Bækur

Birt þann 7. júlí, 2018 | Höfundur: Tinna Eiríksdóttir

Hrollvekjuprinsinn Joe Hill

Rithöfundurinn Joe Hill hefur getið sér gott orð undanfarið fyrir stórgóðar skáldsögur með hrollvekjuívafi sem er einfaldlega ekki hægt að leggja frá sér eftir að lesturinn hefst. Saga hans Horns var kvikmynduð árið 2013 með Daniel Radcliffe í aðalhlutverkið og nýlega var tilkynnt að það eigi að gera sjónvarpsþætti eftir skáldsögunni NOS4A2 með engum öðrum en Ólafi Darra Ólafssyni í einu aðalhlutverkanna. En hver er þessi Joe Hill?

Joe Hill…. verkalýðshetja?

Joe Hill fæddist árið 1972 og ólst upp í Bangor í Maine-fylki í Bandaríkjunum. Móðir hans heitir Tabatha og er rithöfundur og faðir hans heitir Stephen. Hann er líka rithöfundur. Joe á einn bróður, Owen, sem er ótrúlegt en satt, líka rithöfundur. Glöggir lesendur hafa ef til vill áttað sig á því hverra manna Joe Hill er en annars dugir að sjá ljósmynd af honum því hann er lifandi eftirmynd föður síns, hrollvekjukonungsins Stephen King.

Það getur ekki verið auðvelt að feta í fótspor goðsagnar á borð við Stephen King,

Það getur ekki verið auðvelt að feta í fótspor goðsagnar á borð við Stephen King, sem flest allir í hinum vestræna heimi þekkja til. Verk hans hafa gengið í endurnýjun lífdaga síðustu ár með endurgerðinni á It og síðan hinni stórfenglega misheppnuðu kvikmynd Dark Tower (fleiri orð verða ekki höfð um hana að þessu sinni…) og flestir kannast við nafnið Stephen King þó þeir geti kannski ekki nefnt bók eftir hann. Joe Hill vildi komast áfram á eigin verðleikum (hann skrifar ekki bækur með pabba sínum eins og bróðir hans Owen) og brá á það ráð að fjarlægja eftirnafnið og notast við styttingu á millinafni sínu, Hillstrom.

Joseph Hillstrom King varð því Joe Hill (Joe Hill var einnig nafn á verkalýðshetju og lagahöfundi sem var uppi um aldamótin 1900 og var ranglega tekinn af lífi. Sagan segir að Josep Hillstrom hafi verið nefndur í höfuðið á verkalýðshetjunni Hill, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það). Joe Hill tókst að halda uppruna sínum leyndum þangað til 2007 þegar tímaritið Variety ljóstraði upp um hverra manna hann er í raun og veru og hann neyddist til að viðurkenna faðerni sitt en það virðist ekki hafa komið að sök. Joe Hill heldur áfram að skrifa og verður betri og betri.

Stutt ágrip um ritferil prinsins

Fyrsta bók Hill, smásagnasafnið 20th Century Ghosts, kom út árið 2005 en hann hlaut Bram Stoker verðlaunin fyrir verkið. Safnið er vel skrifað þó það vanti ákveðna stefnu í það. Sögurnar fara úr því að vera hrollvekjur og draugasögur yfir í að vera hálfgerðar ástarsögur og lesandinn finnur dálítið fyrir því að vita ekki alveg að hverju hann gengur í upphafi hverrar sögu. Það má samt vel mæla með því, engin sagnanna er leiðinleg eða óáhugaverð og þær eru líka allar hæfilega langar – það er fátt betra en mátulega löng smásaga sem hægt er að klára að lesa í strætó eða fyrir svefninn.

Draugar og barnaræningjar

Árið 2007 gaf Hill út skáldsöguna Heart-Shaped Box. Sagan fjallar um gamlan rokkara sem er sestur í helgan stein og eyðir peningunum sínum í að safna undarlegum hrollvekjutengdum minjagripum. Þegar honum býðst að kaupa draug á netinu stenst hann ekki mátið, kaupir drauginn en sú fjárfesting er aðeins upphafið á martröðinni. Söguframvindan er hröð og kemur manni stanslaust á óvart. Sumir gætu þurft að sofa með ljósin kveikt eftir lesturinn en þessi frumraun Hill er hinn prýðilegasti gæsahúðarvaki.

Hill fylgdi Heart-Shaped Box eftir með skáldsögunni Horns (2010) sem fjallar um Ig Perrish sem fer á fyllerí og vaknar með tvær litlar kúlur á höfðinu en kúlurnar reynast vera vísar að hornum.

Hill fylgdi Heart-Shaped Box eftir með skáldsögunni Horns (2010) sem fjallar um Ig Perrish sem fer á fyllerí og vaknar með tvær litlar kúlur á höfðinu en kúlurnar reynast vera vísar að hornum. Ig er af fínum ættum en eftir að kærastan hans finnst myrt er hann grunaður um morðið. Hann er aldrei kærður eða sakfelldur en dómstóll götunnar lætur slíkt sig litlu skipta. Ig er því jaðarsettur í samfélaginu en eftir því sem hornin á höfði hans stækka kemst hann að ýmsu um sjálfan sig og fólkið í kringum sig. Það er ekki hægt að skrifa mikið um Horns án þess að skemma söguframvinduna en með henni festir Hill sig í sessi sem frumlegur hrollvekjuhöfundur sem hefur góða innsýn í mannlegt eðli og það má vel mæla með henni.

Í NOS4A2 (2013) heldur Hill áfram með sama yfirnáttúrulega þema og hefur verið viðloðandi í fyrri tveimur bókunum en í bókinni segir frá móður sem reynir að bjarga syni sínum frá yfirnáttúrulegum barnaræningja, Charles Manx. Manx ekur um á gömlum Rolls Royce, rænir börnum og ferð með þau í Jólaland (e. Christmasland) en þetta Jólaland Manx á meira skylt við helvíti en hátíð ljóss og friðar. Sagan flakkar mikið fram og tilbaka í tíma og er bókin ansi löng enda er sagan yfirgripsmikil og ákveðinnar nákvæmni þörf ef sagan á að komast almennilega til skila. NOS4A2 er fyrsta skáldsaga Hill sem greinarhöfundur las og ef hún gæti flakkað aftur í tíma myndi hún velja aðra af fyrri bókunum sem fyrstu Hill bókina.

Nýjasta skáldsaga Hill, The Fireman, kom út 2016 og ef greinarhöfundur á að vera hreinskilin (sem hún ætlar að vera) hefur sú bók ekki einu sinni tærnar þar sem fyrri bækur Hill hafa hælana. Í stuttu máli er þetta dystopía um fallna veröld þar sem aðalsöguhetjan reynir að lifa af í heimi þar sem dularfullur sjúkdómur veldur því að fólk stendur skyndilega í ljósum logum (e. spontanius combustion) og já… bókin er löng. Mjög löng. Og skilur lítið eftir sig. Hill hefur ekki gefið út aðra skáldsögu síðan The Fireman kom út.

Locke and Key – fyrir teiknimyndasöguunnandann, sem og aðra

Í samstarfi við teiknarann Gabriel Rodríguez, skrifaði Joe Hill teiknimyndaseríuna Locke and Key sem kom út á árunum 2008 – 2013 og telur alls 6 bindi. Sagan segir frá Locke-fjölskyldunni sem ákveður að flytja í fjölskyldusetrið Keyhouse í bænum Lovecraft í Massachusetts til að ná áttum og jafna sig eftir að fjölskyldufaðirinn er myrtur. Húsið er hins vegar ekki bara hús og þau eru nánast nýkomin á staðinn þegar hinir furðulegustu hlutir byrja að eiga sér stað. Sagan er með yfirnáttúrulegu ívafi, eins og flest allt sem Hill skrifar. Það besta er að sögunni er lokið og því er serían með upphaf og endi og lítið mál að verða sér úti um öll 6 bindin og spæna í gegnum þau. Annað er ekki hægt.

Að lokum

Eftir að hafa lesið ógrynni af hrollvekjum […] og öðrum bókum með yfirnáttúrulegu ívafi er Hill eins og ferskur andvari.

Í þessu stutta ágripi um ritferil Hill hefur ekki gefist pláss til að dásama höfundinn eins mikið og greinahöfundur myndi vilja. Eftir að hafa lesið ógrynni af hrollvekjum (nánast allt sem karl faðir hans, King, hefur skrifað) og öðrum bókum með yfirnáttúrulegu ívafi er Hill eins og ferskur andvari. Bækurnar hans eru nánast undantekningarlaust vel skrifaðar (tölum ekki um The Fireman, best að láta bara eins og hún sé ekki til en þó hún sé löng og leiðinleg er ritfærni höfundarins augljós) og skilja lesandann eftir með bæði hina fullnægjandi tilfinningu sem fæst eftir lestur góðrar bókar og oftar en ekki hinar ýmsu vangaveltur um lífið, tilveruna og hvað það er að vera manneskja. Þó svo Hill skrifi innan sömu greinar bókmenntanna og faðir hans þá er hann enginn eftirbátur hrollvekjukonungsins og ég fyrir mitt leyti bíð spennt eftir næstu bók. Greinarhöfundur gengur ekki svo langt að segja að Hill sé betri en King… en hann er ekkert síðri.

Mynd: Wikimedia (Joe Hill)

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑