Bækur

Birt þann 11. desember, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Bókarýni: Þitt eigið ævintýri – „hægt að lesa hana sem sögu eða sem leik“

Bókarýni: Þitt eigið ævintýri – „hægt að lesa hana sem sögu eða sem leik“ Steinar Logi

Samantekt: Fín og frumleg barnabók frá Ævari vísindamanni.

3.5

Fín barnabók


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Þitt eigið ævintýri eftir Ævar Þór Benediktsson, betur þekktan sem Ævar vísindamaður, er nýjasta bókin í seríu bóka sem byggja á því að lesandinn tekur sjálfur ákvarðanir og stýrir söguþræðinum. Fyrri bækur Ævars í bókaröðinni eru Þín eigin þjóðsaga, Þín eigin goðsaga og Þín eigin hrollvekja.

Bókin byggir á skrifum í anda Grimm-bræðra þar sem blessuð börnin eru í stanslausri lífshættu. Sagan byrjar á því að söguhetjan týnist í skógi og lendir svo í röð atburða sem hafa hliðstæðu með þessum klassísku ævintýrum.

Bókin byggir á skrifum í anda Grimm-bræðra þar sem blessuð börnin eru í stanslausri lífshættu.

Fyrir mörgum árum þegar ég var krakki þá var mjög vinsæl bókaröð í gangi sem kallaðist Fighting Fantasy eftir Steve Jackson og Ian Livingstone og fyrsta bókin í þeirri seríu hét því eftirminnilega nafni The Warlock of Firetop Mountain. Serían varð langlíf og gerðar voru yfir fimmtíu bækur ásamt mörgum öðrum bókaröðum í samskonar stíl þ.e.a.s. að blanda saman bók og leik. Maður fær algjöra nostalgíubombu við að skoða bókakápurnar á þessum bókum því að margar hverjar af þessum bókum voru frábærlega skrifaðar, alla vega í huga mínum þá. Ég nefni þetta því að lýsingin á Mitt eigið Ævintýri ásamt fyrri bókum Ævars í þessari bókaröð, minnir mann óneitanlega á þessar bækur úr fortíðinni. En þetta er samt tvennt ólíkt.

Aðalsögupersónan í Þitt eigið ævintýri hefur ákveðinn persónuleika og þú tekur ekki allar ákvarðanir fyrir hana eins og í Fighting Fantasy bókunum; stundum gerir hún eitthvað sem þú hefur ekki áhrif á en þú setur samt í gang röð atburða með valinu þínu. Útfrá samskiptum söguhetjunnar við aðra þá virðist hún vera eldri krakki (gæti verið stelpa eða strákur), kannski unglingur sem veit ýmislegt um heiminn en er greinilega óharðnaður. Þannig að þetta er annað form en í FF bókunum þar sem hetjan var nær alltaf andlitslaus og þú valdir allt sem hún sagði og gerði. Auk þess þarf ekkert að skrifa niður hér eða kasta teningum.

Þitt eigið ævintýri er því meira saga heldur en leikur en það að þú þarft að taka ákvarðanir hefur auðvitað áhrif á söguþráðinn. Ég las bókina með sonum mínum (8 og 11 ára) og sú upplifun var það sterkasta við bókina því að nú var maður ekki bara að lesa sögu, heldur þurfti að taka ákvarðanir og því var meiri spenna í lestrinum. Þetta er því fín afþreying fyrir foreldra og börn saman. Ákvarðanirnar í bókinni eru tvíþættar; annars vegar hafa þær áhrif á hvaða ævintýri þú fylgir, en þau eru fleiri en fimm en færri en tíu, og sum fá meiri tíma en önnur og stundum renna þau saman. En hins vegar er heilmikið af 50/50 ákvörðunum þar sem eitt valið heldur sögunni áfram og hin lætur þig enda í maga úlfs svo dæmi sé tekið. Þannig að það eru ákveðin „hryllings-stef“ rétt eins og í klassísku ævintýrunum svo að þetta hentar kannski ekki fyrir þau allra minnstu. En krakkar á bilinu 7-13 ættu að hafa gaman af bókinni.

Þitt eigið ævintýri er meira saga heldur en leikur en það að þú þarft að taka ákvarðanir hefur auðvitað áhrif á söguþráðinn

Bókin er vel skrifuð, þægileg aflestrar og frágangurinn er til fyrirmyndar, sérstaklega vekur myndskreytingin (Evana, evana.deviantart.com) athygli. Það hefði verið skemmtilegt að sjá meira eftir hana inni í bókinn sjálfri en myndirnar eru á fyrstu og seinustu síðum bókarinnar. Skemmtanagildið er í forgangi en það er lætt inn í frásögninni fróðleikskornum hvort sem það er verið að kenna minna notuð íslensk orð eða hreinlega rökhugsun (sem spilar inn í líka þegar taka þarf ákvarðanir).

Þitt eigið ævintýri er auðvitað barnabók og er ekki að reyna að vera neitt annað. Húmor spilar mikinn þátt og er algerlega skrifaður fyrir yngri lesendur, en þessi ofuráhersla á húmor finnst mér stundum skemma fyrir og taka mann úr sögunni. Margar af samræðunum milli persónanna virka óraunverulegar því að allir tala á mjög líkan máta þrátt fyrir að vera alls konar ævintýra- og furðuverur með mismunandi uppruna. Það er eins og allir séu með samskonar „sit-com“ húmor. Einstaka stef í sögunni mættu líka vera aðeins meira úthugsuð, það virkar eins og fyrstu hugmyndinni hafi verið fylgt eftir og svo slípað til eftirá með innskeyttum útskýringum. Kannski hefði mátt setja aðeins meiri vinnu í skrifin.

Kannski hefði mátt setja aðeins meiri vinnu í skrifin.

En þrátt fyrir þetta er Þitt eigið ævintýri barnabók sem er yfir meðallagi. Hún er skemmtileg fyrir þau yngri, lifandi, gagnvirk og allur frágangur til fyrirmyndar. Það er hægt að lesa hana sem sögu (með því að svindla á ákvörðunum og velja alltaf rétta möguleikann) eða sem leik hvort sem hentar barninu þínu betur.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑