Leikjarýni

Birt þann 24. maí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Mortal Kombat X

Leikjarýni: Mortal Kombat X Nörd Norðursins

Samantekt: Mortal Kombat X er með betri bardagaleikjum í dag.

4.5

Frábær!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Mortal Kombat bardagaserían hefur notið mikilla vinsælda í gegnum árin en fyrsti leikurinn í seríunni kom út árið 1992. Mortal Kombat leikirnir þykja brútal og má segja að miskunnarlaust ofbeldi og meðfylgjandi blóðbað sé eitt helsta einkenni leikjanna. Fjögur ár eru liðin frá seinasta Mortal Kombat leik (sem við gáfum fjórar og hálfa stjörnu). Nýjasti leikurinn ber heitið Mortal Kombat X og kom í verslanir í apríl 2015 á PS4, Xbox One og PC. Leikurinn er væntanlegur á PS3 og Xbox 360 síðar á þessu ári.

Mortal Kombat X er bardagaleikur í háum gæðaflokki og klárlega með þeim allra betri í Mortal Kombat seríunni. Leikurinn býður upp á fjölbreytta flóru af bardagaköppum, möguleika á að aðlaga karaktera eftir þörfum spilarans, virkilega gott flæði og lítinn sem engann biðtíma (tekið skal fram að leikurinn var spilaður á PS4). Nánast um leið og þú ert búin/n að velja þinn bardagakappa þá hefst leikurinn. Ef þig vantar góðan bardagaleik á nýju leikjatölvurnar þá er Mortal Kombat klárlega málið.

MKX_02

Get over here!

Fjölbreytt úrval bardagakappa er í boði í Mortal Kombat X. Allt frá klassískum persónum á borð við Scorpion, Sub-Zero, Jax, Sonya Blade, Johnny Cage, Raiden og Liu Kang yfir í hóp nýliða. Þar má nefna Ferra/Torr (sem eru í raun tveir bardagakappar sem vinna saman), D’Vorah sem er samblanda af skordýrategundum, kúrekann Erron Black og Cassie Cage sem er dóttir Johnny Cage og Sonya Blade. Það er úr nógu að velja í Mortal Kombat X en einnig er hægt að kaupa aukapersónur í gegnum niðurhalanlegar viðbætur (DLC), m.a. hinn fjórarma Goro og Jason Voorhees, fjöldamorðingjann úr Friday the 13th slægingarmyndunum. Sjálfur Predator er einnig væntanlegur sem viðbót.

MKX_03

Meiri taktík

Í Mortal Kombat er hægt að velja mismunandi taktík milli bardagakappa. Til dæmis ef Scorpion er valinn þá er hægt að velja á milli þriggja mismunandi bardagastíla; Inferno, Hellfire eða Ninjitsu og hefur hver bardagastíll sérstaka eiginleika með mismunandi brögðum og útliti. Með þessu er fjölbreytileikinn orðinn enn meiri og gefur leiknum á sama tíma mun meiri dýpt. Borðin í Mortal Kombat eru auk þess orðin mjög gagnvirk og getur spilarinn notað umhverfið sér í vil, til dæmis með því að sækja eld úr bakgrunninum og henda honum í andstæðinginn eða hoppa á milli staða í borðinu.

Brútal!

Leikurinn er klárlega ekki ætlaður börnum eða öðrum sem þola illa að horfa á gróft ofbeldi. Í bardögum geta spilarar til að mynda notað X-Ray brögð líkt og í fyrri Mortal Kombat leiknum. Þegar X-Ray bragð er notað hægist á tímanum og sést nákvæmlega hvaða bein brotna og hvaða líffæri skaðast. Þar molnar úr hryggjaliðum og hauskúpu andstæðingsins og er eflaust enginn tryggingarmaður sem myndi tryggja MK bardagakappana ódýrt (ég bara varð að skjóta þessu hingað inn). Þetta er þó aðeins byrjunin. Í leiknum eru til sérstök endabrögð sem kallast Fatality og Brutality þar sem andstæðingar eru skornir í sundur og aflimaðir. Þarna erum við komin yfir í hreinann splatter og eitt helsta einkenni MK leikjaseríunnar.

MKX05

Saga og aukahlutir

Sagan í bardagaleikjum er oft mjög þunn og slöpp. Sagan í Mortal Kombat er engin snilld en hún er vissulega betri en í mörgum öðrum bardagaleikjum. Í sögunni fær spilarinn að kynnast persónunum betur og skiptist sagan í nokkra kafla þar sem hver kafli er tileinkaður ákveðnum bardagakappa. Bardagarnir eru ekki beint krefjandi og jafnvel endakallinn er heldur auðvelt að sigra. Þó svo að sagan sé ekki sú besta þá er hún góð viðbót við leikinn og fínt að spila í gegnum söguna til að fá betri tilfinningu fyrir persónunum og baksögu þeirra.

Í leiknum er hægt að safna ýmsum aukahlutum sem eru keyptir með Mortal Kombat Koins. Hægt er að fá alla hlutina strax með því að borga með raunpeningum eða þá safna Koins jafnt og þétt með því að berjast við aðra í leiknum. Aukahlutirnir eru meðal annars teikningar og upplýsingar um Mortal Kombat persónurnar og brútal endabrögð.

Mortal Kombat er líka með alla litlu hlutina á hreinu sem gera leikinn enn skemmtilegri. Til dæmis þegar spilarinn fær bikar í PS4 útgáfunni þá vistar tölvan sjálfkrafa skjáskot af augnablikinu og getur verið skemmtilegt að renna í gegnum þessar myndir. Einnig getur leikurinn tekið upp bardagana svo þú getir skoðað þá betur seinna, og þá er jafnvel hægt að fá ítarlegar upplýsingar um hvaða takka þú og andstæðingur þinn voru að ýta á á meðan bardaga stóð.

MKX_01

Bestur í tveggja manna spilun

Leikurinn býður upp á netspilun þar sem spilarar velja lið til að keppa með og safna stigum. Leikurinn er þó klárlega upp á sitt besta þegar spilað er á móti vini í hefðbundinni tveggja manna spilun. Þar sem leikurinn býður upp á gott úrval bardagakappa (og ekki gleyma því að hver bardagakappi hefur þrjá mismunandi bardagastíla) þá nær leikurinn að haldast ferskur og skemmtilegur. Spilarar geta keppt á móti hvor öðrum í hefðbundnum bardaga eða bætt við breytingum (modifiers) þar sem nýjar reglur bætast við. Til dæmis er hægt að bæta við fljúgandi hausum sem truflar bardagann töluvert. Svo er líka hægt að láta jörðina hristast reglulega svo að bardagakapparnir missa jafnvægið, látið leisera fljúga um borðið eða eitra fyrir spilara. Þessir valmöguleikar gera tveggja manna spilunina enn skemmtilegri og fjölbreyttari.

Niðurstaða

Mortal Kombat X er með betri bardagaleikjum í dag. Leikurinn er einstaklega vel gerður þar sem persónur og umhverfið fær sérstaklega að njóta sín. Í leiknum er að finna öflugt úrval bardagakappa sem eru gæddir mismunandi bardagastílum. Leikurinn virkar bæði vel fyrir þá sem vilja hoppa í einn og einn leik með vini eða til að spila gegn tölvunni (þó tveggja manna leikurinn sé klárlega skemmtilegri) og þá sem vilja taka langar lotur, safna hlutum og vinna sig í gegnum leikinn.

Eina sem mætti bæta við leikinn væri meira úrval af borðum til að velja á milli. Við þetta má svo bæta að leikurinn er mjög snöggur að hlaða milli hluta svo að heildarflæði leiksins er hreinn unaður.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑