Bækur og blöð

Birt þann 22. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Myndasögurýni: Irredeemable

Irredeemable er runnin undan rifjum  Mark Waid sem skrifaði Kingdom Come. Kingdom Come er að vissu leyti svar Superman við The Dark Knight Strikes Back og á sér fáa líka. Ef til vill  hefur sú bók ekki orðið jafn vinsæl og  TDR  vegna þess að Batman er einfaldlega vinsælli en Superman. En hún á lof skilið hvort sem er ásamt Mark Waid.

Irredeemable er  gott dæmi um að stundum þarf aðeins gott slagorð til að selja myndasögu. Aftan á kápu fyrstu bókarinnar stendur: „What if the world‘s greatest hero decided to become a villain?“ Þetta er ekki ný hugmynd, það er fátt í dag sem er algerlega nýtt. En þetta er í fyrsta skipti sem hugmyndin var gerð að heilli seríu. Og hún tókst svona skrambi vel.

Irredeemable hefst á því að The Plutonian (Superman) eltir og drepur fjölskyldu the Hornet (Batman) eftir að hafa rústað Sky City (Metropolis). Þær hetjur sem enn tóra reyna að komast að því af hverju The Plutonian hegðar sér svona og leita að vísbendingum í fortíðinni og minningum þeirra sem þekktu hann. The Plutonian var einu sinni öflugasta hetja í heimi, vonarneisti sem hjálpaði öllum.  Sama hvað var að, sama hversu lítið verkið var, hann reyndi að skapa betri heim. Uns hann skyndilega missti vitið og fór að fremja fjöldamorð um allan heim. Öllum helstu stórborgum er rústað, Singapore er sökkt og hagkerfi heimsins hrynur til grunna ásamt allri stjórnsýslu og nútímasamfélagi. Hver er tilgangur lögreglu eða hers í heimi þar sem kolbrjálaður guð birtist skyndilega og  jafnar borgina við jörðu? Enginn getur stoppað hann og þeir sem reyna það eru drepnir eða verra. Þeir fáu sem reyna að komast að því hvað gerðist, hvaðan Plutonian kemur og hvernig hægt sé að sigra hann eru hundeltir og hrynja niður hver af öðrum.

Irredeemable

Hér var Singapore.

Irredeemable kafar ofan í ofurhetjugoðsögnina, spyr spurninga um eðli hennar og samfélagsins sem býr með ofurmennskum verum. Hvernig lítum við á fólk sem bjargar heiminum í sífellu og hugsar aðeins um að hjálpa öðrum? Erum við þeim þakklát eða grunum við þau um græsku? Hvaða áhrif hefur það á ofurhetjuna að heyra hvað okkur finnst um hana? Hvað ef hún kemst ekki hjá því að heyra það? Og hvað veldur því að ofurhetja sem hefur allt sitt líf reynt að gera líf annarra betra fer að fljúga um og drepa alla?

Waid vefur þessum spurningum saman við sínar eigin pælingar um sögu ofurhetjugoðsagnarinnar, hvernig kraftar þeirra virka og hversu langt er hægt að beygja reglur þeirra og samvisku. Og inná milli er borgum rústað og milljónir deyja. Lokabardaginn í Man of Steel er eins og örlítill árekstur miðað við það sem á sér stað í Irredeemable.

Irredeemable

Irredeemable spyr spurninga eins og hvað þarf til að breyta góðum manni í siðblindingja - og svarar spurningum eins og: hvor myndi sigra, Batman eða Superman?

Waid hlýtur að hafa einhvern tímann unnið fyrir sér sem höfundur hjá sápuóperu því  hvert blað endar á þvílíkum „cliffhanger“ að lesandinn einfaldlega verður að fá að vita hvað gerist næst. Þetta er vandmeðfarin list en Waid leikur sér að þessu. Persónulega átti ég lengi vel erfitt með að hætta að lesa vegna þessa.  Að enda hvert blað með spennu og óvissu er alls ekki ný hugmynd en sjaldan hefur hún verið jafn vel nýtt.

Þrátt fyrir það er sagan ekki gallalaus. Hún er til dæmis of löng. Hún er reyndar aðeins 37 blöð og verða um 9 bækur, en þrátt fyrir það hefði mátt sleppa stórum hluta hennar án þess að sagan sjálf hefði liðið eitthvað sérstaklega fyrir það.  Persónusköpun hefði mátt vera ýktari og skemmtilegri, það eru allir meira og minna niðurdrepnir ræðuboltar, sérstaklega Plutonian en hann á aðeins of auðvelt með að verða illmenni eftir að maður kynnist því hvernig hann var áður.

Breyting hans til hins verra er trúleg en eftir að hann hefur gengið til liðs við hið illa, segir hann algerlega skilið við heilbrigða skynsemi og hugsun. Það er eitt að hafa gefist upp á að vera vonarneisti fyrir mannkynið, en annað að sökkva heilu borgríki af því bara. Og hann hefur ekki einu sinni gaman af því! Er til of mikils mælst að hann brosi allavega meðan hann myrðir hálfan heiminn?

En það er ef til vill tilgangurinn, þetta er saga um hetju sem ekki er hægt að bjarga – eða „irredeemable.“ Þrátt fyrir síendurtekin tækifæri á að bæta ráð sitt og byrja uppá nýtt stekkur Plutonian ofan í dýpstu laugina og vill ekki koma til baka.

Ég get hiklaust mælt með  því að áhugasamir næli sér í fyrstu bókina. Þetta er bók fyrir ofurhetjunörda, þá sem hafa gaman af því að leika sér að forminu og goðsögnunum. Waid tekur hugmyndina alla leið og gerir það vel en ef til vill var hún löng.

Forsíðumynd: Wikimedia Commons (Ramin Holz)

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑