Bíó og TV

Birt þann 8. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

B-myndirnar gera árás á Svörtum Sunnudegi og viðtal við Pál Óskar

Það viðraði vel til sýninga á alvöru B-myndum þegar ég gekk inn í Bíó Paradís í gærkvöldi. Klukkan var vel gengin í átta og fáir mættir en það þótti mér undarlegt enda var ég ekki að fara á neina hefðbundna sýningu. Svartir Sunnudagar í samstarfi við Pál Óskar ætluðu að heiðra hinn mæta handritshöfund, leikstjóra og framleiðanda Roger Corman sem fagnaði 87 ára afmæli sínu þann 5. apríl.

Til þess að heiðra manninn gróf Palli upp nokkrar vel valdar myndir eftir kauða, ásamt nokkrum sérvöldum myndum eftir aðra, úr súper 8 filmu safninu sínu og var í hlutverki sýningarstjóra þetta kvöld enda orðinn vanur því að standa á bakvið sýningarvélina. Yfirskrift kvöldsins var „Attack of the B-movies“ Roger Corman á 90 mínútum. Þó er rétt að taka fram að myndirnar voru sérstaklega klipptar fyrir súper 8 filmur og því ekki í fullri lengd en framleiðslufyrirtæki gáfu yfirleitt út á sínum tíma tíu mínútna úgáfur af kvikmyndum fyrir súper 8.

Yfirskrift kvöldsins var „Attack of the B-movies“ Roger Corman á 90 mínútum.

Ég sest inn í sal tvö og fljótlega kemur Palli rjúkandi inn í salinn og segir stuttlega frá Corman og myndunum en Corman leikstýrði 52 kvikmyndum og framleiddi yfir 400. Árið 1970 hætti hann að leikstýra og snéri sér alfarið að framleiðslu. Palli telur Corman vera betri leikstjóra en margir vilja halda, en þessi mikli snillingur var heiðraður árið 2009 þegar hann fékk heiðursóskar. Að mati Palla fólst snilligáfa þessa manns í því að hann gat búið til kvikmyndir á fimm dögum en myndir hans voru margar hverjar sýndar í bílabíóum og framleiddar sérstaklega fyrir slíkar sýningar. Prógrammið hjá Palla var einmitt byggt upp eins og venjan var á bílabíó sýningum.

Fyrst voru sýndar stiklur fyrir nokkrar af þeim myndum sem Palli ætlaði að sýna um kvöldið og svo byrjaði ballið með teiknimyndinni King-Size Canary (1947) í leikstjórn Tex Avery svo kom The Giant Claw (1957) í leikstjórn Fred F. Sears. Á eftir henni var svo sýnd The Screaming Skull (1958). Loks kom Night of the Blood Beast (1958) sem Corman framleiddi og var ein skemmtilegasta mynd kvöldsins, en undir lok myndarinnar varð allt hvítt og hafði filman víst slitnað. Palli var fljótur til og splæsti myndinni aftur saman eins og færasti sýningarstjóri og gleðin gat haldið áfram. Síðasta myndin fyrir hlé var svo It Conquered the World (1956) í leikstjórn Corman og skrímslið sem þar birtist er með ólíkindum fyndið enda hefur það verið kallað „agúrku-skrímslið“. Í hléinu voru svo sýndar gamlar skemmtilegar auglýsingar fyrir meðal annars gosdrykki og pylsur.

Eftir hlé var myndin Beast from Haunted Cave (1959) í leikstjórn Monte Hellman sýnd en Corman framleiddi hana. Engin tónlist var undir myndinni en hún var gefin út sem þögul súper 8. Palli setti því á „fóninn“ vel valda B-mynda tónlist sem passaði fullkomlega vel við myndina og orkaði jafnvel á mann sem mynd frá þýska expressjónismanum; dökk og mikið um skugga. Á eftir henni var Corman svo allsráðandi en hann leikstýrði öllum myndunum sem komu í kjölfarið, The Wasp Women (1959) síðan A Bucket of Blood (1959). Jack Nicholson bregður svo fyrir í litlu hlutverki í myndinni The Raven (1963) en hann er einn af fjölmörgum þekktum leikurum sem hófu feril sinn í kvikmyndum Corman. Í lokin var svo Pit and the Pendulum (1961) sýnd en þeir sem hafa séð stuttmynd Tim BurtonVincent (1982), sjá fljótt að Burton er undir áhrifum frá Corman.

Roger Corman

Eftir vel heppnaða og stórskemmtilega sýningu var tími til kominn að spjalla aðeins við Palla og ég hélt upp í sýningarrýmið á annarri hæð Bíó Paradísar. Palli sagðist vera kominn með smá hálsríg eftir sýninguna því erfiðast er að þurfa að kíkja út um litla gluggann á sýningarrýminu til þess að passa upp á að fókusinn sé réttur og myndin sé rétt staðsett á tjaldinu, enda myndirnar í mismunandi ástandi. Ég spyr hann hvort hann sakni filmunnar og sýningarstjóranna, þar sem að stafræna sýningartæknin hefur nánast tekið alfarið yfir. „Ég elska að fara á flotta stafræna þrívíddar-mynd jafn mikið og mig langar til þess að sjá gamla mynd á filmu.“ Segir Palli og bætir við: „Ég kváði þegar ég heyrði að það ætti að gefa út á Blu-ray allar uppáhaldsmyndirnar mínar eins og Evil Dead. Þegar maður rúllar þessu í gegn heima hjá sér þá er eins og gæðin séu orðin of góð. Þú sérð t.d. hvað make-upið hjá krökkunum er slæmt, þá sérðu hvað effektarnir voru fátæklegir. Evil Dead er eiginlega áhrifameiri á rispaðri VHS spólu. Ég reyni því að nálgast þessar klassísku myndir á filmu.“ Palli bendir þó á að tæknin skipti kannski ekki öllu máli heldur hvernig sagan sé sögð enda finnst honum söguþráður margra Hollywood mynda í dag ansi dapurlegur og sífellt sé verið að gera endurgerðir.

Palli bendir þó á að tæknin skipti kannski ekki öllu máli heldur hvernig sagan sé sögð enda finnst honum söguþráður margra Hollywood mynda í dag ansi dapurlegur og sífellt sé verið að gera endurgerðir.

Páll Óskar - 8mmÉg spyr Palla hvað hann eigi margar myndir á filmu og hann segir mér að hann sé fyrst núna að telja filmurnar og um 700 titlar séu í safninu. „Pabbi byrjaði að skjóta fjölskyldumyndir þegar ég var svona 5-6 ára gamall. Hann keypti dýrustu filmurnar og gæðin eru rosaleg. Rauða peysan sem ég var í þegar ég var fimm ára er ennþá rauð eins og slökkvitæki. Pabbi keypti sýningarvél sem var þögul og keypti Disney myndir og fleiri myndir og þar fæ ég bakteríuna fyrir þessu.“ Segir Palli og það vottar fyrir smá öfund hjá mér þegar hann segist hafa byrjað að safna súper 8mm filmum af fullri alvöru þegar hann var 12 ára gamall og þegar spólurnar fóru að taka við af filmunni þá spruttu upp myndbandaleigur út um allt og þá voru súper 8mm filmurnar hreinsaðar út. Palli sá verðmæti í filmunum og nældi sér í marga merkilega titla. „Ég var að redda mér titlum eins og Taxi Driver, Exorcist, Carrie og Alien. Svo líka japönskum skrímslamyndum og Disney myndum eins og Fantasía og Mary Poppins, myndir sem eru í mjög góðum gæðum.

Sýningar Kvikmyndasafns Íslands fara fram í kyrrþey. Mér finnst þeir liggja á safninu eins og ormar á gulli og gera alls ekki nógu mikið úr því að sinna sínu starfi, það er eins og þeir vilji ekki sýna myndirnar sínar.

Ég spyr síðan hvort honum finnist að það mætti sýna fleiri myndir á filmu í kvikmyndahúsum og hvort Kvikmyndasafn Íslands sé að standa sig í því? „Sýningar Kvikmyndasafns Íslands fara fram í kyrrþey. Mér finnst þeir liggja á safninu eins og ormar á gulli og gera alls ekki nógu mikið úr því að sinna sínu starfi, það er eins og þeir vilji ekki sýna myndirnar sínar.“ Segir Palli og er greinilega ekki sáttur með Kvikmyndasafnið og heldur áfram: „Við eigum Kvikmyndasafnið því þetta er ríkisrekið og hlutverk stofnunarinnar á að vera skýrt. Við eigum að eiga greiðari aðgang að þessu safni en raun ber vitni og það á að sýna myndirnar en ekki geyma þær.“ Palli bendir síðan á að myndin Pit and the Pendulum sé til í fullri lengd á 35mm filmu hjá kvikmyndasafninu en hugmyndin var að sýna það eintak. Það náðist ekki í neinn hjá safninu og því ákvað Palli að klippa saman prógram með myndum úr sínu einkasafni. Það er því ljóst að Kvikmyndasafn Íslands er ekki að standa sig í stykkinu.

Myndir kvöldsins voru margar frá þeim tíma þegar ógn kalda stríðsins stóð sem hæst og hræðsluáróður stjórnvalda smitaðist yfir í Hollywood myndir tímabilsins. „Það var verið að ala á ótta Bandaríkjamanna á þessum tíma. Ég held að þeir séu hræddasta þjóð í heimi enda búið að matreiða fyrir þá svona monster-myndir í næstum hundrað ár. Þegar þú ert alinn upp við það að allt sé hræðilegt og að innflutt vinnuafl og útlendingar séu ógnvænlegir og að Ajax brúsinn í eldhúsinu geti drepið þig, þá er ekki nema von að þessi þjóð sé paranoid og skjóti fyrst.“ Segir Palli og bendir á að Roger Corman hafi líka tekið þátt í þessum leik með því að hafa ógnvænleg skrímsli í myndum sínum.

Þegar þú ert alinn upp við það að allt sé hræðilegt og að innflutt vinnuafl og útlendingar séu ógnvænlegir og að Ajax brúsinn í eldhúsinu geti drepið þig, þá er ekki nema von að þessi þjóð sé paranoid og skjóti fyrst.

Í lokin spyr ég hann hvort það verði fleiri svona sýningar og Palli er vongóður um það: „Ég finn fyrir því að það er að koma smá lægð í bíóaðsókn enda margir sem hafa áhuga á svona sýningum að undirbúa sig undir próf, skila lokaritgerðum og vorið að koma. Við byrjum því af fullum krafti í september og tékkum þá á David Lynch, Russ Meyer og fleiri töppum sem hægt er að gera festival úr. Þar sem hægt er að sýna þá þrjár myndir í röð á föstudegi, laugardegi og sunnudegi.Það er því hægt að byrja að hlakka til haustins enda eru þessar sýningar hans Palla og Svartra Sunnudaga stórkostleg skemmtun fyrir alla kvikmyndaáhugamenn og bara alla, konur og karla!

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

 

Tengt efni:

• Spurt og spilað: Páll Óskar
• Kvikmyndarýni: Freaks (1932)
• Sýningar Kvikmyndasafns Íslands 2012-2013

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑