Leikjarýni

Birt þann 20. nóvember, 2019 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Death Stranding: Þræðirnir sem tengja okkur saman

Death Stranding: Þræðirnir sem tengja okkur saman Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Þetta er ekki leikur fyrir alla, en þeir sem gefa honum tækifæri eiga von á sýrðri ferð.

4

Skrítið ferðalag


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Að segja að endalok áralangs samstarfs Hideo Kojima við japanska útgefandann Konami hafi endað illa væri líklega vægt til orða tekið. Eftir ótal leiki sem hlutu góða dóma og seldust vel var Metal Gear Solid V: The Phantom Pain síðasti leikurinn sem Kojima vann að fyrir fyrirtækið, þó var nafnið hans fjarlægt af kynningarefni leiksins stuttu fyrir útgáfu hans. Þegar leikurinn kom út var ljóst að ekki allt í framleiðslu hans hafði gengið upp og innbyrðis átök á milli Konami og Hideo Kojima höfðu sett mark sitt á leikinn og tilfinningu margra að það vantaði hluta af leiknum og honum hefði verið ýtt út að hluta til. Það sama má segja um Hideo Kojima sem að sögn Konami fór í langt frí, en var í raun hættur hjá fyrirtækinu.

Í desember 2015 var svo staðfest að Kojima Productions mundi verða endurstofnað sem sjálfstætt fyrirtæki og að Sony Computer Entertainment myndi gefa út þeirra fyrsta leik. Leikurinn myndi heita Death Stranding og skarta leikaranum Norman Reedus úr The Walking Dead þáttunum og Silent Hill (P.T.), leik Normans og Kojima sem ekkert varð úr.

Mikil eftirvænting hefur ríkt síðustu ár yfir  Death Stranding og að hverju Kojima og hans lið hafi verið að vinna að í leynd síðustu árin.Leikurinn er nú komin út fyrir PlayStation 4 og verð ég að segja að þrátt fyrir að hafa klárað leikinn og spilað hann í yfir 60 klukkutíma er ég stundum ekki alveg fullklár á því út á hvað hann nákvæmlega gengur! Þetta er leikur sem mun líklega fara mjög mismunandi í fólk. Aðdáendur Hideo Kojima munu líklega hafa gaman af leiknum þar sem hann inniheldur langa sögukafla og sýrða hluti, á meðan aðrir spilarar eiga eftir að klóra sér í hausnum og spyrja sig sjálfa hvað þeir séu eiginlega  að spila! Pósturinn Páll tölvuleikurinn eða hvað?

Þitt hlutverk er að fara með pakka á milli svæða, og oft er það frekar erfitt.

Leikurinn gerist í Bandaríkjunum eftir atburðinn Death Stranding sem olli endalokum Bandaríkjanna og líklega stórum hluta heimsins, þó það sé ekki alveg staðfest. Í stað landa eru nú borgir sem eru á víð og dreif um landsvæðið og fólk hefur við í neðanjarðarbyrgjum til að forðast þær hættur sem eru á yfirborðinu. Eina leiðin til að fá vistir og aðra hluti er að ráða fyrirtæki til að flytja hluti á milli borga og hætta sér fram hjá bófum, hryðjuverkamönnum og auðvitað BT skrímslunum sem eru á víð og dreif og aðeins lítill hluti mannkyns getur séð eða skynjað. 

Þeir sem þekkja eitthvað til tölvuleikja eða kvikmynda munu sjá ótal andlit sem þau kannast við. Má þar helst nefna Mads Mikkelsen (dularfulli hermaðurinn), Léa Seydoux (Fragile), Margaret Qualley (Mama), Troy Baker (Higgs), Tommie Earl Jenkins (Di-Hardman), og Lindsay Wagner (Bridget Strand), ásamt leikstjóranna Guillermo del Toro (Deadman) og Nicolas Winding Refn (Heartman), sem ljá leiknum útlit sitt en ekki rödd. Þau sem stóðu upp úr að mínu mati voru Mads Mikkelsen og Margaret Qualley. Þeirra persónur og saga voru vel sett upp og skrifaðar að mínu mati.

Það skortir ekki þekkt andlit í leiknum.

Í leiknum ferð þú í fótspor Sam Bridges sem vinnur fyrir Bridges fyrirtækið sem er eitt það stærsta á svæðinu. Þitt hlutverk er að fara með sendingar á milli staða, sannfæra byggðarlög að ganga til liðs við nýju ríkisstjórn sameinu borganna og byggja upp Chiral-kerfið sem er kerfi sem gerir fólki kreyft að tengjast neti, en á sama tíma virðist það tengjast atburðunum í heiminum. Síðasta verk Bridget Strand, síðasta forseta Bandaríkjanna, er að sannfæra þig að hjálpa til við að koma Chiral-netinu af stað á ný og tengja borgirnar saman. Með að taka að sér stór og smá verkefni og hjálpa fólki opnast fyrir nýja hluti og vopn sem auðvelda Sam við að lifa af. 

Líkamsvessar Sam koma talsvert við sögu í leiknum og hjálpa þeir honum að lifa af. Já þetta hljómar eins skrítið og það er að skrifa það. Þvag, saur og drullan af þér úr sturtunni sem þú ferð reglulega í er hægt að nota sem litlar handsprengjur. Blóðið hans Sams spilar aftur á móti  enn stærra hlutverki, úr því er hægt að búa til handsprengjur, byssukúlur og vefja i reipi. BT verurnar eru á dularfullan hátt veik fyrir blóði Sams, sem þarf að gefa blóð á meðan hann sefur til að aðrir geti notað það sem vopn gegn óvinum. Mörg vopn er hægt að nota á banvænan og óbanvænan hátt og eru leikmenn hvattir til að drepa ekki mennska óvini. Enda þá er stór möguleiki á að BT verurnar komist í snertingu við líkið og það muni valda „voidout“ sprengingu sem getur eyðilagt allt á stóru svæði.

Eins og er hljómar þetta ekki svolítið klikk eða hvað? Þetta er bara byrjunin á öllu því sem er í boði og á köflum hefði ég viljað vera með blað og penna til að taka niður minnispunkta. Leikurinn reyndar útskýrir flest allt það sem kemur við sögu þegar líður á hann, en í byrjun ertu hálf villtur og einn og er það einn af kjarna hlutum leiksins. Vegna þess að hlutverk þitt er að sameina fólk á ný og koma á nýju sambandi milli borganna og þeirra sem þar búa.

BT verurnar hafa tengingu við heim hinna látnu og er ráðlegt að forðast þær í byrjun leiksins.

Eitt sem ég fattaði eftir þó nokkra hugsun er að Death Stranding sýnir manni að það eru allir á vissri ferð í lífinu og þú þarft ekki að fara einn í gengum það og það er í lagi að biðja um hjálp. Eitthvað sem Kojima er að reyna að segja með leiknum.

BT verurnar vafra um heiminn og eru ósýnilegar þeim sem eru með tengsl við heim hinna dauðu og hina dularfullu strönd sem virðist leiða til hvað er handan móðunnar og himnaríkis. eða hvað sem fólk trúir á. Ef þeir komast í snertingu við lík þá getur orðið stór sprenging sem getur drepið alla á stóru svæði. Hryðjuverkamenn hafa einmitt verið að nýta sér þetta til að eyða borgum þegar að saga leiksins hefst.

BT verurnar koma helst fram þegar að rignir og sú rigning er með sín eigin vandamál fyrir leikmenn. Vandinn er að BT geta drepið þig frekar fljótt og eyðir þú miklum tíma að forðast þá, enda ef þeir verða varir við þig þá er auðvelt fyrir þá að vefja þig í svartri olíu eða slími og draga þig í átt að stóru skrímsli sem í byrjun leiksins leiðir til snöggs dauða. Svo best er að fara rólega yfir svæði þegar byrjar að rigna, vegna þess að rigningin ruglar í tímanum og eldir allt sem hún snertir, bæði hluti og fólk og hún getur orðið þér að bana ef þú ert ekki rétt útbúinn. 

Það sem hjálpar Sam er að hann er með BB, eða Bridge Baby, sem er lifandi fóstur í sérstöku íláti með naflastrengi sem þú getur tengst við. Fóstrin eiga hvorki að vera lifandi né dauð og hjálpa fólki að forðast BT skrímslin. Það er óttalega skrítið að vera með lítið kríli á maganum í leiknum og þurfa að passa það og hugga. Ef þú passar ekki upp á tengsl þín eða það verður of hrætt, geturðu lent í að þú hættir að geta séð BT skrímslin og þá verður allt talsvert erfiðara fyrir þig. Þá verður það nauðsynlegt fyrir Sam að hvíla sig í einni af borgunum eða Bridges-stöðvum til að BB jafni sig og þú náir að hvílast.

BB er ein af skrítnari persónum leiksins en á sama tíma ein af þeim betri.

Það sem þú munt gera mikið af í þá nokkra tugi tíma sem leikurinn tekur, (yfir 60 klst. Í mínu tilfelli) er að ganga á milli staða. Þar byrjar jafnvægi þitt og hvernig þú raðar vörum á grindina sem þú ert með á bakinu að skipta miklu máli. Ef þú raðar vörunum vitlaust eða passar ekki hvernig þú stígur í umhverfinu þá geturu mögulega dottið  og skemmt vörunar sem þú ert með og þarft þá að redda nýjum eða gera við. Þetta getur orðið pínu þreytandi stundum og þú munt halda mikið í L2/R2 takkana á fjarstýringunni til að halda betra jafnvægi. Þegar þú ferð yfir ár þá verður þetta enn meira bras og þarft þú að skoða vel landslagið áður en þú ferð yfir. Með að ýta á R1 þá varpar Sam út litlum radargeisla sem skannar umhverfið og gefur til kynna hvar er best að fara yfir. Þetta gæti stuðað suma leikmenn og haft áhrif á skemmtun þeirra í leiknum. Þetta mun þó skána þegar opnast fyrir nýja tækni og farartæki síðar í leiknum. En það er eftir örugglega 10 klukkutíma, svo það er hætta að sumir gætu gefist upp áður því takmarki er náð. 

Á vissum svæðum eru mennskir óvinir og kallast þeir MULES. MULES eru fyrrum sendlar sem hafa tapað glórunni og ráðast nú á aðra sendla og stela pökkunum þeirra til að fá likes. Já þið lásuð þetta rétt, likes eins og á Facebook eða Instagram. Þú færð likes fyrir nær allt sem þú gerir í leiknum allt frá að leysa verkefni yfir í að byggja brýr sem aðrir leikmenn geta notað. Leikurinn er ekki hefðbundinn netleikur, en hann er þó með nethluta þar sem aðrir leikmenn geta unnið saman að byggja upp byggingar og vegi, deila vopnum og tækjum eða jafnvel láta aðra klára einhverja sendingu sem þú nennir ekki að standa í. Þessi „ósýnilega“ samvinna í leiknum dregur smá úr þeirri einsemd sem maður finnur fyrir að vafra um landslagið og þér finnst þú vera að leggja þitt að mörkum að stærri heild. Bara hlutur eins og leggja stiga yfir gil eða á getur breytt miklu fyrir einhvern í erfiðri stöðu sem er að reyna að klára verkefni og með óvini á eftir sér eða búin með allar þær vistir sem hann var með. Þú getur síðan gefið þessum hlutum likes og kemur það upp hjá hinum sem eru að spila. 

Leikurinn er gullfallegur að horfa á, en meira ef þú ert með 4K sjónvarp með HDR tækni.

Leikurinn keyrir á Decima Engine grafíkvél Guerilla Games sem gerðu síðast hinn stórgóða Horizon Zero: Dawn. Fyrir vikið er leikurinn gullfallegur og eitt af því flottasta sem er í boði á PlayStation 4 í dag, hvað þá er þú ert með 4K sjónvarp með stuðning fyrir HDR litatæknina. Nákvæmnin sem hefur verið lögð í að skapa landslagið er rosaleg þó Íslendingar munu fljótt taka eftir að þetta minni talsvert meira á Ísland en Bandaríkin. Svartur sandur og hraun er útum allt ásamt mosa. Þegar leikurinn byrjar þá hélt ég hreinlega að ég væri að horfa á ljósmynd í stað tölvuleiks, það var það vel gert umhverfið að það var í fyrstu erfitt að sjá muninn. Með að nýtast við tæknina „Photogrammetry“ eru tölvuleikir, kvikmyndir yfir í fornleifafræði og arkitekúr að nýta sér tæknina til að líkja eftir umhverfinu og jafnvel persónum á nýja vegu en áður hefur verið hægt.

Ludvig Forssell sem áður hafði unnið með Kojima að MGS V, semur tónlistina fyrir Death Stranding og er hún mikil hluti af því að skapa stemninguna þegar farið er yfir eyðilagt landslagið. Einnig er tónlist eftir Khalid, Apocalyptica, flora cash og Low Roar sem Kojima heyrði einmitt fyrst á Íslandi að hans sögn. 

Það er hægt að kafa mjög djúpt í sögu Death Stranding og öll þau þemu sem Kojima vísar í, sem gæti orðið til þess að þessi gagnrýni gæti auðveldlega orðið mjög löng. Best að gefa ekki of mikið upp og leyfa fólki að upplifa sjálft. Það er nóg að segja að þetta snýst um samband fólks og hve mikilvægt annað fólk getur verið þér til að lifa af og það er í lagi að gefa af sér til annara. Dauðinn, hvað kemur eftir á, á hvaða stefnu mannkynið er á, erum við þess virði að bjarga? Mikilvægi fjölskyldu þeirra sem maður fæðist í eða þeirra sem maður skapar sér sjálfur. Allt er þetta hluti af þemum leiksins og er eitthvað til að pæla í á meðan gengið er um klettabelti leiksins eða á kafi í snjó og stormi að reyna að komast yfir fjallstind til að ná til næsta svæðið. Það er nægur tími til að hugsa um hlutina, inn á milli þegar leikurinn dettur ekki í langa kafla að myndbrotum sem fylla upp í söguna og heiminn.

Þegar líður á leikinn byrjarðu að sjá áhrif þess að vinna saman með öðrum.

Þetta er leikurinn sem getur tekið fólk frá 45-100+ tímum að klára og er nóg að finna í leiknum fyrir þá sem leggja í það. Það hefði þó að mínu mati verið hægt að segja þessa sögu í smærri leik og draga aðeins úr óþarfa smáverkefnunum sem höfðu lítið að segja. Lengra er ekki alltaf betra upp á upplifunina í leikjum. Þetta er eitthvað sem var eins í MGS V og er óskandi að hann slaki aðeins á í þessu.

Það er spurning að með næsta leik Hideo Kojima að hann fái einhvern með sér í lið til að slípa vissar hugmyndir hans og straumlínulaga vissa hluta þeirra.

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑