Greinar

Birt þann 18. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Litið á nokkra fjölspilunarhlutverkaleiki (MMORPG)

Mikil gróska hefur verið á markaði fjölspilunarhlutverkjaleikja undanfarið og því ekki úr vegi að taka stöðuna á bæði gömlum og nýjum leikjum. Núna eru FTP (Free to Play) leikir hreinlega að taka völdin og í þeim þarf ekki að borga fast mánaðargjald eins og venjan hefur verið. Þetta sést á mikilli velgengni Guild Wars 2, sem er mest áberandi FTP leikurinn í dag, og einnig þegar litið er á væntanlega leiki sem byggja flestir á þessu verðlíkani. Þó að leikur sé skilgreindur sem FTP leikur í eftirfarandi upptalningu, þýðir það ekki endilega að allt í honum sé ókeypis. Sumir leikir takmarka ýmsa hluti eins og hámarksstyrkleika spilarans (levels), aðgang að svæðum, spjallrásir, verkefni o.s.frv. nema spilarinn borgi. Einnig er stundum hægt að ná í leikinn sjálfann ókeypis en suma þarf að borga fyrir. Margir leikir stóla líka á að selja ýmislegt aukadót sem hægt er að nota í leikjaheiminum s.s. föt, gæludýr, fararskjóta og fleira.

Eftirfarandi upptalning á MMORPG leikjum er algerlega bundin hvaða leiki greinarhöfundur kannast við (þ.e.a.s. hefur spilað, vill prófa eða finnst athyglisverður af einhverjum ástæðum). Það eru bara of margir svona leikir á markaðinum í dag til að geta gert þeim öllum greinaskil í einni umfjöllun. Endilega skellið inn athugasemd ef þið viljið koma einhverjum leik á framfæri.

 

AION (NCSoft)

Verðmódel: FTP
Útg.dagur: 21.9.2009
Vefsíða: www.aionfreetoplay.com

Aion er einn af þessum leikjum sem gerði atlögu að World of Warcraft á sínum tíma en féll svo í bakgrunninn. Þrátt fyrir að hafa ekki spilað hann þá man ég að það þótti mjög spennandi að geta fengið vængi og ferðast þannig um heiminn. Það sem Aion hefur til góðs er að honum er vel haldið við og hann varð ókeypis frá og með febrúar 2012 (líka að ná í leikinn sjálfann). Aion 3.5 uppfærslan kemur í október þannig að þessi er enn í fullu fjöri.

 

ANARCHY ONLINE (Funcom)

Verðmódel: FTP
Útg.dagur: 26.6.2001
Vefsíða: www.funcom.com/games/ao

Það er ótrúlegt að þessi sé enn í gangi. Á sínum tíma spilaði ég þennan leik talsvert. AO gerist í vísindaskáldsagnaheimi og Funcom náði að byggja mjög einstakt andrúmsloft innan leiksins, sérstaklega þegar viðbótin „Shadowlands“ kom út 2003. Þetta er hundgamall leikur og er kominn í öndunarvél en nýlega var leikjavélin uppfærð og mér skilst að samfélagið sé enn mjög virkt sem styður vel við bakið á nýbyrjuðum spilurum (svokallaðir „Advisors of Rubi-Ka“ sjá um það). AO er ókeypis en styrktur af auglýsingum í leiknum sjálfum. Ein besta leikjaupplifun mín var einmitt í þessum leik þegar maður fékk sína eigin skutlu og gat flogið um heiminn (hún kallast „Yalm“ og leit út eins og lítil skutla í Star Wars stíl). Hún kostaði mikla peninga og fyrirhöfn og ég brosti meira en Jókerinn þegar ég flaug henni yfir Rubi-Ka í fyrsta sinn. AO er einnig þekktur fyrir að hafa komið með nokkrar nýjungar sem eru notaðar reglulega í dag, þeir voru t.d. einir af þeim fyrstu sem komu með „instancing“ (þegar ólíkir spilarar fá sitt eigið „afrit“ af sama svæði og sjá ekki hvorn annan þó að þeir séu á sama stað innan leikjaheimsins).

 

CITY OF HEROES (NCSoft)

Verðmódel: Hættur (var FTP)
Útg.dagur: 27.4.2004
Vefsíða: na.cityofheroes.com/en

CoH var fyrsti ofurhetjufjölspilunarhlutverkaleikurinn (þetta er æðislegt orð!) en nýlega hefur NCSoft lokað honum. Lok lok og læs; ekki lengur hægt að spila. Fjölmargir spilarar mótmæltu innan leiksins í Atlas Park sem er nokkurs konar Austurstræti leiksins (sjá nánar hér). Ég spilaði hann eitthvað og man eftir að hann var skemmtilegur og öðruvísi; það var hægt að búa til ansi skrautlegar ofurhetjur og móta og þróa ofurhetjukraftana á fjölbreytilegan hátt. Það var hægt að ferðast um með því að hoppa eins og Hulk, fljúga eins og Ofurmaðurinn, þjóta um eins og Leiftur (nei, ekki Leiftur McQueen heldur Flash! Nei ekki Flash Gordon, Flash! Flash!) eða jafnvel flutt sig á augabragði á annað stað (teleportation). Það var fullt af vondum köllum til að berja á en miðað við aðra leiki þá vantaði fjölbreytnina.

 

DC Universe Online (SOE)

Verðmódel: Sambland (FTP með takmörkunum, mánaðaráskrift annars)
Útg.dagur: 11.1.2011
Vefsíða: www.dcuniverseonline.eu

En eins dauði er annars brauð og DC Universe Online hefur verið að fá góða dóma. Það eru aðrir ofurhetjuleikir til staðar (t.d. Champions Online og Gotham City Imposters) en þessi er með eina rosalegustu stiku sem ég hef séð svo ég varð að skella honum á listann. Gæti hugsað mér að prófa gripinn í framtíðinni.

 

DUNGEONS & DRAGONS ONLINE

Verðmódel: FTP
Útg.dagur: 28.2.2006
Vefsíða: www.ddo.com

Enn einn fortíðardraugurinn hjá mér. Spilaði hann ekki lengi en það sem vakti áhuga minn var að þeir hanna leikinn algerlega út frá D&D heiminum og reglunum (D&D 3.5 nánar tiltekið). Þetta þýðir að það er ekki eins auðvelt að spila einn (solo) og í öðrum leikjum en ef maður á vini þá er þetta skemmtilegur kostur, sérstaklega fyrir D&D spilara sem ættu að þekkja ýmislegt úr þeim heimi. En hafa ber í huga að bráðum kemur annar leikur sem er líka byggður á D&D reglum og fjalla ég um hann seinna í greininni (Neverwinter).

 

EVE ONLINE (CCP)

Verðmódel: Mánaðaráskrift
Útg.dagur: 6.5.2003
Vefsíða: www.eveonline.com

Eve Online þekkja allir… nema ég. Af einhverjum ástæðum þá hef ég ekki laðast að þessum leik en ég hef bara heyrt góða hluti um hann. Hann þarf samt að vera á þessum lista því að hann er gerður af Íslendingum og er einn af virtustu MMORPG leikjum okkar tíma. Eve Online er stór sandkassageimleikur þar sem fólk getur sinnt margvíslegum hlutverkum.

 

EVERQUEST (SOE)

Verðmódel: FTP
Útg.dagur: 16.3.1999
Vefsíða: www.everquest.com

Everquest var einu sinni kóngurinn og án efa frumkvöðull MMORPG leikja nútímans (greinarhöfundur spilaði hann mjög mikið). Það sem WoW gerði, þegar þeir hrifsuðu kórónuna af EQ, var að líkja eftir honum að miklu leyti en þeir gerðu spilunina mun aðgengilegri, auðveldari og ekki eins tímafreka. Everquest var algert helvíti stundum; stundum þurfti maður að bíða eftir einhverju í tugi tíma eða vakna um miðjar nætur til að þróa karakterinn sinn (epic quests), ef maður dó á slæmum stað þá gat það tekið marga tíma að ná líkinu sínu til baka og svo mætti lengi telja. Þetta er eins og gamli brandarinn um að „þegar ég var á þínum aldri þá þurfti ég að borða skóreimar og labba í snjónum upp brekkur…báðar leiðir“ en í þessu tilfelli þá eru það ekki ýkjur, EQ var virkilega erfiður leikur en á móti kom ánægjan yfir að ná árangri eftir þrautagöngurnar.

Everquest er semsagt enn í gangi eftir 13 ár og hreint ótrúlega lífseigur. Hægt er að ná í hann ókeypis núna ásamt 18, já 18 viðbótum (expansions) svo að þetta er ótrúlega stór heimur sem hægt er að fá aðgang að.

 

EVERQUEST 2 (SOE)

Verðmódel: Sambland (FTP með takmörkunum, mánaðaráskrift annars)
Útg.dagur: 11.8.2004
Vefsíða: www.everquest2.com

Þetta framhald EQ (sem á að gerast 500 árum seinna) kom út á sama ári og World of Warcraft og fólk skiptist í tvo hópa; þeir sem spáðu EQ2 sigri og þeir sem spáðu WoW sigri en eftirsöguna þekkja allir. EQ2 er ekki slæmur leikur en WoW var meira aðlaðandi fyrir fólk með minni spilatíma (casual players) og ekki eins öflugar tölvur. Það var mikill metnaður bakvið EQ2 þegar hann kom út; hann leit vel út og skartaði nýjungum eins og talsetningu flestra höfuðpersóna í heiminum og spilaði á söfnunaráráttu leikmanna sem er algengt enn þann dag í dag.

Leikurinn er enn í fullu fjöri og á upphafsárum bæði WoW og EQ tók maður eftir því að báðir fengu „lánað“ hvor frá öðrum. EQ2 varð FTP seint á síðasta ári með takmörkunum.

 

GUILD WARS 2 (NCSoft)

Verðmódel: FTP
Útg.dagur:  28.8.2012
Vefsíða: www.guildwars2.com/en

Sá heitasti í dag. Hann hefur fengið góða dóma og almennt er mikil ánægja með leikinn. Er sjálfur nýbyrjaður að spila hann og hef yfir engu að kvarta hingað til. Það er ótrúlegt hve mikið er þegar hægt að gera í heiminum miðað við að hann er nýkominn út. Leikmenn eru verðlaunaðir fyrir að skoða heiminn og geta lent í ákveðnum atburðum (events) þegar þeir ferðast um. Ef þeir klára þessa atburði ásamt öðrum spilurum þá verða þeir verðlaunaðir (reyndir MMORPG spilarar kannast við þetta úr Rift). Það er óvanalegt að stórleikur innan MMORPG geirans sé ókeypis alveg frá byrjun. Það eru engar takmarkanir eins og er (það þarf að sjálfsögðu að borga fyrir leikinn sjálfann eins og er) en það er hægt að kaupa aukadót sem hægt er að nota innan leiksins svo sem möguleikinn á að búa til fleiri karaktera.

 

LORD OF THE RINGS ONLINE (Turbine)

Verðmódel: FTP
Útg.dagur: 24.4.2007
Vefsíða: www.lotro.com/free.php?lang=en_GB&

LOTRO er mjög trúr Tolkien heiminum og hægt er að finna í honum ótal tilvísanir í bækurnar ásamt frægum persónum og stöðum. Leikjaheimurinn er stór, vel hannaður og þetta er hreinlega mjög góður leikur. Það sem skemmdi kannski fyrir LOTRO er hversu líkur WoW hann er, fólk var búið að gera sér vonir um eitthvað nýtt. Það er erfitt að gera sér grein fyrir heildarfjöldanum sem spilar leikinn, því að Turbine gefur ekki út tölurnar, en þeir hafa sagt að FTP módelið hefði laðað að marga spilara. Ég spilaði hann í smá tíma og gæti alveg hugsað mér að heimsækja Mið-Jörð aftur nú þegar hann er ókeypis (með takmörkunum).

 

RIFT (Trion)

Verðmódel: Mánaðaráskrift
Útg.dagur: 1.3.2011
Vefsíða: www.riftgame.com/en

Rift hefur þetta hefðbundna fantasíu þema með dvergum, álfum, göldrum og sverðum (eins og flestir leikir í þessum geira). En þeir komu loksins með eitthvað nýtt; eitthvað sem Guild Wars 2 hefur núna tekið uppá sína arma. Alls staðar í heimunum eru að opnast þessi „rift“ sem eru op yfir í aðra heima og skrímsli komast þar í gegn. Þessar innrásir eru af ýmsum stærðargráðum og stundum þarf fjöldann allan af spilurum til að sigra innrásarherinn og loka þeim. Þetta gerir heiminn lifandi og óútreiknanlegan.

Fyrsta viðbót Rift er á leiðinni og heitir Storm Legion. Undirritaður spilaði Rift í nokkra mánuði og hafði í raun lítið út á hann að setja, það var alltaf eitthvað að gerast og honum er vel haldið við.

 

STAR WARS: THE OLD REPUBLIC (Bioware)

Verðmódel: Mánaðaráskrift (en FTP up að level 15)
Útg.dagur: 20.12.2011
Vefsíða: www.swtor.com

Miklar vonir voru bundnar við þennan leik enda þekkt nafn. En þeir gerðu sömu mistök og LOTRO, hann er bara of líkur World of Warcraft að flestu leyti og þar hefur Blizzard að sjálfsögðu forskot. Af hverju að spila WoW eftirhermu þegar maður getur spilað WoW? Sjálfur spilaði ég hann í einhvern tíma og skrifaði nokkur orð um hann hér á Nörd Norðursins en áhuginn entist ekki lengi. SWTOR má eiga það að frásagnargleðin er sterk í leiknum og harðir aðdáendur Star Wars fá talsvert fyrir sinn snúð. Kynningarstiklan er einstaklega flott.

 

TERA (Bluehole Studio)

Verðmódel: Mánaðaráskrift
Útg.dagur 1.5.2012
Vefsíða: tera.enmasse.com

Tera virðist vera nokkuð hefðbundinn MMORPG leikur en þeir sem hafa spilað hann róma hversu skemmtilegt það er að berjast. Bardagakerfið í leiknum er meira í líkingu við skotleiki t.d. í stað þess að merkja skrímslið sérstaklega (target) og ýta á takka eins og þú værir að gefa skipun þá ertu á hreyfingu og þarft að miða sjálfur og ákveða hvenær þú hörfar og hvenær þú sækir. Þetta þýðir að stundum hittirðu ekki andstæðinginn og stundum nærðu að forðast árásirnar hans. Þú þarft að meta hversu fljótur andstæðingurinn er því að sumir eiga t.d. létt með að forða sér undan hægum göldrum/árásum. Reyndar nota nýlegir leikir eins og GW2 og The Secret World það að vera á hreyfingu þegar þú berst, en Tera virðist fara alla leið með þetta (maður þarf áfram að merkja andstæðinginn sem ráðist er á í GW2 og TSW) . Það að standa bara kyrr er smátt og smátt að verða liðin tíð í MMORPG leikjum. Tera lítur glæsilega út og minnir á Final Fantasy heiminn (bara með fáklæddara kvenfólki; þeir eru greinilega með það á hreinu hver markhópurinn er).

 

THE SECRET WORLD (Funcom)

Verðmódel: Mánaðaráskrift
Útg.dagur: 3.7.2012
Vefsíða: www.thesecretworld.com

Loksins eru MMORPG leikir farnir að taka áhættur og The Secret World gerir það svo sannarlega. Leikjaheimurinn er heimur nútímans og sem dæmi um það eru bækistöðvar þriggja meginsamtaka leiksins staðsettar í London (Templar), New York (Illuminati) og Seoul (Dragon).

Leikjaheimi The Secret World er best lýst út frá setningunni: Allt er satt (Everything is true). Uppvakningar, varúlfar, galdrar, sæskrímsli, vampírur, múmíur, samsæriskenningar og svo má lengi fram telja; allt þetta er til staðar í heimnum. Spilarinn er er einn af hópi fólks sem hefur sérstaka hæfileika (vísbending: X-Men kraftar plús nútíma vopn) sem nýtast í baráttunni við hin illu öfl sem leika lausum hala í heiminum.

Þetta er sá leikur sem ég hef verið að spila áður en Mists of Pandaria fangaði mig (og það þrátt fyrir að vera með Guild Wars 2 á tölvunni minni). Heimurinn höfðar til mín vegna þess að hann er öðruvísi og byggir á hryllingsbókmenntum og/eða myndum. Verkefnin í leiknum (quests) eru ekki bara það að drepa 10 uppvakninga, heldur eru líka stórskemmtilegar þrautir sem reyna á heilann og rannsóknarhæfni spilarans (leikurinn er með innbyggðan vafra og það er reiknað með að spilarinn noti vefinn til að leysa sumar þrautir).

 

WORLD OF WARCRAFT (Blizzard)

Verðmódel: Mánaðaráskrift (hægt að spila ókeypis fram að styrkleikastigi 20)
Útg.dagur: 23.11.2004
Vefsíða: eu.battle.net/wow/en

Sonur minn sagði eitt sinn að munurinn á tölvuleikjaspilun okkar tveggja væri sá að hann spilar til að sigra en ég til að klára. Ef þetta er ekki ein besta lýsing á MMORPG spilara þá veit ég ekki hvað; við erum alltaf að reyna „klára“ hluti og um leið og við klárum eitthvað þá er einhverju bætt við. MMORPG leikir enda aldrei, maður sigrar aldrei. Blizzard kann alveg á mann að þessu leyti; spilarar (alla vegana þeir sem flokkast sem „casual“ spilarar og er stór hluti markaðarins núna) vilja fá marga hluti til að stefna að sem krefjast ekki gífurlegs tíma. Núna gildir að hafa nógu mikið að gera og safna; fyrst voru það nokkur gæludýr og fararskjótar, núna skipta þessi kvikindi hundruðum. Það að koma sér í mjúkinn hjá einhverjum hópi fólks og fá verðlaun fyrir spilar líka stóra rullu (reputations).

Nýjasta viðbót WoW eða Mists of Pandaria, nýtir sér m.a. allan þennan fjölda af gæludýrum sem fólk hefur safnað yfir árin enda hafa sumir kallað þetta „Mists of Pokemon“. En margt annað er hægt að gera; nýtt meginland (Pandaria) er til staðar, hægt er að spila upp að styrkleikastigi 90 og núna er hægt að spila munk (Monk). Nýjar verur eru kynntar sem minna óneitanlega á Kung Fu Panda en mér skilst að þær hafi verið til staðar í Warcraft heiminum áður en myndin kom út. En það þýðir samt ekki að Blizzard hafi ekki fengið eitthvað lánað úr myndunum, þetta er einfaldlega of líkt að flestu leyti.

World of Warcraft er ennþá kóngurinn þrátt fyrir að hafa tapað þó nokkrum áskrifendum undanfarið. Þegar þetta er skrifað þá eru áskriftartölurnar að hækka aftur, alla vega tímabundið, enda hefur MoP verið að fá góða dóma og hefur selst vel.

Ég hef verið að spila MoP undanfarið og get sagt það strax að Blizzard eru snillingar; þetta er mjög skemmtileg viðbót og í framtíðinni mun ég skrifa nokkur orð um hana.

 

VÆNTANLEGIR

Ég valdi þá þrjá leiki sem ég er spenntastur fyrir en það eru að sjálfsögðu mun fleiri á leiðinni.

 

ARCHEAGE (XL Games)

Vefsíða: cbt.archeage.com/en

Þessi á að vera stór og mikill sandkassa-leikur og lítur ansi vel út (gerður með CryEngine 3). Hægt að gera nánast hvað sem maður vill; búa til sitt eigið hús, gerst bóndi og rækta jörðina, tekið þátt í sjóorrustum og þar fram eftir götunum. Hann kemur fyrst út í Kóreu en seinna í N-Ameríku og Evrópu (líklega 2013). Jake Song, maðurinn á bak við Lineage, er aðalsprauta Archeage.

 

NEVERWINTER (Cryptic Studios)

Vefsíða: nw.perfectworld.com

Neverwinter virðist vera sá sem tekur við af Dungeons & Dragons Online sem fjallað var um fyrr í greininni þ.e.a.s. leikur sem byggir á leikreglum D&D. Hann lítur mjög vel út og hefur vakið athygli (fékk t.d. verðlaun á PAX Prime sem „Game of the Show“ í flokki MMORPG leikja). Neverwinter er væntanlegur fyrir árslok.

 

WILDSTAR (Carbine)

Vefsíða: www.wildstar-online.com/en

Stiklan fyrir Wildstar sýnir athyglisverðan heim í teiknimyndastíl (nokkrir fyrrverandi leikjahönnuðir WoW standa á bak við þennan) og það virðist vera nokkurs konar Firefly stemmning til staðar. Leikurinn virðist vera ágætis blanda af húmor, göldrum og vísindaskáldsögu. Wildstar er ekki kominn með útgáfudag.

 

Aðrir áhugaverðir

EverQuest Next, Elder Scrolls Online og Survarium.

Forsíðumynd: Mynblöndum með bakrunni úr AION.

 

Höfundur er  Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑