Íslenskir Switch 2 spilarar segja sitt álit á nýju tölvunni
Síðastliðinn fimmtudag var útgáfudagur Switch 2, nýjustu leikjatölvu Nintendo. Ormsson er með umboðið fyrir Nintendo á Íslandi og bauð íslenskum spilurum upp á forsölu og sérstaka miðnæturopnun þar sem kaupendur Switch 2 gátu sótt nýju tölvuna um leið og útgáfudagur hófst.
Góðar viðtökur á Íslandi
Við hjá Ormsson héldum miðnæturopnun fyrir alla sem höfðu forpantað Nintendo Switch 2 og það var algjör stemning. Fólk fór að mæta löngu fyrir opnun og þegar klukkan var korter í var komin röð sem teygði sig fyrir horn.
Guðmundur Snorri Sigurðarson, vörustjóri hjá Ormsson, segir að móttökurnar hér á landi hafi verið mjög góðar. „Við hjá Ormsson héldum miðnæturopnun fyrir alla sem höfðu forpantað Nintendo Switch 2 og það var algjör stemning. Fólk fór að mæta löngu fyrir opnun og þegar klukkan var korter í var komin röð sem teygði sig fyrir horn. Við afhentum hátt í 200 tölvur rétt eftir miðnætti og bættist enn í hópinn morguninn eftir þegar verslunin opnaði að nýju.“
Nintendo Switch 2 er ný leikjatölva sem byggir á fyrri Switch leikjatölvunni sem hefur notið gríðarlegra vinsælda og er með best seldu leikjatölvum allra tíma. Það sem gerir Switch leikjatölvuna einkum vinsæla er Nintendo leikjaúrvalið auk þess sem auðvelt er að ferðast með tölvuna og spila hana handhelt eða tengja við sjónvarpið með sérstakri dokku sem fylgir með tölvunni. Switch 2 er kraftmeiri og býður upp á fleiri möguleika. Guðmundur Snorri segir marga nefna hversu hátt stökk þetta er frá fyrri gerð. „Sérstaklega hefur nýr skjá og fljótari hleðsla vakið ánægju. Við höfum líka fundið fyrir miklum áhuga í versluninni síðustu daga frá bæði nýjum og eldri Switch-notendum sem eru að uppfæra.“

„Þessi tölva er bara hrein snilld“
Á Facebook-síðunni Nintendo Ísland hafa margir tjáð sig um nýju tölvuna. Þegar óskað var eftir viðbrögðum eftir fyrstu spilun voru íslenskir spilarar mjög jákvæðir í garð tölvunnar. Jón Páll Eggertsson er einn þeirra sem er búinn að prófa tölvuna.
Tölvan er snilld, ég er búin að prófa Mario Kart World, Tears of the Kingdom og Gamecube. Mario Kart er að koma svo vel út,
„Tölvan er snilld, ég er búin að prófa Mario Kart World, Tears of the Kingdom og Gamecube. Mario Kart er að koma svo vel út, svo skemmtilegt umhverfi og borð og það að keyra á milli þeirra og sjá umhverfið breytast er bara skemmtilegt. Tears of the Kingdom var ég fyrst ekki viss með, sá ekkert stóra breytingar með fyrstu sýn síða hreyfði ég myndavélina gat ég sé að ég væri að spila í hærri fps, það er alveg hreint snilldar upprifjun og ég skora á alla sem hafa spila þessa leiki að spila uppfærsluna á Switch 2.
Gamecube er bara ein mesta snilld, fæ að spila aftur Soul Calibur 2 og ég er að elska það, það er ekkert sem ég get sett út á þetta og er ekkert vesen við að spila. Ég er með fleiri leiki sem eru með Switch 2 uppfærslur og er ég mjög spenntur fyrir að prófa þá alla. Þessi tölva er bara hrein snilld og virði hverja krónu á mínu mati.“

Vandræði með myndavélina og GameChat
Fleiri notendur taka undir jákvæða upplifun en nokkrir benda á að þeir séu svekktir yfir því að Ísland sé ekki að fullu stutt af Nintendo sem þýðir að íslenskir spilarar fá ekki aðgang að öllum auglýstum möguleikum. Jóhannes Már Ragnarsson keyptir sér einnig Switch 2 og er mjög ánægður með tölvuna að öllu leyti nema að tölvan virðist ekki styðja myndavélina á Íslandi. „Ég elska Switch 2 og allt so far. Nema þetta vesen með myndavélina og að hún sé ónothæf því Ísland er ekki á lista studdra landa.“ segir Jóhannes og bætir við að þeir voni að þeir eigi eftir að laga vandræðin með myndavélina.
Til þess að virkja GameChat er nauðsynlegt að skrá símanúmer í Nintendo reikninginn en Ísland er ekki valmöguleiki þar eins og er.
Myndavélin tengist meðal annars möguleikum GameChat sem er nýr fídus í Switch 2. Með GameChat getur spilarinn átt í samskiptum við aðra spilara í gegnum tölvuna og notað þar á meðal myndavélina til að birta mynd af sér sjálfum. Til þess að virkja GameChat er nauðsynlegt að skrá símanúmer í Nintendo reikninginn en Ísland er ekki valmöguleiki þar eins og er.