Greinar

Birt þann 24. apríl, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Þetta eru íslensku leikirnir sem eru tilnefndir til NGA 2016

Á fimmtudaginn birtum við lista yfir þá leiki sem tilnefndir eru til norrænu tölvuleikjaverðlaunanna Nordic Game Awards í ár. Á listanum eru fjórir leikir frá íslenskum leikjafyrirtækjum; Aaru’s Awakening frá Lumenox Games, Box Island frá Radiant Games, EVE Gunjack frá CCP Games og Kingdom frá Licorice & Noio. En hvaða leikir eru þetta? Við skulum skoða þá aðeins betur.

AARU’S AWAKENING

Aaru’s Awakening er hraður platformer sem á sér nokkuð langa sögu.

Aaru’s Awakening er hraður platformer sem á sér nokkuð langa sögu. Árið 2011 sigraði leikurinn Game Creator, sem er tölvuleikjasamkeppni sem Icelandic Game Industry hafa haldið nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Á þessum tíma var leikurinn á prótótýpu-stigi og leit allt öðruvísi út (eins og sést á myndbandinu sem fylgir þessari frétt) en sýndi vel hvernig leikurinn myndi virka. Leikurinn var upphaflega kallaður Relocator en fékk síðar nafnið Aaru’s Awakening.

Leikurinn kom út á seinasta ári frá leikjafyrirtækinu Lumenox Games (sem gaf út partýleikinn YamaYama fyrir stuttu) og er fyrsti leikurinn sem fyrirtækið gefur út. Aaru’s Awakening náði athygli margra með útliti sínu og hljóði og er leikurinn einmitt tilnefndur fyrir besta hljóðið (Best Audio) á Nordic Game Awards í ár. Útlit leiksins er frábrugðið mörgum öðrum leikjum þar sem stór hluti hans er handteiknaður. Til gamans má geta að þá var leikurinn hluti af leikjapakkanum fyrir PlayStation Plus áskrifendur í apríl á seinasta ár.

Leikirnir sem eru tilnefndir í flokknum besta hljóðið: Aaru’s Awakening (IS), Just Cause 3 (SE), Soma (SE), Star Wars: Battlefront (SE) og The Park (NO)

BOX ISLAND

Box Island er þrautaleikur sem kennir beitingu grunngilda forritunar og eflir rökfræðilegan hugsunarhátt.

Box Island er fyrsti tölvuleikurinn sem leikjafyrirtækið Radiant Games gefur út. Þó svo að leikurinn sé fyrst og fremst ætlaður krökkum þá geta ungir sem aldnir haft gaman af honum – enda er leikurinn tilnefndur í flokknum skemmtun fyrir alla (Best Fun for Everyone). Radiant Games tóku þátt í Image Cup árið 2012 og lentu í 4.-5. sæti með leikinn sinn Robert’s Quest.

Box Island er þrautaleikur sem kennir beitingu grunngilda forritunar og eflir rökfræðilegan hugsunarhátt. Radiant Games hafa með Box Island náð að tvinna saman kennslu og tölvuleik. Radiant Games bjó einnig til sérstaka Hour of Code útgáfu af leiknum, en Hour of Code miðar af því að kynna krökkum (og öðrum) fyrir möguleikum forritunar.

Leikirnir sem eru tilnefndir í flokknum besta skemmtunin fyrir alla: AG Drive (FI), Angry Birds 2 (FI), Box Island (IS), Shiftlings (NO), Sofus & Månemaskinen (DK), Steamworld Heist (SE) og Zombie Vikings (SE)

EVE GUNJACK

EVE Gunjack er hraður geim-skotleikur þar sem spilarinn hreyfir höfuðið til að miða á óvini sína.

Þetta er fyrsti VR-leikurinn sem leikjafyrirtækið CCP sendir frá sér. Leikurinn var gefinn út í nóvember á seinasta ári, stuttu eftir að CCP tilkynnti um útgáfu leiksins. EVE Gunjack er hraður geim-skotleikur þar sem spilarinn hreyfir höfuðið til að miða á óvini sína. Til að byrja með var leikurinn eingöngu fáanlegur fyrir Samsung Gear VR sýndarveruleikabúnaðinn en er í dag einnig fáanlegur fyrir Oculus Rift og HTC Vive.

EVE Gunjack er tilnefndur í flokknum besta tæknin (Best Technology). Leikurinn hefur verið að gera það gott og er mest seldi Samsung VR leikurinn í dag. CCP hefur haldið áfram á VR-brautinni og gaf nýlega út EVE: Valkyrie, sem er einnig geim-skotleikur en mun umfangsmeiri en Gunjack. Auk þess sem fyrirtækið kynnti verkefnið Project Arena á EVE Fanfest í ár.

Leikirnir sem eru tilnefndir í flokknum besta tæknin: Affordable Space Adventures (DK), EVE Gunjack (IS), Mad Max (SE), Star Wars Battlefront (SE) og The Park (NO)

KINGDOM

Í leiknum á spilarinn að byggja virki til að verja ríki sitt frá árásum óvina.

Þessi leikur er tilnefndur í flokknum besta listræna nálgun (Best Art). Í leiknum á spilarinn að byggja virki til að verja ríki sitt frá árásum óvina. Á daginn ríður spilarinn um ríkið sitt á hesti, safnar peningum og kaupir vinnuafl til að smíða varnarveggi. Þegar nóttin skellur svo á koma óvinirnir og reyna að brjóta leið sína í gegnum varnarveggina þar sem þeir vilja ólmir stela kórónunni sem aðalpersónan í leiknum ber á höfði sér.

Kingdom er mínímalískur og samanstendur af pixla-grafík. Það eru leikjahönnuðurnir Licorice & Noio (Licorice er frá Íslandi og Noio frá Hollandi) sem búa til leikinn og sænska fyrirtækið Raw Fury Games sér um útgáfuna.

Leikirnir sem eru tilnefndir í flokknum besta listin: Affordable Space Adventures (DK), Badland 2 (FI), Helldivers (SE), Kingdom (IS) og Star Wars: Battlefront (SE)

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑