Bækur

Birt þann 29. september, 2018 | Höfundur: Aðsent

Hvað ef Napóleónsstríðin hefðu verið háð með drekum? – Temeraire eftir Naomi Novik

AÐSEND GREIN: RAGNA ÓLÖF GUÐMUNDSDÓTTIR

Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Hvað ef Napóleónsstríðin hefðu verið háð með drekum? Það var spurningin sem bandaríski rithöfundurinn Naomi Novik (f. 1973) lagði upp með þegar hún byrjaði að skrifa Temeraire seríuna.

Fyrsta bókin kom út árið 2006 og var fyrsta útgefna verk Novik. Raunar komu þrjár fyrstu bækurnar allar út á sama ári en sú níunda og síðasta kom út áratug seinna 2016. Bækur í flokknum hafa verið tilnefndar til Hugo og Compton Crook verðlauna og unnið þau síðarnefndu. Bækurnar eru eftirfarandi:

 

  • His Majesty’s Dragon (2006)
  • Throne of Jade (2006)
  • Black Powder War (2006)
  • Empire of Ivory (2007)
  • Victory of Eagles (2008)
  • Tongues of Serpents (2010)
  • Crucible of Gold (2012)
  • Blood of Tyrants (2013)
  • League of Dragons (2016)

 

Vert er að geta þess að tvær fyrstu bækurnar komu út á íslensku hjá Tindi í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur árið 2008 og hétu Dreki hans hátignar og Hásæti keisarans.

1

Í fyrstu bóknni His Majesty’s Dragon kynnumst við breska sjóherskapteininum William Laurence og fylgjumst með því hvernig líf hans umturnast á einu augnabliki þegar hann og áhöfn hans sigrar sjóorustu við franskt skip. Um borð finnst drekaegg og þegar drekinn klekst velur hann Laurence sem félaga.

Sagan hefst árið 1804, snemma í Napóleónsstríðunum. Í fyrstu bóknni His Majesty’s Dragon kynnumst við breska sjóherskapteininum William Laurence og fylgjumst með því hvernig líf hans umturnast á einu augnabliki þegar hann og áhöfn hans sigrar sjóorustu við franskt skip. Um borð finnst drekaegg og þegar drekinn klekst velur hann Laurence sem félaga. Drekann nefnir hann Temeraire eftir skipi í sjóhernum, enda talsverð líkindi á milli dreka og skipa í söguheimi Novik (fyrir utan hið augljósa að drekar eru lifandi, hugsandi verur). Síðan þurfa þeir félagar að hefja stranga þjálfun í flughernum sem í söguheiminum samanstendur af drekum í mismunandi þyngdarflokkum sem settir eru í fylkingar. Þetta reynist Laurence erfitt, enda af aðalsættum og óvanur útskúfuninni og óformlegheitunum sem fylgja flughernum. Drekar og höndlarar þeirra eru litnir hornauga í samfélaginu en eftir því sem Laurence kynnist þeim, og umfram allt sínum eigin dreka, vinnur hann bug á fordómum sínum. Þeir kynnast einnig framtíðaráhöfn sinni og fylkingarfélögum, m.a. Granby, Roland, Harcourt, Berkley og drekunum Maximus og Lily. Temeraire er afburðagreindur, forvitinn og námsfús dreki sem setur spurningamerki við ýmislegt sem Laurence finnst sjálfsagt, en á móti kennir Laurence honum sín gildi sem gera þeim kleift að standa sig vel í hernum og víkka sjóndeildarhringinn á ýmsan hátt.

2

Throne of Jade, önnur bókin í flokknum, fylgir þeim félögum til Kína en þá hefur komið í ljós að Temeraire er enginn venjulegur dreki, heldur kínverskur himnadreki. Einungis kínverski keisarinn má hafa slíkan dreka sem félaga og Temeraire var ætlaður sem gjöf til sjálfs Napóleóns sem þarna er kominn áleiðis með að verða keisari yfir Evrópu. Kínverjarnir eru því býsna ósáttir yfir því að svo mikils metinn dreki sé notaður sem óbreyttur hermaður í breska hernum. Laurence og Temeraire neyðast því til að fara á fund keisarans og reyna að ná sáttum í málinu, ásamt áhöfn sinni og diplómatanum harðsvíraða Arthur Hammond. Þegar komið er til Kína verða Bretarnir fyrir miklu menningarsjokki því aðstæður dreka þar eru svo gjörólíkar því sem þeir eru vanir. Í Evrópu eru drekar í besta falli álitnir nauðsynleg stríðsvopn sem erfitt er að stjórna. Í Kína eru þeir hins vegar þegnar í samfélaginu til jafns við mannfólkið og geta fengið bæði menntun og atvinnu (raunar er menntun skylda áður en þeir fá að velja sér félaga sem er þá valinn með upplýstri hugsun fremur en gæsarhæningunni sem tíðkast í Evrópu). Temeraire gerir sér grein fyrir muninum og það reynir á samband hans og Laurence. En á sama tíma er margt í gangi við kínversku hirðina sem skiptist í tvær fylkingar um andstæðar skoðanir á Vesturlöndum. Á meðal þeirra sem eru á móti evrópskum áhrifum í Kína er bróðir keisarans Yongxing prins og albínóadrekinn hans Lien en hún og Temeraire verða svarnir óvinir. Hættur leynast við hvert fótmál og Laurence og Temeraire verða að harka af sér launsátur, samsæri og framandi kínverskar hirðvenjur.

3

Í upphafi Black Powder War eru Laurence, Temeraire og félagar enn fastir í Kína vegna skemmda á skipinu sem flutti þá þangað. En skyndilega birtist hinn dularfulli Tharkay með áríðandi skipun frá Bretlandi um að Temeraire eigi að snúa aftur tafarlaust ásamt fylgdarliði sínu, með viðkomu í Istanbúl til að sækja drekaegg sem breska ríkisstjórnin keypti af Ottómanveldinu. Þrátt fyrir að allir séu sammála um að skipunin virki gruggug, er Tharkay ráðinn sem leiðsögumaður til að leiða leiðangurinn landleiðina yfir Kína og Miðausturlönd til Evrópu. Við illan leik kemst Temeraire og áhöfn hans yfir kínverskar eyðimerkur og túrkistanska fjallgarða til Istanbúl þar sem þarf að hafa meira fyrir því að sækja drekaeggin en gert var ráð fyrir. Temeraire neyðist svo til að flýja Istanbúl með hraði en kemst til Austurríkis og síðan Prússlands. Á ferðalaginu klekst eitt af eggjunum og út úr því kemur hin skapmikla og eldspúandi Iskierka og Granby verður kapteinn hennar og félagi. Í Prússlandi eru Temeraire og Laurence neyddir til að leggja vel agaða prússneska flughernum lið og lenda í miklum og flóknum orustum við heri Napóleóns en tapa þeim öllum. Ein ástæða þess er að hershöfðingjarnir og þeir sem stjórna taka ekki mark á góðum ráðum Temeraire um hvernig má nýdreka betur í hernum. Það verður þeim dýrkeypt að neita að hlusta á dreka, sérstaklega þar sem Lien hefur gengið til liðs við Napóleón sem samþykkir hennar ráðgjöf sem bætir hernaðarmátt hans.

4

Eftir ósigurinn í Prússlandi komast Laurence og Temeriare heim til Bretlands en fá þá þær slæmu fréttir að flugherinn sé lamaður vegna veikinda sem herja á drekana. Empire of Ivory fjallar um ferð þeirra og drekafylkingarinnar þeirra til Afríku í leit að lækningu við sjúkdómnum. Í Höfðaborg fara fram miklar tilraunir með óvelkominni hjálp heimamanna til að lækna veiku drekana. Síðan uppgötvast illa lyktandi sveppur sem virkar gegn flensunni og Temeraire og félagar þurfa að hætta sér lengra inn í land til að finna meira af honum. Laurence fær tvo innfædda drengi, þá Demane og Sipho, til aðstoðar. Drekarnir og áhafnirnar aðskiljast og mannfólkið er tekið höndum af afrískum ættbálki, Tswana, og drekunum þeirra og er flutt um langa vegu langt inn í land. Tswana fólkið hefur eigin trú og venjur sem tengjast drekum og telja að drekar séu forfeður þeirra endurfæddir. Þeim er mjög í nöp við Evrópubúa vegna þrælahalds hvíta mannsins og vilja endurheimta þá sem hafa verið seldir. Laurence og áhafnir hans og hinna drekana eru því á mjög hálum ís og það kemur í hlut drekanna að bjarga þeim úr prísundinni og komast heim, þar sem mikið baktjaldamakk hefur átt sér stað. Afleiðingarnar verða til þess að Laurence þarf að taka ákvörðun sem breytir lífi hans.

5

Hann ákveður að taka málin í sínar klær og safnar drekunum saman og stofnar eigin herdeild til að sporna við innrás Napóleóns.

Eftir atburðina í lok fjórðu bókar, eru Laurence og Temeraire aðskildir í byrjun Victory of Eagles. Temeraire er fastur á eldisstöð í Skotlandi en Laurence á skipi sem ferst. Napóleón gerir árás og tekst að ráðast inn í Bretland. Þegar Temeraire fréttir af meintum dauða Laurence sleppur hann frá eldisstöðinni ásamt fleiri drekum sem voru þar. Hann ákveður að taka málin í sínar klær og safnar drekunum saman og stofnar eigin herdeild til að sporna við innrás Napóleóns. Á sama tíma er Laurence að leita hans en hann komst sjálfur lífs af frá skipsskaðanum. Þegar þeir loks hittast fær Temeraire tækifæri til að viðra pólitískar hugmyndir sínar um aukin réttindi dreka sem hefur verið honum hugleikið efni alla tíð, ekki síst eftir veruna í Kína. Viðbrögðin eru misjöfn, aðallega neikvæð, en herforinginn Wellesley skellir ekki skollaeyrum við hugmyndunum en Temeraire þarf þó að sanna sig frekar. Laurence fær óformlegar skipanir um að ráðast gegn Frökkum sem leita sér matar á landsbyggðinni með skæruhernaði og svelta þannig út franska innrásarliðið. Þetta þykja afar ódrengilegir stríðshættir og ríkir mikil óánægja með stefnuna en Wellesley heldur áætlunum sínum leyndum þar til á hárréttu augnabliki.

6

Í sjöttu bókinni Tongues of Serpents liggur leið Laurence og Temeraire, ásamt Granby, Iskierku og Tharkay, til Ástralíu en illa gengur fyrir Breta að stjórna nýlendunni í New South Wales sem sækist eftir sífellt meira sjálfstæði. Laurence og Temeraire þurfa að hjálpa til við að styrkja flugherinn á fanganýlendunni þar, sem á vart nafnið skilið, til að koma í veg fyrir uppreisn nýlendubúa. Þeir flytja með sér drekaegg frá Bretlandi í þeim tilgangi og Temeraire finnur fyrir mikilli ábyrgð gagnvart þeim. En bæði Temeraire og Laurence er illa við að vera notaðir til að ógna öðrum, sérstaklega þegar þeir eru umkringdir óvinum og taka því fegins hendi þegar annað verkefni býðst. John MacArthur, einn af þeim sem vill sjá nýlenduna sjálfstæða, sendir Laurence og Temeraire í leiðangur til að finna leið í gegnum óbyggðir meginlandsins að norðurströndinni. Granby, Iskierka og Tharkay slást með í för, Tharkay í eigin erindagjörðum og Temeraire giskar réttilega á að það hafi með það að gera að uppræta smygl á varningi frá Kína sem fer skiljanlega illa í Austur-Indíafélagið. Síðan gerist það að einu drekaegginu er stolið, Temeraire til mikillar skelfingar og upphefst æsileg eftirför þar sem Temeraire og áhöfn hans þurfa ekki aðeins að takast á við framandi og fjandsamlegt landslagið, heldur einnig hina viðsjárverðu bunyipa. Mitt í öllum ósköpunum klekst annað eggið og úr því kemur veikburða dreki sem Demane tekur að sér og nefnir Kulingile.

7

Einmitt þegar Laurence og Temeraire hafa ákveðið að setjast í helgan stein í fallegum dal í Ástralíu birtist Hammond í upphafi Crucible of Gold og biður þá um að fara til Brasilíu til að koma portúgölsku nýlendustjórninni þar til hjálpar. Napóleón hefur teygt anga sína þangað með bandalagi við afríska Tswana fólkið sem vill finna aftur ættingja og ástvini sem seldir voru í þrældóm til Portúgala í Brasilíu en Portúgalir og Bretar eru bandamenn. Skipið sem á að bera þá, ásamt Iskierku og Kulingile, áleiðis sekkur og drekarnir þrír neyðast til að gefa sig á vald frönsku skipi sem þeir mæta og er einnig á leið til Suður-Ameríku til að semja við leiðtoga Inkaveldisins. Frakkarnir vilja ekki hafa þessa óvæntu gesti með í leiðangrinum sínum, og skilja þá eftir á eyðieyju. Um síðir tekst þeim þó að sleppa og komast til Inkaveldisins og kynnast þar samfélagi þar sem drekar eru fremur húsbóndar manna en öfugt. Með hjálp innfæddra tekst Temeraire og félögum að komast í hjarta Inkaveldisins á sama tíma og frönsku sendinefndinni. Bretar og Frakkar verða síðan að keppast um að ná eyrum leiðtogans og Iskierku dettur í hug lausn sem Granby er alls ekki sáttur við og Napóleón því síður.

8

Blood of Tyrants hefst á því að Laurence skolar á land eftir skipsskaða og vaknar minnislaus. Hann kemst að því að hann er staddur í Japan og er í miklum vandræðum því Bretum er bönnuð viðvera í landinu utan hafnarinnar í Nagasaki.

Blood of Tyrants hefst á því að Laurence skolar á land eftir skipsskaða og vaknar minnislaus. Hann kemst að því að hann er staddur í Japan og er í miklum vandræðum því Bretum er bönnuð viðvera í landinu utan hafnarinnar í Nagasaki. Japanskt fyrirmenni að nafni Kaneko Hiromasa bjargar honum þó, þjóni sínum Junichiro til mikils ama. Laurence man ekkert annað en nafn sitt, og enga atburði síðustu átta ára, en setur sér það takmark að komast til Nagasaki og komast að hinu rétta. Á meðan er Temeraire frávita af áhyggjum en neitar að trúa því að Laurence sé allur. Hann getur hins vegar lítið að gert því hann þarf að gæta eggs síns og Iskierku. Tilviljanakennd atburðarás verður þó til þess að Laurence og Temeraire hittast aftur en Laurence man ekki eftir honum og þarf að læra upp á nýtt að verða drekakapteinn. Síðan liggur leiðin til Kína að sinna brýnu diplómatísku verkefni og bæta tengsl Kína og Bretlands. En þar ríkir óstöðugt ástand vegna innanríkjadeilna og gruns um uppreisn. Laurence og Temeraire sleppa frá morðtilraun og eru sendir með kínverska keisarahernum til að kanna hvort eitthvað sé til í sögusögnum um uppreisnina. Útkoman úr þeim leiðangri verður til þess Laurence hittir Tharkay og fær minnið aftur og síðan fylgir hluti hersins Temeraire áfram til Rússlands þar sem Napóleón er að hefja innrás.

9

Í síðustu bókinni, League of Dragons, tekst bandamönnum að hrekja her Napóleóns frá Rússlandi. Laurence lendir í deilum við rússneskan aðalsmann sem skorar hann á hólm og þeir slasast báðir í einvíginu. Eggi Temeraires og Iskierku er stolið af Frökkum og Lien hótar að mölva það svo þau, ásamt kapteinum sínum, rjúka af stað til að bjarga því. En Frökkunum tekst að handsama þau og færa þau til Napóleóns í París. Þar komast þau á snoðir um áætlanir hans um að gera alla dreka að bandamönnum sínum með því að bjóða þeim frelsi sem þeir eru ekki líklegir til að hljóta undir evrópskum ríkisstjórnum. Egg Temeraires og Iskierku klekst og þeim tekst að flýja. Laurence þarf að sannfæra bresku ráðamennina, og alla aðra, um að drekar þurfi meira frelsi svo ekki sé hægt að snúa þeim gegn stjórninni með áætlun Napóleóns. Til þess þarf að standa í alls kyns pólitísku leynimakki en álíka mikið leynimakk er líka í gangi innan herbúða Napóleóns.
Hér að ofan hef ég rennt í gegnum söguþráð hverrar bókar fyrir sig, vonandi án þessa að spilla of miklu en þess vegna hef ég auðvitað sleppt ansi mörgum mikilvægum atriðum. Út frá þessu gæti virst sem þessar bækur séu aðeins einfaldar ævintýrasögur en þær eru afar yfirgripsmiklar og taka á öllum mögulegum málefnum.


Þótt flokka mætti Temeraire sem sögulega fantasíu er hún samt ekki mikil fantasía. Eina fantasíuelementið eru drekarnir en það eru engir töfrar eða neitt yfirnáttúrulegt við þá.

Þótt flokka mætti Temeraire sem sögulega fantasíu er hún samt ekki mikil fantasía. Eina fantasíuelementið eru drekarnir en það eru engir töfrar eða neitt yfirnáttúrulegt við þá. Í söguheiminum eru þeir náttúrulegur hluti af tilverunni og eiga eflaust sína þróunarsögu eins og aðrar tegundir þó aldrei sé farið nákvæmlega út í það. Þeir hafa jafn fjölbreytilega persónuleika og menskar persónur. Enginn setur spurningamerki við tilvist þeirra eða spyr af hverju þeir geta flogið og talað. Lesendur sem eru vel að sér í líf-eða eðlisfræði gætu orðið pirraðir en þarna eru drekar dýrategund eins og hver önnur og það eru forsendurnar sem þarf að gefa sér.

Saga Temeraire er fyrst og fremst söguleg og því er best að skoða hana í sögulegu samhengi. Temeraire fylgir í grófum dráttum þeim atburðum Napóleónsstríðanna sem gerðust í raunveruleikanum. Mikilvægar orrustur og margar sögufrægar persónur eru nokkurn veginn á sínum stað og má þar nefna; hertogann af Wellington, Nelson aðmírál, William Wilberforce, Mianning prins (síðar Daoguang keisari), prússnesku konungshjónin Frederick III og Louise, Moshoeshoe I, William Bligh, John MacArthur, Chrétien-Louis-Joseph de Guignes og auðvitað Napoléon Bonaparte.

Saga Temeraire er fyrst og fremst söguleg og því er best að skoða hana í sögulegu samhengi. Temeraire fylgir í grófum dráttum þeim atburðum Napóleónsstríðanna sem gerðust í raunveruleikanum. Mikilvægar orrustur og margar sögufrægar persónur eru nokkurn veginn á sínum stað…

Ýmislegt er þó mikið breytt og þá sérstaklega í þeim bókum sem gerast utan Evrópu og er yfirleitt í tengslum við framvindu nýlendustefnu Breta og Evrópubúa. Drekarnir gegna þar mikilvægu hlutverki og þá auðvitað sérstaklega Temeraire sjálfur. Margir minnihlutahópar eða undirokaðir hópar kannast eflaust við baráttu hans og geta auðveldlega sett sig í spor hans. Hann vex úr grasi í þeirri trú að hann og hinir drekarnir búi við góðar aðstæður en sér síðan í samanburði við aðra menningarheima að svo er ekki. Hann þarf síðan að reyna að fá áheyrn fyrir hugmyndir sínar um hvernig má betrumbæta aðstæðurnar en þarf að takast á við mikið mótlæti og „rök“ á borð við, þetta hefur alltaf verið svona og þess vegna hlýtur það að virka‘ (sem t.d. feministar ættu að þekkja vel). Sömuleiðis þarf Laurence að endurskoða gildi sín og horfast í augu við galla þess sem við köllum gjarnan í dag, byrði hvíta mannsins‘ eftir ljóði Rudyard Kipling. Allar þær baráttur sem Temeraire þarf að heyja fyrir frelsi og réttlæti er eitthvað sem okkur þykir oftast sjálfsagt í dag en þurfum samt enn að vera að berjast fyrir. Því er ekki aðeins gaman að lesa Temeraire með svokallaða síðnýlendustefnu eða eftirlendufræði (e. postcolonialism) í huga, heldur þjónar sjónarhorn drekans einnig sem gluggi nútímalesandans inn í heim fortíðarinnar, á svipaðan hátt og hobbitarnir í Hringadróttinssögu, og lesendur geta speglað eigin reynslu í hans eða þá annarra persóna.

Þeir eru fáir steinarnir sem Novik veltir ekki við í þessari epísku sögu og hún hefur góða stjórn á heildarstefnunni sem sagan tekur, þótt deilt sé um gæði stakra bóka. Hún hefur afar gott vald á tungumáli og skrifar í trúverðugum en mjög læsilegum 19. aldar stíl og fléttar saman við hann skemmtilegri 21. aldar kaldhæðni. Temeraire ber þess greinilegan vott um að höfundurinn sé vel lesinn í klassíkum bókmentum en einnig mætti halda því fram að bakgrunnur hennar í tölvunarfræði, forritun og tölvuleikjaþróun birtist í vel skrifuðum bardagasenum og úthugsuðum strategíum.

Novik hefur einnig gefið út smásagnasafnið Golden Age and Other Stories sem gerist í sama heimi og Temeraire, og fantasíusöguna Uprooted sem hún byggir á pólskum ævintýrum en foreldrar hennar voru pólskir innflytjendur. Ágúst síðastliðinn kom út önnur skáldsaga af svipuðum meiði sem ber heitið Spinning Silver og er öðruvísi útgáfa af ævintýrinu um Rumplestiltskin.

Naomi Novik er svo væntanleg til Íslands í næstu viku sem heiðursgestur IceCon 2018 sem fer fram dagana 5.-7. október í Iðnó.

Myndir: Naomi Novik og Wikipedia.

Þessi grein er birt í tengslum við IceCon hátíðina sem haldin verður í Reykjavík 5.-7. október 2018.
Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑