Leikjarýni

Birt þann 15. febrúar, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Leikjarýni: Final Fantasy XV

Leikjarýni: Final Fantasy XV Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Góður leikur fyrir nýja og lengra komna Final Fantasy spilara.

4.5

Mjög góður!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Final Fantasy leikirnir eiga sér langa sögu. Liðin eru sirka 29 ár frá því að fyrsti Final Fantasy leikurinn leit dagsins ljós en hann var gefinn út árið 1987 á gömlu gráu NES leikjatölvuna.

Leikirnir urðu fljótt vinsælir og með tímanum náðu hönnuðir Final Fantasy leikjanna að búa til vel heppnaða RPG-formúlu. Þetta hafa þeir náð að gera með samblöndu af sterkri sögu, eftirminnilegum persónum, opnum heimi og bardagakerfi sem býður uppá marga möguleika.

Undanfarinn áratug hefur Final Fantasy gengið í gegnum ákveðið þroskaskeið þar sem leikjaserían hefur fært sig frá hægum bardögum þar sem spilarinn og óvinir skiptast á að gera (turn-based) yfir í hraðari bardaga í rauntíma. Þessi þróun hefur valdið ákveðnum vonbrigðum á köflum en í Final Fantasy XV er bardagakerfið nokkuð vel heppnað, þó það geti vissulega verið einhæft á köflum.

PRINSINN NOCTIS

Final Fantasy XV er mjög vandaður leikur sama á hvað er litið; grafík, talsetning, söguþráð, persónur, hljóð, leikjaheim, bardagakerfi o.s.frv.

Final Fantasy XV er mjög vandaður leikur sama á hvað er litið; grafík, talsetning, söguþráð, persónur, hljóð, leikjaheim, bardagakerfi o.s.frv. Það er ótrúlega skemmtilegt að gleyma sér í leikjaheimi Final Fantasy XV þar sem hinn sykursæti Noctis prins og félagar fara á vit ævintýranna. Fyrsta upplifun á leiknum er nokkuð ljúf og krúttleg þar sem Noctis og félagar þurfa að leysa hálf kjánaleg verkefni eins og að ýta bíl, kaupa bensín, taka ljósmynd og finna mat handa heimilislausum ketti. Hægt og rólega færast verkefnin úr krúttheiminum yfir í alvöruna. Það tekur smá tíma að venjast Noctis og vinum hans þar sem þeir eru eins og klipptir úr einhverju strákabandi og geta verið svolítið væmnir á köflum en eftir um 1-2 klukkutíma í leiknum er manni farið að þykja vænt um vinahópinn.

STÓR HEIMUR

Heimurinn í FF XV er mjög opinn þar sem hægt er að ferðast á milli staða með því að keyra um á bílnum eða labba um og skoða. Stór hluti leiksins gerist í bílnum þegar keyrt er á milli staða. Stundum getur verið skemmtilegt að skoða umhverfið á meðan félagarnir eru að keyra, en stundum vildi maður helst að það væri hægt að flýta fyrir akstrinum með einhverjum hætti. Það er boðið uppá að flýta ferðum síðar í leiknum, en það kostar pening og tíminn sem leikurinn notar til að hlaða nýja áfangastaðinn getur tekið álíka langan tíma og að keyra bara beint á staðinn. Á endanum var maður bara með símann hjá sér og tók stutta Facebook-pásu í hvert sinn sem Noctus og félagar þurfti að keyra um. Þetta skemmir þó ekki leikinn þar sem heimurinn í Final Fantasy er virkilega flottur og áhugaverður.

Leikurinn fær stóran plús fyrir öll smáatriðin í leiknum sem gerir upplifunina enn skemmtilegri.

Leikurinn fær stóran plús fyrir öll smáatriðin í leiknum sem gerir upplifunina enn skemmtilegri. Heimurinn nær gjörsamlega að grípa mann þar sem sagan, umhverfið, verkefnin – og og bara allur pakkinn – nær að heilla mann. Það er langt síðan að ég hef skemmt mér jafn vel í Final Fantasy leik og í Final Fantasy XV (þessi er á par við Final Fantasy X á sínum tíma) Leikurinn er frábær í flesta staði – en það er OF stór kafli sem inniheldur eitthvað sem ég kýs að kalla „línuleg leiðindi, sem dregur einkunnina aðeins niður.

LÍNULEG LEIÐINDI

Leikurinn nær góðu flæði og nær að leiðbeina spilaranum mjög vel og hentar bæði reyndari spilurum og nýjum Final Fantasy spilurum. Leikurinn er nokkuð grunnur fyrir Final Fantasy leik, þ.e.a.s. bardagakerfið og uppfærslukerfið, en samt sem áður nær að gera leikinn nógu djúpann til að halda reyndari spilurum áhugasömum.

Stærstu mistökin í Final Fantasy XV er þegar leikurinn ákveður að skipta úr opnum heimi yfir í línulega upplifun…

Stærstu mistökin í Final Fantasy XV er þegar leikurinn ákveður að skipta úr opnum heimi yfir í línulega upplifun – þ.e.a.s. lokar á svæði þannig að spilarinn getur í rauninni bara ferðast frá A til B í þeim tilgangi að ýta söguþræðinum áfram. Þessi línulegi hluti er alltof stór hluti af leiknum sem skemmtir þessa skemmtilegu Final Fantasy stemningu. Leikurinn nær þó áfram að vera áhugasamur, en það vantar stemninguna. Á þessum kafla sker Final Fantasy sig lítið sem ekkert út frá öðrum leikjum.

Á HEILDINA LITIÐ

Á heildina litið er þetta góður leikur sem auðvelt er að spila í nokkra tugi klukkutíma og hafa gaman af því. Sjálfur spilaði ég leikinn í um 45-50 klst. þar sem ég kláraði slatta af hliðarverkefnum, en kláraði þau þó ekki öll, svo það má gera ráð fyrir að leikurinn geti vel enst í um 60 klst. eða meira ef öll hliðarverkefnin eru tekin með í reikninginn.

Final Fantasy XV hefur upp á nóg að bjóða og hentar bæði nýjum sem og reyndari Final Fantasy spilurum. Leikurinn er ekki gallalaus en það er fyrst og fremst línuleg nálgun seinni hluta leiksins sem dregur úr skemmtanagildi leiksins. Á heildina litið býður leikurinn uppá mjög góða skemmtun, fjölbreytt verkefni og valmöguleika. Svo er hann líka alveg fáránlega flottur.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑