Fréttir

Birt þann 7. júní, 2025 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

Echoes of the End – nýr metnaðarfullur ævintýraleikur frá íslensku leikjafyrirtæki

Íslenska leikjafyrirtækið Myrkur Games birti nýtt sýnshorn úr Echoes of the End á Future Games Show leikjasýningunni sem fór fram fyrr í kvöld. Um er að ræða nýjan þriðju persónu hasar- og ævintýraleik þar sem þau Aldís Amah Hamilton og Karl Ágúst Úlfsson fara með aðalhlutverk. Leikurinn hefur verið í þróun í tæpan áratug og er knúinn áfram af Unreal Engine 5 leikjavélinni.

Tilfinningaþrungin saga full af göldrum

Leikurinn býður upp á tilfinningaþrungna sögu að sögn leikjahönnuða þar sem við fylgjum aðalpersónunum Ryn (Aldís Amah) og Abram Finlay (Karl Ágúst) í gegnum ævintýri þeirra. Þess má geta að Aldís fór nýlega með stórt hlutverk í tölvuleiknum Hellblade II og var tilnefnd til BAFTA verðlauna fyrir leik sinn. Í Echoes of the End spilar spilarinn sem Ryn en Abram er fylginautur hennar sem aðstoðar hana í bardögum og með ýmsar þrautir.

Í fréttatilkynningu frá Myrkur Games er söguþræði leiksins lýst með eftirfarandi hætti:

Þemu af traust, fórn og endurlausn móta þessa tilfinningaþrungnu sögu, í heimi sem er samtímis jarðbundinn og fullur af ævintýrum, mótaður af stríðum og arfleifð þeirra.

Stígðu í spor Ryn, forneskju (e. vestige) sem fæddist með óstöðugan galdramátt. Þegar bróðir hennar er numinn á brott af grimmu heimsveldi á barmi innrásar neyðist hún til að leggja af stað í björgunarleiðangur sem leiðir í ljós hulið samsæri til að endurvekja gamalt stríð og leggja heimaland hennar í rúst. Með sér í för hefur hún Abram Finlay, mann sem dregur þungar minningar á eftir sér. Saman þurfa þau að takast á við brotin fjölskyldubönd, sársaukafullar uppgötvanir og djúp sár fortíðarinnar. Þemu af traust, fórn og endurlausn móta þessa tilfinningaþrungnu sögu, í heimi sem er samtímis jarðbundinn og fullur af ævintýrum, mótaður af stríðum og arfleifð þeirra.

Við hjá Nörd Norðursins ræddum við Magnús Friðrik Guðrúnarson og Daði Einars hjá Myrkur Games sem segja að sagan muni halda spilurum vel við efnið. Að þeirra sögn á leikurinn að bjóða upp á ævintýraheim sem auðvelt er að stökkva í og gleyma sér.

Heimur sem sækir innblástur frá Íslandi

Magnús Friðrik hjá Myrkur Games segir að leikjahönnuðir hafi bætt við ýmsum földum glaðningum, eða svokölluðum „easter eggs“, í leiknum sem íslenskir spilarar eiga eflaust að tengja við og hafa gaman af.

Landslagið í Aema, sem er nafnið á ævintýraheiminum sem Myrkur hefur skapað fyrir leikinn, er stórbrotið og innblásið af Íslandi. Þegar umhverfið í leiknum er skoðað má finna ýmislegt sem minnir á íslenska náttúru, þar á meðal gróður, kletta og fjöll. Í myndbandi sem Myrkur Games birti rétt í þessu á YouTube-rás sinni er farið yfir það hvernig Kirkjufell var þrívíddaskannað með drónum og svo fært yfir í leikjaheim Echoes of the End. Sólheimajökul er einnig að finna sem hluta af landslagi Aema. Magnús Friðrik hjá Myrkur Games segir að leikjahönnuðir hafi bætt við ýmsum földum glaðningum, eða svokölluðum „easter eggs“, í leiknum sem íslenskir spilarar eiga eflaust að tengja við og hafa gaman af.

Tengingar við Ísland er að finna víðar í leiknum. Auk landslagsins og íslenska leikara að þá heyrist íslenska tungumálið reglulega í leiknum þó leikurinn sé annars á ensku. Einnig er að finna ýmis heiti sem hafa verið sótt í íslenskri tungu.

Sverðabardagar, galdrar og þrautir

Spilunin er fyrst og fremst söguríkur hasar- og ævintýraleikur og að sögn Daða. Leiknum er skipti í tíu kafla þar sem nýjungar eru kynntar fyrir spilaranum í hverjum kafla til að halda spiluninni áhugaverðri og bjóða upp á aukna fjölbreyttni.

Ryn notar galdra til að leysa þrautir og yfirstíga hindranir í umhverfinu. Hún getur meðal annars stjórnað þyngdarafli, séð í gegnum tálsýnir og breytt heiminum í kringum sig.

Sverðabardagi spilar stóran þátt í spilun leiksins þar sem barist er á móti óvinum og nauðsynlegt að ná að höggva í óvini á réttum tíma og hoppa frá eða verja sig. Líkt og sést í sýnishorninu úr leiknum má búast við nokkrum áhugaverðum endaköllum. Þess má geta að þá er leikurinn ofbeldisfullur og bannaður börnum innan 18 ára. Ryn notar galdra til að leysa þrautir og yfirstíga hindranir í umhverfinu. Hún getur meðal annars stjórnað þyngdarafli, séð í gegnum tálsýnir og breytt heiminum í kringum sig.

Í leiknum fá spilarar svo að velja sitt erfiðleikastig svo þeir sem vilja einungis fylgja sögunni geta valið auðveldari spilun á meðan þeir sem kjósa erfiðar áskoranir geta valið erfiðari erfiðleikastillingu.

Væntanlegur síðar í sumar

Ekki var uppgefinn nákvæm útgáfudagsetning en það má áætla að leikurinn verði gefinn út í seinasta lagi næstkomandi ágúst eða september.

Myrkur Games tilkynnti á Future Games Show að leikurinn er væntanlegur síðar í sumar. Ekki var uppgefinn nákvæm útgáfudagsetning en það má áætla að leikurinn verði gefinn út í seinasta lagi næstkomandi ágúst eða september. Leikurinn er væntanlegur á PlayStation 5 og Xbox Series leikjatölvurnar ásamt PC. Útgefandi leiksins er Deep Silver sem hefur gefið út leiki á borð við Kingdom Come: Deliverance II, Dead Island 2, Saints Row og Persona 5.

Nörd Norðursins mun halda áfram að fylgjast með framvindu Echoes of the End og fjalla nánar um leikinn við útgáfu. Lesendur sem vilja fylgjast með og styðja við Myrkur Games eru hvattir til að setja Echoes of the End á óskalistann (wishlist) sinn á Steam og fylgjast með Myrkur Games á YouTube.

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑