Bíó og TV

Birt þann 28. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Don’t Be Afraid of the Dark (2010)

Stundum heyrir maður nafn á kvikmynd og ákveður samstundis að hún sé ömurleg. Yfirleitt hefur maður rétt fyrir sér, en myndin sem ég ætla að fjalla um er undantekning á reglunni. Það verður að teljast nokkuð merkilegt að hryllingsmynd sem kallast Don’t Be Afraid of the Dark og er endurgerð af sjónvarpsmynd frá 1973 sé alls ekki slæm. Einnig hjálpar lítið þegar maður heyrir að Katie Holmes leiki í henni og að hún byggist að einhverju leyti á sögum um tannálfa. Þátttaka Guy Pearce gæti sannfært suma, en um leið og maður kemst að því að sama mynd sé framleidd, og að hluta til skrifuð, af Guillermo del Toro þá veit maður að eitthvað sérstakt er á ferðinni.

Myndin byrjar á að skyggnast í fortíðina þar sem að þjónustustúlka í 19. aldar stórhýsi fer niður í kjallara til að huga að húsbóndanum, málaranum Blackwood, og fellur í gildru sem hann leggur til þess að geta höggvið úr henni tennurnar. Í kjölfarið sést hann safna tönnunum saman ásamt nokkrum af sínum eigin á disk til að skilja eftir handa dularfullum verum sem virðast búa í göngum undir húsinu. Verurnar sýna ekki mikið þakklæti þar sem þær höfðu beðið sérstaklega um barnatennur í skiptum fyrir son húsbóndans sem þær halda föngum. Þar sem honum tókst ekki að færa þeim réttar tennur öðlast hann sömu örlög og sonur sinn og hverfur inn í göngin.

Eftir skrautlega byrjunartitla í anda Tim Burton er okkur hent fram í nútímann þar sem helgarpabbinn Alex (Guy Pearce) fær loksins átta ára gamla dóttur sína, Sally (Bailee Madison), til frambúðar. Móðir hennar virðist ekki geta sinnt henni og hefur sett hana á ýmis lyf. Ekki eru hlutirnir mikið skárri á nýja staðnum þar sem Sally neyðist til að vingast við nýja kærustu föður síns, Kim (Katie Holmes), sem hjálpar föður hennar að endurbæta gamla stórhýsið úr byrjuninni til þess svo að selja það. Þau búa í húsinu meðan á framkvæmdum stendur og eins og flesta grunar þá leynist ýmislegt í þessu stóra og skuggalega húsi. Sally byrjar að heyra raddir úr loftræstingunni í herbergi sínu og kemst fljótlega að því að kjallari hússins hefur verið hulinn. Þrátt fyrir varúðarorð eins byggingarmannsins ákveður Alex að opna inn í kjallarann og stuttu eftir það tekst verunum að sannfæra Sally um að opna lokið á arninum svo þær geti „leikið“ við hana. Á meðan Alex keppist við að klára húsið einangrast Sally sífellt meira og ljóst er að eitthvað mun fara illa.

Þó að söguþráðurinn sé í nokkuð hefðbundnum draugahúsastíl þá verður klisjan aldrei óbærileg og gengur ágætlega upp.

Þó að söguþráðurinn sé í nokkuð hefðbundnum draugahúsastíl þá verður klisjan aldrei óbærileg og gengur ágætlega upp. Hræðsla barna við litlar verur sem búa í myrkustu hlutum hússins er algeng og þar sem flestir geta tengst við slík fyrirbæri úr æsku sinni nýtist það sögunni. Enn fremur kannast allir við tannálfinn sem gefur þeim börnum verðlaun sem skilja tennur sínar eftir undir koddanum handa honum. Hér er kryddað talsvert upp á þá mýtu og minnir hún frekar á Grimms ævintýri eða eitthvað skuggalegra. Tannálfarnir eru margir, grimmir, ljótir og mjög svangir! Þeir hræðast ljós, en eru klækjóttir og geta bæði talað og notað tól. Þeir eru kannski undarlega sterkir miðað við að hafa ekki fengið tennur í svo langan tíma, en það er kannski óþarfi að reyna að beita rökvísi þegar talað er um slíkar verur. Af einhverri ástæðu eru útskornar rúnir fyrir ofan arininn sem er eina opið inn í göng tannálfanna. Skilaboðin eru á ensku: „BE AFRAID“. Augljóslega finnst manni hálf skrítið að Bandaríkjamaður á 19. öld hafi ákveðið að nota rúnir til þess að vara fólk við göngunum. En þar sem að málarinn sem bjó þar áður fyrr virtist vera á barmi þess að missa vitið eftir að hafa misst barn sitt til veranna getum við fyrirgefið honum þessi taktísku mistök. Vissulega er það vilji handritshöfunda að skapa einhvers konar dularfull tengsl við fortíðina og jafnvel vísa til þess að verurnar séu ævafornar, en það virkar ekki beint ef litið er til þess að arininn sem ritað er á er sjálfur ekki ævaforn og þar að auki staðsettur í Bandaríkjunum.

Hið skuggalega en jafnramt ævintýralega útlit myndarinnar er mjög vel heppnað. Það tengist því kannski að leikstjóri myndarinnar, Troy Nixey, kemur úr teiknimyndasögugeiranum og hefur því góð tök á sjónrænu eiginleikum sinnar fyrstu myndar í fullri lengd. Þó að alvöru stórhýsi hafi verið notað í myndinni þá eru smáatriði eins og höggmyndir af hinum óhugnalegustu hlutum mjög vel útfærðar og vinna vel með ævintýralegu andrúmslofti myndarinnar. Tónlistin er líka í góðu samræmi við atburðarrásina og bætir andrúmsloftið, hvort sem það á við ævintýralegan bakgarð, dimm skot stórhýsis eða morðóða tannálfa. Kvikmyndatakan er nokkuð lífleg og heldur góðu flæði en fer aldrei utan þess hefðbundna. Að undanskildu fyrsta skoti myndarinnar þá er tölvugrafíkin aldrei gervileg. Álfarnir eru frekar flottir og virka óhugnalega á mann þrátt fyrir stærð þeirra. Þó að myndin virkar að hluta til sem hryllingsmynd ætluð börnum dettur hún ekki í þá gryfju að gera álfana krúttlega að neinu leyti og það kemur líka í veg fyrir að maður verði fyrir vonbrigðum eftir uppbyggingu á ótta við verur sem maður sér ekki. Hún stólar heldur ekki of mikið á bregðuatriði til þess að framkvæma hroll, en eitt helsta slíka atriðið virkar ágætlega fyrir utan hversu ótrúverðugt það er frá sjónhorni fórnarlambsins. Ég veit a.m.k. ekki um marga sem, eftir að hafa séð eitthvað skríða undir sænginni sinni, myndu bregðast við með því að ýta henni frá og ákveða svo að skríða undir lakið með vasaljós í átt að því óhugnanlega. Ekki kalla á hjálp. Ekki stökkva af rúminu og hlaupa út úr herberginu. Nei, auðvitað rannsakar maður bara málið með yfirvegun eins og átta ára stelpum er einum líkt. Ha?

Leikurinn er í flestum tilfellum mjög fínn, sérstaklega hjá hinni ungu Bailee Madison, en persónulega get ég sjaldan tekið of mikið mark á þeirri skraufþurru frammistöðu sem fylgir Katie Holmes. Hún er ekki beint slæm leikkona en virkar bara svo óspennandi á mig. Guy Pearce er ekki mjög áberandi í myndinni, enda leikur hann nokkuð sjálfselskan og upptekinn föður sem hefur hreinlega ekki tíma fyrir vandamál dótturinnar, þó þau séu í raun og veru líka hans eigin. Persónusköpunin gæti vissulega verið dýpri en klisjur geta virkað ágætlega til þess að segja einfalda sögu. Þó að hugmyndin á bak við handritið sé mjög skemmtileg og virkar vel framan af þá þynnist það heldur mikið í lokin og kannski er það ástæðan fyrir því að del Toro vildi frekar framleiða myndina og hjálpa við aðlögun handritsins í stað þess að taka að sér leikstjórn. Einkenni hans eru klárlega til staðar en sagan helst ekki jafn vel saman og skilur ekki jafn mikið eftir og bestu verk hans gera.

Don‘t Be Afraid of the Dark er í heildina séð skemmtileg og á köflum virkilega flott. Hún kom mér töluvert á óvart þar sem væntingar mínar voru ekki miklar. Eins óspennandi og titillinn er þá passar hann nokkuð vel við myndina eftir á að hyggja (ekki það að hún sé óspennandi). Titillinn var a.m.k. ekki sagður upphátt í neinu atriði myndarinnar, enda myndi slíkt örugglega kalla fram heiftarlegt reiðiskast eða kjánahroll hjá flestum áhorfendum. Margt heppnaðist mjög vel við gerð myndarinnar en það hefði mátt gera meira úr því. Ævintýralegu og dularfullu hliðar myndarinnar mættu taka meira pláss og draugahúsahefðin hefði mátt víkja aðeins í staðinn. Ekki hefði sakað að grafa dýpra ofan í persónur og jafnvel forsögu veranna og ég tel að í kjölfarið hefði myndin skilið meira eftir sig. Ég myndi samt mæla með henni fyrir fólk sem kann að meta blöndu ævintýra við hrylling, kann að meta hálf gotneskt útlit og getur notið einfaldrar sögu án þess að kippa sér upp við smávægleg göt í söguþræðinum. Myndin er t.d. alls ekki slæmur kostur fyrir Hrekkjavöku sem nálgast óðfluga.

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑