Leikjarýni

Birt þann 1. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Journey

Leikurinn Journey er nýjasta afurð Thatgamecompany sem gerði leikina Flow og Flower (fyrir þá sem sjá mynstur alls staðar þá er ég sammála ykkur; leikurinn hefði átt að heita Flowerer). Fyrirtækið er samningsbundið Sony Computer Entertainment og því hafa leikirnir aðeins komið út fyrir PS3.

Leikir þeirra þykja öðruvísi en aðrir og koma iðulega upp þegar talað er um leiki og list. Í Journey er engin breyting þar á og færir hugsanlega sterkustu rök fyrir því að leikir geta verið (eru) list. Thatgamecompany hefur það að leiðarljósi að vekja upp tilfinningar hjá spilaranum fremur en að byggja á hefðbundinni leikhönnun (game mechanics).

Journey gerist í ónefndri eyðimörk í ónefndum heimi og nú ert þú ekki lengur vindur eins og í Flower heldur sandvera (mun vinalegri en sandverurnar í Star Wars) í mynstruðum kufli. Þú lítur í kringum þig og sérð fjall í fjarska og greinilegt er að ferðinni er heitið þangað. Það er enginn texti eða tal í leiknum. Leikurinn er hannaður þannig að það er alltaf augljóst hvert þú átt að fara næst án þess þó að heimurinn virki lítill fyrir vikið. Ferðalag þitt er í nokkrum stigum; til að mynda þarftu stundum að berjast á móti vindinum, að fela þig fyrir óvinum, eða að svífa eða hoppa til að komast áfram.

Leikurinn er spilaður með þriðju-persónu sjónarhorni og myndi líklega flokkast sem ævintýraleikur með pallaleiksívafi (platform). Stjórnunin er einföld, þú hreyfir þig með hægri pinnanum og getur notað vinstri pinnann eða hallað PS3 stýrispinnanum (tilt) til að líta í kringum þig . Fljótlega bætast við tveir takkar sem miðast að því að virkja hluti eða til að svífa/hoppa. Þú safnar ákveðnum svif- eða hoppkröftum á ferðalaginu sem þú getur svo notað að vild og endurhlaðið.

Nú er ég búinn að lýsa leiknum á hefðbundinn hátt en þetta er ekki hefðbundinn leikur. Ef ég þyrfti að velja eitt orð til að lýsa þessum leik þá væri það upplifunJourney nær að vekja upp tilfinningar eins og undrun, forvitni, hræðslu, gleði og sorg á það hreinan hátt að það er eins og maður sé aftur orðinn barn.

Nú er ég búinn að lýsa leiknum á hefðbundinn hátt en þetta er ekki hefðbundinn leikur. Ef ég þyrfti að velja eitt orð til að lýsa þessum leik þá væri það upplifun. Journey nær að vekja upp tilfinningar eins og undrun, forvitni, hræðslu, gleði og sorg á það hreinan hátt að það er eins og maður sé aftur orðinn barn. Þannig ber leikurinn nafn með rentu, þetta er ferðalag í gegnum tilfinningaflóruna rétt eins og að hlusta á gott tónverk eða horfa á klassíska kvikmynd og myndar fullkomna heild. Þess vegna er ráðlagt að gefa sér þann til 2 tíma sem tekur að klára leikinn.

Þið lásuð rétt, leikurinn er stuttur (eins og Flower og Flow) og meti hver fyrir sig hversu mikil áhrif það hefur á kaup leiksins. Sjálfur hef ég klárað hann tvisvar og hlakka til að klára hann oftar og tel hann peninganna virði. Einnig er hægt að skoða heiminn betur og finna hluti sem eru faldir á víð og dreif.

Samspil tónlistar og atburða innan leiks hefur ekki verið jafn vel samstillt síðan Prokofiev gaf út Pétur og Úlfurinn. Hvernig þú þyrlar upp sandi þegar þú hleypur og gengur, hvernig sandöldur bylgjast áfram og reyndar öll hegðun sandsins er vel af hendi unnin. Þetta er ekki stór leikur en þessi heild sem Thatgamecompany hefur náð að byggja; alveg frá minnstu smáatriðum upp í stærri þætti, er tæknilega fullkomin.

 

FJÖLSPILUN

Fjölspilunin er í raun „tvíspilun“ en hún virkar þannig að ef þú ert tengdur við PSN (Playstation Network) þá birtist fljótlega annar leikmaður sem er  nálægt þér. Hugmyndin var að taka í burtu allt það neikvæða við fjölspilun og gera þetta eins einfalt og hægt er. Það tókst svo sannarlega. Þar sem það er ekki hægt að tala í leiknum, velja hvern þú spilar við eða jafnvel vita hver viðkomandi er þá verður þetta eins og hluti af leiknum þ.e.a.s. eins og þú hittir aðra sandveru sem er í sama ferðalagi. Hinn leikmaðurinn getur ekki gert neitt til að spilla leikupplifuninni þinni, það versta sem hann getur gert er að fara í burtu en þá heldur þú áfram ferð þinni eins og ekkert hafi í skorist. Eina leiðin fyrir samskipti er að ýta á takka og gefa frá sér „bing“ hljóð. Aldrei áður hefur „bing“ þýtt eins margt; dæmi „bing = komdu hingað“, „bing = ég er að detta!“, „bing = takk fyrir!“ eða „bing = ….vá“. Ef maður nær að klára leikinn með öðrum ferðalangi verður heildarreynslan sterkari fyrir vikið, maður man betur eftir ferðalaginu, það verður fjölbreyttara og maður hlakkar til að ferðast með einhverjum öðrum í framtíðinni.

 

LOKAORÐ

Það er mjög hressandi og gleðiefni að svona leikir séu að koma út. Það að sumir leikjahönnuðir séu að prófa nýja hluti og breyta gömlum hlutum er ánægjulegt. Í ljósi umræðu sem myndaðist eftir að nýlegur stórleikur kom út þá virðist sem að fólk annað hvort líta á leiki sem list, eins og Journey er, eða neytendavöru sem á að uppfylla staðlaðar kröfur. Leikjaframleiðendur þurfa því hugsanlega að endurskilgreina takmörk sín að einhverju leyti. Vonandi líta þeir á frábæru dóma Journey sem merki þess að margir spilarar vilja enn láta koma sér á óvart.

 

EINKUNN

9,0

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑