Bækur og blöð

Birt þann 17. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: The Talisman eftir Stephen King og Richard Straub

Eftir að hafa lesið og skrifað um 11/22/63 eftir Stephen King vaknaði upp sú þörf að lesa eina gamla klassíska Stephen King bók til að sjá hvernig hann hafði breyst í gegnum tíðina. Maðurinn hefur gengið í gegnum ýmislegt síðan hann skrifaði Carrie. Eins og rokkstjarna þá var hann langt leiddur af áfengis- og eiturlyfjanotkun og eins og rokkstjarna þá skrifaði hann einhver af sínum bestu verkum undir áhrifum. Hann náði að hætta í neyslu árið 1989 en lenti svo í bílslysi 1999 sem er eins og tekið beint úr einni af sögum hans. Bílstjórinn truflaðist af hundi í bílnum sem var eitthvað órólegur og keyrði aftan á Stephen King sem var á röltinu rétt við veginn. King flaug nokkra metra, þurfti ótal aðgerðir og á enn þann dag í dag erfitt með að sitja og skrifa í langan tíma í einu.

Að vísu svindla ég smá því að The Talisman telst ekki beint til hins klassíska Stephen King; þeim hópi tilheyra bækur eins og The Shining, Dead Zone, Carrie, Salem’s Lot, The Stand, It o.s.frv. En hún uppfyllir allavega þau skilyrði að hún er skrifuð þegar Stephen King var enn undir áhrifum, ef við orðum það þannig, þ.e.a.s. árið 1984.

The Talisman hreif mig mikið sem unglingur og ég hef alltaf litið á hana sem eina af mínum uppáhaldsbókum. Það skondna er að áður en ég las hana aftur núna, u.þ.b. aldarfjórðungi seinna, hefði ég ekki getað sagt frá ákveðnum atburðum í bókinni og reyndar mundi ég ekki hvernig hún endaði. Það sem situr eftir, og ástæðan fyrir því að ég hef alltaf talið hana eina af mínum uppáhaldsbókum, eru tilfinningarnar og áhrifin sem hún hafði á mig sem ungling. Ég man að ég hugsaði „Vá, þetta er besta bók sem ég hef lesið“ og sú tilfinning entist lengur en minnið. Þá er það spurningin; stenst The Talisman ennþá væntingar mínar til góðrar bókar, er ég orðinn of kröfuharður eða hef ég einfaldlega tapað barninu í mér?

The Talisman er skrifuð af Stephen King og Richard Straub en hver sem hefur lesið mikið af Stephen King finnur að þetta er barnið hans. Öll einkenni Stephen King eru til staðar s.s. ritstíllinn, lýsingarnar, barátta góðs og ills eins og bara hann getur lýst, talsmátinn o.s.frv. The Talisman er ekki beint hryllingssaga heldur nútíma ævintýri með hryllingsívafi; einhvers konar Ævintýri Stikilsberja-Finns ef Mark Twain hefði verið á slæmu sýrutrippi (The Adventures of Huckleberry Finn – The Nightmare Edition). Þessi samanburður er ekki úr lausu lofti gripinn því að aðalsöguhetjan ber sama eftirnafn og Tom Sawyer (Stikilsberja-Finnur). Það er ekki verið að fela áhrifavaldana og bókin er óður til klassískra bókmennta eins og rita Mark Twain og augljós áhrif eru frá Mýs og Menn eftir Steinbeck. Einn atburðurinn í bókinni er nánast afritun á þekktu atriði í Mýs og Menn (nei, ekki endirinn). Að hluta til er þetta kveikjan að Dark Tower seríunni og þarna sáir Stephen King litlum fræjum sem seinna verða stór þemu í þeim bókum.

Hetjan okkar, Jack Sawyer er tólf ára strákur. Hann er mjög þroskaður miðað við aldur, gáfaður og skynsamur. Faðir hans er dáinn og mamma hans er fyrrum fræg leikkona sem má muna fífil sinn fegurri (og teljið nú „f“-in). Mæðginin ferðast úr stórborginni á hótel í afskekktu byggðarlagi þar sem mamma Jacks vill fá að hvílast um sinn. Hún er líka að reyna forðast mann að nafni Morgan Sloat (sem á eftir að spila stórt hlutverk í bókinni þó að þau geri sér ekki grein fyrir því á þessum tímapunkti). Hvíldarþörfin er ekki að ástæðulausu og Jack gerir sér grein fyrir því að móðir hans er hægt og rólega að deyja.

Fljótlega hittir Jack mann að nafni Speedy Parker og þeir verða góðir vinir. Hann sannfærir Jack um að hann geti bjargað móður sinni en til þess þarf hann að ferðast til hliðstæðs heims. Okkar heimur og hinn hafa áhrif hvor á annan og aðeins örfáir gera sér grein fyrir því. Jack þarf að ferðast langar leiðir  til að ná í þennan „Talisman“ eða töfragrip, sem bókin er nefnd eftir.  Í hinum heiminum er Jack sá eini sem getur notað þennan töfrahlut því hann á engan tvífara þar ólíkt öllum öðrum.

Meginefni bókarinnar er ferðalag Jacks þvert yfir Bandaríkin í átt að töfragripnum til að lækna móður sína (og tvífara hennar sem er drottningin í galdraheiminum) og hann þarf að ákveða í hvorum heiminum hann ferðast hverju sinni.

Meginefni bókarinnar er ferðalag Jacks þvert yfir Bandaríkin í átt að töfragripnum til að lækna móður sína (og tvífara hennar sem er drottningin í galdraheiminum) og hann þarf að ákveða í hvorum heiminum hann ferðast hverju sinni. Hann lendir í miklum hrakningum á leiðinni en eignast líka góða vini sem hjálpa honum. The Talisman er sannkallað ævintýri af gamla skólanum; hetjan okkar er hrein í hjarta, hugrökk og gerir alltaf það rétta meðan þeir vondu eru ekki bara vondir heldur sadistar og morðingjar eða gætu alla vegna vel hugsað sér það. Allur heimurinn virðist vera á móti hetjunni okkar, ókunnugt fólk vílar ekki fyrir sér að hrinda honum í götuna og ganga hlæjandi í burt að því virðist að tilefnislausu, og það virðist vera óvenju mikið af öfuguggum sem líta girndaraugum til myndarlegs tólf ára stráks sem þarf að húkka sér far. Okkar veröld í bókinni slagar upp í hinn hættulega hliðstæða galdraheim þar sem skrímsli ganga um. Ósjaldan kemur upp orðatiltækið „úr öskunni í eldinn“ þegar Jack þarf að ferðast á milli heima. The Talisman gerist að mestu leyti í okkar heimi, eða nokkurs konar ævintýraútgáfu af okkar heimi. Það hefði verið gaman að kynnast hinum staðnum betur, sem kallast „The Territories“ í bókinni, en það sem við lesum um hann kveikir í  ímyndunaraflinu þannig að tilganginum er náð.

Oft hefur sú tilhneiging Kings að hafa allt svona svart og hvítt farið í taugarnar á mér. En í The Talisman gengur þetta upp; þetta er saga í Dickens stíl og hið góða þarf að berjast, halda í vonina og fórna miklu til að ná takmarkinu. King er meistari í því að halda lesandanum við efnið en bókin byrjar rólega og það eru einstaka hægir kaflar. Eigum við ekki bara að kenna Straub um það? En í alvöru talað þá er ekki vitað hver skrifaði hvað en eins og áður sagði ber bókin með sér sterk áhrif Kings. Þolinmæði lesandans er verðlaunuð með frábærum endaspretti og þetta minnti mig á það að Stephen King nær yfirleitt að enda bækur nokkuð vel.

Bókin er löng, eða tæpar 800 síður, eins og oft er von og vísa okkar manns. Persónulega finnst mér þessi bók vanmetin og ekki eins þekkt og hún ætti að vera. Lesendur sem hafa ekki gaman af King þegar hann er algerlega í hryllingnum, en eru annars sáttir, ættu að vera ánægðir með þessa. Hún er frekar í stíl við The Green Mile, stuttsögurnar Stand by Me eða Shawshank Redemption. En það er samt nokkuð um óhugnarlega atburði og maður spyr sig stundum að því að ef að Stephen King hefði minnkað hryllinginn og súrrealísku aðstæðurnar, væri hann þá virtari rithöfundur. Hefði The Talisman eða samsvarandi bók frá honum þá orðið eins umtöluð og t.d. The Road eftir Cormac McCarthy? Ég spái bara í þessu því að Stephen King nær að gera mjög eftirminnilegar persónur og hann er með stórkostlega skáldskapargáfu. Ekki það að ég elski ekki hryllingssagnahöfundinn Stephen King því ég geri það. Þó að ég þurfi að þola sumar tiktúrur hans þá er það nær alltaf þess virði.

The Talisman er góð skemmtun og þess virði að grípa í ef tækifæri gefst. Ég stefni á að lesa fleiri gamlar Stephen King bækur og mun skrifa nokkur orð um þær hér á Nörd Norðursins þegar það gerist.

 

Höfundur er  Steinar Logi Sigurðsson (goodreads.com: snugget),
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑