Bækur og blöð

Birt þann 1. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

Batman VS Superman – hvor myndi sigra?

Bjarki Dagur Svanþórsson skrifar: 

Leikstjórinn Zack Snyder gerði allt vitlaust fyrir stuttu síðan þegar hann staðfesti að Superman myndi deila skjánum með sjálfum Leðurblökumanninum í væntanlegu framhaldi stórmyndarinnar Man of Steel.  Aðdáendur og spekúlantar fóru strax að rífast um hvaða leikari skyldi hreppa hlutverk grímuklæddu hetjunnar og fylgja í fótspor Christian Bale, sem fór eftirminnilega með hlutverk Batman í þríleik Nolans.  Það kom snemma í ljós að hér yrði ekki sami Leðurblökumaður á ferð og í Dark Knight þríleiknum, heldur ætluðu framleiðendur að kynna nýja útgáfu af hetjunni til leiks. „Hver mun leika Batman“ var spurning sem flestir, ef ekki allir, áhugamenn um kvikmyndir og ofurhetjur veltu fyrir sér, en loks fékk almenningur að vita svarið: Enginn annar en Ben Affleck myndi taka við hlutverkinu.

Viðbrögðin voru vægast sagt dramatísk, en á meðan flestir ákváðu að dæma valið ekki áður en við sæjum brot úr myndinni (hver man ekki eftir reiðinni þegar Heath Ledger, heitinn, var ráðin í hlutverk Joker) voru ótalmargir mjög ósáttir. Tíminn leiðir í ljós hvort Ben Affleck standi sig, en nú þegar þeirri spurningu er svarað er bara sú mikilvægasta eftir.

Já, Batman og Superman, tvær stærstu ofurhetjur allra tíma, munu loksins mætast á stóra tjaldinu. Í myndasögunum eru þeir mestu mátar, enda hafa þeir starfað saman í áraraðir. Myndast hefur órjúfanlegt traust á milli þeirra og líta þeir hver á hinn sem bróður. En það var ekki alltaf þannig. Ef Man of Steel 2 sækir innblástur í myndasögurnar, sem handritshöfundurinn David S. Goyer hefur ekki hikað við að gera, þá er óhætt að segja að fyrstu kynni hetjanna munu vægast sagt verða skrautleg. Að öllum líkindum munu bræður berjast, og þá spyrjum við:

Batman VS Superman – hvor myndi sigra?

 

SUPERMAN

Superman - Man of Steel

Í einu horninu höfum við engan annan en síðasta eftirlifandi Krypton-búann, Ofurmanninn víðfræga, Kal-El. Eins og flestir vita var Kal-El ungabarn þegar heimapláneta hans hvarf á einu augnabliki. Faðir hans, vísindamaðurinn Jor-El, sendi hann til jarðarinnar og það var hér, undir gulri sólinni, þar sem hann öðlaðist ótrúlega krafta. Kal-El, eða Clark Kent, er lifandi sólarrafhlaða – geislar hennar gera hann nánast óstöðvandi. Kraftar hans og eiginleikar hafa þróast í gegnum tíðina og aukist til muna frá því hann steig fyrst fram á sjónarsviðið árið 1938.

Superman flýgurÍ dag er styrkur Ofurmannsins nánast ómælanlegur.  Í sinni núverandi mynd getur Kal-El lyft 500 tonnum án sýnilegra erfiðleika og virðast engin mörk á líkamsstyrk hans. Í sögunni Forever Evil, sem DC birtir um þessar mundir, tekst skúrkinum Ultraman, sem býr yfir nákvæmlega sömu kröftum og Superman, að færa sjálft tunglið úr stað. Hetjan býr yfir þoli og úthaldi í stíl en fátt virðist á hann fá. Þrýstingur og hitastig hafa engin áhrif á okkar mann, og ekkert minna en kjarnorkusprenging getur rofið húð hans.

Superman býr einnig yfir ofurhraða sem gerir honum kleift að ferðast vetrabrautanna á milli á örfáum mínútum. Sleppi hann af sér beislinu, sem er sjaldgæft, getur hann ferðast hraðar en ljósið sjálft. Í sögunni Red Son, sem gerist í heimi þar sem hinn ungi Kal-El brotlenti í Sovétríkjunum, heldur hetjan því fram að hann geti ferðast sex sinnum hraðar en mannfólk hugsar. Hvorki meira né minna.

Þeir kraftar sem geislar sólarinnar gefa Ofurmenninu eru ótalmargir, en öll skilningarvit hans eru ómannlega næm. Í orðum Leðurblökumannsins getur Superman heyrt fiðrildi blaka vængjum sínum hinum megin á plánetunni, fylgst með frumum í líkama þess sem hann talar við, og býr sömuleiðis yfir vægast sagt næmu lyktarskyni. Í vopnabúri sínu býr Kal-El yfir svokölluðu Heat Vision, en hann getur brætt stál með því einu að horfa á það. Sömuleiðis sér hann í gegnum allt nema blý með röntgensjón sinni, og getur fryst skúrka í stað með andadrætti sínum.

Í nýjasta ævintýri Kal-El á hvíta tjaldinu fengum við hins vegar að kynnast tiltölulega óreyndri hetju. Hann hafði vissulega vanist kröftum sínum en forðast það að nota þá af mikilli alvöru. Þegar hinn grimmi Zod gerði árás á jörðina rann Kal blóðið til skyldunnar og notaði hæfileika sína í fyrsta sinn í bardaga. Það endaði ekki betur en svo en að meirihluti Metropolis-borgar og Smallville-bæjar voru lagðar í rúst, enda Superman ekki vanur slíkum átökum. Þó svo að margir aðdáendur Superman voru ekki par ánægðir með brussuganginn í sínum manni fer það ekki á milli mála hvað gerist þegar Superman, sem venjulega heldur aftur af sér, passar sig ekki.

Það gefur að skilja að Superman er ekki andstæðingur sem margir myndu kjósa sér. En hinn keppandi okkar er ekki eins og fólk er flest.

 

BATMAN

Batman - The Dark Knight

Líf hins unga Bruce Wayne var lagt í rúst þegar foreldrar hans voru myrtir fyrir framan hann. Morðinginn komst að undan en hinn ungi Bruce sór þann eið að engin skyldi upplifa slíkt aftur. Í nokkur ár ferðaðist Bruce um heiminn og snéri loks aftur til Gotham-borgar sem myrkur bjargvættur. Leðurblökumaðurinn goðsagnakenndi tók til starfa.

Batman-stendurBruce Wayne býr ekki yfir neinum ofurkröftum, en hann lætur það ekki stöðva sig. Á ferðum sínum lærði hann ótalmargt sem átti eftir að nýtast honum í herferð sinni gegn glæpamönnum Gotham-borgar. Til að byrja með gerði hann líkama sinn að vopni.  Bruce gerðist lærlingur hjá mörgum af hættulegustu bardagaköppum jarðarinna, og áður en hann snéri aftur til síns heima var hann sjálfur orðinn einn þeirra. Samkvæmt myndasögunum góðu hefur Batman tekist að ná fullkomnu valdi á hvorki meira né minna en 127 bardagalistum, þar á meðal Muay Thai, Escrima, Krav Maga og fleirum. Þar að auki hefur honum tekist að auka þol sitt til muna, en sársaukaþol Leðurblökunnar er meira en gengur og gerist í okkur mannfólkinu. Þegar bein árás eru Leðurblökumanninum ekki í hag notfærir hann sér skuggana, en í eftirminnilegri sögu tókst Batman að fela sig svo jafnvel Superman gat ekki fundið hann.

Bruce þjálfaði ekki bara líkama sinn heldur hugann líka, en Batman er talinn heimsins besti rannsóknarmaður. Það eru fáir glæpir og gátur sem honum tekst ekki að leysa á mettíma. Þekking hans á nær öllum sviðum slær flestum við, en þeirra á meðal eru vísindi, löggæsla, yfirheyrslur og njósnir.  Með allar þessar upplýsingar í hausnum á sér þarf Bruce að passa að ekkert komist þar inn, en hann hefur þróað með sér þol gegn heilaþvotti, heilastjórnun og flestum tegunda hugarorkna.

Í vopnabúri Leðurblökumannsins eru svo ótal græjur og vélar sem eru algerlega ómissandi. Það tæki nokkra daga að telja upp öll þau tæki og tól sem hann lumar á, en hér má finna lista yfir allt það helsta sem má finna í leðurblökubeltinu víðfræga.

Já, það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Superman telur Bruce Wayne vera hættulegasta einstakling á jörðunni. Í klassískri JLA sögu eftir Grant Morrison tekst Leðurblökumanninum að sigrast á heilum hóp ofurskúrka frá Mars einn síns liðs. Að ógleymdri Tower of Babel sögunni, þar sem óprúttinn aðili kemst í tölvukerfi Batmans, þar sem hetjan geymir upplýsingar um hvernig hægt sé að tortíma félögum sínum í Justice League of America, skyldu þeir gerast illir. Sem dæmi úr sögunni má nefna að Leðurblökumaðurinn hafði þróað sérstaka tegund smávéla sem festu sig við húð Martian Manhunter, sem þolir ekki eld, en þessar vélar brunnu um leið og þær komust í tæri við súrefni. Sömu sögu er að segja af ofurhetjunni The Flash, en fyrir hann hafði Bruce skapað háþróaða byssukúli sem festi sig við mænu hetjunnar og lét hann fá flogakast á ofurhraða.

Þeir skúrkar, og jafnvel þær hetjur, sem vanmeta Leðurblökumannin sjá fljótt eftir því. Hann er orðinn sannkallaður meistari í að sigrast á líkunum og er því ekki hægt að ganga frá því sem sjálfsögðum hlut að hann ætti ekki séns í Ofurmanninn frá Krypton.  Til að mynda hafa þeir félagar oft barist í blaðsíðum myndasagna og algengt er að Batman fari með sigur af hólmi í þeim viðureignum, enda orðinn einn sá flinkasti í að notfæra sér veikleika Kal-El, til dæmis með Kryptoníti sem hann á í mörgum myndum (allt frá hnúajárni að dufti).

Það litla sem við vitum um túlkun Ben Affleck á Leðurblökumanninum í Man of Steel 2 er að sá á að vera orðinn eldri en við erum orðin vön. Hetjan hefur verið lengi að og því orðin þaulreynd, seig og enn hættulegri, og er nokkurs konar andstæða Superman þegar kemur að reynslu. Batman fylgist jafnan grannt með því sem gengur á úti í heimi og því hægt að gera ráð fyrir því að hann sé nú þegar með gríðarstóra möppu tileinkaða geimverunni sem lagði Metropolis í rúst. Verandi einn sá allra tortryggnasti er aldrei að vita nema í þeirri möppu leynast nokkrar leiðir til að sigrast á Superman.n!

Eins og þið sjáið er alls ekki augljóst hver mun þurfa að lúta í lægra haldi fyrir hinum, en svörin við þeirri spurning eru eins mörg og sögurnar um þá félaga. Því ætlum við hjá Nörd Norðursins að leyfa ykkur, lesendum, að ákveða. Segið okkur hvernig þið haldið að slagurinn fari, og ekki væri verra að sjá skemmtilega rökstudd svör.

 

Myndasaga verður veitt í verðlaun fyrir besta svarið í kommentakerfinu hér að neðan!

Verðlaunin eru klassísk Batman/Superman myndasaga, sem kannar meðal annars hvernig færi ef Batman fengi krafta Supermans, og hin stórskemmtilega DVD mynd Superman/Batman: Public Enemies, en þeir félagar þurfa heldur betur að taka á því þegar Lex Luthor verður forseti Bandaríkjanna og gerir þá útlæga. ATH: DVD diskurinn er á Svæði 1

 


Batman VS Superman – hvor myndi sigra?

View Results

Loading ... Loading ...

Forsíðumynd: LoganChico á deviantART.

Höfundur er
Bjarki Dagur Svanþórsson.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑