Fréttir

Birt þann 13. júlí, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Íslenski partýleikurinn YamaYama lentur á PS4 og Steam

Partýleikurinn YamaYama frá íslenska leikjafyrirtækinu Lumenox Games er nú fáanlegur á PlayStation 4 og PC í gegnum Steam leikjaveituna. Um er að ræða súrealískan partýleik sem samanstendur af fjölmörgum miní-leikjum þar sem spilarar keppa sín á milli um að safna sem flestum stigum.

Lumenox Games komst á kortið með fyrsta leiknum sínum, Aaru’s Awakening, frá árinu 2015. Útlit Aaru’s Awakening þykir einstaklega fallegt og áhugavert þar sem stór hluti hans er handteiknaður ólíkt svo mörgum öðrum tölvuleikjum í dag. Aaru’s Awakening náði til PlayStation spilara þegar leikurinn var settur í gjafapakka yfir ókeypis tölvuleiki fyrir PlayStation Plús í apríl 2015. Steinar Logi gagnrýndi leikinn fyrir Nörd Norðursins og er hægt að lesa gagnrýnina hér.

YamaYama er ólíkur Aaru’s Awakening að mörgu leyti en báðir leikirnir eiga það þó sameiginlegt að bjóða upp á grípandi og áhugavert útlit. Í YamaYama partýleiknum keppa spilarar á móti hvor öðrum í nokkrum míní-leikjum og safna stigum. Sá sem nær að safna flestum stigum stendur uppi í lok leiks sem sigurvegari. Leikirnir, karakterarnir og umhverfi leiksins er skemmtilega súrealíst sem passar mjög vel við stemningu leiksins.

Karakterar leiksins eru klæddir „fatsuit“ (sem er uppblásanlegur galli) og nota hann til að hrinda andstæðingum frá sér. Lokaútgáfa leiksins inniheldur 23 míní-leiki og 6 karaktera og geta 2-4 spilað leikinn lókal eða í gegnum netið. Einnig er að hægt að spila leikinn í einspilun (single player) gegn tölvunni, en við mælum mikið frekar með því að spila leikinn með vinum.

Leikurinn hefur verið í þróun síðan 2015 en fyrirtækið bauð upp á lokaðar prufuútgáfur á leiknum haustið 2015. Stuttu síðar, snemma árið 2016, fór leikurinn í gegnum Steam Greenlight ferlið og fékk grænt ljós frá Steam Greenlight samfélaginu. Hægt var að nálgast snemmbúna útgáfu af leiknum (Early Access) á Steam frá og með 30. mars sama ár og síðan þá voru gefnar út nokkrar uppfærslur áður en lokaútgáfa leiksins var gefin út, þann 11. júlí 2017 á PS4 og degi síðar, eða 12. júli, á Steam.

YamaYama er hugsaður sem partýleikur sem auðvelt er að læra á, svo hver sem er á að geta tekið upp fjarstýringuna og lært á leikinn á skömmum tíma. En nóg blaður! Sjón er sögu ríkari. Hér er stiklan úr YamaYama. Við óskum Lumenox Games til hamingju með útgáfu leiksins!

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑