Tölvuleikir

Birt þann 13. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Nörd Norðursins: Bestu tölvuleikir ársins 2012

Eftir að hafa fengið góðan tíma til að fara yfir leikjaárið 2012 hafa tölvuleikjanördar Nörd Norðursins valið bestu leiki ársins að okkar mati, líkt og við gerðum í fyrra.

Hvaða tölvuleikur er leikur ársins 2012 að þínu mati?

 

BJARKI ÞÓR: SLEEPING DOGS

Sleeping Dogs

Sleeping Dogs er leikur ársins að mínu mati. Ég var ekki búinn að lesa mikið um leikinn áður en ég prófaði hann og ég hafði því ekki náð að gera mér neinar væntingar. Ég bjóst eiginlega við einhverskonar misheppnuðum GTA leik en fékk í staðinn leik ársins!

Fyrir þá sem ekki þekkja Sleeping Dogs; þá stjórnar maður leynilöggu sem þarf að dulbúa sig sem glæpon og komast þannig í upplýsingar sem löggan getur nýtt sér til þess að handtaka glæpamenn og uppræta glæpaklíkur. Sagan gerist í Hong Kong og fær maður að stjórna löggunni í opnum heimi og getur gert allan fjandann (svona svipað og í GTA). Þó mér finnist Sleeping Dogs ekki ná að toppa L.A. Noire sem var uppáhalds leikurinn minn árið 2011, þá býður Sleeping Dogs upp á einhvern sjarma sem heillaði mig alveg upp úr skónum.

Fyrir utan flotta grafík og góða sögu þá var það fyrst og fremst bardagakerfið og umhverfi leiksins sem heillaði mig hvað mest. Mun minni áhersla er lögð á skotvopn en maður þekkir úr sambærilegum leikjum, en í staðinn er settur fókus á bardagalistir og líkamlegar hreyfingar. Það er skuggalega auðvelt að læra brögðin sem notuð eru í leiknum (reyndar aðeins of auðvelt á köflum) og er hrein list að fylgjast með leikjapersónunum berjast.

Eins og ég sagði þá heillaði umhverfi leiksins mig líka mjög mikið, en þar tvinnast saman asískur og vestrænn fílíngur í eina blóðuga glæpasúpu. Borgin er ótrúlega þétt og smáatriðin glæsileg. Allir þessir litlu hlutir skipta svo miklu máli og gera heildarmyndina stórglæsilega; t.d. eins og hvernig bílarnir beyglast þegar þeir klessa á og þegar Hong Kong búar teka upp regnhlífina þegar það byrjar að rigna.

Ég spilaði leikinn í u.þ.b. 40 klukkutíma og var samt sem áður ekki kominn með leið á honum þegar ég lagði fjarstýringuna frá mér. Ég á örugglega eftir að dunda mér við það að klára öll verkefnin í leiknum áður en hann fer upp í hillu. Það eina sem vantaði í þennan leik, til að gera hann fullkominn, er möguleiki á fjölspilun.

Snjóbrettaleikurinn SSX var einnig fáránlega góður og lendir í öðru sæti hjá mér.

 

STEINAR LOGI: THE SECRET WORLD (O.FL.)

The Secret World

Í ár verð ég að fá að svindla aðeins; það er of erfitt að velja bara einn leik því það komu út svo margir frábærir indíleikir. Því ætla ég að fá að velja einn „stórleik“ (AAA) og einn indíleik (eða tvo). Að sjálfsögðu miðast valið við það sem ég hef spilað og þetta er algerlega út frá mínum eigin leikjasmekk.

The Secret World („stórleikur“ ársins)

Ég hef spilað MMORPG-leiki í langan tíma og hef lengi beðið eftir einhverjum leik eins og The Secret World sem tekur áhættur í stöðluðum heimi hlutverkafjölspilunarleikja. Í stuttu máli er bakgrunnurinn þessi; þú ert einn af hinum útvöldu sem býr yfir ofurkröftum og berst á móti alls kyns illum öflum sem hafa nýlega sprottið fram í heiminum (sem samsvarar okkar heimi og hefur NY, London og Tókýó sem meginhöfuðstöðvar). Þetta er nokkurs konar hamfaraleikur (post-apocalypse) en nú eru það ekki bara uppvakningar sem streyma fram heldur varúlfar, vampírur, sæskrímsli og allt sem manni dettur í hug enda er mottó leiksins „Everything is true“. Allar samsæriskenningar eru líka sannar, templarar og Illuminati eru í fullu fjöri og þar fram eftir götunum.

Allt andrúmsloftið er mjög vel skapað, sérstaklega fyrir aðdáendur furðusagna, andrúmsloftið er vel uppbyggt (e. atmosphere), það er ákveðinn drungi yfir öllu og verkefnin eru virkilega vel hönnuð. Sum verkefnin byggja á að maður hugsi bókstaflega út fyrir rammann þar sem maður þarf að fara á netið og leita vísbendinga þar (leikurinn er með innbyggðan vafra).

Sú staðreynd að núna er hægt að spila The Secret World ókeypis lyfti leiknum yfir ME3 sem leik ársins að mínu mati. Mæli með að unnendur MMORPG leikja prófi þennan því að hann virðist almennt hafa gleymst; hugsanlega vegna velgengni Guild Wars 2 (sem greip mig ekki af einhverjum ástæðum).

Aðrir leikir: Mass Effect 3, Max Payne 3. Tveir leikir sem ég er spenntur fyrir en náði ekki að spila: Farcry 3 og Dishonored.

Journey og The Walking Dead („indíleikur“ ársins)

Þetta var gott ár fyrir indíleiki: Fez, FTL, The Unfinished Swan, Trials Evolution, Legend of Grimrock, Spelunky og fjöldamargir aðrir komu út. En tveir báru af að mínu mati; Journey og The Walking Dead (ég leyfi mér að flokka TWD sem „indí“ en hann er kannski alveg á mörkunum).

Það er varla hægt að finna ólíkari leiki en það sem þeir eiga sameiginlegt (fyrir utan að vera almennt flokkaðir sem indíleikir) er að þeir vekja upp virkilega sterkar tilfinningar. Þetta finnst mér merkilegt fyrir miðil eins og tölvuleiki sem eru oft gagnrýndir fyrir að vera ekki list og eitt af aðalsmerkjum listar er að vekja upp sterkar tilfinningar. Journey er sá „listrænni“; hann er meira stutt spilaupplifun frekar en leikur (það að klára hann tekur kannski 1-2 tíma) en sem heild þá er hann nánast fullkominn og mjög svo stílhreinn. Tónlistin er stórkostleg, ein sú besta sem ég hef heyrt í tölvuleik og nýlega var Austin Wintory tilnefndur til Grammy verðlauna 2013 sem er ekki algengt fyrir tölvuleiki.

Ef Journey er Fríða þá er The Walking Dead Dýrið. TWD snýst um uppvakninga eins og svo margt annað þessa dagana en gerir það á það einstakan hátt að það er alger unun. Sagan er allt í þessum leik og spilarinn er virkur þátttakandi í þessari sögu. Fyrir þá sem hafa séð sjónvarpsþættina eða lesið sögurnar sem þeir eru byggðir á, þá er þetta kunnuglegt. Heimurinn er fullur af uppvakningum og hver dagur er barátta upp á líf eða dauða. Hérna þarf spilarinn að taka mjög erfiðar ákvarðanir, oft á stuttum tíma. Margir leikir hafa reynt að gera þetta vel, s.s. Mass Effect serían, en detta fljótlega í eitthvað staðlað kerfi (eitt „gott“ svar, eitt „vont“ svar o.s.frv.). Snilldin bakvið TWD er að línurnar eru ekki svo skýrar, stundum þarf að taka erfiða ákvörðun og færa þungar fórnir. Þetta er gagnvirkt drama af bestu gerð þar sem mikið er lagt upp úr persónusköpun og sögu.

Að endingu vil ég nefna tvo leiki sem ég er mest spenntur fyrir á næsta ári; Bioshock Infinite og Dark Souls 2 (ef hann kemur út þá).

 

KRISTINN ÓLAFUR: XCOM: ENEMY UNKNOWN

XCOM - EU

Þegar ég var spurður hver væri besti tölvuleikur ársins 2012 þá stóð ekki lengi á svarinu frá mér: XCOM er besti tölvuleikur ársins 2012. Ef ég hefði á sama tíma verið spurður hvaða tölvuleikur væri besti tölvuleikur allra tíma þá hefði svar mitt verið það sama: XCOM er besti tölvuleikur allra tíma. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá væri ég ekki að tala um sama leikinn, en að mínu mati er upprunalegi XCOM leikurinn frá 1993 besti leikur sem ég hef nokkurn tímann spilað, en það eitt og sér segir hve miklar væntingar ég hafði til nýja XCOM leiksins þegar ég frétti að Firaxis væri að endurgera hann.

Eftir næstum tvo áratugi af misheppnuðum XCOM framhöldum, tók Firaxis teymið sig til, horfði aftur til upphafsins og spurðu sig: „Hvað gerði upprunalega XCOM leikinn svona frábæran, og hvernig getum við komið því til skila í nýjum XCOM leik?“. Útkoman var leikur sem höfðar bæði til gallharðra XCOM aðdáenda, sem og nýrrar kynslóðar tölvuleikjaspilara.

Saga leiksins er mest megnis sú sama og áður. Geimverur gera árás á jörðina í óljósum tilgangi. Þjóðir heimsins taka sig saman og búa til XCOM verkefnið, sem ætlað er að stöðva innrás geimveranna með sérþjálfuðum hermönnum sem hafa aðgang að allri bestu tækni sem jörðin hefur upp á að bjóða. Spilarinn stýrir nokkrum hermönnum í umferðaskiptum þriðju persónu orrustum gegn geimverunum, en þarf á sama tíma að byggja herstöð, rannsaka nýja tækni og sjá til þess að XCOM verkefnið falli ekki í ónáð þjóða heimsins.

Grafík, umhverfi og tónlist leiksins er framúrskarandi og glæsileg í alla staði, og er í takt við andrúmsloftið sem XCOM leikur á að skapa. Spilarinn finnur fyrir hinni yfirvofandi hættu sem stafar af geimveruinnrásinni, og á efri erfiðleikastigum leiksins finnur hann jafnvel til vanmáttar og vott af örvæntingu, þegar allir bestu hermenn hans liggja í valnum, en á meðan verða geimverurnar öflugari og snjallari með hverri orrustu sem er spiluð.

Breyting á spilun frá upphaflega leiknum er töluverð, en þar mætti segja að frelsi spilarans hafi að nokkru leyti verið heft. Til að mynda er hámarksfjöldi í herdeild nú 6 manns (niður úr 26) og það er ekki hægt að eyðileggja allt umhverfi í hverju borði eins og í fyrirrennaranum. Á móti kemur að spilun leiksins hefur verið gerð straumlínulagaðri, þar sem hver hermaður uppfyllir visst hlutverk, aðeins þarf að sjá um eina herstöð og markmið leiksins er mun skýrara.

Þó má ekki gleymast að XCOM er ekki XCOM (ef þið skiljið hvað ég á við), heldur glænýr leikur með nýjum og breyttum áherslum í spilun, en heldur jafnframt áfram í þema og upphaflegu hugsun fyrsta leiksins. XCOM er frábær umferðaskiptur herkænskuleikur, og fyrsti tölvuleikurinn frá 1995 sem er verðugur til að bera XCOM nafnið, og gerir það nokkuð vel.

 

DANÍEL PÁLL: DISHONORED

Dishonored

Árið 2012 voru gefnir út margir stórir sem litlir tölvuleikir en hérna ætla ég að fjalla um þann sem stendur uppi sem eftirminnilegasti leikur ársins að mínu mati.

Leikurinn heitir Dishonored og er fyrstu persónu leikur þar sem leikmaður spilar persónuna Corvo Attano, lífvörð keisaraynjunnar. Eftir mikla atburði (viljum enga spilla hér) er Corvo hent í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki og þar byrjar leikurinn fyrir alvöru. Hann er þrautþjálfaður í bardagalist og að læðast, sem gefur spilaranum mikla möguleika hvernig á að komast í gegnum leikinn. Það er hægt að vaða í gegnum leikinn og drepa alla og ömmur þeirra, eða læðast og fylgjast með úr myrkrinu til að geta farið fyrir hornið þegar vörðurinn snýr sér við. Það merkilega við þennan leik er að það er hægt að klára hann án þess að drepa einn óvin.

Bardagakerfið er mjög vel gert og ekki hægt að kvarta yfir þeim tólum sem spilarinn fær til að klára þau verkefni sem fyrir hann eru sett. Hægt er að losa sig við óvini með trausta sverðinu sínu, lásaboga úr fjarlægð, eða fjarflytja sjálfan sig bakvið óvininn og fara framhjá honum óséður. Já, spilarinn fær nefninlega aðgang að yfirnáttúrulegum kröftum, sem eru ekki endilega ofbeldiskenndir. Aðgang að kröftunum fær spilarinn með því að finna rúnir í leiknum og hver kraftur kostar mismunandi fjölda rúna. Kraftarnir eru t.d. þeir að geta hoppað hærra, fjarflutt sig á milli staða, taka form dýrs (oftast rottur), að óvinir leysast upp þegar þeir deyja, o.fl.

Sagan gerist í iðnaðarborginni Dunwall sem er hafnarborg og þekktust fyrir fisk- og hvalveiðar. Ef fylgst er með sögunni í leiknum, og bækur lesnar sem liggja hér og þar um borðin, þá sést fljótlega að allur efnahagur borgarinnar gengur út á hvalaolíu sem er notuð sem orkugjafi í flesta hluti. Það er voða mikið „SteamPunk’“ andrúmsloft í leiknum sem gerir upplifunina einstaka þegar verið er að spila. Umhverfið er frábærlega vel gert og er hægt að fara margar leiðir í gegnum flest borðin, þannig að spilarinn fær á tilfinninguna að hann fái að ráða einhverju, ekki bara fara línulega í gegnum borðið.

Eftir að hafa klárað leikinn þá langaði mig strax aftur í hann, þrátt fyrir að vera búinn að læra söguna. Í lok hvers borðs fær maður að vita hvernig staðið var að hlutunum, þ.e.a.s. hversu marga maður drap, hvort einhver óvinur fann lík vinar síns, fór viðvörunarkerfi í gang, og þess háttar upplýsingar. Hægt er að endurspila hvert borð fyrir sig og þá hægt að reyna að ná betri árangri en áður. Fyrir suma bætir þetta miklu við endurspilun leiksins því hægt er að spila hann á marga vegu.

Mér finnst þetta frábær leikur og umhverfið, sagan og spilunin fær toppeinkunn frá mér.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑