Fréttir

Birt þann 5. maí, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Nýr íslenskur tölvuleikur tilnefndur til verðlauna

Íslenskur indíleikur er einn af þeim átta norrænu indíleikjum sem keppa um Nordic Sensation verðlaunin í ár. Það er óhætt að fullyrða að samkeppnin sé mikil í ár þar sem alls bárust í kringum 100 umsóknir, og verður því að teljast mjög gott að komast í átta-leikja úrslit.

Íslenski leikurinn ber heitið Triple Agent og er í þróun hjá Tasty Rook sem samanstendur af þeim Torfa Ásgeirssyni og Sigursteini J Gunnarssyni, en Sigursteinn J stendur auk þess að gerð borðspilaleiksins Sumer.

Triple Agent er blekkingarleikur sem er ætlaður 5-9 leikmönnum. Notast er við eitt snjalltæki til að spila leikinn en leikurinn gerist að miklu leyti utan snjalltækisins þar sem rauði þráður leiksins eru samræður milli spilara, lygar og ásakanir. Spilurum er skipt í tvo hópa, njósnara og gagnnjósnarar, þar sem njósnarar eiga að vinna saman og gagnnjósnarar eiga að vinna gegn njósnarahópnum. Eina vandamálið er að þú hefur ekki hugmynd um hver er með þér í liði og í kjölfar hefst mikill blekkingarleikur. Spilun leiksins svipar til borðspilsins One Night Ultimate Werewolves sem hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu, en ólíkt því þá spilar snjalltækið ákveðið hlutverk í Triple Agent og getur gefið upp ýmiskonar upplýsingar sem geta haft áhrif á framgang leiksins. Til dæmis með því að gefa upplýsingar sem geta komið upp um spilara eða breytt því í hvaða liði þú ert í.

Triple Agent er enn í vinnslu en er væntanlegur síðar í sumar.

Nordic Sensation verðlaunin verða veitt á Nordic Game ráðstefnunni þann 19. maí.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑