Leikjarýni

Birt þann 1. september, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Until Dawn

Leikjarýni: Until Dawn Nörd Norðursins

Samantekt: Skemmtileg níu klukkutíma hryllingsferð - en spilunin er mjög einhæf.

3.5

Áhugaverður


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

PlayStation 4 hryllingsleikurinn Until Dawn frá Supermassive Games kom út fyrir stuttu og hefur almennt hlotið nokkuð góða dóma. Leikurinn fer svipaða leið og Telltale hefur gert með leiki á borð við The Walking Dead og The Wolf Among Us, þar sem spilarinn fær að taka stórar sem smáar ákvarðanir sem geta haft áhrif á framhald leiksins. Until Dawn hallar sér nær kvikmyndaheiminum en Telltale leikirnir með því að nota alvöru leikara og grafíkina sem PS4 hefur upp á að bjóða. Hayden Panettiere (Heroes og Nashville) og Peter Stormare (Fargo og Prison Break) eru þekktustu nöfnin í leiknum, en auk þeirra fara þau Rami Malek, Brett Dalton, Meaghan Martin, Galadriel Stineman, Nichole Bloom og Jordan Fisher með stór hlutverk.

Ég ætla strax í byrjun að segja að ég hef mjög blendnar tilfinningar gagnvart þessum leik. Hryllingsóði hlutinn í mér segir að leikurinn sé frábær þar sem söguþráðurinn, grafíkin og bregðu-atriðin eru í toppstandi (sérstaklega miðað við tölvuleik), á meðan tölvuleikjanördið í mér fussar yfir því hve einfalda spilun leikurinn hefur uppá að bjóða. Það eru leikir á borð við Until Dawn sem ná að hrista aðeins upp ì tölvuleikjaheiminum með því að kjósa að fara óhefðbundnar leiðir með nýjungum og gerir erfitt fyrir aðra að átta sig almennilega á því hvað þeir voru að spila. Leikurinn á margt sameiginlegt með Telltale leikjunum, Heavy Rain og Asura’s Wrath.

Until_Dawn_01

Hryllingsleikur sem á eftir að bregða þér

Leikurinn nær að skapa virkilega góða hryllingsstemningu með stuðandi tónlist, raunverulegu umhverfi, leikaravali og söguþræði. Andrúmsloft leiksins svipar að mörgu leyti til endurkomu slægjumyndanna í kringum aldarmótin þar sem Scream og I Know What You Did Last Summer náðu miklum vinsældum. Leikurinn vinnur stöðugt í því að byggja upp draugalegt andrúmsloft og að bregða spilaranum. Bregðu-atriðin í leiknum eru ansi mörg og eru yfir höfuð mjög vel heppnuð. Ég er kominn með ansi öflugt sigg á bregðuatriði eftir að vera búinn að horfa á hrollvekjur í mörg ár en leikurinn náði samt sem áður að bregða mér ansi oft.

Nú geturu hætt að bölva persónum í sand og ösku fyrir að taka heimskulegar ákvarðanir í hryllingsmynd – nú tekur þú völdin i þínar hendur!

Sögurþráðurinn hefur sína kosti og galla en er yfir höfuð góður og nær að halda spilaranum áhugasömum og föstum við skjáinn. Þetta er ekki bara leikur fyrir hinn almenna tölvuleikjaspilara, heldur líka fyrir unnendur hryllingsmynda. Málið er nefninlega að leikurinn er afar einfaldur í spilun og nánast hver sem er getur klárað leikinn án mikillar fyrirhafnar. Nú geturu hætt að bölva persónum í sand og ösku fyrir að taka heimskulegar ákvarðanir í hryllingsmynd – nú tekur þú völdin i þínar hendur!

Until_Dawn_02

Ókrefjandi spilun og takmarkað val

Þá komum við að spiluninni. Málið er að leikurinn er nær því að vera gagnvirk kvikmynd frekar en tölvuleikur í hefðbundnum skilningi. Reyndir tölvuleikjaspilarar eiga ekki eftir að fá mikið út úr spilun leiksins sem byggir fyrst og fremst á þremur atriðum; að velja á milli tveggja kosta (sem oftar en ekki hafa ákaflega lítið að segja um framgang leiksins), ýta á rétta takka á réttum tíma í svokölluðum „quick time events“ og ganga um valin svæði í leit að vísbendingum. Þessir þrír þættir geta vissulega verið skemmtilegir, en Until Dawn gerir leikinn óþarflega auðveldann sem gerir það að verkum að spilunin verður einhæf. Aðeins nánar um það.

Söguþráðurinn er í grunninn sá sami, sama hvað þú gerir. Aftur á móti tekur spilarinn ákvarðanir í gegnum leikinn sem ákvarða í raun hverjir lifa af þessa drungalegu nótt.

Í leiknum getur spilarinn yfirleitt valið milli tveggja kosta. Meirihluti þessara kosta skipta í raun voðalega litlu máli og eru til þess gerðir að làta spilaranum líða eins og hann sé að hafa áhrif á leikinn – svipað og Telltale leikirnir gera. Þessi ókostur (ef ókost má kalla) hefur í raun engin slæm áhrif á fyrstu spilun leiksins, en þegar spilarinn vill fara aftur í gegnum leikinn og gera eitthvað allt annað finnur hann hvað ákvarðanir hans höfðu í raun lítið að segja. Söguþráðurinn er í grunninn sá sami, sama hvað þú gerir. Aftur á móti tekur spilarinn ákvarðanir í gegnum leikinn sem ákvarða í raun hverjir lifa af þessa drungalegu nótt. Það getur verið nóg að ýta einu sinni á rangan takka og uppáhalds persónan þín er dauð. Leikurinn leyfir spilaranum ekki að vista leikinn svo að ákvarðanir hafa bein áhrif á framvindu leiksins. Þessi takmörkuðu áhrif á val og raunverulega afleiðingar í leiknum gera endurspilunina ekki eins góða og vonast var eftir, en hægt er að velja valda kafla úr söguþræði leiksins og þess vegna ekki nauðsynlegt að byrja leikinn frá byrjun ef spilarinn vill prófa aðra valmöguleika.

Until_Dawn_03

Reglulega koma upp augnablik þar sem spilarinn þarf að vera fljótur að ýta á rétta takka á réttum tíma. Þessi móment kallast „quick time event“ og eru í raun bara tvær útkomur í boði þegar reynir á þessa viðbragðshæfileika spilarans. Ef spilarinn nær að ýta á takkann tekst persónunni í leiknum eitthvað, ef spilarinn nær ekki að ýta á takkann mistekst henni það sem hún ætlaði sér.

Spilarinn fær tækifæri til þess að stjórna öllum átta persónunum úr vinahópnum í leiknum. Inná milli fær hann að ráfa um opin svæði og skoða hluti sem geta gefið vísbendingar sem tengjast söguþræði leiksins. Hlutirnir glansa úr fjarlægð svo það getur verið frekar erfitt að sjá þá ekki. Þegar spilarinn fær að skoða sig um þarf hann oftar en ekki að framkvæma einhverjar aðgerðir, sem eru stundum furðulegar og virðast hafa verið gerðar bara til þess að gefa spilaranum eitthvað hlutverk. Sem dæmi. Til þess að láta persónu opna hlið þarf hann að 1) ýta á takka til að setja hendur sínar á lás sem heldur hliðinu læstu, 2) ýta á takka til þess að aflæsa, 3) ýta á takka til þess að taka utan um húninn, 4) ýta á takka til þess að ýta við hliðinu og opna það. Mörg svona atriði koma upp í leiknum, sem verða fljótt þreytandi.

Until_Dawn_04

Gagnvirk kvikmynd

Ég vil samt meina að þrátt fyrir afskaplega einhæfa og einfalda spilun er þessi leikur ansi góður ef maður nálgast hann sem gagnvirka kvikmynd. Spilun leiksins minnir óneitanlega á Asura’s Wrath og setur tölvuleikjagagnrýnandann í svolítil vandræði, sérstaklega þar sem spilun leikja getur skipt miklu máli þegar verið er að gagnrýna tölvuleiki. Spilun leiksins fær til að mynda ekkert sérstaka dóma hjá mér en samt sem áður er upplifun leiksins virkilega skemmtileg – sérstaklega fyrir unnendur hryllingsmynda og -leikja. Söguþráðurinn nær að halda honum uppi og sérstaklega hvernig sagan er framsett. Auk þess eru bregðuatriðin í leiknum hreint gull. Og ef þú ert ein/n af þeim sem átt PlayStation 4 myndvélina þá er hægt að stilla hana þannig að hún taki myndir þegar bregðuatriðin eiga sér stað í leiknum.

Og ef þú ert ein/n af þeim sem átt PlayStation 4 myndvélina þá er hægt að stilla hana þannig að hún taki myndir af þér þegar bregðuatriðin eiga sér stað í leiknum.

Það tekur í kringum níu klukkutíma að fara í gegnum leikinn í fyrsta skiptið. Endurspilunin er takmörkuð, en hægt er að spila hann aftur í gegn til að prófa aðrar ákvarðanir og safna vísbendingum sem maður fann ekki í fyrstu umferð.

Until_Dawn_05

Frábær! – en ekki fyrir alla

Ef þú ert sátt/ur með hvernig Telltale framsetja söguleikina sína og elskar hryllingsmyndir þá er þessi leikur klárlega eitthvað fyrir þig. Leikurinn leyfir spilaranum að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framvindu leiksins, þ.e.a.s. hverjir lifa af og hverjir ekki. Söguþráðurinn er ansi öflugur með haug af eðal bregðuatriðum. Aftur á móti ef þú vilt tölvuleik sem byggir fyrst og fremst á öflugri og fjölbreyttri spilun sem þú þarft þolinmæði og hæfileika til að komast í gegnum, þá er þessi leikur á afar gráu svæði. Ef þú vilt einfaldlega skemmtilega upplifun og bara hafa gaman, þá er þetta alveg klárlega leikur fyrir þig! Ég mæli sérstaklega með því að spila leikinn með öðrum (og slökkt ljósin) þar sem hópurinn getur skipst á að spila og tekið ákvarðanir saman.

Í stuttu máli; Until Dawn er ekki hefðbundinn tölvuleikur. Það má segja að leikurinn sé gagnvirk kvikmynd sem sækir margt til Telltale leikjanna. Spilunin er einföld og getur hver nánast sem er tekið upp fjarstýringuna og haldið áfram með söguþráð leiksins, sama hve mikið eða lítið viðkomandi hefur spilað tölvuleiki áður. Það má vissulega setja út á einhæfa spilun, en þrátt fyrir gagnrýnina er þessi níu klukkutíma hryllingsferð stórskemmtileg!

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑