Bíó og TV

Birt þann 3. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Saga uppvakninga í kvikmyndum á 20. öld

Þrátt fyrir að hafa að mestu leyti verið sú tegund hryllingsmynda sem mætt hefur afgangi hafa kvikmyndir um uppvakninga lifað ágætu lífi frá því að fyrsta slíka myndin kom út árið 1932. Uppvakningamyndir hafa þó þróast og breyst allsvakalega síðan þá og áhugavert er að skoða hvernig uppvakningarnir þróuðust úr þjóðsögum frá Haiti. Þeir voru fólk sem gert hafði verið að einhverskonar uppvakningum með lyfjum til þess að ná völdum yfir því, yfir í það að vera liðin lík sem þrá ekkert heitar en að gæða sér á mannakjöti. Í þessari grein verður saga uppvakningakvikmynda á 20. öld rakin og gerð grein fyrir þessari þróun, auk þess sem litið verður á þá samfélagsþætti sem hafa haft áhrif á þessa gerð kvikmynda.

 

Forsaga

Voodoo ZombieEins og flest önnur fyrirbæri hryllingsmynda eiga uppvakningar rætur sínar að rekja til þjóðsagna, en það er þó tvennt öðru fremur sem gerir uppvakningana frábrugðna öðrum þjóðsagnarverum sem komist hafa á skjáinn: þeir eru einu þjóðsagnaverurnar sem hafa farið beint úr þjóðsögum yfir á hvíta tjaldið án þess að skrifaðar hafi verið skáldsögur um þá í millitíðinni og þeir eru einnig líklega einu þjóðsagnaverurnar sem Hollywood hefur gert frægar sem eru ekki af evrópskum uppruna. Ástæða þess að uppvakningabókmenntir urðu aldrei vinsælar áður en að Hollywood hafði rutt veginn fyrir uppvakninga og gert þá fræga er sennilega sú að þeir eru hugsanalausir og tjáningarlausir, sem veldur því að þeir eru mun hræðilegri í sjón en nokkurn tímann í ritmáli.

Hugmyndin um uppvakninga eins og þeir birtast í kvikmyndum í dag er mjög tengd vúdútrúnni á Haiti, en þar eru til dæmi um að voldugir vúdú-galdramenn, eða bokor eins og þeir eru kallaðir, hafi lært að nota einhverskonar náttúruleg lyf og efni til að búa til svokallað uppvakningaduft, eða Coupe poudre. Þetta duft lætur fólk líta út fyrir að vera dáið, síðan er því gefið önnur lyf svo að það láti betur að stjórn og er þá notað sem þrælar. Þetta var ekki óalgengt á Haiti og eru þess vegna þjóðsögur um liðin lík sem ganga á meðal þeirra lifandi algengar þar.

 

Uppvakningar til Hollywood

White Zombie hulsturUppvakningar komu fyrst á sjónarsviðið fyrir alvöru í hinum vestræna heimi þegar William Seabrook gaf út ferðabók sína The Magic Island árið 1929, en hann hafði lengi haft mikinn áhuga á satanisma og vúdú og lýsir í þessari bók sinni eigin reynslu sem hann varð fyrir á ferðalögum í þriðja heims löndum. Árið 1932 hóf maður að nafni Kenneth Webb síðan sýningar á leikriti sínu, Zombie, og var uppvakningurinn þá endanlega orðinn eign skemmtanabransans.

Hollywood var ekki lengi að átta sig; mánuði eftir að leikrit Webbs hóf sýningar byrjaði Victor Halperin að framleiða fyrstu uppvakningamyndina sem ber nafnið White Zombie, og kom út síðar sama ár. Myndin gerist á Haiti og vúdú er rauði þráðurinn í gegnum hana. Í myndinni eru uppvakningar þó ekki skrímsli eins og þeir urðu seinna, heldur þrælar sem teknir höfðu verið úr gröfum með göldrum til að láta þá vinna sykur. Þeir eru ekki hin raunverulega ógn heldur sá sem stjórnar þeim. Titill myndarinnar vísar til kvenhetjunnar Madeleine Short, sem var í hópi amerískra ferðamanna til Haiti. Tveir menn urðu ástfangnir af henni en hún var trúlofuð öðrum þeirra, hinum leist ekkert á það og lét gera hana að uppvakningi svo að hann gæti haft hana út af fyrir sig en áttar sig síðan á því að það fullnægir ekki þörfum hans að hafa hana sem hugsunarlausan þræl.

Í framhaldinu spruttu upp margar svipaðar uppvakningamyndir sem lítið höfðu fram að færa annað en það sem Halperin gerði með White Zombie. En hægt og rólega fór þó hugmyndin um uppvakninga að breytast og taka á sig nýja mynd með hjálp teiknimyndasagna. Á fimmta og sjötta áratugnum varð hrollvekja sífellt vinsælli, sennilega vegna þess að fólk var að reyna að jafna sig á enn ógnvænlegri hryllingi; dauðabúðum nasista og notkun kjarnorkusprengjunnar á Hiroshima og Nagasaki.

Á fimmta og sjötta áratugnum varð hrollvekja sífellt vinsælli, sennilega vegna þess að fólk var að reyna að jafna sig á enn ógnvænlegri hryllingi; dauðabúðum nasista og notkun kjarnorkusprengjunnar á Hiroshima og Nagasaki.

Á fjórða og fimmta áratug 20 aldar voru uppvakningar í kvikmyndum oftast ekki aðalefni myndarinnar heldur voru þeir þrælar einhverra annarra og verri persóna. Þó að uppvakningarnir væru ógnvekjandi og grimmir beittu þeir sjaldan ofbeldi, enda voru þeir aðallega notaðir sem vinnuafl. Þessi hugmynd um uppvakninga á sér skýrar rætur í hugsunarháttum fólks á Haiti: það sem fólk óttaðist við uppvakninga þar var ekki það að verða fórnalömb þeirra, heldur að það sjálft yrði að uppvakningum. Ólíkt seinni tíma myndum, þar sem það eina sem skiptir uppvakningana máli er að gæða sér á holdi lifandi fólks, þá sýndu uppvakningarnir í þessum myndum umhverfi sínu engan áhuga og voru mjög vélrænir.

 

Uppvakningar í orði einu saman

Plan 9 from Outer SpaceTímabilið 1952-1966 var einhverskonar upplausnartímabil í sögu uppvakningakvikmynda. Fólk var heillað af orðinu en vildi meira en hugsanalausu hjálparhellurnar sem uppvakningar höfðu verið seinustu tvo áratugina. Á þessum árum tóku uppvakningar á sig ýmsar undarlegar myndir sem fæstir myndu tengja við uppvakninga í dag. Sem dæmi má taka myndina Zombies of the Stratosphere sem kom út 1952, en uppvakningarnir í henni eru marsbúar sem gera innrás á jörðina. Þessir marsbúar eiga þó ekkert skylt með uppvakningum, þar sem þeir hugsa, hafa tilfinningar og hugmyndaflug til að skipuleggja áætlun um að taka yfir jörðina. Í myndinni Zombies of Mora-Tau sem kom út 1957 er aftur horfið til baka til upprunalegu uppvakninganna og hegðun þeirra en af einhverjum ástæðum dvelja þeir í vatni.

Uppvakningamyndirnar á þessu tímabili voru þó ekki allar alveg út í hött og fjölluðu margar hverjar, eins og áður, um hræðsluna við það að tapa persónueinkennum sínum og sjálfsímynd sinni og verða ekkert annað en hugsunarlaus og tjáningarlaus hluti af heildinni. Í myndunum Plan Nine From Outer Space og Invisible Invaders frá árinu 1959 var sýnt fram á að uppvakningarnir áttu ekki lengur neitt skylt með fólkinu sem það hafði verið áður en það dó og að það væri í rauninni orðið að engu öðru en hugsunarlausu kjötflykki með hreyfigetu. Þegar persónurnar í myndunum fylgjast með látnum ástvinum sínum ráfa um vakna upp allskonar spurningar um mannlega virðingu og fjölskyldutengsl. Í myndinni The Last Man on Earth frá 1964 nær þessi hugsunarháttur síðan hámarki þar sem upp koma vandamál eins og hvað skuli gera við líkin og tilfinningar eftirlifandi persóna til hins látna. Myndir eins og þessar hjálpuðu til við að ryðja leiðina fyrir þau virkilega ógnvekjandi þemu sem urðu vinsæl á seinni hluta sjöunda áratugarins.

Night of the Living Dead

 

Uppvakningar taka á sig endanlega mynd

Á sjöunda áratugnum komu út tvær myndir sem marka upphaf uppvakningakvikmynda eins og þær eru í dag; breska myndin The Plague of the Zombies frá árinu 1966 og ameríska myndin Night of the Living Dead frá 1968. The Plague of the Zombies markaði upphaf ógnvænlegs útlits uppvakninganna; fram að þessu hafði verið óskrifuð regla í kvikmyndum um að sýnilega rotnandi hold væri ekki sýnt, en nú tóku kvikmyndagerðarmenn þessa reglu og hentu henni út um gluggann, þetta varð til þess að uppvakningar urðu enn hræðilegri en áður.

Mynd leikstjórans George A. Romero, Night of the Living Dead, markar tímamót í uppvakningakvikmyndum, en hann tók sig til og frelsaði uppvakningana frá þrældómi og gaf þeim í staðinn eitthvað til að knýja þá áfram – löngun til mannáts.

George RomeroMynd leikstjórans George A. Romero, Night of the Living Dead, markar tímamót í uppvakningakvikmyndum, en hann tók sig til og frelsaði uppvakningana frá þrældómi og gaf þeim í staðinn eitthvað til að knýja þá áfram – löngun til mannáts. Þetta var ekki það eina nýja sem Romero hafði fram að færa með mynd sinni heldur setti hann einnig fram það sem hefur haldist að mestu leiti óbreytt til þessa dags; eina leiðin til þess að drepa uppvakning endanlega er að stoppa alla heilastarfsemi hans, t.d. með því að skjóta eða stinga hann í hausinn. Því að þó að líkaminn sé í slæmu ásigkomulagi heldur hann áfram að virka svo lengi sem að hreyfistöðvarnar í heilanum halda áfram starfsemi. Romero þróaði þessa kenningu sína enn frekar með mynd sinni Day of the Dead frá árinu 1985, en þar kemur fram að þegar heilakjarninn í uppvakningnum hefur rotnað deyr uppvakningurinn.

Ofbeldið í mynd Romeros var slíkt að aldrei áður hafði annað eins sést en hann hugsaði myndina sem ádeilu á Víetnam stríðið og notaði hana til að sýna áhorfendum hryllinginn sem fylgir dauða og limlestingu og gagnrýna þá sem nota ofbeldi til að leysa vandamál sín. Myndin hefur eignast dygga aðdáendur í gegnum tíðina og hefur dregið að sér 30 milljón dollara á heimsvísu.

Það sem einkenndi uppvakningamyndir sjöunda áratugarins var ekki hryllingurinn og ofbeldið heldur frekar blóðið og viðbjóðurinn sem var sýndur; uppvakningarnir voru að éta fólk og allt var sýnt.

 

Gullöld uppvakningakvikmynda

Á næstu árum eftir mynd Romeros kom út fjöldinn allur af uppvakningakvikmyndum sem fylgdu hugmyndum hans um uppvakninga og má segja að orðið hafi eins konar gullöld uppvakningakvikmynda þar sem að meira en 30 uppvakningamyndir komu út í hinum ýmsu löndum á árunum 1969-1977. Fóru nú frægir leikarar, sem áður höfðu leikið í annarskonar hryllingsmyndum, svo sem Christopher Lee og Peter Cushing, að berjast við uppvakninga á hvíta tjaldinu.

Á árunum 1975-1978 virtust vinsældir uppvakninga taka að dala en þá gaf Romero út aðra kvikmynd, Dawn of the Dead, árið 1978, og vinsældir þeirra jukust um leið aftur. Á árunum 1979-1989 komu út að meðaltali 6 uppvakningakvikmyndir á ári.

Eftir 1979 hættu uppvakningamyndir að mestu að fjalla um afmarkaðan hóp fólks sem þurfti að berjast við hóp af uppvakningum til að halda lífi eins og þær höfðu áður gert og fóru nú að einbeita sér að miklu leyti að algjörum heimsendi. Uppvakningarnir í þessum myndum smituðu frá sér með ógnvænlegum hraða og fórnarlömb þeirra áttu á hættu að verða einnig að uppvakningum. Önnur mynd Romeros markaði upphafið að þessari nýju tegund uppvakningakvikmynda sem er vinsæl enn þann dag í dag, en mynd ítalska leikstjórans Lucio Fulci, Zombi 2, sem hann hafði hugsað sem framhaldsmynd fyrir Dawn of the Dead og kom út nokkrum mánuðum á eftir henni, gerði henni betri skil og hafði gífurleg áhrif á uppvakningakvikmyndir sem komu út í framhaldinu.

 

Uppvakningakvikmyndir á heljarþröm

Þrátt fyrir að uppvakningakvikmyndir hafi á næstu árum ekki náð gífurlegum vinsældum áttu þær stöðugt fylgi aðdáenda. En í kringjum miðjan níunda áratug seinustu aldar fóru þær að tapa vinsældum, þá sérstaklega eftir að Michael Jackson kom með myndband sitt við lagið Thriller, þar sem að uppvakningarnir hætta að vera ógnvekjandi og bresta í dans við hlið tónlistarmannsins.

Romero reyndi að blása lífi í uppvakningakvikmyndabransann með mynd sinni Day of the Dead fá 1985, sem var táknræn ádeila á ofsahræðslu kaldastríðsins, en allt kom fyrir ekki og leit út fyrir að þessi undirtegund hryllingsmynda væri að syngja sitt seinasta. Myndinni gekk illa í bíóhúsum og laut í lægra haldi fyrir myndum eins og Return of the Living Dead sem kom út sama ár, en hún var uppvakningamynd í gamansömum stíl og braut á flestum reglum uppvakningamynda sem myndast höfðu seinustu áratugina, en þar gátu uppvakningarnir t.d. talað og hugsað, auk þess sem að þeir girntust að gæða sér á heilum fólks en ekki holdi.

Hingað til höfðu uppvakningakvikmyndir verið táknrænar fyrir það sem var í gangi í samfélaginu á hverjum tíma, oft einhverskonar ádeila á óréttlæti stjórnvalda og samfélaga. En tíundi áratugur seinustu aldar var að miklu leyti átakalaus áratugur í sögu Ameríku og þar af leiðandi Hollywood, en hann markaði endalok kalda stríðsins og fólk var farið að anda léttar. Þar með höfðu uppvakningakvikmyndir engu að mótmæla og virtust við það að hverfa.

Gamanmynd Peter Jacksons Dead Alive frá árinu 1992 reyndi að bjarga uppvakningunum frá dauða með svörtum húmor en allt kom fyrir ekki og uppvakningakvikmyndir héldu áfram að deyja út. Það sem hélt lífinu í uppvakningahugmyndinni voru ofbeldisfullir tölvuleikir sem tóku að spretta upp á seinni hluta tíunda áratugsins og varðveittu hana í raun þar til hún var tilbúin að koma aftur á skjáinn eftir aldamótin 2000.

 

Framtíðin

Á seinustu árum hafa uppvakningamyndir lifnað við aftur og vinsældir þeirra aukist til muna eftir aldamótin. Ýmsir sérfræðingar hafa tengt þetta við árásirnar þann 11. september 2001 og óttann og hryllinginn í kringum þær, auk stríðsins í Írak. Eitt er þó víst að vinsældir uppvakningakvikmynda hafa ekki verið jafn miklar síðan á sjöunda og áttunda áratug seinustu aldar og þær virðast ekki ætla að minnka á næstunni.

Þó að uppvakningakvikmyndir virðast kannski við fyrstu sýn lítið annað en ómerkileg undirtegund hryllingsmynda hafa þær löngum verið notaðar sem ádeila á ofbeldi í heiminum,

Þó að uppvakningakvikmyndir virðast kannski við fyrstu sýn lítið annað en ómerkileg undirtegund hryllingsmynda hafa þær löngum verið notaðar sem ádeila á ofbeldi í heiminum, auk þess sem að þær leika sér með það sem að stór hluti mannkyns óttast hvað mest; dauða og afsjálfgun. Það er því greinilegt að uppvakningamyndir endurspegla tíðaranda í heiminum hverju sinni og ótta sem er undirliggjandi í samfélaginu. Þó að uppvakningakvikmyndir hafi oft átt erfitt i gegnum tíðina aukast vinsældir þeirra alltaf aftur enda koma alltaf aftur tímar þar sem að samfélagið þarf útrás fyrir ofbeldi og hryllingnum sem fyrirfinnst í heiminum.

 

Heimildir:

  • Bishop, Kyle. 2006. „Raising the dead: Unearthing the nonliterary origins of zombie cinema“. Journal of Popular Film & Television.
  • Bishop, Kyle. 2009. „Dead man still walking: Explaining the zombie renaissance“. Journal of Popular Film & Television.
  • Dendle, Peter. 2001. The Zombie Movie Encyclopedia. McFarland & Company, Jefferson.
  • Kay, Glenn. 2008. Zombie Movies: The Ultimate Guide. Chicago Review Press, Chicago.
  • Myndir: Skjáskot úr umræddum kvikmyndum og Wikimedia Commons (Voodoo Zombie og Romero).

 

 

Höfundur er Olga Katrín Olgeirsdóttir,
stúdent af félagsfræðibraut.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑