Bíó og TV

Birt þann 11. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Dawn of the Dead (1978)

Dawn of the Dead er uppvakningamynd frá árinu 1978 eftir George A. Romero, leikstjóra með meiru. Dawn of the Dead er önnur Dead-mynd Romeros, en Dead-myndirnar eru orðnar sex samtals í dag og er sú nýjasta Survival of the Dead frá 2010. Margir telja þessa margumtöluðu költmynd vera eina af betri uppvakningamyndum allra tíma.

Til gamans má geta að þá hófu Svartir sunnudagar göngu sína í Bíó Paradís í byrjun nóvember og var Dawn of the Dead fyrsta myndin í þeirri költ-syrpu. Áður en myndin hófst kynnti Sjón niðurstöður sínar úr „óformlegri rannsókn“ sem hann gerði fyrir sýninguna, en þar tók hann m.a. fram að það hafa ekki svo margar uppvakningamyndir verið sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum hér á árum áður og að kvikmyndahúsið sem hafi ætlað sér að sýna Dawn of the Dead hafi farið á hausinn áður en það varð að veruleika. Að hans sögn var þetta því í fyrsta skipti sem Dawn of the Dead var sýnd á breiðtjaldi í íslensku kvikmyndahúsi og opin almenningi (vinsamlegast leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál!). Ekki amalegt það!

Í Dawn of the Dead er fylgst með fjögurra manna hópi eftirlifenda í heimi þar sem uppvakningar ráfa um og eftirlifendurnir gera hvað þeir geta til að lifa af. Hópurinn ákveður að koma sér fyrir í stórri verslunarmiðstöð þar sem nóg er af nauðsynlegum – og ónauðsynlegum – byrgðum. Hópurinn er í stanslausri baráttu við uppvakninga en eru með sameiginlegt markmið; að lifa af.

Myndin tilheyrir gamla skólanum. Líkt og í öðrum uppvakningamyndum frá Romero eru uppvakningarnir hægfara og heimskir. Það er líkt og það sé algjörlega slökkt á þeim á meðan þeir ráfa um stór svæði í algjörri óvissu, en um leið og þeir komast í tæri við þá lifandi drífur eðlishvötin þeirra þá áfram til að éta þá lifandi og drepa þá. Uppvakningarnir í Dawn of the Dead er ansi sérstakir í útliti. Í flestum tilfellum eru þeir bláir á litin og jafnvel grænir, en flestir uppvakningar í nýlegum kvikmyndum eru fölir eða búnir að grána vegna rotnunnar. Það er ekki aðeins liturinn á þeim sem er sérstakur, heldur útlit þeirra í heild sinni. Þó uppvakningarnir hagi sér þannig lagað séð á mjög svipaðan hátt, líkt og heilalausar rollur á víðavangi, að þá er mjög áhugavert að skoða uppvakningana í myndinni sem eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Þar koma m.a. búningar við sögu þar sem við sjáum m.a. uppvakninga sem tengjast mismunandi trúarbrögðum, vaxtarlagi og lífstíl.

Það má segja að myndin bjóði upp á kapítalískt blæti fyrir millistéttina þar sem fylgst er með hópnum yfirtaka verslunarmiðstöðina þar sem þau hafa beinan aðgang að öllum þeim vörum sem verslanirnar hafa upp á að bjóða. Þetta kapítalíska blæti er svo vel marinerað í innyflum, blóði og rottnandi líkum þar sem hópurinn drepur hina lifandi dauðu miskunarlaust – og öfugt.

Það má segja að myndin bjóði upp á kapítalískt blæti fyrir millistéttina þar sem fylgst er með hópnum yfirtaka verslunarmiðstöðina þar sem þau hafa beinan aðgang að öllum þeim vörum sem verslanirnar hafa upp á að bjóða. Þetta kapítalíska blæti er svo vel marinerað í innyflum, blóði og rottnandi líkum þar sem hópurinn drepur hina lifandi dauðu miskunarlaust – og öfugt.

Myndin býður upp á fjölmargar mismunandi greiningar sem fær áhorfandann til að velta mörgum spurningum fyrir sér: Er mannfólkið í raun grimmt eða gott? Er það einhverju skárra en uppvakningar? Erum við að kafna úr græðgi yfir lúxusvörum? Er búið að heilaþvo fjöldann með markaðshugmyndum kapítalismans? Er mannfólkið í nútíma samfélagi of eigingjarnt og alveg sama um náungann? Eru yfirvöld vinir okkar eða óvinir, og þurfum við á þeim að halda? Þó þessar og fleiri pælingar liti myndina mikið þá er þetta fyrst og fremst uppvakningamynd. Stórgóð uppvakningamynd!

Líkt og í mörgum öðrum uppvakningamyndum er gróft ofbeldi mjög áberandi, þar sem skrúfjárn eru t.d. rekin í gegnum gagnaugað, innyfli rakin úr fólki og það étið lifandi. Mörg þessara atriða eru ansi brútal, sérstaklega ef horft til þess að myndin er u.þ.b. 35 ára gömul, en í mörgum tilfellum er húmor blandað við ofbeldið svo úr verður „splatstick“ húmor (samblanda af „slapstick“ húmor og „splatter“). Það er í raun mjög erfitt að finna eitthvað til að setja út á í sambandi við myndina. Jújú, leikurinn gæti stundum verið aðeins betri, tónlistin er líklega dottin úr tísku og tæknibrellurnar takmarkaðar við fjármagn myndarinnar. En þetta eru aðeins smámunir þegar litið er á heildarmyndina.

Myndin býður upp á flest allt sem góð kvikmynd á að bjóða upp á. Dawn of the Dead er hin fullkomna blanda af hryllingi, ofbeldi, splatter, húmor, drama og samfélagsgagnrýni. Það ber þó að hafa í huga að myndin er frá árinu 1978. Án þess að vera afsaka myndina, að þá er hún frábrugðin hefðbundnum uppvakningamyndum í dag sem ganga oft út á ýkt hasaratriði, mikinn hraða og hlaupandi uppvakninga, en Dawn of the Dead er eins og áður sagði af gamla skólanum. Af  þeim fjölmörgu uppvakningamyndum sem ég hef séð er Dawn of the Dead einfaldlega sú besta, og á hana er hægt að horfa á aftur og aftur – og aftur. Til gamans má geta að þá kemur ein frægasta setning allra tíma úr uppvakningamynd fyrir í þessari mynd: „When there’s no more room in hell, the dead will walk the Earth.“


 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑