Bíó og TV

Birt þann 30. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Skyfall (2012)

Áður en ég held lengra er rétt að skýra afstöðu mína til Bond mynda. Ég er almennt séð ekki mikill spennumyndafíkill. Ég hef alveg gaman af þeim og kann vel að meta góðar spennumyndir, sérstaklega góðar „löggu- og bófamyndir“ eins og maður orðaði það sem krakki. En þegar myndir bjóða upp á lítið annað en allt of löng hasaratriði þá getur mér drepleiðst. Yfirleitt er kryddað töluvert upp á slíkt í Bond myndum og mér hefur oftast fundist þær ágætar, þrátt fyrir allt of mikla áherslu á markaðsherferðir og sölumennsku sem á það til að vera óþægilega augljós. Ég hef samt ekki séð nærrum því allar og þangað til nýlega hafði ég ekki einu sinni séð neina með Daniel Craig í hlutverki njósnarans 007. Ég ólst upp með Pierce Brosnan sem James Bond og fannst við fyrstu sýn sá nýi óþægilega mikil breyting. Sú tilfinning hvarf þó fljótt þegar ég horfði á Casino Royale (2006) og minnti mig svolítið á frammistöðu Sean Connery sem Bond. Því fannst mér alveg þess virði að skreppa á Skyfall (2012) og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Ég þarf ekki að segja frá söguþræði myndarinnar. Þið þekkið þetta; leynilegar aðgerðir, eltingaleikir, almenningur er í hættu, flottar stelpur, flottir bílar (sem enda sjaldnast í heilu lagi), alls konar tæki og tól og hnyttin samtöl með hanastél í hendi (þá meina ég drykk, ekki… þú veist). En engu að síður er söguþráðurinn töluvert áhugaverðari en í öðrum Bond myndum sem ég hef séð. Það er svolítið meira gert úr óþokkanum og skyggnst inn í fortíð Bonds. Við erum að tala um eins konar endurfæðingu á sögu og framsetningu myndanna, ekki ólíkt því sem maður upplifði þegar Christopher Nolan tók fyrir Batman seríuna. Það er meira að segja eitt atriði sem gæti vel virkað í mynd um leðurblökumanninn og tónlistin spilar inn í þá líkingu.

Talandi um tónlist. Maður var orðinn nokkuð vanur að sjá nafn David Arnolds á skjá Bond myndanna en í þetta sinn er það sjálfur Thomas Newman sem fær heiðurinn. Newman er í miklu uppáhaldi hjá mér og vanur því að vinna með leikstjóra myndarinnar, Sam Mendes, svo að ég varð töluvert spenntur við að sjá hverju hann gæti bætt við hefðina. Bond tónlistin sem allir þekkja helst reyndar nokkuð vel sem slík og tónlistin fer ekki fram úr sér í að reyna að skapa eitthvað glænýtt. Lagið „Skyfall“ í flutningi Adele virkar mjög vel í byrjunartitlum myndarinnar, en mætti kannski hafa verið nýtt betur í myndinni. Gömlu góðu stefin eldast samt seint og skila sínu hlutverki.

Leikstjórinn Sam Mendes (American Beauty (1999), Road to Perdition (2002), Revolutionary Road (2008)) hefur hingað til aðallega verið þekktur fyrir alvarlegar dramamyndir sem yfirleitt rata inn á Óskarsverðlaunin með góðu gengi og það kæmi fáum á óvart ef einhverjar tilnefningar fylgdu þessari mynd. Honum tekst stórkostlega að þróa stíl Bond myndanna áfram og heldur góðu jafnvægi á milli úthugsaðra spennuatriða, gullfallegra víðskota og samskipta persóna sem halda góðum hraða án þess að það bitni mikið á söguþræði og persónusköpun. Þó að Mendes sé ekki beint reynslubolti í hasaratriðum sýnir hann mikla færni í að koma áhorfendum inn í hasarinn og láta þá finna fyrir öllu brjálæðinu sem er í gangi. Byrjunartitlar myndarinnar eru þeir flottustu sem ég hef séð í Bond mynd og klárlega í hópi þeirra flottustu sem ég hef séð í kvikmyndum almennt. Daniel Kleinman hannaði þá og tekst að fá áhorfendur til að stara á skjáinn af aðdáun og sannfæra þá um gæði myndarinnar áður en hún er almennilega byrjuð.

Daniel Craig tekst að kalla fram allar þær hliðar sem James Bond virðist bjóða upp á. Hann er harðjaxl, töffari, egóisti, daðrari, en einnig glittir í mann með fortíð og tilfinningar, mann sem þarf að takast á við þær takmarkanir sem fylgja ellinni og ákveða hvaða leið hann ætlar að fylgja.

Annar stór kostur Skyfall er sá að hún býr yfir einu sterkasta leikaravali frá upphafi Bond myndanna. Daniel Craig tekst að kalla fram allar þær hliðar sem James Bond virðist bjóða upp á. Hann er harðjaxl, töffari, egóisti, daðrari, en einnig glittir í mann með fortíð og tilfinningar, mann sem þarf að takast á við þær takmarkanir sem fylgja ellinni og ákveða hvaða leið hann ætlar að fylgja. Craig er nú sjálfur orðinn 44 ára og er svolítið gert úr því í myndinni, en hann er óneitanlega í góðu formi og ætlar sér að halda hlutverki Bonds í a.m.k. tvær myndir í viðbót. Ekki er hægt að kvarta undan starfsfélaga Bonds, henni Eve, sem að Naomie Harris gerir að bæði áhugaverðum og eggjandi þætti í lífi njósnarans. Ralph Fiennes (sem flestir þekkja sem hinn ægilega Voldemort úr Harry Potter seríunni) lífgar talsvert upp á skrifstofulíf MI6 sem Mallory, nýr og ógnandi formaður leyniþjónustunnar. Judi Dench hefur svakalega náveru sem M og sá eini sem toppar hana er Javier Bardem sem hinn yndislega skrítni en um leið hræðilega ógnvekjandi Silva. Leikur hans minnir nokkuð á túlkun Ted Levine á Buffalo Bill úr Silence of the Lambs (1991) og jafnvel á sjálfan Hannibal Lecter í fáeinum tilfellum. Það er líka nokkuð fyndin tilviljun að annar fyrrverandi óþokki úr Bond mynd, Mads Mikkelsen, sé að fara að leika Lecter í sjónvarpsþáttum um mannætuna frægu á bandarísku stöðinni NBC. En það gefur að skilja að þegar maður er byrjaður að líkja óþokkanum við hryllingsmyndir þá er truflandi návera hans staðfest.

Þó að Skyfall sé vissulega ákveðin endurfæðing á Bond-myndahefðinni og með breyttar áherslur þá gleymir hún alls ekki fortíðinni og leikur sér mikið með vísanir í fyrri Bond myndir ásamt því að minna áhorfandann á að stundum séu gömlu aðferðirnar bestar. Hér er greinilega á ferðinni kvikmyndagerðarfólk sem hefur mikla virðingu fyrir gömlu myndunum og uppruna þeirra í bókum Ian Fleming. Skyfall inniheldur flest það sem fólk dýrkar við Bond myndirnar en bætir jafnframt miklu við sem lyftir henni á annað plan, vonandi eitthvað sem að næstu myndir munu fylgja eftir. Myndin stendur einnig á eigin fótum og er alls ekki nauðsynlegt að hafa séð aðrar Bond myndir til þess að geta notið hennar, þó það saki nú samt ekki þegar vísað er í gömul vopn, farartæki og persónur. Allt eru þetta þó fyrirbæri sem meðalmaðurinn kannast við og ættu alls ekki að trufla. Myndin er á tímabili algjört augnakonfekt og frammistaða Craig ýtir öðrum Bondum til hliðar. Ég held að ég geti sagt að þessi tuttugasta og þriðja Bond mynd geti fljótt orðið þekkt sem sú besta í seríunni.

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑