Leikjarýni

Birt þann 14. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Leikjarýni: Trials Evolution

Þann 18.apríl síðastliðinn kom út leikur á Xbox Live Arcade sem var langt frá því að vera á mínum radar, þar sem ég spila yfirleitt ekki mótorhjólaþrautaleiki eins og Trials Evolution eða forvera hans, Trials HD. En þar sem hann fékk hreint út sagt frábæra dóma og var mikið talað um í þeim leikjatengdu miðlum sem ég fylgist með, varð ég að skoða gripinn.


Leikurinn er einfaldur; þú stýrir mótorhjóli og þarft að fara í gegnum brautir á sem bestum tíma og þú færð mínusprik fyrir að detta eða keyra á. Borðin eru skemmtilega fjölbreytt og snúast ekki bara um það að keyra hratt þau snúast frekar um það að halda jafnvægi og læra tæknina sem þarf til að ná stökkvum og að forðast gildrur, en til þess að forðast gildrurnar þarf spilarinn að ná góðri stjórn á hraða og og setu hjólakappans því að jafnvægi er stór hluti í leiknum. Eftir því sem leikurinn verður erfiðari skipta öll smáatriði máli eða eins og Red Lynx, hönnuður leiksins segir: „Simple to learn but hard to master“.

Eftir því sem leikurinn verður erfiðari skipta öll smáatriði máli eða eins og Red Lynx, hönnuður leiksins segir: „Simple to learn but hard to master“.

Eðlisfræðin í leiknum er vel gerð og skemmtilega ýkt, það er mikið um löng og brjálæðisleg stökk og stórkostleg slys ef stökkin ganga ekki upp, sérstaklega ef maður lendir í hinum ýmsu gildrum sem eru í borðunum. Trials Evolution notast við tuskudúkku-eðlisfræðina sem margir leikjanördar kannast við („ragdoll physics“)

Í byrjun hefurðu eitt hjól og aðgang að nokkrum þrautum. Til þess að fá fleiri og betri hjól þarf að ná ákveðnum fjölda verðlaunapeninga og að endingu taka ökupróf á nýju hjóli. Uppbyggingin er mjög góð að þessu leyti og framfarirnar stoppa ekki, maður fær  brons fyrir það eitt að klára borðin (sem er ekki það auðvelt í erfiðari borðunum, sérstaklega fyrir óþolinmóða).

Sumar þrautirnar notast ekki við mótorhjól t.d. er ein þrautin þannig að þú þarft að stýra kúlu ákveðna leið án þess að detta niður. Þetta virkar eins og hið klassíska Labyrinth spil frá Brio. Í öðrum borðum notarðu skíði og í einu borði ertu með planka fasta við handleggina og reynir að „fljúga“ sem lengst eftir mótorhjólastökk. Húmorinn í leiknum er sá sami og er í Pain leikjunum sem PS3 eigendur ættu að kannast við. Í hvert sinn sem maður klárar keppni eða þraut; um leið og maður kemur í mark þá springur maður, dettur fram af einhverju, eitthvað dettur ofan á mann (t.d. píanó eða lest) og þar fram eftir götunum. Mjög skondið, en sú spurning vaknar hvort sniðugra hefði verið að sleppa því og gera hann þar með fjölskylduvænni því að leikurinn hefur alla burði til þess að vera í líkingu við Little Big Planet (sem hefur náð að virkja sköpunargleði ungra krakka).

Þá komum við að einum sterkasta þætti Trials Evolution en það er að búa til borð og spila borð annarra.

Rétt eins og í Little Big Planet hefur samfélagið blómstrað og hægt er að ná í mörg snilldarborð. Hönnunarviðmótið sjálft er mjög vel gert og hægt er að nota annað hvort byrjunarviðmót (lite) eða viðmót fyrir vana (pro). Þetta er hluti leiksins sem ég hlakka til að gera tilraunir með í framtíðinni, nánast það eina sem getur stöðvað mann er ímyndunaraflið.

Allt að fjórir geta spilað saman á sömu tölvu og svo er hægt að tengjast og keppa á móti öðrum spilurum. Þar getur maður unnið sér inn pening (sem maður getur líka gert í eins-manns keppnum) sem hægt er að nota í að uppfæra klæðnað og hjólin. Fjölspilunin var mjög skemmtileg þegar maður komst í leik en því miður virðist það ekki vera auðvelt, alla vega í mínu tilfelli. Stundum tók það frekar langan tíma og sumir leikir náðu ekki að byrja heldur kom villan „corrupted game“. Vonandi eitthvað sem verður lagað í framtíðinni.

Eitt það skemmtilegasta við Trials Evolution eru stigatöflurnar (Leaderboards) og þannig er hægt að keppa um besta árangurinn gagnvart vinum sínum og öðrum. Leikurinn hefur þennan „bara-eitt-spil-í-viðbót“ eiginleika og þegar maður er að keppast við að ná meti vina sinna er það aldrei jafn augljóst.

Trials Evolution er ekki fullkominn en gallarnir eru smáatriði miðað við hvað heildarútkoman er góð. Tónlistin er afar óspennandi, það er ekkert sem grípur mann eins og t.d. í Wipeout leikjunum og peninga kerfið bætir ekki miklu við leikinn. Annað er að erfiðleikastig leiksins fer mjög hratt upp og margir eiga eftir að gefast upp tiltölulega fljótt (harðkjarna spilarar líta eflaust á þetta sem kost). En þá er hægt að fara í samfélagshlutann og skemmt sér áfram þar með því að spila borð annarra sem skala frá því að vera auðveld til meðal-þungra (þeir hörðustu spila mjög erfiðu borðin (Extreme)).

Jafnvel þeir sem spila venjulega ekki svona leiki eiga eftir að finna eitthvað við sitt hæfi hérna, þetta er leikur sem byrjendur jafnt sem hörðustu afreka (achievements) veiðarar geta haft gaman af.

Það eru mjög fáir Xbox Live Arcade leikir sem eru eins endingargóðir og Trials Evolution og fyrir 1200 MS punkta (rúmar 1500 kr.) eru þetta nánast, svo að ég noti þreyttan en viðeigandi frasa, skyldukaup. Jafnvel þeir sem spila venjulega ekki svona leiki eiga eftir að finna eitthvað við sitt hæfi hérna, þetta er leikur sem byrjendur jafnt sem hörðustu afreka (achievements) veiðarar geta haft gaman af.


EINKUNN

9,5

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnOne Response to Leikjarýni: Trials Evolution

Skildu eftir svar

Efst upp ↑