Bíó og TV

Birt þann 7. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Ferris Bueller’s Day Off (1986)

Verk kvikmyndaleikstjórans John Hughes hafa verið ófá og ferill hans hreint með ólíkindum. Hann leikstýrði fjölmörgum kvikmyndum á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda sem slógu rækilega í gegn og margir leikarar sem eru vel þekktir í dag urðu stórstjörnur eftir að hafa leikið í kvikmyndum hans.

Hann skrifaði einnig handrit að fjölmörgum kvikmyndum og framleiddi. Allt sem Hughes snerti breyttist í gull og á hann heiðurinn að myndum á borð við Home Alone (1990), Planes, Traines and Automobiles (1987) og The Breakfast Club (1985). En ein þekktasta og besta kvikmynd Huges er án efa Ferris Bueller´s Day Off (1986) sem sýnd var á Svörtum sunnudegi í Bíó paradís í síðustu viku og var viðeigandi að sýna hana 1. apríl, en myndin lýsir unglingum sem reyna eftir fremsta megni að gabba alla í kringum sig.

Ferris Bueller

Myndin segir frá einum degi í lífi Ferris Bueller (Matthew Broderick) sem er uppátækjasamur unglingur sem tekur lífinu ekki alvarlega og reynir eftir fremsta megni að sleppa við skólann og alla ábyrgð. Þennan tiltekna dag þykist hann vera veikur og beitir öllum brögðum í bókinni til þess að blekkja foreldra sína sem kaupa vitleysuna í honum, þó svo að systir hans sjái í gegnum gabbið. Bueller dregur Cameron (Alan Ruck) besta vin sinn með sér til borgarinnar til að sletta úr klaufunum og nýta daginn til þess að leika sér. Kærasta Bueller, Sloane (Mia Sara), er einnig dreginn með í förina og með klækjum og prettum fær hann hana lausa úr skólanum en þar ræður ríkjum hinn leiðinlegi og upptrekkti skólastjóri Ed Rooney (Jeffrey Jones) sem er orðinn langþreyttur á Bueller og lélegri mætingu hans í skólann. Hann er illmennið í myndinni sem reynir eftir fremsta megni að koma upp um svik Bueller.

Myndin segir frá einum degi í lífi Ferris Bueller sem er uppátækjasamur unglingur sem tekur lífinu ekki alvarlega og reynir eftir fremsta megni að sleppa við skólann og alla ábyrgð.

Bueller er sögumaður myndarinnar og er eina persónan sem talar beint til áhorfenda í upphafi en þó svo að hann sé á yfirborðinu í aðalhlutverki þá er hans hlutverk að fleyta sögunni áfram því aðalsöguhetja myndarinnar er ekki Bueller heldur besti vinur hans, Cameron. Hann á foreldra sem eru hætt að elska hvort annað og pabbi hans lifir fyrir Ferrari sportbílinn sinn. Cameron er eina persóna myndarinnar sem vex og dafnar eftir því sem líður á og í lokinn ákveður hann að takast á við ráðríkan föður sinn.

Ferris Bueller

Það sem myndin gerir hvað best er að lýsa kynslóðaskiptum. MTV kynslóðin var að taka sín fyrstu skref á þessum tíma enda sjónvarpsstöðin vinsæla stofnuð 1981, því er það hraði og taumlaus skemmtun sem aðalpersónur myndarinnar eru að leita eftir. Skólakerfið virðist vera úrelt enda eru nemendur bókstaflega að deyja úr leiðindum í kennslustofunni. Fullorðna fólkið ræður ekki lengur við hraða yngri kynslóðarinnar og hefur ekki stjórn á unglingunum sem leika sér að því að nýta sér tæknina eftir fremsta megni, sem dæmi þá nýtir Bueller sér tölvutæknina óspart til að angra skólastjórann. Gömlu amerísku gildin eru að flosna upp, unglingarnir eru í uppreisn gegn kerfinu og Cameron áttar sig á því að hann getur risið upp á móti harðstjórn föður síns og honum verður ljóst að hjónabandið er stofnun sem leiðir til glötunar. Uppreisnin er því algjör því hvað er amerískara en hjónabandið og alræðisvald föðursins.

Þó svo að myndin sitji ekki lengi eftir í kollinum á manni þá er hún hin besta skemmtun og vel gerð í alla staði.

Þó svo að myndin sitji ekki lengi eftir í kollinum á manni þá er hún hin besta skemmtun og vel gerð í alla staði. Leikararnir standa sig með prýði og sú ákvörðun að hafa Jeffrey Jones í hlutverki skólastjórans skilaði sér svo sannarlega enda gleymist hans persóna seint. Myndin inniheldur mörg atriði sem hafa öðlast sitt eigið líf og hefur verið vitnað í nokkur þeirra í gegnum tíðina í afþreyingarmenningunni. Gott dæmi er söngvaatriðið þar sem Bueller syngur og dansar í skrúðgöngu og öskuratriðið með Cameron. Myndin eldist mjög vel enda á þema hennar vel við alla unglinga á öllum tímum. Ég meina, hvaða unglingur hefur ekki þóst vera veikur til að þurfa ekki að mæta í skólann?

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑