Greinar

Birt þann 18. maí, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Íslenskir leikir á Nordic Game 2017 ráðstefnunni

Íslenskir leikir og leikjahönnuðir hafa verið nokkuð áberandi á Nordic Game ráðstefnunni að undanförnu. Þrír íslenskir tölvuleikir eru tilnefndir til verðlauna í ár en sigurvegarar verða tilkynntir á ráðstefnunni sem fer fram í Malmö dagana 17.-19. maí. Það eru leikirnir EVE Valkyrie og Mussila sem eru tilnefndir til Nordic Game Awards í ár auk þess sem Triple Agent er tilnefndur til Nordic Sensation verðlauna, en það eru verðlaun í flokki indíleikja. Í fyrra voru nokkrir leikir frá íslenskum leikjafyrirtækjum áberandi á Nordic Game ráðstefnunni og hlaut CCP sérstaka viðurkenningu frá dómnefnd Nordic Game Awards fyrir leikinn EVE Gunjack og Radiant Games hlaut verðlaun fyrir leik sinn Box Island. Við skulum skoða þessa þrjá íslensku leiki sem tilnefndir eru til verðlauna í ár betur.

EVE VALKYRIE

EVE Valkyrie sem kom í verslanir í fyrra er fyrstu persónu geimskotleikur sem spilaður er í sýndarveruleika.

EVE Valkyrie er þróaður af íslenska leikjafyrirtækinu CCP og tengist EVE heiminum sem fyrirtækið kynnti til leiks með útgáfu EVE Online fyrir um 14 árum síðan. EVE Valkyrie sem kom í verslanir í fyrra er fyrstu persónu geimskotleikur sem spilaður er í sýndarveruleika. Hægt er að spila leikinn á vinsælustu VR-tækjunum í dag; PlayStation VR, HTC Vive og Oculus Rift. Leikurinn var upphaflega kynntur af fyrirtækinu árið 2013 og er fyrsti VR-leikurinn frá fyrirtækinu. CCP hefur merkt sér ákveðna sérstöðu á sviði VR og hefur auk EVE Valkyrie gefið út VR-leikina EVE Gunjack, EVE Gunjack 2 og nýlega tilkynnti fyrirtækið leikinn Sparc til sögunnar, sem er fyrsti leikur CCP sem tengist ekki EVE heiminum fræga. Í EVE Valkyrie stjórnar spilarinn geimskipi í fjölspilunar-geimskotleik þar sem tvö lið keppa á móti hvort öðru í rauntíma.

EVE Valkyrie er tilnefndur til Nordic Game verðlaunanna 2017 í flokknum Best Technology. Aðrir leikir sem tilnefndir eru í þeim flokki í ár eru: Battlefield 1, Hitman, INSIDE og Tom Clancy’s The Division.

> Heimasíða EVE Valkyrie

MUSSILA

Leikurinn er ætlaður krökkum á aldrinum 6-11 ára og er tilgangur hans að kenna krökkum grunninn í tónlist á skemmtilegan hátt.

Tónlistarleikurinn Mussila frá íslenska fyrirtækinu Rosamosi er fáanlegur á App Store og spilast á iOS tækjum. Leikurinn er ætlaður krökkum á aldrinum 6-11 ára og er tilgangur hans að kenna krökkum grunninn í tónlist á skemmtilegan hátt. Í leiknum er meðal annars hægt að spila á hljóðfæri, taka upp lög, spila nótur, æfa taktinn, setja upp hljómsveit og læra að þekkja 12 mismunandi hljóðfæri svo eitthvað sé nefnt. Leikurinn inniheldur engar auglýsingar, ekkert ofbeldi og enga aukahluti sem kosta peninga.

Mussila: Musical Monster Adventure er tilnefndur til Nordic Game verðlaunanna 2017 í flokknum Best Fun for Everyone. Aðrir leikir sem tilnefndir eru í sama flokki eru: Clapper, Fuzzy House, Stikbold! A Dodgeball Adventure og Toca Hair Salon 3.

> Heimasíða Mussila

TRIPLE AGENT

Spilurum er skipt í tvo hópa, njósnara og gagnnjósnarar, þar sem njósnarar eiga að vinna saman og gagnnjósnarar eiga að vinna gegn njósnarahópnum.

Triple Agent er í þróun hjá Tasty Rook sem saman stendur af þeim Torfa Ásgeirssyni og Sigursteini J Gunnarssyni, en Sigursteinn J stendur auk þess að gerð borðspilaleiksins Sumer. Triple Agent er blekkingarleikur sem er ætlaður 5-9 leikmönnum. Notast er við eitt snjalltæki til að spila leikinn en leikurinn gerist að miklu leyti utan snjalltækisins þar sem rauði þráður leiksins eru samræður milli spilara, lygar og ásakanir. Spilurum er skipt í tvo hópa, njósnara og gagnnjósnarar, þar sem njósnarar eiga að vinna saman og gagnnjósnarar eiga að vinna gegn njósnarahópnum. Eina vandamálið er að þú hefur ekki hugmynd um hver er með þér í liði og í kjölfarið hefst mikill blekkingarleikur. Spilun leiksins svipar til borðspilsins One Night Ultimate Werewolves sem hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu, en ólíkt því þá spilar snjalltækið ákveðið hlutverk í Triple Agent og getur gefið upp ýmiskonar upplýsingar sem geta haft áhrif á framgang leiksins. Til dæmis með því að gefa upplýsingar sem geta komið upp um spilara eða breytt því í hvaða liði þú ert.

Triple Agent er tilnefndur til Nordic Sensation verðlaunanna í ár, sem eru sérstök verðlaun ætluð indí leikjasenunni á Norðurlöndunum og hefur það markmið að beina ljósum sínum á áhugaverð og fjölbreytt verkefni. Triple Agent er í vinnslu og er væntanlegur síðar í sumar. Auk Triple Agent eru eftirfarandi leikir tilnefndir til verðlauna í ár: THOTH, Milkmaid of the Milky Way, Uurnog, Tick Tock: A Tale for Two, Totally Accurate Battle Simulator, Morkredd og Budget Cuts.

> Heimasíða Triple Agent

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑