Bíó og TV

Birt þann 14. júní, 2019 | Höfundur: Nörd Norðursins

Íslensk mynd um vináttu í Eve Online hlýtur verðlaun

Jón Bjarki Magnússon hlaut á dögunum verðlaun hinnar konunglegu mannfræðistofnunar í Bretlandi, Royal Anthropological Institute, RAI, fyrir bestu stuttmyndina, eða „the most outstanding short film on social, cultural and biological anthropology or archaeology“. Verðlaunin hlotnuðust honum fyrir myndina Even Asteroids Are Not Alone, frá árinu 2018. Myndin veitir innsýn í vinatengsl milli þátttakenda í leiknum Eve Online og hvernig þau þróast, innan leiks og utan.

Kvikmyndahátíð RAI hefur verið haldin á tveggja ára fresti frá árinu 1980, og eru verðlaun hennar með virtustu viðurkenningum á sviði heimildamynda og sjónrænnar mannfræði, en þetta er í fyrsta sinn sem veitt eru verðlaun fyrir stuttmynd á hátíðinni, svokölluð „Royal Anthropological Institute & Marsh Short Film Prize“.

Even Asteroids Are Not Alone fjallar það hvernig vinátta og traust myndast í íslenska fjölspilunartölvuleiknum Eve Online.

Even Asteroids Are Not Alone fjallar það hvernig vinátta og traust myndast í íslenska fjölspilunartölvuleiknum Eve Online. Hér tvinnast landslag og umhverfi tölvuleiksins sjálfs saman við reynslusögur fjórtán ósýnilegra Eve Online spilara hvers sögur bera vitni um möguleika tölvuleikja til að mynda ný samfélög og brúa bilið á milli. Myndin hefur ferðast víða um Evrópu á liðnu ári, en auk kvikmyndahátíðar RAI hefur hún verið til sýninga á yfir tíu hátíðum, þar á meðal vídjólistahátíðinni transmediale í Berlín í febrúar.

Leikstjórinn Jón Bjarki Magnússon (f. 1984), lærði ritlist í Háskóla Íslands og útskrifaðist úr mastersnámi við deild sjónrænnar mannfræði í Freie Universität í Berlín árið 2018. Hann hefur starfað sem blaðamaður á DV, Stundinni og þýska rannsóknarmiðlinum Correctiv ásamt því að hafa gefið út ljóðabókina Lömbin í Kambódíu (og þú). Even Asteroids are Not Alone er fyrsta mynd Jóns Bjarka en hann er búsettur í Berlín þar sem hann vinnur nú að tveimur heimildamyndum.

Heimild: Fréttatilkynning, Spói Bíófilm / Ljósmynd af JB: HMH

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑