Bíó og TV

Birt þann 25. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Man of Steel (2013)

Athugið: Inniheldur spilla.

Ég get ekki sagt að ég hafi verið hress eftir Man of Steel. Ekki vegna minnimáttarkenndar og öfundsýki út í ofurkrafta Superman heldur  vegna þess að vonbrigðin voru svo mikil og mér var hugsað til yngri kynslóðarinnar, markhóps þessarar myndar sem þarf að þola svona tillitsleysi. En meira var mér hugsað til valdaklíkunnar í Hollywood sem gerir lítið úr vitsmunum og þolinmæði áhorfenda með því að bjóða því upp á svona vöru, sem á frekar heima í skemmtigarði. Þar sem ég sat stopp á rauðu ljósi eftir að hafa keyrt frá kvikmyndahúsinu varð mér hugsað til „State of Cinema“ ræðu leikstjórans Steven Soderbergh. Í þeirri ræðu minntist hann á karl sem hann hafði séð um borð í flugvél. Þessi maður sem var í kringum þrítugt sat með iPadinn sinn og horfði á hasarmyndir, en hann spólaði yfir samtölin og mikilvæga plot punkta. Það eina sem þessi maður horfði á voru hasaratriðin eða eins og Soderbergh orðaði það: „This guy’s flight is going to be five and a half hours of just mayhem porn.“ En meira um mayhem og porn seinna.

Man of Steel

Það er enginn aukvisi í leikstjórastólnum en Zack Snyder sem gert hefur myndir á borð við The Watchmen og 300 heldur um taumana. Leikararnir eru ekki af verri endanum heldur. Russell Crowe leikur faðir Superman, Jor-El. Í upphafi er ungabarnið Kal-El, sem verður seinna þekktur sem Superman, sendur til jarðar en plánetan Krypton er á barmi útrýmingar og hershöfðinginn Zod (Michael Shannon) reynir að nýta sér aðstæðurnar til þess að ná völdum en mistekst og er sendur í útlegð ásamt fylgimönnum sínum. Geimhylki Kal-El lendir á sveitabæ þar sem hann er alinn upp sem Clark Kent en þar tekur Kevin Costner og Diane Lane við foreldrahlutverkinu. Kent lærir fljótt að stjórna kröftum sínum og faðir hans reynir að kenna honum að beita þeim ekki því það gæti svipt hulunni af raunverulegum bakgrunni Kent. Það er hinn óþekkti Henry Cavill sem leikur Superman og á hann sín móment en það hefði mátt gera meira úr persónusköpuninni, persónan verður mjög flöt og að mínum dómi mjög óáhugaverð, ég veit að mörgum finnst að Superman eigi að vera þannig en ég verð að vera ósammála. Clark vex úr grasi vinnur hér og þar og bjargar fólki í leiðinni. Við fáum að kynnast Lois Lane (Amy Adams) þar sem hún heimsækir leyniaðgerðir Bandaríkjastjórnar en óþekkt farartæki hefur fundist í ís og kemur fljótlega í ljós að geimskip frá Krypton er fast í ísnum. Hershöfðinginn Zod ásamt föruneyti kemur svo til jarðar og þar sem Superman hefur að geyma genakóða allra ófæddra íbúa Krypton þá krefst Zod þess að fá Superman í sínar hendur. Bandaríkjastjórn verður við beiðninni og fljótlega kemur í ljós að Zod vill ekki aðeins fá Superman heldur einnig umbreyta jörðinni í nýja Krypton. Upphefst þá mikil barátta góðs og ills. Borg og bær eru lögð í rúst og Lois Lane er mest megnis öskrandi og fyrir öðrum. Leiklistarhæfileikar Adams vannýttir svo vægt sé til orða tekið.

Man of Steel

Galli myndarinnar liggur í því að allt of fljótt er farið yfir of mikið af efni í byrjun myndarinnar og lítið innihald í miðju og endi. Það gefst aldrei tími til þess að staldra aðeins við og fá smá tíma til þess að anda og melta upplýsingarnar. Kaflarnir þar sem Clark er ungur strákur og samtöl hans við hinn föður sinn, Costner, eru ágætir en hugsanlega hefði mátt sleppa mikið af þeim köflum eða gera meira úr þeim og sleppa þeim stuttu brotum þar sem Superman sést flakka um landið og vinna á hinum og þessum stöðum. Seinni hluti myndarinnar er svo gjörsamlega innihaldslaus og persónusköpun er sama sem engin. Húmorinn og góðir one-linerar eru víðsfjarri. Það er of mikill drungi yfir myndinni og þó svo að tæknibrellurnar séu með því besta sem sést hefur í langan tíma þá finnst undirrituðum þær vera vannýttar og hugmyndasnauðar. Það getur orðið þreytandi til lengdar að horfa á Superman klessa á háhýsi hægri vinstri. Hristingur tökuvélarinnar í upphafi myndarinnar var alltof mikill og handhelda vélin ekki að gera sig að mínu mati. Of mikil notkun nærmynda fékk mig til þess að hugsa hvort myndin væri ætluð til sýninga á iPad en ekki á stóru tjaldi. Til þess að toppa þessa runu af neikvæðri gagnrýni þá var klippingin of hröð og uppröðun atriða stundum kjánaleg en stundum fékk ég á tilfinninguna að myndin hefði verið gerð í flýti.

Man of Steel

Það er þó vonarneisti undir lok myndarinnar. Kannski munum við fá að sjá betri mynd í framhaldinu en Man of Steel 2 er komin í forvinnu samkvæmt upplýsingum á IMDb. Ég vona að þessi hæfileikaríki leikstjóri gefi áhorfendum meira kjöt á beinið í næstu mynd. Ég minntist áðan á ræðu Soderbergh og karlinn sem hann sá um borð í flugvél. Þessi maður hefði án efa líkað vel við þessa mynd og ekki þurft að spóla mikið yfir samtöl og plot-punkta, enda voru þeir nánast engir. Því Man of Steel er ekkert nema sprenginga og tæknibrelluklám sem höfðar kannski til markhópsins en ekki til undirritaðs.

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑