Leikjarýni

Birt þann 13. febrúar, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Parkour og uppvakningar

Parkour og uppvakningar Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Skemmtilegur leikur, sem er pínu buggy en með nóg efni að spila

3.5

fín skemmtun


Er hægt að halda í mennska hlutann af sér á meðan heimurinn fer til fjandans, það er spurningin sem leikurinn Dying Light 2 reynir að varpa fram. Hvernig tekst svo upp að svara þeirri spurningu? Hefur biðin eftir leiknum verið þess virði?

Pólska fyrirtækið Techland, sem voru helst þekktir fyrir vestra leikina Call of Juarez, hittu í mark árið 2011 með uppvakningaleiknum Dead Island sem var opinn sandkassaleikur þar sem leikmenn börðust við uppvakninga í hitabeltisparadís. Dying Light spratt upp úr vinnu við framhald Dead Island og var ákveðið að gera nýja seríu þar sem leikurinn fór í aðrar áttir. Einnig var ósætti á milli Techland og þátt útgefandans Deep Silver í nýrri seríu og að rétturinn af Dead island yrði eftir hjá þeim.

Dying Light kom út árið 2015 og byggði á miklu sem Dead Island gerði ásamt því að bæta við bardagakerfi þar sem áhersla var lögð á handvopn og parkour hlaupastíllinn var einn af lykil nýjungum leiksins. Þetta opnaði upp leikinn og kom með meira flæði í hvernig þú ferðast um borgina Harran þar sem blóðþyrstir uppvakningar herjuðu á.

Tökum var náð á Harran-vírusnum þar sem vísindamenn náðu að búa til mótefni en Global Relief Effort samtökin völdu að nýta vírusinn í hernað í græðgi sinni og héldu áfram rannsóknum. Eins og við mátti búast endaði það illa og stökkbreytt útgáfa slapp út og útrýmdi yfir 90% mannkynsins.

Dying Light 2 gerist 22 árum eftir atburði fyrsta leiksins, eða árið 2036, og setur leikmenn í fótspor Aiden Caldwell. Hann er Pilgrim, ferðalangur í rústum heimsins eftir að vírusinn gekk næstum því frá mannkyninu. Fólk heldur til í litlum byggðarlögum eða vel vörðum borgum og hann ferðast á milli þeirra með pakka eða skilaboð.

Ein slík er Villedor sem virðist vera borg í Evrópu en þó er aldrei tekið fram hvar hún er nákvæmlega staðsett. Borgin var með háa varnarveggi sem dugðu skammt því vírusinn slapp í gegn og herjaði á íbúana. Villedor er skipt á milli nokkura fylkinga, hernaðarsamtakanna Peacekeepers, Survivors í Bazzar-num og hrottanna Renegades.

Útfjólublátt ljós getur bjargað þér úr klípu. Uppvakningarnir meiðast ef þeir koma of nálægt.

Aiden kemur til borgarinnar í leit af systur sinni sem hann hefur ekki séð í um 15 ár í von um að finna lækninn Dr. Waltz og fá svör við spurningum um hvað varð um hana og baksögu þeirra beggja. Hlutirnir fara fljótt úrskeiðis og Aiden er bitinn af uppvakning og þarf á hjálp að halda til að lifa af.

Hér er ein af stærri nýjungum leiksins kynnt til sögunnar, sem snýst um persónulegt val hvern þú vingast við og hvaða afleiðingar gjörðir þínar hafa á fólkið í borginni og borgina sjálfa. Hjálpar þú spilltum gaurum við að sölsa undir sig vatnið í borginni? Vinnurðu með Peacekeepers sem reyna að halda uppi lögum og reglu  en berja alla mótspyrnu harkalega niður og refsa grimmilega öllum sem eru ekki sammála þeim? Eða vinnurðu með íbúum Bazaar sem eru bara að reyna að lifa af frá degi til dags?

Það er áhugavert að sjá hvernig fólk hefur aðlagast breyttum heimi þar sem hætturnar leynast að mestu niðri á götunni. Íbúar hafa byggt sér vistarverur á húsþökum Villedor og tengja saman ýmis háhýsi hennar til að ferðast á milli staða og halda sig þannig frá uppvakningunum. Þetta dugar bara upp að vissu marki svo nauðsynlegt er að vera með útfjólublá ljós til að sporna við uppvakningunum og tryggja að enginn sýktur komi of nálægt. Heimur Dying Light 2 er bæði stærri og meira lagt upp úr honum miðað við fyrri leikinn. Það er ljóst að talsverð vinna hefur verið lögð í að skapa heiminn og gera borgina lifandi og meira sannfærandi.

Mikið af verstu hryllingum leiksins fara á stjá á nóttunni.

Í gegnum sögu leiksins koma upp mörg tækifæri þar sem leikmenn þurfa að velja á milli valkosta í samtölum sem geta haft afleiðingar síðar í sögunni og ekki er alltaf augljóst hvað það þýðir seinna meir. Hjálparðu særðum einstaklingi? Eða reynirðu að halda áfram til að komast af sannleikanum og láta hann kannski deyja? Í sumum tilvikum færðu skamman tíma til að ákveða þig.

Fyrir vikið eru ótal hliðarspor sem saga leiksins getur tekið  út frá valkostum þínum í gegnum sögu leiksins. Þó er þetta ekki alveg jafn yfirgripsmikið og í t.d. Fallout New Vegas en þetta gefur leiknum nýjan blæ og býður upp á góða endurspilunarmöguleika.

Þegar þú færð aðgang  að vissum byggingum eins og rafstöðvum eða vatnsturnum færðu möguleikann á að ráða hvaða fylking fær yfirráð yfir þeim. Læturðu Peacekeepers ráða yfir vatnsturninum og færðu fyrir vikið ótal gildrur sem nýtast þér gegn óvinum? Eða læturðu Survivors fá hann og þeir leggja línur á milli bygginga sem gerir það auðveldara fyrir þig að ferðast á milli svæða?

Þú hefur áhrif á borgina og sögu leiksins með valkostum þínum.

Helsti gallinn við söguna er að erfitt er að fá innsýn í sögu Aiden Caldwell og leit hans af systur sinni. Annað slagið eru sýnd stutt sögubrot sem eiga að gefa okkur smá baksögu en þrátt fyrir það nær maður ekki að tengjast Miu sterkum böndum og þar af leiðandi er ekki sterkur hvati til að finna hana ; við spilun leiksins var meiri hvati hjá mér að hjálpa fólki borgarinnar. Jonah Scott, raddleikari Aiden, hjálpar aðeins til við að tengja mann við persónuna og það sem hún gengur í gegnum en margir aðrir þættir hitta ekki nógu vel í mark. Rosario Dawson stendur sig ágætlega sem Lawan sem þú rekst á eftir þó nokkra tíma í leiknum.

Besti hluti leiksins, og það sem stendur upp að mínu mati, er parkour og bardagakerfið. Það verður seint leiðinlegt að berja eða skera hóp af uppvakningum sem ráðast á þig og sjá blóð þeirra og útlimi fljúga um.

Lawan sem Rosario Dawson leikur.

Aiden er snöggur að hlaupa um og er öll borgin í raun einn stór leikvöllur fyrir þig að kanna. Síðar í sögunni færðu aðgang að glider fallhlíf sem leyfir þér að hoppa fram af háhýsum, svífa um og nýta þér vissa loftstrauma til að auka hæð þína eða lengja ferðalagið, Aiden fær síðar reipi sem þú getur notað til að sveifla þér á milli vissra punkta á byggingum. Verst er að þessir hlutir sem Aiden fær koma ekki við sögu fyrr en eftir að ég var búin að spila leikinn í vel yfir 20 tíma og kominn í hinn hlutann af Villedor sem inniheldur flest háhýsin.

Eins og í fyrsta Dying Light þá færðu xp stig fyrir að gera vissa hluti t.d. berjast, hoppa á milli bygginga o.fl. Það eru bónusar fyrir að spila á nóttunni og þá fær maður meira xp. Einnig koma vissir erfiðari óvinir fram þá og herja á Villedor sem býður uppá möguleikann að kanna bæli þeirra í leit af peningum, vopnum og GRE Inhibitor sem eykur tímann sem þú getur verið úti á nóttunni og  uppfærir heilsu eða úthald þitt. Í fyrstu þegar maður var að hætta sér út á nóttunni þá var maður frekar stressaður, enda þurfti ekki nema einn volatile zombie til að ganga frá manni Þá var gáfulegra að laumast um og nýta sér umhverfið til að komast á milli staða. Þegar líður á leikinn minnkar þessi ótti og verður þú það öflugur að flestir uppvakningar og óvinir verða ekki of erfiðir. Það eru helst mennskir renegade óvinir sem hrella þig í síðari hluta leiksins, sérstaklega bölvuðu bogamennirnir.

P.s. finnið ykkur boga og uppfærið hann og notið þig hann gegn óvinunum, það er svo skemmtilegt.

Vopn leiksins eru öll eitthvað sem fólk hefur náð að setja saman og það eru engar stórar byssur til að notast við enda þegar þú ert að berjast við ótal uppvakninga þá er það síðasta sem þú vilt þurfa að standa í er að þurfa að hlaða byssurnar þínar. Það er hægt að uppfæra vopnin þín og bæta við þau t.d. rafmagn eða eld til að gera aukinn skaða. Mér fannst pínu pirrandi að geta ekki rifið niður vopn sem ég var ekki nota, niður í grunnhluti og þess í stað þurfa að fleygja þeim eða ferðast til aðila til að selja þau. Búningar og brynjur leiksins gefa vissa bónusa sem hjálpa við leikstíl þinn en flest af þessum RPG viðbótum leiksins eru frekar grunn og auðvelt er að hunsa mikið af þeim.

Því miður er með DL2 eins og marga svona stóra opna leiki að það er óhjákvæmilegt að það séu vissir gallar í honum sem geta skemmt aðeins fyrir. Að mestu hjá mér var þetta uppvakningar sem frusu eftir að ég drap þá, tölvustýrðar persónur sem stundum festust í umhverfinu eða villtust, leikurinn hrundi nokkrum sinnum, eða að leikurinn fattaði ekki að ég var búinn að gera eitthvað og ég þurfti að endurhlaða hann. Ég lenti í því að viss óvinur sem ég barðist við ákvað að festast í umhverfinu og gat ég ekki drepið hann, og ég þurfti að geta það til að halda áfram.

Sumar ákvarðannir geta skipt miklu máli.

Austur-evrópskir leikir, gerðir af litlum stúdíóum fyrir talsvert minni peninga en þeir AAA frá stóru risunum hafa stundið verið þannig við útgáfu, en það sem ég virði oft við þessa smærri framleiðendur er að þeir gefast ekki upp og halda áfram að styðja við leikina sína og laga þá. Við höfum séð þetta gerast með leiki eins og The Witcher 1, S.t.a.l.k.e.r, Metro o.fl. Ekkert af því sem ég upplifði náði að skemma fyrir mér að halda áfram að spila leikinn og ég veit að ég á eftir að leggja slatta tíma í hann í viðbót, en ég veit líka að það á ekki við alla. Fyrir þá myndi ég mæla með að bíða kannski nokkrar vikur eftir að hann er búin að fá nokkra auka plástra sem ætti að gera upplifunina betri og verðið kannski betra.

Ég spilaði í gegnum nær allan leikinn á Xbox Series X og einnig smá á Xbox One X. Á Series X eins og PlayStation 5 er hægt að spila í Performance stillingu sem er með 60 ramma á sek í lægri upplausn. Síðan er hægt að velja um tvær aðrar stillingar sem eru með betri grafík og ray-tracing tæknina en í 30 fps. Á PS4 Pro/Xbox One X þá er leikurinn í 30 fps og keyrir frekar vel þrátt fyrir alla geðveikina sem er oft í gangi á skjánum.

Það skortir ekki hlutina að gera í DL2 og er örugglega auðvelt að ná þessum 500 tímum sem Techland talaði um að væri í boði. En að klára sögu leiksins ætti það að taka fólk frá 35-45+ tímum líklega. Ég var í 56 tímum þegar ég kláraði söguna og ég mun halda áfram að spila í gegnum aukaefnið í leiknum sem er en óklárað. Það er hægt að spila leikinn áfram eftir að þú ert búin með söguna, en leikurinn endurstillir vissa hluta, enda eru ákvarðanir þínar í lok leiksins með vissar stórar afleiðingar sem ég mun ekki fara út í hérna.

Villedor er falleg borg að horfa yfir.

Er meira betra? Það er eitthvað sem ég stundum pældi í á meðan ég spilaði leikinn. Þetta er pínu kjánaleg hugsun og kemur minna yfir mig þegar ég er t.d. ekki að gagnrýna tölvuleiki og bara spila þá fyrir mig eingöngu. Fyrir flesta er magn efnis leiksins stór plús og ætti hann að endast þeim í drjúgan tíma. Techland hefur lofað 5 ára stuðningi við leikinn með fríu og keyptu viðbótarefni og miðað við hvernig þeir studdu við fyrsta leikinn þá er ljóst að DL2 á gott líf fram undan.

Sagan og valkostir hennar er líklega ekki alveg jafn metnaðarfull og upprunalega var planað, en það sem er til staðar er fínt en stjarna DL2 er klárlega bardaga kerfið, parkour og heimurinn til að kanna. Fyrir aðdáendur opinna sandkassa leiki mæli ég með að skoða hann nánar, og kannski sína honum vissa þolinmæði. Hann er kannski ekki fyrir alla, en ég hafði gaman af honum.

Eintak af leiknum var fengið í gegnum útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑