Leikjarýni

Birt þann 18. apríl, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Leikjarýni: Resident Evil 7: Biohazard – „langt síðan að ég hef verið jafn hræddur“

Leikjarýni: Resident Evil 7: Biohazard – „langt síðan að ég hef verið jafn hræddur“ Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Einn af betri nýlegum hryllingsleikjum. RES7 fer nýjar leiðir en nær samt að halda klassísku RES upplifuninni lifandi.

4

Góður!


Einkunn lesenda: 3.7 (1 atkvæði)

Hryllingsleikurinn Resident Evil 7: Biohazard kom í verslanir í janúar á þessu ári. Resident Evil (RES) leikirnir hafa notið mikilla vinsælda lengi vel og hafa nú á þriðja tug RES leikja litið dagsins ljós.

RES serían á rætur sínar að rekja til ársins 1996 þegar að fyrsti RES tölvuleikurinn var gefinn út, en síðan þá hefur RES heimurinn stækkað jafnt og þétt með útgáfu tölvuleikja, kvikmynda, teiknimyndasagna og skáldsagna.

SAGAN

Í RES7 fer spilarinn í hlutverk Ethan Winters sem ferðast til Louisiana í Bandaríkjunum í kjölfar skilaboða sem hann fær frá Míu, eiginkonu sinni, sem hefur verið týnd í um þrjú ár. Ethan finnur yfirgefið hús í skógi sem hann tengir við hvarf konu sinnar og ákveður að rannsaka þetta dularfulla hús. Þar finnur hann Míu læsta i í búri í kjallara hússins. Þegar Ethan og Mía reyna að flýja úr húsinu reyna dularfull öfl að koma í veg fyrir það. Í leiknum stjórnar maður Ethan sem þarf að rannsaka hvarf konu sinnar, örlög hennar og um leið halda sér á lífi frá allskyns ógeði.

Það gefur auga leið að með þessum mikla fjölda RES leikja, kvikmynda og sagna þá er heildarsaga RES orðin ansi djúp og flókin. Hér nær RES7 að næla sér í stóran plús þar sem leikurinn virkar sem sjálfstæð eining og er þar af leiðandi óþarfi að þekkja baksöguna, sem getur verið góður kostur fyrir nýja RES spilara.

RES Í FYRSTU PERSÓNU

RES7 nær að fanga þetta drungalega og spennuþrungna andrúmsloft mjög vel þrátt fyrir breytt sjónarhorn meðal annars með því að halda spilaranum í myrkri

Hingað til hafa RES tölvuleikirnir verið spilaðir út frá þriðju persónu sjónarhorni. Í RES7 hefur þessu verið breytt og er leikurinn spilaður út frá fyrstu persónu sjónarhorni, sem er stór breyting frá fyrri leikjum. Það sem gömlu RES leikirnir náðu að gera svo ótrúlega vel var að byggja upp spennu og drungalegt andrúmsloft. Þessa spennu náðu leikjahönnuðir RES leikjanna oft að byggja upp með því að halda þriðju persónu myndavél leiksins á föstum stað, þ.e.a.s. spilarinn fékk ekki að stjórna sjónarhorni myndavélarinnar, heldur var sjónarhornið fast og þess vegna var ómögulegt að komast að því hvað var handan við hornið í leiknum, nema einfaldlega með því að ganga þangað og komast að því. RES7 nær að fanga þetta drungalega og spennuþrungna andrúmsloft mjög vel þrátt fyrir breytt sjónarhorn meðal annars með því að halda spilaranum í myrkri og veita takmarkað sjónarhorn til dæmis með lítilli lýsingu. Sömuleiðis geta byssukúlurnar verið dýrmætar og þarf að hugsa taktískt áður en skotunum er eytt.

ANDRÚMSLOFTIÐ

Andrúmsloftið í leiknum er virkilega drungalegt. Á köflum líður manni hreint út sagt illa. Ég skal alveg viðurkenna það hér og nú að ég þurfti oftar en einu sinni að plata konuna til að horfa á leikinn með mér til að þora að spila hann. Hún ætlaði að prjóna á meðan, en það gekk ekki heldur útaf spennu og hryllingi. Saman sátum við í sófanum, hvít í framan og kvíðin. Það er langt síðan að ég hef verið jafn hræddur í tölvuleik. Leikurinn nær að mynda ótrúlega hryllilega stemningu með því að blanda saman bregðuatriðum, hryllingi, varnarleysi ásamt smá splatter viðbjóði.

Sagan í leiknum er ekkert gríðarlega öflug og þrautirnar ekki beinlínis krefjandi, en upplifunin og andrúmsloftið sem leikurinn bíður uppá bætir upp fyrir það.

Sagan í leiknum er ekkert gríðarlega öflug og þrautirnar ekki beinlínis krefjandi, en upplifunin og andrúmsloftið sem leikurinn bíður uppá bætir upp fyrir það. Endakallarnir í leiknum eru heldur slakir og zombíarnir í þessum RES leik eru ekki þessir hefðbundnu zombíar, heldur einskonar blanda af skrímsli og zombí sem þekkjast svosem úr fleiri RES leikjum. Útkoman er ágæt, en ekki frábær.

NIÐURSTAÐA

Resident Evil 7 er klárlega einn af betri nýlegum hryllingsleikjum. Leikurinn fylgir ekki hefðbundinni RES formúlu en nær samt sem áður að viðhalda andrúmsloftinu sem að RES leikirnir eru gjarnan þekktir fyrir. Grafík og hljóð leiksins eru vel heppnuð og á heildina lítið er þetta mjög góður pakki fyrir aðdáendur hryllingsleikja. Að mínu mati eru þó nokkrir kaflar sem eru beinlínis óþægilegir að horfa á, stundum vegna þess að atriðin eru það brútal en stundum vegna þess að andrúmsloftið er það spennuþrungið og drungalegt að það getur verið erfitt að spila leikinn einn í myrkirnu. Þá getur verið nauðsynlegt að bjóða vin eða vinkonu í heimsókn. Svona án gríns.

Til gamans má geta þá er boðið uppá sérstakan VR möguleika fyrir PS VR í leiknum, en sá möguleiki var því miður ekki prófaður fyrir þessa gagnrýni. Sýndarveruleikinn bætir einhverju við leikinn en hafa nokkrir spilarar kvartað yfir því að verða sjóveikir við það að spila VR-útgáfuna af leiknum í lengri tíma. RES7 leikurinn einn og sér er góður þó svo að leikurinn sé ekki svo langur.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑