Leikjarýni

Birt þann 18. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

5

Leikjarýni: Mass Effect 3

Mass Effect er stórt nafn innan leikjaheimsins og beðið hefur verið eftir þessum leik með mikilli eftirvæntingu enda er markaðsmaskína Bioware búin að vera á fullu síðustu mánuði. Leikurinn kom út á sama tíma fyrir PC, PS3 og Xbox 360 en PS3 eigendur hafa verið dálítið úti í kuldanum hingað til (ME2 kom út ári seinna fyrir PS3). Xbox 360 útgáfan var spiluð fyrir þessa gagnrýni.

Mass Effect 3 er, eins og fyrri leikirnir, hlutverkaleikur/skotleikur í vísindaskáldsagnastíl ekki ólíkt Star Trek heiminum þar sem geimskip geta ferðast um alheiminn og geimverur mynda á milli sín bandalög eða reyna að drepa hvora aðra í stórum stíl. Þú ert í hlutverki yfirmannsins Shepard (Commander Shepard) og við upphafs leiksins velur þú kyn, útlit og forsögu.

Stöldrum aðeins við hér því að forsagan er eitt aðalsmerki seríunnar; það er hægt að notast við sömu persónuna frá ME1 og til og með ME3. Leikurinn notar það sem þú hefur vistað úr fyrri leikjum (endavistun) og ákvarðanir þínar hafa áhrif á leikina sem koma á eftir. Þess vegna mæli ég með að hafa a.m.k. spilað ME2 (ME1 er farinn að eldast dálítið og er ekki alveg jafn góður og hinir tveir eru) áður því sagan verður miklu dýpri og áhrifameiri þegar maður þekkir heiminn betur enda er mikið af því sem gerist í ME3 tilvísun í atburði ME2. ME3 er samt sem áður frábær leikur einn og sér og er auðveldlega hægt  að fylla upp í eyðurnar í upphafi leiksins; þú tekur helstu mikilvægu ákvarðanirnar, sem þú hefðir annars gert í fyrri leikjum.

Í gagnrýninni mun ég vísa talsvert til ME2 enda er ME3 í rauninni betrumbætt útgáfa af honum sem þýðir að ef þú hafðir gaman af ME2 þá muntu ekki verða svikinn af þessum.

 

GRAFÍK

Grafíkin er betri í ME3, andlitin eru ekki alveg í líkingu við LA Noire en þjóna sínu hlutverki vel. Hinsvegar verður maður var við að sum andlitin virðast vera betur gerð en önnur (augu einnar aðalpersónanna eru alltaf galopin sem gefur honum geðbilað útlit; „crazy eyes“) en þetta er ekkert sem truflar mann að ráði. Landslagið er fjölbreytilegra, maður er iðulega í nýju umhverfi og grafíkin í bardögunum lítur mun betur út. Þetta er hinsvegar ekki jafn mikið stökk og ME2 var frá ME1 enda standardinn orðinn nokkuð hár og ekki hægt að kvarta mikið yfir því.

 

SAGAN

ME2 snerist að mestu leyti um einstakar persónur og sögur þeirra, ME3 er á stærri skala og er í rauninni stríðsleikur. Takmark þitt er að fá heilu herina á þitt band, ekki bara einstaklinga. Maður saknar þess dálítið að kynnast nýjum og athyglisverðum persónum (aðdáendur ME muna líklega eftir hinum eftirminnanlegu forsögum Jack, andfélagslega morðingjakvendisins eða Thane, hinni andlega þenkjandi Drell veru) en í staðinn fær maður sögu á stærri skala og meiri alheimspólitík og valdabaráttu. Gömlu kunningjarnir koma aftur og bætast í hópinn smátt og smátt (skondið hversu auðveldlega maður rekst á þá eftir að hafa nýlent á einhverri plánetu).
Leikir eins og Dragon Age 2 (sem Bioware eru sjálfir með) koma upp í huga manns þegar spilað er, því að allt miðast að því að byrgja sig upp af vopnum fyrir stórbardaga. Ég ætla ekki að fjalla um söguna sjálfa nánar enda er það einn sterkasti þáttur leiksins og allir ættu að njóta hennar án spilla.

 

HLJÓÐ

Raddsetningin er frábær enda margir stórleikarar á ferð eins og Martin Sheen, Lance Henriksen og Michael Hogan (Colonel Saul Tigh úr Battlestar Galactica). Þetta er það sem gefur sögunni svo mikið vægi og maður sekkur jafnvel inn í einföldustu samræður því þær eru svo vel lesnar.

Öll umhverfis- og bardagahljóð eru mjög vel gerð og sérstaklega finnst mér hljóðin í megin óvininum takast vel upp (minnir mig á hljóðin úr War of the Worlds söngleik Jeff Wayne). Athygli vekur að stefið sem kemur þegar skoðaðar eru óþekktar plánetur er nákvæmlega það sama og í ME2. Greinilega unnið eftir mottóinu: „Ef það er ekki bilað, ekki laga það“.

 

SAMTÖL

Það er tvennt sem gerir ME seríuna frábrugðna öðrum leikjum; í fyrsta lagi er það að gamlar ákvarðanir úr fyrri leikjum fylgja persónunni, en í öðru lagi er það uppbygging samræðna. Samtöl í Mass Effect leikjunum virka þannig að það er hægt að velja svar út frá nokkrum möguleikum. Oft velur maður svör til að fá fleiri upplýsingar en iðulega kemur upp sú staða að það þarf að velja á milli „góðs“ og „ills“ svars. Ég set þetta í gæsalappir því að vonda svarið er í raun ekki alltaf það vont, það er meira eins og svar Jack Bauer úr 24 þáttunum. Hann myndi einblína á megintakmarkið sem er að bjarga heiminum og ef það þarf að fórna mannslífum til þess þá verður bara að hafa það. Góðu svörin eru meira eins og Charles Ingalls úr Húsinu á Sléttunni, skynsamur og tekur tillit til annarra.

Þetta gerir það að verkum að hægt er að spila leikinn tvisvar og fá tvenns konar upplifun þ.e.a.s. ef maður velur alltaf góða svarið eða vonda svarið. Gallinn við þetta er að erfiðustu ákvarðanir eru ekki erfiðar, maður er hálfpartinn tilneyddur að fylgja annarri hvorri línunni því maður er verðlaunaður fyrir það (nýjir möguleikar í svörum opnast ef maður fylgir þessu). Ég var að vonast til þess að ME3 myndi koma með betrumbætt kerfi fyrir þetta án þess að halda því þó fram að þetta sé alslæmt. Það hefði verið gaman að geta tæklað aðstæður á mismunandi hátt og samt verið verðlaunaður fyrir það að velja stundum góða og stundum vonda svarið.

 

BARDAGAKERFIÐ

Í grundvallaratriðum er þetta eins og áður, þarna eru gömlu góðu vopnin og „jedi geimgaldrarnir“ en það er búið að straumlínulaga þetta, bardagarnir eru hreinlega skemmtilegri. T.d. er jafnvægið betra á milli vopna, aðalsöguhetjan getur haldið á mörgum vopnum en því fleiri sem þau eru því meira kemur það niður á geimgöldrunum. Sniper-byssan og haglabyssan eru mun skemmtilegri í notkun núna og vægi þess hvar skotið hittir líkama óvinana meira.

Einnig er erfiðara að vera alltaf á sama stað og skjóta úr leyni því sumir óvinirnir krefjast þess að maður sé á hreyfingu og reyni t.d. að læðast aftan að þeim. Það að nota líkamann sjálfan (melee) hefur verið betrumbætt líka.

 

SMÁLEIKIR

Með skilgreiningunni smáleikir er t.d. átt við það að brjótast í gegnum læstar dyr (hacking) eða leita að ýmsum „fjársjóðum” á tunglum og plánetum. Að mestu leyti er búið að fjarlægja „hacking“ smáleikina. Í ME1 og ME2 var það að skoða óþekktar plánetur og ná í hráefni áberandi hluti af leiknum en núna virkar þetta þannig að maður hefur takmarkaðann tíma til að leita að hlutum áður en óvinir koma og elta þig uppi. Þetta finnst mér galli því það að skoða áður óþekktar plánetur og lesa um þær var ágætis leið til að „afstressa“ sig á milli bardaga.

 

NETSPILUN OG KINECT

Hægt er að spila leikinn yfir netið sem hljómar dálítið einkennilega fyrir svona leik, og það eru svo margir góðir fjölspilunarskotleikir á markaðnum, en þetta er bara ansi vel gert og fín viðbót við leikinn sjálfan. Þú ert í liði með fjórum öðrum spilurum og berst á móti bylgjum óvina eða þarft að virkja einhvern hlut innan ákveðins tíma. Ég hef ekki spilað þennan hluta mikið en hann lofar góðu og maður er tiltölulega fljótur að bæta karakterinn sinn. Einnig er skemmtilegt að maður kemur strax að notum í að berjast við óvinina þó maður sé alveg grænn.

Fyrir þá sem hafa gaman að því að eltast við afrek (achievements á Xbox 360 eða trophies á PS3) þá virðist vera hægt að ná þeim öllum, allavegana á Xbox 360, án þess að nota fjölspilun (þ.e.a.s. það er hægt að ná sumum afrekunum á tvenns konar hátt; með fjölspilun eða í leiknum sjálfum)

Kinect hluti leiksins á Xbox360 er skemmtileg viðbót sem hægt er að grípa í af og til. Í stuttu máli þá er hægt að nota hljóðnema Kinect til að gefa skipanir og velja svör í samræðum. Það er t.d. hægt að segja liðsmanni að skipta um vopn, bíða, gera árás og þar fram eftir götunum. Það er óneitanlega skrýtið að garga skipanir á sjónvarpið þegar einhver er nálægt og ef aðrir eru að tala nálægt leiknum, eins og sonur minn gerði, þá fara liðsmennirnir allt í einu að skjóta út í loftið,  hlaupa í aðrar áttir o.s.frv. Semsagt ef eitthvað hljómar eins og einhver ákveðin skipun þá er það framkvæmt. Skemmtileg viðbót ef maður er einn en ekki nauðsynleg.

 

LOKAORÐ

Mass Effect 3 svíkur engann og er nánast skyldukaup fyrir þá sem höfðu gaman af ME1 eða ME2. Þrátt fyrir það að Bioware hafi ekki tekið neinar áhættur að ráði við gerð leiksins þ.e.a.s. þeir byggðu á traustum grunni ME2, þá gera þeir hlutina það vel að útkoman er frábær.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
8,5
9,5
10
9,0
9,5

SAMTALS

9,3

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



5 Responses to Leikjarýni: Mass Effect 3

  1. Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑