Greinar

Birt þann 3. nóvember, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Nörd Norðursins prófar DualSense – Jákvæð þróun og skemmtilegar nýjungar

DualSense er heitið á PlayStation 5 fjarstýringunni og fylgir ein slík fjarstýring með kaupunum á PlayStation 5 leikjatölvunni. Í þessari grein verður nýja fjarstýringin sérstaklega skoðuð og fjallað um útlit hennar, virkni og nýjunga.

Það skal tekið fram að þessi umfjöllun byggir aðeins á reynslu höfundar á fjarstýringunni eftir að hafa spilað borðið The Cooling Springs í leiknum Astro’s Playroom (sem fylgir frítt með tölvunni) svo ekki er komin reynsla á langtímanotkun.

Útlitið

Litavalið var djarft hjá Sony en þessi hvíti litur virkar mjög vel og kemur skemmtilega á óvart.

Þegar Sony birti fyrstu myndina af DualSense fjarstýringunni kom nokkuð mörgum á óvart að hún væri hvít á litinn, en svartur og dökkir litir hafa lengi vel þótt klassískir þegar kemur að litavali á tölvuleikjafjarstýringu (þá sérstaklega þeim sem fylgja með leikjatölvunni). Þegar hvíti liturinn er skoðaður betur kemur í ljós að liturinn er ekki skjannahvítur heldur virðist innihalda gráan eða bláan undirtón sem mýkir litinn og gerir hann mildari. Litavalið var djarft hjá Sony en þessi hvíti litur virkar mjög vel og kemur skemmtilega á óvart.

Þegar nýja DualSense er borin saman við DualShock 4 fjarstýringuna þá er DualSense áberandi vandaðri fjarstýring, hún er tilkomumeiri og massívari en DualShock 4. Meira premíum ef svo má segja.

Fjarstýringin er stílhrein og útlínurnar mjúkar. Þegar nýja DualSense er borin saman við DualShock 4 fjarstýringuna (PlayStation 4) þá er DualSense áberandi vandaðri fjarstýring, hún er tilkomumeiri og massívari en DualShock 4. Meira premíum ef svo má segja. LED-ljósið í DualSense er lítið og nett og alls ekki áberandi, langt frá því að vera æpandi líkt og í DualShock 4. Á fjarstýringunni er nú kominn nýr þagnartakki, eða mute-takki, þar sem hægt er að slökkva á hljóðnemanum með einföldum hætti. Í fjarstýringunni er einnig innbyggður hljóðnemi, tengi fyrir heyrnartól og USB-C hleðslutengi.

Tilfinningin

DualSense er þyngri en DualShock 4. Hún er þó alls ekki þung, heldur nær að dansa á þeirri fínu línu þegar kemur að þyngd og liggur vel í hendi. Allir takkarnir eru mátulega stífir og ná að ýta undir þá tilfinningu að DualSense sé vandaðri fjarstýring en DualShock 4. Takkarnir eru allir á sama stað og á DualShock 4 en ákveðið stökk hefur verið tekið í þróun hjá Sony með nýju fjarstýringunni. R1 og L1 takkarnir eru töluvert stærri á DualSense en DualShock 4.

Gripið á fjarstýringunni er mjög gott. Skemmtileg uppgötvun kom í ljós þegar tekin var macro-mynd af gripsvæði fjarstýringarinnar en þar sést mynstur sem PlayStation-spilarar ættu að þekkja vel.

Spilun og nýjungar

Þegar kemur að spilun og nýjungum nær DualSense að koma skemmtilega á óvart. Þar eru tvær nýjungar frá fyrri fjarstýringu sem ber sérstaklega að nefna – snertiskyn (haptic) og betri hristitækni. Gikkirnir L2 og R2 notast við svokallað snertiskynstækni sem virkar þannig að leikjahönnuðir geta stillt hve stífir gikkirnir eru svo það þarf mis mikinn kraft til ýta á þá. Með þessari viðbót er hægt að lífga aðeins upp á leikjaupplifunina líkt og í Astro’s Playroom.

Þessar nýjungar breyta ekki leiknum en virkar sem skemmtileg viðbót og gerir spilunina eftirminnilegri.

Hristitæknin í DualSense er áberandi betri en í DualShock 4. DualSense fjarstýringin getur til dæmis gefið frá sér titring sem finnst aðeins öðru megin á fjarstýringunni. Sömuleiðis getur krafturinn á titringnum verið mismikill og stillingarnar greinilega mun fleiri en á eldri fjarstýringunni. Til dæmis gefur það leiknum skemmtilega tilfinningu þegar vægur titringur finnst þegar aðalpersónan gengur um, fjarstýringin titrar hægra megin þegar hægri fóturinn stígur niður og vinstri megin þegar vinstri fóturinn stígur niður. Hristingurinn getur verið breytilegur eftir því hvort verið sé að ganga á snjó eða á klaka. Þessar nýjungar breyta ekki leiknum en virkar sem skemmtileg viðbót og gerir spilunina eftirminnilegri. Fjarstýringin hefur einnig snertiflöt líkt og PS4 fjarstýringin og með hreyfi- og hallaskynjara.

Samantekt

Eftir að hafa prófað DualSense mun ég alls ekki sakna DualShock 4.

DualSense veldur alls ekki vonbrigðum. Hún byggir á traustum grunni sem hefur verið endurbættur og um leið býður upp á nýjungar sem geta gert leikjaupplifunina eftirminnilegri. Eftir að hafa prófað DualSense mun ég alls ekki sakna DualShock 4. Nýjungarnar eiga ólíklega eftir að gjörbylta spilun tölvuleikja en bjóða upp á áhugaverða viðbót. Burt séð frá nýjungunum er þróunin á heildina séð jákvæð og fjarstýringin mjög svo þægileg í notkun.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑