Gagnrýni

Birt þann 21. nóvember, 2022 | Höfundur: Steinar Logi

NBA2K23 (PS5) – staðan í dag

NBA2K23 (PS5) – staðan í dag Steinar Logi

Samantekt: Jordan áskorun og nýjungar í MyTeam er það helsta í ár

3.5

Þokkalegur í ár


Einkunn lesenda: 2.5 (1 atkvæði)

Núna þegar það er komin reynsla á leikinn þá er gott að renna yfir hvernig hann stendur sig sem lifandi leikur ásamt því hvernig hann spilast. Það sem hefur stór áhrif á MyCareer og MyTeam eru nefnilega tímabilin (seasons) þar sem spilarar fá hin ýmsu markmið og verðlaun á sex vikna tímabili. Eftir hvert tímabil þá endurræsist allt sem maður hefur gert og nýtt tímabil tekur við eins og maður þekkir úr öðrum lifandi leikjum. Við erum núna á 2. tímabili.

MyCareer er notendavænni upplifun en í fyrri leikjum tímalega séð. Í NBA2K21 þá var fyrst komið með borg og það var leiðinlegt og tímafrekt að ferðast um borgina þá en núna er neðanjarðarlestir sem flytja þig fljótlega á milli staða og borgin er mun betur hönnuð. Það er búið að skera talsverða fitu af söguþræðinum, sama og síðasta ár, en hann er samt hræðilegur illa skrifaður og 2K virðist vilja hafa það þannig. Núna ertu leikmaður sem hefur sannað þig í háskólaboltanum og ferð beint í NBA en það hata þig allir því að liðið draftaði þig í stað spennandi háloftahetjunnar Shep Owen. Eins og áður þá geturðu byggt upp tónlistar-, tísku- og viðskiptaferil svo það eru alls konar verkefni t.d. daglegar tískuspurningar um sem dæmi hver framleiðir Birkin töskuna. Já, það er enn verið að troða öðru en körfubolta á okkar til að geta auglýst vörumerki. Til að krydda söguna þá lét ég skanna mitt gamla fés og það er ekkert fyndnara en að sjá gamlan hvítan kall segja frasa eins og “yo, this is a bit sus, fam” eða “let’s get this dub, bruh” hvað þá að vera spilandi í NBA.

Núna ertu leikmaður sem hefur sannað þig í háskólaboltanum og ferð beint í NBA en það hata þig allir

Fjölspilunarhlutinn er áfram nánast ekki aðgengilegur fyrir okkur sem borga ekki umfram pening til að bæta spilarann alla vegna í byrjun. Maður byrjar með rating 60 og þarf að vinna sig smátt og smátt upp. Það kostar alveg gífurlegan tíma og gjaldmiðil í ár að koma sér í 90 og margir hafa eðlilega kvartað yfir því. Sjálfur fór ég 81 eftir að hafa haft leikinn í um mánuð og spilað MyPlayer af og til en síðustu styrkleikastigin eru að sjálfsögðu mun dýrari. 2K eru með mismunandi gerðir fjölspilunar og eina vikuna þá voru þeir með gerð þar sem spilarar þurftu að vera undir 75 en því miður þá datt þetta út næstu viku. Þetta er eitthvað sem þyrfti að vera alltaf til að gera fjölspilun aðgengilegri fyrir okkur hin hvað varðar MyPlayer. Reyndar var mjög fyndið að reyna að fara í 3 á móti 3 með sitt 67 rating og sjá alla spilarana 85+ (sem höfðu farið pay-to-win leiðina) detta inn, hrista hausinn og fara strax. Semsagt maður nær ekki einu sinni að spila á Rec völlunum nema maður hafi eytt 100 dollurum (að sjálfsögðu fyrir utan verð sjálfs leiksins). Það er eitthvað verulega brenglað við það að ef maður vill njóta þess sem fjölspilun í MyCareer hefur upp á að bjóða þá þarf maður að borga 200$.

Það kostar alveg gífurlegan tíma og gjaldmiðil í ár að koma sér í 90

Það sem undirritaður hefur spilað langmest er MyTeam en það er leikjategund sem hefur fengið á sig slæmt orð vegna aukalegs peningsplokks. Það er áfram til staðar en það er vel hægt að spila hann án þess að eyða krónu og hafa gaman af, ólíkt fjölspilun MyCareer. Það er jafnvel hægt að fá marga af bestu spilurunum án þess að eyða krónu. Vandamálið er að 2K virðast halda að flestir hafi óendanlegan spilatíma, nánast á við streymara. Þess vegna byrjaði fyrsta tímabilið mjög illa, sem dæmi þá voru (og eru) vikulegir spilarar þar sem maður þarf að uppfylla eftirfarandi sigra:

35 Clutch Time Offline

35 Triple Treat Offline

25 Triple Threat Online

25 Cluch Time Online

15 Unlimited

Þetta tekur vel yfir 30 tíma fyrir einhvern með gott vinningshlutfall sem er óheyrilega mikið bara til að fá einn leikmann (sem er oft ekkert endilega góður). Þar að auki ef vikan rennur út og þig vantar bara einn leik til að sigra þá færðu ekkert. Það góða er að 2K virðist hafa verið að hlusta á margar kvartanir og hafa verið með mjög góða hrekkjavöku undanfarið ásamt svokölluðum “moments” leikmönnum sem hægt er að ná í mun auðveldar þannig að framtíðin lítur aðeins betur út.

Fyrsta tímabilið byrjaði illa en 2K hafa aðeins bætt aðgengi fyrir „casual“ spilara

Ein uppstillingin hjá undirrituðum

MyTeam er fjölbreyttari fyrir “offline” spilara, Clutch Time Offline er komið núna og er nokkuð skemmtileg viðbót með snöggum leikjum. Unlimited gefur bestu verðlaunin en leikirnir eru frekar langir eða um hálftími. Einnig þarf maður ekki lengur að hafa áhyggjur af samningskortum til að halda leikmönnum gangandi, núna spila þeir endalausa leiki (fyrir utan FA spjöld). Stóri hlutinn í MyTeam og það sem margt snýst um er svokallað Trophy Case. Hvert lið hefur sitt Trophy Case sem samanstendur af 15 hlutum sem maður fær sem verðlaun fyrir ýmsa hluti í leiknum. Ef þú nærð öllum 15 fyrir ákveðið lið þá færðu toppleikmann, einhvern sem var sögufrægur fyrir það lið t.d. Kyle Korver frá Atlanta, James Worthy frá LA og Jermaine O’Neal frá Indiana. Það gengur alveg þokkalega að safna upp ef maður er þolinmóður en það er miðjuhlutinn eða “central piece” sem er að sjálfsögðu mun sjaldgæfari en allir hinir. Til að ná í hann þarftu að “grinda” óþægilega mikið t.d. 250 offline TT leiki eða 100 offline Clutch Time leiki og þarna hagnast góðir online spilarar umfram okkur sem spila mest offline.

MyTeam er fjölbreyttari fyrir “offline” spilara og búið er að henda út samningspjöldum

En leikurinn er ekki bara MyCareer og MyTeam og það sem kallaðist áður MyGM eða MyLeague heitir núna MyNBA Eras og margir vilja meina að það sé það besta við leikinn, sérstaklega ef maður hefur gaman að stjórnunarleikjum í anda Football Manager. Þarna er hægt að velja á milli “The Magic vs Bird Era”, “The Jordan Era”, “The Kobe Era” og “The Modern Era”. Það er munur milli þeirra ekki bara sjónrænt heldur allt hvað varðar reglur o.fl. og greinilega mikið lagt í þetta. Getur maður endurskapað sigurgöngu Jordan og jafnvel gert Bulls að stærra stórveldi eða verða Denver Nuggets óvæntir meistarar?

Magic vs Bird tímabilið í MyNBA Eras

Þar sem númerið 23 er á leiknum þá hafa 2K ekki misst af tækifærinu til að heiðra Michael Jordan með 15 mismunandi áskorunum (einhverjir muna kannski eftir samskonar frá NBA2K11). Þetta er fínasta afþreying með einstaka verðlaunum sem nýtast á öðrum stöðum. Maður fær líka þetta gamla tímabil í að því að leikirnir líkja eftir sjónvarpsútsendingum þess tíma.

Jordan áskoranir

Spilunin breytist aðeins hvert ár og hún er áfram mjög góð og ýmislegt hefur verið lagað en aðalvandamálið er að núna þarf maður að læra að skjóta aftur. Þetta er eitthvað sem vefst fyrir mörgum og undirritaður er sjálfur enn að læra á. Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að þetta er ekki besti leikurinn fyrir “casual” spilara. Þeir hafa líka lagað ýmislegt sem var misnotað síðasta ár eins og það var hægt að verja skot mjög auðveldlega og hraðir bakverðir gátu endalaust hlaupið, núna hafa þeir og aðrir leikmenn ákveðið þol í hverri sókn sem klárast.

Helsta breytingin á spilun í ár er að læra skjóta

Þá er það spurningin hvort að núna sé þess virði að kaupa eða er þetta bara uppfærsla á mannskap. Ég var ekki viss í fyrstu en hann er aðeins að vinna á mér, það vantar alla vega ekki fjölbreytileika og hluti til að vinna að. En ef þú hefur kannski bara örfáa tíma á viku til að spila hann þá myndi ég ekki mæla með honum, hann virðist vera hannaður fyrir fólk sem hefur tíma. Nema þú sért ekki að snerta lifandi hluta leiksins heldur spila með félögum, prófa Jordan áskoranir o.s.frv. þá getur þetta alveg virkað. Fyrir okkur harðhausana þá er þetta áfram fínasta afþreyting. Leikurinn var spilaður á PS5 en það virðist vera meira lagt í þá útgáfu umfram PS4.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑