuð góðu lífi eitthvað lengur en eftir að hafa fengið PS5 í hendurnar verður ekki aftur snúið.

DualSense er frábær viðbót. Hún byggir á traustum grunni sem hefur verið endurbættur og um leið býður upp á nýjungar sem geta gert leikjaupplifunina eftirminnilegri. Nýjungarnar eiga líklega ekki eftir að gjörbylta tölvuleikjaspilun en bjóða upp á áhugaverða og skemmtilega viðbót. Burtséð frá nýjungunum er þróunin á heildina séð mjög jákvæð og fjarstýringin afskaplega góð og þægileg í notkun.

Útgáfudagur PlayStation 5 á Íslandi er 19. nóvember.

PS5 leikir og aukahlutir koma í verslanir 12. nóvember.

Nörd Norðursins fékk PS5 eintak til að prófa frá Sony í gegnum Senu.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑