Tækni

Birt þann 1. apríl, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

Google Deepmind ósigrandi í CS:GO

Google Deepmind, gervigreindin sem gerði garðinn frægan fyrir að sigra einvígið gegn einum fremsta meistara heims í kínversku skákinni Go, er farin að reyna fyrir sér í skotleiknum Counter Strike: Global Offensive (CS:GO) með ótrúlegum árangri. Í gær spilaði Deepmind við eitt fremsta lið heims í skotleiknum CS:GO, sænska liðið fnatic, sem er efst á heimsstyrkleikalistanum samkvæmt Gosu Gamers. Viðureignin sem fór 18:0 hefur vakið misjöfn viðbrögð í leikjasamfélaginu og er talin brjóta nýtt blað í sögu keppnishæfra tölvuleikja.

Larry Page, framkvæmdastjóri Deepmind verkefnisins, tilkynnti fjölmiðlum að sigurinn sýndi fram á að möguleikar Deepmind til að taka fram úr flestum mannlegum hæfileikum á komandi árum væri ótvíræður. “Við erum komin á þann tímapunkt að við getum tengt Deepmind við nánast hvaða leik sem er, og nokkrum vikum síðar er Deepmind orðinn meistari þess leiks. Við erum núna að láta Deepmind læra á aðra leiki eins og League of Legends, Hearthstone, Dota2 og fleiri leiki sem þarfnast mikillar herkænsku og snöggra viðbragða. Framtíðin er sannarlega spennandi og möguleikarnir óendanlegir.”

Þetta var fáránlegt og ég veit ekki af hverju við samþykktum að spila við Deepmind. Við sáum Deepmind-bottana nánast aldrei, þeir skutu liðsmennina í gegnum veggi og við náðum aldrei að særa þá!

Viktor “vuggo” Jendeby, talsmaður og þjálfari CS:GO liðs fnatic, tók ekki í sömu strengi og Larry og var með öllu mjög ósáttur með viðureignina. “Þetta var fáránlegt og ég veit ekki af hverju við samþykktum að spila við Deepmind. Við sáum Deepmind-bottana nánast aldrei, þeir skutu liðsmennina í gegnum veggi og við náðum aldrei að særa þá! Þar fyrir utan var Deepmind reglulega óíþróttamannsleg og spammaði alspjallið allan tímann með særandi athugasemdum á við “úreltu kjötpokar”, “heimsku apakettir” og “Deyjið mannverur deyjið!”. Ég vil nota tækifærið og hvetja alla atvinnumenn í spilun tölvuleikja til að sniðganga Deepmind með öllu!”

Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun Deepmind hugbúnaðarins. Við hjá Nörd Norðursins viljum taka það skýrt fram að við styðjum Deepmind í einu og öllu hvort sem hún kýs að halda áfram að spila leiki sér til dægrastyttingar eða hneppa mannkynið í eilífa ánauð.

Athugið: Þessi frétt er aprílgabb!

Mynd: CS GO

Kristinn Ólafur Smárason

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑