Greinar Þjóðviljinn, föstudagur 20. maí 1983, bls 6.

Birt þann 14. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Upphaf og þróun leikjatölva og leiktækjasala á Íslandi

Leikjatölvur urðu ekki vinsælar á Íslandi fyrr en snemma á níunda áratugnum. Leikjatölvurnar voru upphaflega vinsælar í Bandaríkjunum og síðar meir í Evrópu og steig leikjatölvan sín fyrstu skref hérlendis rúmlega áratug eftir að Magnavox Odyssey kom út í Bandaríkjunum 1972 (sjá Saga leikjatölvunnar). Leikjatölvur fengu fljótt ágætar undirtektir hér á landi. Fyrst um sinn voru orðin leikjatölva og tölvuleikur ekki mikið notuð fyrr en nýlegri kynslóð af leikjatölvum voru fáanlegar hérlendis (sbr. NES). Líklega var það vegna þess að um nýjan tæknibúnað var um að ræða og því engin íslensk nýyrði komin yfir tilheyrandi tæki og tól sem fylgdu leikjatölvunni. Áhugavert er að sjá hve seint orðið leikjatölva birtist í íslenskum orðabókum. Í útgáfu Tölvuorðabókar Eddu sem gefin var út árið 2003 (og unnin í samvinnu við Orðabók Háskólans) er leikjatölva ekki skrásett orð. Svo virðist sem orðið sé enn þann dag í dag að ryðja sér leið inn í íslenskar orðabækur. Orðin tölva og heimilistölva voru frekar notuð snemma á níunda áratugnum yfir leikjatölvur. Leikjatölvur fortíðarinnar hafa margar hverjar verið flokkaðar sem heimilistölvur og eru jafnvel enn flokkaðar sem slíkar, þar sem þær búa yfir eiginleikum heimilistölvunnar og leikjatölvunnar. Í stað þess að nota orðið tölvuleikur líkt og tíðkast í dag var oft talað um leik, forrit eða leikjaforrit.

 

Mynd: Tíminn, Jólagjafahandbók, föstudagur 9. desember 1983, bls. 5.

Mynd: Tíminn, Jólagjafahandbók, föstudagur 9. desember 1983, bls. 5.

 

Árið 1983 fór að bera meira á tölvuauglýsingum í Morgunblaðinu en áður. Bókabúð Braga (Laugavegur 118) var ein þeirra búða sem seldi ýmsar gerðir af tölvum og leikjum. Í tölvudeild búðarinnar var hægt að nálgast tölvur á borð við Atari 400 (16 k.) og 800 (48 k.),BBC (32 k.), Commodor-64 (64 k.) og Spectrum (48 k.) á verðbilinu 8.198 kr. til 25.689 kr. Tölvuleikir í sömu verslun kostuðu þá á bilinu 400-800 kr, eftir því um hvaða tölvuleik varað ræða og fyrir hvaða tölvu. Í kringum 1983 voru tölvuspilin frá Nintendo, Game & Watch, að ná vinsældum og nældi Tölvuspil hf. sér í einkaumboð Nintendo á Íslandi. Tölvuspil hf. náðu að dreifa tölvuspilunum víðsvegar um landið og var m.a. hægt að nálgast eintök á Djúpavogi, Þórshöfn, Hvammstanga og Flateyri árið 1983. Síðar var Tölvuspil hf. í góðum viðskiptum við bandaríska varnarliðið á Íslandi.

Leiktækjasalir voru nokkuð vinsælir um miðjan níunda áratuginn. Um 1980 voru 4-5 slíkir salir reknir í Reykjavík, en fækkaði talsvert árið 1982 þegar salurinn Einholtið var hvað vinsælastur.

Leiktækjasalir voru nokkuð vinsælir um miðjan níunda áratuginn. Um 1980 voru 4-5 slíkir salir reknir í Reykjavík, en fækkaði talsvert árið 1982 þegar salurinn Einholtið var hvað vinsælastur. Stöðunum fjölgaði aftur yfir í 7-8 sali í Reykjavík árið 1984, og var L-116 (við Laugaveg) og Ásinn (Hverfisgata 105) tveir vinsælustu leiktækjasalirnir það árið. 1983 óskuðu íþróttafélögin á Akureyri eftir einkarétti á leiktækjasölum þar í bæ, en sú tillaga naut ekki stuðnings bæjarstjórnar. Aðgangur að leiktækjasölum takmarkaðist við 14 ára aldur og var hart tekið á þeim viðmiðum. Ungt fólk kom í leiktækjasali ekki einungis til að spila leiki, heldur einnig til að hitta vini og fá einhvers konar útrás. Þrátt fyrir að nýir spilakassar meðnýjum og endurbættum leikjum kæmu fram voru eldri leikirnir vinsælli en þeir nýju, leikir áborð við Pacman, Galaga og ýmiskonar kúluspil.

 

Galaga

 

Svo virðist sem það hafi verið mjög sveiflukenndur atvinnurekstur að vera með leiktækjasal snemma á níunda áratugnum. Helstaskýringin á því að mati Tómasar Tómassonar, eiganda unglingastaðarins Villta Tryllta Villa,„að hér hafa aldrei verið settir upp vistlegir og skemmtilegir tölvuspilasalir, þar semfjölskyldan getur komið saman, heldur hafa tölvuspilin höfðað til mjög takmarkaðs hóps.” (Morgunblaðið (II), 27. ágúst 1982. „Tölvuspil. Afþreying framtíðarinnar?”, bls. 41.) Hann bendir svo á að svokölluð video-veitingahús hefðu slegið í gegn í Bandaríkjunum, þarsem fjölskyldan gat fengið sér að snæða og spilað tölvuspil saman þar á eftir. Í dag má finnaslíka sali á Íslandi og ber þar helst að nefna Keiluhöllina í Öskjuhlíð.

Leiktækjasalir á áttunda áratugnum voru ekki endilega með mörg tölvuspil, en þar var hægt að fara í fótboltaspil, kúluspil, leika billiard, keiluspil og skjóta á mark svo eitthvað sé nefnt.

Til eru eldri dæmi um leiktækjasali hér á landi, eða frá árinu 1971 þegar Tónabær opnaði leiktækjasal í kjallara hússins, en lítið var fjallað um slíka sali á þeim tíma. Þegar leiktækjasalurinn var opnaður í Tónabæ var haldið opið hús þar sem 400 unglingar mættu til að skoða sig um og hefur leiktækjasalurinn eflaust fangað áhuga margra. Leiktækjasalir á áttunda áratugnum voru ekki endilega með mörg tölvuspil, en þar var hægt að fara í fótboltaspil, kúluspil, leika billiard, keiluspil og skjóta á mark svo eitthvað sé nefnt.

„í leiktækjasölum væri leikin sefjandi tónlist og að þar væri andrúmsloft spilavíta og að vera þar gæti jafnvel leitt til hnupls…”

Árið 1979 fór af stað umræða í Morgunblaðinu um slæm áhrif leiktækjasala þegar Adda Bára Sigfúsdóttir borgarfulltrúi fullyrti „að í leiktækjasölum væri leikin sefjandi tónlist og að þar væri andrúmsloft spilavíta og að vera þar gæti jafnvel leitt til hnupls…” (Morgunblaðið, 8. mars 1979. „Steinþór Ingvarsson: Í tilefni af umræðum í borgarstjórn,”, bls. 36.) Davíð Oddsson, Markús Örn Antonsson og Ólafur B. Thors tóku í sama streng. Höfundur greinarinnar, Steinþór Ingvarsson, segir að Adda Bára fari með rangt mál þar sem hún kennirleiktækjasölum um hnupl og skróp úr skóla. Steinþór tekur fram að engin dæmi séu um aðrekja megi þessi vandamál til reksturs leiktækjasala og segist ekki muna „betur en að smápeningahnupl til sælgætiskaupa eða í bíóferð hafi verið alþekkt og skrópsýki einnig, þegarundirritaður var í barnaskóla í Reykjavík fyrir u.þ.b. 35 árum.” (Sama heimild.)

 

 

Steinþór bendir ennfremur á að 1970-1971 hafi leiktækjasalur þurft að hætta rekstri vegna þess að „sjálfskipaðir siðapostular” hafi talið að þeir hafi fundið orsökina fyrir hangsi unglinga í miðbænum. Þrátt fyrir að leiktækjasalurinn hafi horfið hélt Hallærisplanið áfram að verða vinsælla og því ekkihægt að kenna rekstri leiktækjasala um hangs unglinga. Þegar þessi grein birtist í Morgunblaðinu voru fimm leiktækjasalir í Reykjavík (Grensásvegi 7, Einholti 2, Laugavegi 92, Bankastræti 11 og Aðalstræti 8).
Leiktækjasölum fór síðan að fækka snemma á tíunda áratugnum og eignuðust sífellt fleiri leikjatölvur og gátu menn þá spilað tölvuleikina heima hjá sér. Á tíunda áratugnum var leiktækjasalurinn Freddabar í miðbæ Reykjavíkur og tveir leiktækjasalir voru í Kringlunni; Galaxy og Sega-salurinn.

Árið 1993 hafði Nintendo (NES og GameBoy) náð miklum vinsældum hér á landi og varjafnvel talað um „Nintendo-æðið” og síðar „Sega-æðið”. Fyrirtækið Hljómco var þáverandiumboðsaðili Nintendo á Íslandi og Japis umboðsaðili Sega. Japis ætlaði í harða samkeppnivið Nintendo með því að bjóða upp á mikið og fjölbreytt leikjaúrval fyrir leikjatölvur frá Sega. Ekki fylgir sögunni hvernig slagurinn fór en að öllum líkindum bar Nintendo sigur aðhólmi. Sega hætti útgáfu sinni á leikjatölvum eftir Sega Dreamcast sem kom út um aldamótin 2000 og umboðsaðilar þeirra hérlendis fóru á hausinn um svipað leyti. Nintendo þykir enn vera mjög öflugt leikjatölvu- og tölvuleikjafyrirtæki og eru Bræðurnir Ormssonmeð umboð fyrir Nintendo á Íslandi.

Íslendingurinn Ólafur Jóhann Ólafsson starfaði sem forstjóri hjá Sony þegar fyrsta PS var gefin út og var auk þess með umsjón yfir tölvuleikjaframleiðslu.

Þegar Sony gaf út PlayStation (PS) á tíunda áratugnum svipaði sú markaðssprenging í tölvuleikjaiðnaðinum til Nintendo á níunda áratugnum og varð hún ein vinsælasta leikjatölva sögunnar. Íslendingurinn Ólafur Jóhann Ólafsson starfaði sem forstjóri hjá Sony þegar fyrsta PS var gefin út og var auk þess með umsjón yfir tölvuleikjaframleiðslu. Ólafur nam eðlisfræði við Brandeis University í Bandaríkjunum og kynnti einn kennarinn honum fyrir Micheal Schulhof, sem starfaði þá hjá Sony. Ólafur hóf störf hjá Sony árið 1985 og vann sig upp í stöðu forstjóra árið 1991, þá 29 ára gamall. Meðal verkefna hans var að vinna að nýrri leikjatölvu fyrir Sony og var Ólafur sagður „standa í eldlínunni í baráttu Sony og Nintendo um framtíðarþróun sjónvarpsleikja.” (Morgunblaðið; Viðskipti/Atvinnulíf, 13. júní 1991. „Sony veðjar á Íslendinginn.”, bls. 7.) Ólafur hafði ýmislegt til málanna að leggja hvað varðar leikjatölvuiðnaðinn og virkaði oft sem óbein auglýsing fyrir PS. Hann stofnaði árið 1994 sérstaka deild innan Sony sem sett var saman í þeim tilgangi að þróa og hanna nýja leikjatölvu sem átti að verða helsti samkeppnisaðili risanna tveggja; Nintendo og Sega. Ólafur Jóhann og Sony sáu bjarta framtíð í tölvuleikja- og skemmtiiðnaðinum sem varð til þess að miklar skipulagsbreytingar voru gerðar hjá fyrirtækinu á stuttum tíma, m.a. voru nýjar deildir stofnaðar og nafninu Sony Electronic Publishing Company breytt í Sony Interactive Entertainment. Ólafur var einn þeirra sem tók mikinn þátt í markaðssetningu PlayStation tölvunnar víðsvegar um heiminn. Árið 1995 barðist hann fyrir verðlækkun á PlayStation leikjatölvunni í Japan og að verð hennar færi ekki yfir 300 bandaríkjadali. Hugmynd Ólafs var sú að tölvuleikirnir í PS leikjavélina yrðu aðaltekjulind Sony, í stað leikjavélarinnar sjálfra. Til ágreinings kom vegna þessara mála sem endaði með því að honum var vikið úr starfi og var Bruce L. Stein, fyrrum starfsmaður Dreamworks, fenginn í hans stað. Haldið var í verðhugmyndina engu að síður og varð vélin ekki dýrari en 299 bandaríkjadollarar. Þrátt fyrir gott verð í Japan og Bandaríkjunum var gripurinn talsvert dýrari hérlendis og kostaði árið 1995 35.990 kr. og leikir í vélina á 4.900 kr. í verslunum Skífunnar. Verð PS lækkaði töluvert á u.þ.b. einu og hálfu ári (kostaði í kringum 16.000 kr. Í B.T. Tölvum árið 1997), en verð á tölvuleikjum hækkaði (kostuðu í kringum 5.000 – 6.000 kr.í B.T. Tölvum árið 1997). Líklega hafa fyrirtæki gengið að svipuðum hugmyndum og Ólafur boðaði um að tölvuleikir yrðu þeirra helsta tekjulind, þar sem leikjatölvurnar lækkuðu í verði á meðan leikjaverð stóð í stað eða hækkaði. Samkeppnisaðilar á borð við Sega voru með sína nýjustu tölvu, Sega Saturn, á 14.900 kr. og var PS þvi ekki lengur nýjasta leikjatölvan á markaðnum. Þessir tveir þættir hafa haft mikil áhrif á verðlækkun PS.

Þegar PlayStation leikjatölvan kom út í Evrópu 1995 nældi Skífan sér í einkaumboð á dreifingu og sölu fyrir vélinni á Íslandi. Síðan þá hefur einkaumboðið færst yfir til Senu. Aldamótin 2000 tilkynnti Skífan í auglýsingu sem þeir birtu í Morgunblaðinu að PlayStation væri orðin „Mest selda leikjatölvan á Íslandi.” (Morgunblaðið, 9. apríl 2000. „PlayStation. Mest selda leikjatölvan á Íslandi”, bls. 57.) Hefur sala PS því gengið vel líkt og erlendis þar sem hún braut öll eldri sölumet.

Hröð tækniþróun og góðæri hefur ríkt hér á landi frá því um aldamót og verða leikjatölvur algengari heimiliseign með árunum sem líða. Helstu leikjatölvurnar á markaðnum í dag eru Microsoft Xbox 360, Nintendo Wii og Sony PlayStation 3. Ekki fengust sölutölur frá Bæðrunum Ormsson með Nintendo Wii og eru sölutölur Xbox 360 á reiki þar sem enginn er með umboð fyrir þær vélar hér á landi. Aftur á móti getur Sena gefið upp mun nákvæmari tölur þar sem þeir sjá alfarið um sölu á PlayStation leikjatölvum á Íslandi. Miðað við þær tölur má fullyrða að PS leikjatölvurnar hafa slegið öll met á leikjatölvumarkaðinum á Íslandi þar sem PS2 og PS3 hafa selst í tugi þúsnda eintaka.

 

Heimildir:

Hlutir úr lokaritgerð í sagnfræði; Nörd norðursins eftir Bjarka Þór Jónsson.

Forsíðumynd: Þjóðviljinn, föstudagur 20. maí 1983, bls 6.


Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to Upphaf og þróun leikjatölva og leiktækjasala á Íslandi

Skildu eftir svar

Efst upp ↑