Fréttir

Birt þann 28. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

EVE Valkyrie frá CCP gefinn út í dag

VR-geimskotleikurinn EVE Valkyrie sem CCP kynnti fyrst til sögunnar á EVE Fanfest hátíðinni í Reykjavík árið 2013 er nú fáanlegur fyrir Oculus Rift á PC – sama dag og Oculus Rift VR-gleraugun eru gefin út. EVE Valkyrie fylgir frítt með Oculus Rift forpöntunum en kostar annars 59,99 dali í Oculus Rift Store, eða u.þ.b. 7.500 kr. Síðar í ár mun leikurinn svo einnig koma út fyrir PlayStation VR.

Leikurinn byrjaði upphaflega sem gæluverkefni innan veggja CCP en þróaðist hratt í eitthvað meira og stærra. EVE Valkyrie er fjórði tölvuleikur CCP og er hannaður frá grunni fyrir nýja tækni sýndarveruleika. Fyrirtækið hefur lagt mikinn metnað í leikinn og náði alveg að heilla okkur nördana upp úr skónum á seinasta Fanfesti þar sem við prófuðum leikinn. EVE Valkyrie hefur yfir höfuð hlotið mjög jákvæð viðbrögð og hefur leikurinn endað á mörgum topplistum yfir VR-leiki. Wired tímaritið kallaði leikinn nýlega „skínandi dæmi um sýndarveruleika sem framtíð tölvuleikjageirans“.

Gestir Fanfest hátíðarinnar í Hörpu í næsta mánuði munu fá að spila þennan nýjasta leik CCP á Oculus Rift, auk þess að prófa ýmsar nýjungar frá CCP í sýndarveruleika.

Í dag gefur CCP jafnframt út nýja útgáfu af leik sínum Gunjack fyrir Oculus Rift, en leikurinn hefur áður komið út fyrir Samsung Gear VR búnaðinn og verið þar söluhæsti leikurinn.

 

ÚTGÁFUSTIKLA EVE VALKYRIE

Heimild: Fréttatilkynning frá CCP

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑